top of page

Úrskurður vegna girðingaviðhalds

Meðfylgjandi er úrskurður umhverfis og auðlindaráðuneytinu þar sem kemur skýrlega fram að viðhald girðinga er samþykktur kostnaður í samningi, lögum og reglugerð. Samþykki skógrætarinnar er því alls ekki þarft á liðum sem þegar liggur fyrir að eru samþykktir. Þetta má glöggt lesa úr samningum skógarbænda.





Reykjavík 20. september 2021 Tilv.: UMH21060004/0.7

Þann 20. september 2021 var í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi


Úrskurður:

Ráðuneytinu barst þann 1. júní 2021 stjórnsýslukæra frá Rósalindu Guðmundsdóttur f.h. Guðmundar Aðalsteinssonar, þar sem kærð er sú ákvörðun skógræktarstjóra fyrir hönd Skógræktarinnar að synja kæranda um greiðslu á viðhaldskostnaði skógræktargirðinga um samningssvæði kæranda skv. samningum um þátttöku hans í landshlutaverkefnum í skógrækt. Kærumheimild er í 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1


I. Málavextir.

Í kærunni eru málsatvik rakin á þá leið að kærandi hefur ræktað skóg á lögbýlinu Brekkuseli og í því skyni gert þrjá samninga um þátttöku sína í landshlutaverkefni í skógrækt, sbr. fylgigögn með kæru.


Í samningum kæranda kemur fram að Héraðs- og Austurlandsskógar skuli hafa eftirlit með að allar framkvæmdir séu unnar samkvæmt 4. gr. þágildandi laga nr. 95/2006 um skógrækt á lögbýlum (áður lög um landshlutaáætlun í skógrækt).


Fram kemur í 4. gr. þeirra að Skógræktin (áður Héraðs- og Austurlandsskógar) greiði allt að 97% af kostnaði við fyrirfram samþykktar framkvæmdir í samræmi við skógræktaráætlun á lögbýlinu. Í sömu grein er sérstaklega tilgreint hvaða framkvæmdir teljist til kostnaðar samkvæmt samningnum. Í a. lið 4. gr. kemur fram að friðun og varsla skógræktarlands sé einn af þeim framkvæmdaliðum sem teljist til kostnaðar samningsins.


Í kærunni og fylgigögnum með henni kemur fram það álit kæranda að viðhalds og úrbóta sé þörf á girðingum um samningssvæði Brekkusels til að uppfylla samningsskyldu um vörn skógræktarlands, einkum að því er varðar vörn gegn ágangi sauðfjár.


Kærandi hafi samkvæmt gögnum málsins skorað á skógræktarstjóra að standa við samningsskyldur að þessu leyti varðandi girðingar kæranda á lögbýlinu en að þessari málaleitan kærandahafi verið hafnað og er í því sambandi vísað til tölvubréfs sviðstjóra skógarþjónustu Skógræktarinnar, á fylgiskjali nr. 4 með kærunni.


Í framhaldi af því að kæran barst ráðuneytinu var með bréfi dags. 8. júní 2021 óskað eftir umsögn Skógræktarinnar um efni hennar. Umsögn barst ráðuneytinu hinn 23. júní sl.


Sama dag var kæranda með bréfi ráðuneytis boðið að koma að athugasemdum eða öðrum upplýsingum um umsögn Skógræktarinnar. Viðbótarumsögn kæranda barst ráðuneytinu hinn 6. júlí sl.


Varðandi frekari lýsingu á málsatvikum er vísað til kærunnar og fylgigagna með henni.



II. Kröfur og málsástæður kæranda og umsögn um kæru.

Í framlagðri kæru kemur fram að kærandi telji að varsla skógar hvíli á Skógræktinni samkvæmt samningunum. Það sé ekki á valdi Skógræktarinnar upp á sitt eindæmi að ákveða breytingar á fyrirliggjandi samningum án samráðs eða fyrirsjáanleika, sbr. m.a. 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.


