top of page

Fræðsluefni

Gróðursetningar og fleira

Varsla plantna sem bíða gróðursetningar

Mikill munur á afdrifum ungplantna eftir gróðursetningu á oftar en ekki rætur að rekja til þess, hvernig staðið var að verki við sjálfa gróðursetninguna. Einnig til þess hvernig plöntur eru meðhöndlaðar, á meðan þær bíða gróðursetningar. Auðvitað þurfa plöntur líka að vera í góðu ástandi frá framleiðandanum. Hér verður aðeins stiklað á stóru og nefnd nokkur atriði, sem nauðsynlegt er að höfð séu í huga við gróðursetningu, eigi árangur að verða viðunandi. Fyrst skal nefna nokkur atriði um meðhöndlun plantna, sem bíða gróðursetningar:

Af ýmsu þarf að huga meðan plöntur bíða gróðursetningar:

  1. Að þær séu vökvaðar hæfilega.

  2. Að þær fái hæfilega mikla næringu.

  3. Að þær séu á hepplegu undirlagi.

  4. Að þær fái næga birtu.

  5. Að fénaður komist ekki í plönturnar.

  1. Ein leið til að finna út hvort vökva þurfi plöntur er sú að kippa upp nokkrum plöntum, þreifa á rótartappanum og meta rakastig hans. Önnur leið er að vigta bakka og vökva, þegar hann hefur tapað ákveðnum hluta af heildarþyngd, eins og hún var, meðan plöntutapparnir voru mettaðar af raka. Fyrri aðferðin er einfaldari, en krefst þess, að menn hafi tilfinningu fyrir, því hvað sé hæfilega þurr rótartappi til að tímabært sé að vökva. Mikilvægt er að hafa hugfast, að plöntur skal vökva svo vel, þegar þær á annað borð eru vökvaðar, að ræktunarmoldin/rótartappinn verði mettaður af raka. Nauðsynlegt er að vökva oftar yst í bakkabreiðu en innar í henni, þar eð plöntur þorna miklu fyrr í jöðrunum. Í hlýju veðri með sólfari og vindi getur þurft að vökva daglega í útjaðri, þótt nóg sé að vökva annan eða þriðja hvern dag inni í breiðunni. Einhver kann að spyrja: Er ekki best að hafa vaðið fyrir neðan sig og vökva allt heila klabbið nógu oft og nógu mikið? Svarið er nei og aftur nei. Of tíð vökvun stóreykur hættu á sveppasýkingum. Því á ekki að vökva plöntur fyrr en tappinn er orðinn nokkuð þurr, þó ekki svo þurr að hann hrindi nánast frá sér vatni við vökvun. Auk þess er vert að hafa hugfast, að vatn skolar áburðarefnum skilvíslega niður úr rótartappanum, þannig að yfirdrifin vökvun stuðlar alla jafna einnig að næringarskorti. Rótin þarf auk þess súrefni. Sé rótartappinn jafnan mettaður af raka, deyr rótin vegna súrefnisskort

  2. Næringuna er best að færa plöntunum með því að dreifa yfir bakkabreiðuna, eins jafnt og kostur er, ríflegum túnskammti af tilbúnum áburði (t.d. blákorni). Hvers vegna ekki að nota uppleystan áburð? Hann skilar sér vissulega fyrr sem næring fyrir viðkomandi plöntu. Hins vegar er ekki  auðvelt að stjórna áburðargjöfinni utanhúss, sé notaður uppleystur áburður. Slíkur áburður skolast nefnilega rakleiðis út úr plöntutappanum í góðri rigningarskúr! Kornin geta hins vegar verið að gefa frá sér næringu fram eftir öllu sumri – en skemur ef mikið rignir. Ekki er hætta á að áburðurinn brenni hina grænu hluta plantnanna, sé þess gætt að plönturnar séu þurrar á ytra borði, þegar áburðinum er dreift. Þótt plöntur fari fljótlega út til gróðursetningar, hanga áburðarkornin á þeim og fylgja með við gróðursetningu. Með þessu móti verður frekari áburðargjöf óþörf, a.m.k. þegar gróðursett er í land, sem hefur verið handflekkjað. Öðru máli gegnir um land, sem er vélflekkjað. Í slíku landi er æskilegt að bera líka áburð í kringum plönturnar sem fyrst eftir gróðursetningu, svo þær fái sem best skilyrði til að dafna og rótfesta sig.