Umræddir samningar séu formákveðnir samningar settir eftir reglugerð, með stoð í 6. gr. þágildandi laga um landshlutaverkefni í skógrækt nr. 95/2006. Kærandi telur að Skógræktin líti svo á að hún hafi sjálfdæmi um að samþykkja eða samþykkja ekki kostnað skv. verkefninu þar sem ákvæði laga og reglna mæla fyrir um "samþykktan kostnað". Það sé ekki á valdssviði Skógræktarinnar að mati kæranda að samþykkja kostnað sem fellur undir einstaka framkvæmdaþætti samningsins. Ákvarðanir Skógræktarinnar að þessu leyti takmarkist við það vald sem Skógræktinni er veitt að lögum og getur hún ekki tekið íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir sem þessa án þess að hafa til þess skýra heimild að lögum.


Í kærunni er bent á að samkvæmt 1. mgr. 11. gr. girðingarlaga, nr. 135/2001, sé sérstaklega kveðið á um viðhaldsskyldu. Í 8. gr. laganna segi að sömu reglur gildi um greiðslu viðhalds eftir því sem við á um girðingar sem lagðar eru að hluta eða öllu leyti fyrir ríkisfé. Að mati kæranda sé ljóst að girðingar um skógræktarsvæði sem bundin séu samningum eins og hjá kæranda séu sannarlega lagðar fyrir ríkisfé enda telst kostnaður vegna þeirra hluti af kostnaði við stofnun skóglendis.


Farið er fram á að umhverfis- og auðlindaráðuneytið taki efnislega til úrskurðar hina kærðu synjun Skógræktarinnar.


Auk framangreinds fer kærandi fram á að ráðuneytið úrskurði um endurgreiðslu þess kostnaðar sem kærandi hefur haft af máli þessu enda sé sá kostnaður hluti af þeim kostnaði sem hann hefur haft af girðingum. Umrædda kröfu sína byggir kærandi á sakarreglu skaðabótaréttar sem og 10. gr. samnings milli sín og Skógræktarinnar. Kostnaður kæranda vegna málsins telst að hans mati vera um 775 þús. kr. fyrir 31 klst. vinnu.


Afstaða Skógræktarinnar til kærunnar er sú að stofnunin vinni eftir lögum nr. 33/2019, um skóga og skógrækt, sbr. lög nr. 95/2006, um skógrækt á lögbýlum. Hún vinni einnig í samræmi við reglugerð nr. 285/2015 um skógrækt á lögbýlum þótt sú reglugerð hafi verið sett á grundvelli laga nr. 95/2006 og ekki verið endurskoðuð eftir að nýju lögin tóku gildi.


Skógræktin telur að 11. gr. laga nr. 33/2019, heimili henni að greiða allt að 97% af samþykktum kostnaði við

skógræktina en það sé hins vegar ekki skylda. Þrátt fyrir þessa heimild til greiðslu þá geti reynst nauðsynlegt að færa það hlutfall niður á einstökum efnisliðum ef sýnt þykir að fjárheimildir dugi ekki til.


Eigandi Brekkusels hafi fengið styrk til að friða jörðina á sínum tíma og að það sé eigandinn sem standi fyrir skógrækt á jörðinni en ekki Skógræktin. Skógræktin eigi hvorki né lagði girðingu í landi Brekkusels og því hvíli hvorki greiðslu- né viðhaldsskylda vegna girðinganna á Skógræktinni. Viðhald girðinga sé ekki kostnaður sem Skógræktinni ber að greiða heldur beri henni einungis að greiða stofnkostnað girðinga.


Skógræktin telur að sú venja að greiða fasta upphæð fyrir viðhald girðinga komi frá fyrri stjórnum landshlutaverkefnanna, en venjan eigi sér hins vegar hvorki stoð í lögum né samningum.


Afstaða Skógræktarinnar er sú að hún muni ekki styðja skógræktarbændur til að annast viðhald girðinga á þessu ári og að þeir fjármunir sem Skógræktin muni veita til girðinga verði í formi stofnframlaga við uppsetningu nýrra girðinga á nýjum samningssvæðum skógarbænda.