  1. Undirlag bakka, sem bíða gróðursetningar, þarf að vera gróft. Fínn sandur eða mold henta illa, því ræturnar vaxa rakleiðis niður í slíkt undirlag. Rætur, sem þannig haga sér, koma plöntunni að engu gagni eftir gróðursetningu, enda drepast þær áður en  plantan kemst í jörð! Best er að bakkarnir standi á möl – eða ennþá betra – á grindum þ.e.a.s. þannig að lofti undir þá. Undirlagið skiptir hins vegar litlu máli ef plöntur bíða gróðursetningar aðeins dagspart eða fáeina daga

  2. Ekki er ráðlegt að geyma plöntur í útihúsum eða undir laufþaki gamalla trjáa langt fram á vor. Plönturnar þurfa alla þá birtu, sem hægt er að bjóða þeim. Tveir sólarhringar í algjöru myrkri en við hitastig verulega yfir frostmarki, t.d. við flutning plantna, dregur úr þrótti þeirra. Líði lengri tími í myrkri og við tiltölulega hátt hitastig, fer þróttleysi að leiða til verulegra vandræða eftir gróðursetningu.

  3. Skepnur geta tínt plöntur uppúr bökkum og jafnvel étið toppa. Því þarf að geyma plöntur, þar sem skepnur ná ekki að næra sig á þeim eða hafa þær að leiksoppi.

Gróðursetningarbil

Allajafna er gert ráð fyrir, að gróðursett sé með 2 m millibili, með þeirri undantekningu, að í bletti, sem eingöngu er sett í stafafura, sé gróðursett nokkru þéttar – eða með ca. 1,5 m millibili.

Ræktunaráætlunin tilgreinir, hvaða tegundir skuli gróðursetja í hvern reit, í hvaða hlutföllum og hversu þétt. Þéttleikinn er tilgreindur sem fjöldi plantna á ha. Með því að deila 10.000 með heildarfjölda plantna (allra tegunda, sem setja skal í viðkomandi reit) fæst sá fermetrafjöldi sem hver planta hefur til umráða að meðaltali. Margfeldi lengdar og breiddar milli plantna skal þá vera fjórir.

Dæmi 1:

 Lagt er til að settar séu 1000 plöntur af ilmbjörk og 1500 plöntur af stafafuru á hvern ha. Alls eru þetta 2.500 plöntur. 10.000 (fermetrar) : 2.500 = 4   þ.e. hver planta fær til ráðstöfunar fjóra fermetra. Sé bilið milli raða 2m er því ljóst, að bilið milli plantna innan raðar skal vera: 2m  (4 : 2 = 2).

Dæmi 2: 

Alls fara 2.500 plöntur á ha. Eins og í fyrra dæminu hefur þá hver plantna til ráðstöfunar fjóra fermetra. Í þessu tilviki var plægt (eða flekkjað) með 2,5 metra millibili. Bil milli plantna innan raðar skal þá vera: 4 : 2,5 = 1,6 m.

Hvernig er tegundunum skipt í reitinn?

Ekki er nóg að vita, hversu margar plöntur eigi að vera af hverri tegund í viðkomandi reit. Við þurfum einnig að vita, með hvaða hætti tegundunum skuli skipað til sætis. Eigum við t.d. að setja eina tegund í hverja röð og hafa þannig 3 raðir af SG fyrir hverja eina af AÖ, ef meiningin er að hafa hlutföll þessara tveggja tegunda í reitnum 3 SG : 1 AÖ ?  Svarið er: Ekki nauðsynlega, og raunar helst ekki. Frá sjónarmiði ásýndar skógarins væri betra að skipa tegundunum niður með óreglulegum hætti og alls ekki eftir röðum.

Stundum er land mjög einsleit í öllum reitnum, t.d. í framræstum mýrum. Þá getur maður verið með stiklingaknippi með alaskaösp í poka við aðra mjöðmina, en bakka með sitkagreni við hina. Síðan myndi maður reyna að setja til skiptis ösp og greni í þeim hlutföllum, sem áætlunin gerir ráð fyrir.

Hitt er ekki síður algengt, að innan sama reits skiptist á misjafnlega frjósamt land eða misjafnlega þurrt land. Þessar einingar mynda smáa “undirreitir” líkt og óreglulegt mósaík, sem náttúran hefur með einhverjum hætti lagt grunn að. Við slíkar aðstæður er rétt að velja tegundunum stað eftir aðstæðum. Í ófrjótt land færi t.d. stafafura í rakari blettina en lerki í hina þurrari. Birki væri gjarnan sett, þar sem mest er áveðurs. Í frjósamara landið væri ösp sett meðfram lækjarsytrum, en greni annars staðar, kannski með “ísprengdri” blöndu af ösp (eða hengibjörk).