III. Forsendur ráðuneytisins.

Í máli þessu er kærð sú ákvörðun Skógræktarinnar að hafna því að greiða viðhaldskostnað girðinga um skógræktarsvæði kæranda samkvæmt þeim þremur samningum sem gerðir hafa verið um þátttöku í landshlutaverkefni um skógrækt og vísað er til í fylgigögnum í máli þessu.


Í kærunni er þess krafist að umhverfis- og auðlindaráðuneytið taki efnislega til úrskurðar hina kærðu ákvörðun Skógræktarinnar um að synja greiðslu á viðhaldskostnaði girðinga um skógræktarsvæði kæranda og felli hana úr gildi eða breyti henni.


Fyrir liggur lögmætt umboð, dags. 17. maí 2021, til handa Rósalindu Guðmundsdóttur til reksturs máls þessa fyrir hönd Guðmundar Aðalsteinssonar, eiganda lögbýlisins Brekkusels og samningsaðila þeirra þriggja samninga sem gerðir hafa verið um þátttöku í landshlutaverkefni í skógrækt.


Almenna kæruheimild vegna máls þessa til æðra stjórnvalds til að fella hana úr gildi eða fá henni breytt er að finna í 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sem gilda þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldur manna, hvort sem er einstaklinga eða lögaðila.


Gildandi lög nr. 33/2019 og lög nr. 95/2006 eiga sér talsvert langa forsögu að því er varðar landshlutaverkefni í skógrækt. Lög nr. 95/2006 leystu af hólmi lög um sama efni nr. 56/1999. Þau byggðu hins vegar að stórum hluta á ákvæðum um þetta efni í lögum um Héraðsskóga nr. 32/1991 og lögum um Suðurlandsskóga nr. 93/1997.


Eins og fram kemur í kærunni eru samningar þeir sem mál þetta snýst um gerðir með stoð í lögum nr. 95/2006 um skógrækt á lögbýlum (áður lög um landshlutaverkefni í skógrækt). Í 6. gr. laganna er kveðið á um að gera skuli samninga um þátttöku í skógræktarverkefnum við hvern skógarbónda sem fær framlög samkvæmt lögunum.


Fram kemur að slíkur samningur skuli taka mið af gildandi landshlutaáætlun hverju sinni, sbr. 4. gr. laganna. Í 2. mgr. 11. gr. er kveðið á um að ráðherra setji með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna.


Í 4. gr. meðfylgjandi þriggja samninga um þátttöku kæranda í landshlutaverkefni í skógrækt, sem gerðir voru milli kæranda í máli þessu og Skógræktarinnar (áður Héraðs- og Austurlandsskóga) er að finna þá forsendu sem liggur að baki kærunni. Í umræddu samningsákvæði kemur fram að samningsaðili greiði allt að 97% af kostnaði við fyrirfram samþykktar framkvæmdir í samræmi við skógræktaráætlun á lögbýlinu. Í samningsákvæðinu kemur fram að til kostnaðar teljist m.a. varsla skógræktarlands, sbr. a. lið umræddrar greinar.


Umrætt ákvæði 4. gr. samningsins byggir á 9. gr. laga nr. 95/2006, um skógrækt á lögbýlum, þar sem kveðið er á um allt að 97% greiðsluþátttöku ríkisins í samþykktum kostnaði við skógrækt vegna landshlutaverkefna sem fjallað er um í lögunum. Lögin leystu af hólmi lög nr. 56/1999 um landshlutabundin skógræktarverkefni. Í 5. gr. þeirra laga var ekki kveðið á um tiltekið lögákveðið greiðsluhlutfall eins og í 9. gr. laga nr. 95/2006, heldur var mælt fyrir um að landshlutaverkefnin greiddu þann hluta af samþykktum kostnaði við skógrækt sem mælt yrði fyrir um í reglugerð settri af ráðherra. Í athugasemdum við umrædda grein kemur fram að þátttaka ríkisins byggist annars vegar á því að ákveða ætti fyrir fram hvaða kostnaður teldist samþykktur að þessu leyti og hins vegar ákvörðun um hlutfallslega greiðslu ríkisins af samþykkum kostnaði.


Reglugerð nr. 285/2015 um landshlutaverkefni í skógrækt var sett með stoð í lögum nr. 95/2006. Í 6. gr. reglugerðarinnar kemur fram að samningar landshlutaverkefna í skógrækt við þátttakendur skuli vera í samræmi við form í viðauka hennar. Þótt reglugerð þessi hafi ekki verið sett fyrr en nokkru eftir gerð umrædda samninga er ljóst að verkferlar og samningsform sem reglugerðin mælir fyrir um er að mestu byggð á verkferlum og samningsformi sem verið hefur við lýði um talsvert skeið.


Af efni reglugerðarinnar má ráða hvað stjórnvöld hafa talið vera samþykktur kostnaður samningsaðila við landshlutaverkefni í skógrækt. Í 8. gr. hennar er meðal annars að finna upptalningu á þeim verkþáttum sem taldir eru nauðsynlegir til að ná markmiðum laganna. Í greininni kemur skýrt fram að kostnaður vegna umræddra verkþátta teljist til samþykkts kostnaðar við skógrækt samkvæmt reglugerðinni. Í a. lið 1. mgr. 8. gr. kemur jafnframt fram að friðun og varsla skógræktarlands teljist einn af slíkum verkþáttum á meðan þess er þörf að mati landshlutaverkefnis.


Þegar litið er til forsögu laga nr. 95/2006, sbr. einnig laga nr. 56/1999, auk þeirra laga sem áður giltu um þetta efni er að mati ráðuneytisins ljóst að litið hefur verið svo á að nauðsynlegur kostnaður vegna friðunar og vörslu skógræktarlands er hluti af þeim kostnaði sem telst vera samþykkur kostnaður vegna landshlutaverkefna í skógrækt. Að mati ráðuneytisins er því ljóst að kostnaður vegna þessa verkþáttar teljist því samþykktur kostnaður samkvæmt samningum við kæranda í máli þessu.


Jafnframt er ljóst af umræddri forsögu laganna og lögskýringargögnum að samþykktur kostnaður í skilningi laganna og reglugerðarinnar telst ekki einungis stofnkostnaður einstakra verkþátta heldur fellur einnig undir samþykktan kostnað samningsaðila tilteknir viðvarandi verþættir sem nauðsynlegir teljast til að markmiði og tilgangi verkefnisins verði náð.


Þennan skilning má meðal annars lesa úr athugasemdum við frumvarp til laga um landshlutaverkefni í skógrækt nr. 95/2006 sem voru í gildi þegar umræddir samningar voru gerðir. Í athugasemdum við 7. gr. frumvarpsins um uppgjör samninga og endurgreiðslur framlaga er sérstaklega fjallað um hugsanlegar endurgreiðslur skógarbónda við uppsögn samnings og þær fyrningarreglur sem miða skal við í tengslum við það. Í greininni er t.a.m. tiltekið sérstakt dæmi um útreikning á endurgreiðslum skógarbónda sem vill losna undan samningi. Þar segir m.a.: „Auk þessa hefur hann fengið framlög til friðunar lands (girðingarviðhalds) öll árin og endurgreiðir hann 10% af því sem hann hefur fengið undanfarin 10 ár samkvæmt fyrningarreglunni, uppfært með neysluvísitölu.“


Í frumvarpi því er varð að lögum um Suðurlandsskóga, nr. 93/1997, kemur einnig berlega fram í fylgiskjali nr. II sem eru drög að samningi um fjölnytjaskógrækt, að til samþykkts kostnaðar vegna ræktunar teljist meðal annars viðhald stofngirðinga.