Þetta þarf með plöntunni: 

mikilvægt er að plantan sé ekki laus (í holu sinni) eftir gróðursetningu. Þetta er tryggt með því að holan er höfð aðeins dýpri en plöntutappinn. Tappanum er þrýst þéttingsfast ofan í holuna og jarðvegi ýtt með þumalfingri að og yfir rótartappann, svo hvergi sjáist í yfirborð hans. Þessar aðgerðir tryggja, að plantan þornar ekki eftir gróðursetningu í venjulegu gróðursetningarlandi. Sé notuð geispa þarf að þjappa vel að plöntunni með fætinum. Ekki er mikil hætta á að þjöppun verði of mikil, enda er tímafrekt að standa og þjappa margsinnis að plöntunni með hælnum. Þjöppun getur  fræðilega séð orðið of mikil, sem lýsir sér í súrefniskorti í jarðveginum umhverfis rótarkerfið. Ath: Svo kann að virðast að gróðursetningin verði svo tímafrek, ef farið er að öllum þessum grundvallarreglum, að fáar plöntur fari í jörð á degi hverjum. Hafa skal í huga að æfingin skapar meistarann. Þótt menn setji aðeins niður brot af þeim fjölda fyrsta daginn, sem vanur maður gerir, þá eykst hraðinn með tímanum – jafnvel þótt farið sé að öllum reglum. Á endanum ná menn nánast sömu gróðursetningarafköstum, hvort sem þeir gróðursetja vel eða illa. Hins vegar getur verið gífurlegur munur á afföllum milli manna. Því skipta vönduð vinnbrögð sköpum um framhaldið.

Staðarval: 

 

Mikilvægt er að velja plöntunni stað nærri einhvers konar lágskjóli. Það getur t.d. verið þúfa, steinn eða plógsstrengur. Reynt er að setja plöntuna í skjól fyrir þeirri vindátt, sem verst er á svæðinu. Þurfa gróðursetningarmenn við upphaf verks að vita, hvaða vindátt sé líklegust til að verða trjáplöntum skeinuhætt. Alls ekki má planta, þar sem flag er eða melur frá náttúrunnar hendi. Slíkir blettir eru gróðurlausir vegna mikillar frostlyftingar. Lendi planta á slíkum bletti, mun hún vísast lyftast með holklaka og liggja laus ofan á jörðinni næsta vor! Hins vegar má gjarnan planta við jaðar slíkra bletta. Forðast ber að gróðursetja þétt uppvið snarrótarþúfu sem og í fjalldrapahrís. Slíkir staðir bera dauðann í sér!  Í þýfðu landi má alls ekki gróðursetja ofan á þúfur, heldur í hliðar þeirra eða á milli þúfna.

Gróðursetningardýpi: 

 

Plöntur á að setja dýpra en nemur plöntutappanum. Flestar tegundir geta sett nýjar rætur frá stofninum ofan við rótarhálsinn, lendi nokkrir neðstu cm stofnsins ofan í mold. Þetta á einkum við um aspir og víði en einnig gætir þessa hjá greni og lerki. Helst myndu stafafura og birki fúlsa við því að lenda of djúpt, en þumlungur af stofni plantna þessara tegunda má þó lenda ofaní mold.

Gróðursetningarbil: 

 

Flestum hættir til að minnka bil milli plantna, þegar frá líður. Því er nauðsynlegt að mæla út öðru hvoru, hvaða bil maður hefur verið að nota og í framhaldinu að leiðrétta bilið á grundvelli þeirrrar mælingar til samræmis við það sem fyrir er lagt í áætlun. Heilladrjúgt er að hafa hugfast, að svæðið verður á endanum að skógi, hvort sem gróðursett er með 1 m eða 2 m millibili. Hins vegar þarf fjórfalt fleiri plöntur á ha, ef sett er með eins meters bili. Þetta þýðir að hægt er að rækta fjórfalt meiri skóg fyrir sama pening, sé sett með tveggja metra bili en sé aðeins sett með eins metra bili. Vart þarf að fjölyrða um, hve miklu dýrara er að rækta upp skóg með þéttri gróðursetningu. Ekki aðeins vex kostnaðurinn í nær réttu hlutfalli við fjölda plantna á ha, heldur kostar grisjun miklu meira, sé gróðursett of þétt. Vissulega má segja að sé gróðursett þétt megi velja úr bestu líftrén og láta hin gossa við grisjun. Eftir standi þá í lokin betri skógur en ella. Þetta er að sínu leytinu rétt. Hins vegar á þessháttar hugsun ekki rétt á sér í okkar víðlenda, skóglausa landi. Þar sem tré í fyrstu kynslóð verða flest á endanum fyrir því, einu sinni eða oftar um æfiskeið sitt, að toppur brotni í stórviðri með tilheyrandi galla á stofni til allrar framtíðar. Meiru skiptir að koma nú skógi í sem víðastar lendur. Við ræktun annarrar kynslóðar skógar geta gæðasjónarmiðin komið sterkar inn. Þetta sjónarmið skiptir aukin heldur enn meira máli, þegar kolefnisbinding er að verða eitt hinna mikilvægustu hlutverka uppvaxandi skóga.

Gróðursetningartími: 

 

Besti gróðursetningartíminn er annaðhvort strax og holklaki er úr jörð að vorinu (sé hægt að koma plöntum á staðinn, kemur jafnvel til greina að gróðursetja, áður en klaki er alveg horfinn) – eða á haustin. Þó svo að Vesturlandsskógar gefi kost á, að vorgróðursetning haldi áfram út júnímánuð, er ótvírætt best að geta lokið henni í fyrri hluta þess mánaðar. Annar tími, sem hentar ekki síður er haustið. Þá er átt við tímabilið frá miðjum ágústmánuði og jafnvel út októbermánuð, ef frost er ekki hlaupið í jörð fyrr. Þótt ekki sé á það að treysta, hefur m.a.s. komið fyrir, að hægt hafi verið að gróðursetja í nóvember og jafnvel í desember. Hefur árangur verið góður af gróðursetningu á þeim tíma, svo framarlega sem gróðursett er í handflekkjað land eða land sem ekki þarf að flekkja. Því má svo sannarlega segja að á haustinu gefist rýmri tími til gróðursetningar. Vesturlandsskógar eru þess eindregið hvetjandi, að menn auki haustgróðursetningu. Þó ber að hafa í huga, að sé gróðursett í unnið land, t.d. vélflekkjað eða plægt, er talið að hættan á frostlyftingu sé að öðru jöfnu meiri eftir haustgróðursetningu en vorgróðursetningu. Þetta gætu menn þó fyrirbyggt t.d. með því að sá lítilsháttar af rýgresi eða höfrum, ásamt fáeinum áburðarkornum, í þá bletti sem ætlunin er að gróðursetja í að hausti. Mjög grasgefið land ætti þó fortakslaust að vinna að hausti og gróðursetja í sem fyrst vorið eftir og bera þá á tilbúinn áburð umhverfis plöntuna strax eftir gróðursetningu. Ástæðan: Í slíku landi grær grasið að og yfir plönturnar á fáum árum, svo þar skiptir sköpum að plönturnar fái sem best forskot.

Við haustgróðursetningu ber að öllu jöfnu að nota plöntur, sem búið er að skyggja síðsumars og ætlaðar eru sérstaklega til haustgróðursetningar eða myndu að öðrum kosti eiga að gróðursetjast vorið eftir. Plöntur af lerki og stafafuru, sem ekki næst að gróðursetja að vorinu, verða ónothæfar til haustgróðursetningar. Verður því að fleygja þeim, sem ekki næst að gróðursetja að vori, hafi þeim verið ætlað að komast í jörð þá. Öðru máli gegnir um grenið. Greniplöntur, sem ekki komast í jörð að vori, má gróðursetja að hausti – að því tilskyldu, að rótarkerfið hafi ekki vaxið ótæpilega niður í undirlagið.

Plöntudreifing

Vesturlandsskógar hafa komið sér upp dreifingarstöðvum, svo enginn þurfi að sækja plöntur mjög langan veg. Er þá ekki síst horft til þess, að á dreifingarstöðvunum fái plönturnar bestu hugsanlega umönnun. Liðið geta þónokkrar vikur frá því að framleiðandi afhendir plöntur, þar til skógarbóndi getur gróðursett þær. Því er ætlunin að bændur taki ekki á dreifingarstöð nema tveggja daga skammt af plöntum í hverri ferð, nema þeir hafi þeim mun betri aðstöðu (og þekkingu) til að annast plönturnar á heimaslóð. Vesturlandsskógar eiga yfirbyggðar plöntuflutningakerrur, eina fyrir hverja dreifingarstöð. Þær geta menn fengið lánaðar, enda mikilvægt, að plöntur séu fluttar í lokuðum kerrum. Alls ekki má flytja plöntur í opinni kerru dreginni af fólksbíl (eða jeppa) á venjulegum ökuhraða. Sé slíkt gert, lenda plönturnar í hinu versta veðri á leiðinni (bíll, sem ekur á 60 km hraða á klst. ekur með 17 m hraða á sekúndu og verður vindstyrkurinn sá hinn sami, ef logn er úti, en sé t.d. mótvindur sem nemur 10 m á sekúndu, verður vindstyrkurinn 27 m á sekúndu!) með tilheyrandi skertum vaxtarþrótti.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Tilgangur Ein heild er að vekja athygli á lesblindu og áhrifum hennar á einstaklinga í skóla og samfélaginu.  Markmiðið er að fólk í okkar samfélagi sé meira meðvitað um lesblindu og hvað er hægt að gera fyrir þá og með þeim, heima fyrir sem og í skólum.

 

SAMFÉLAGSMIÐLAR

Taktu þátt í umræðunni

 

 

bottom of page