Í samræmi við tilgang laganna, forsögu þeirra laga sem fjallað hafa um landshlutaverkefni í skógrækt, gildandi reglugerðar um landshlutaverkefni í skógrækt, auk skýrra ákvæða í þeim samningum sem gerðir voru við kæranda í máli þessu, telur ráðuneytið ljóst að friðun og varsla skógræktarlands, á meðan þess er þörf, er hluti af samningsskuldbindingum samningsaðila skv. 4. gr. umræddra samninga. Undir samþykktan kostnað samkvæmt samningum við kæranda geti því fallið tilteknir verkþættir sem meðal annars snúa að viðhaldi girðinga til varnar ágangi búfjár, enda sé slíkt viðhald metið nauðsynlegt til að ná markmiðum um friðun og vörslu skógræktarlandsins í samræmi við fyrirmæli í samningum.


Í ljósi framangreinds er ekki hægt að fallast á það sjónarmið Skógræktarinnar að viðhald girðinga hafi einungis verið greitt til aðila samninga vegna venju sem myndast hafi á árum áður án þess að fyrir því hafi verið nægileg stoð í lögum. Ljóst er af forsögu þessara verkefna og lögskýringargögnum að vilji löggjafans var að slíkt viðhald yrði hluti af samþykktum kostnaði á meðan þess væri þörf til að ná markmiðum samninganna.


Eins og fram hefur komið hafnaði Skógræktin alfarið greiðslu þessa samningsþáttar, að sinni að minnsta kosti, meðal annars á þeim grundvelli að stofnunin hafi skv. 4. mgr. 11. gr. laga nr. 33/2019, sbr. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2006, heimild til að greiða allt að 97% af samþykktum kostnaði vegna verkþátta við skógrækt auk þess sem vísað var til fyrirliggjandi fjárheimilda til málaflokksins í heild og forgangsröðun verkefna. Í samræmi við þá meginreglu íslensks réttar að samninga beri að efna eins og kostur er í samræmi við efni og tilgang þeirra verður að telja að efndir fyrirliggjandi samninga hljóti að hafa forgang umfram nýja samninga eða nýjar áherslur á þessu sviði sé fjármagn ekki nægjanlegt að mati stofnunarinnar. Skógræktinni var því að mati ráðuneytisins ekki heimilt að hafna alfarið þátttöku í greiðslu á þessum þætti verkefnisins án efnislegrar umfjöllunar og frekari rökstuðnings en fram kemur í samskiptum kæranda við Skógræktina í máli þessu.


Þrátt fyrir framangreint er hins vegar ljóst að mati ráðuneytisins að Skógræktinni er heimilt á grundvelli umrædds lagaákvæðis að ákvarða tiltekið greiðsluhlutfall vegna einstakra verkþátta samningsins enda sé það gert á hlutlægan og málefnalegan hátt og í samræmi við það regluverk sem um málaflokkinn gildir. Þannig er ljóst að 8. gr. reglugerðar nr. 285/2019 mælir fyrir um ákveðna aðferðarfræði og samráð varðandi endurgreiðslu samþykkts kostnaðar, þ.m.t. krónutölu hámarksendurgreiðslu fyrir hverja einingu og hlutfall endurgreiðslu slíks kostnaðar. Í þessu skyni er mælt fyrir um að Skógræktin (áður framkvæmdastjórar landshlutaverkefna) skuli ákveða að fenginni umsögn Landssamtaka skógareigenda, sameiginlega viðmið fyrir landshlutaverkefni um endurgreiðslu samþykkts kostnaðar. Ekki er hins vegar að sjá að þessi leið hafi verið farin að því marki sem nauðsynlegt verður að teljast varðandi þann þátt verkefnisins sem er umfjöllunarefni kæru þessarar.


Í gögnum málsins er að finna skjal sem ber heitið minnispunktar Skógræktarinnar vegna vinnu við samræmingu á girðingarreglum skógræktar á lögbýlum sem virðast vera vísir að verklagsreglum um girðingar í tengslum við 4. gr. samninga um friðun og vörslu skógræktarsvæða, m.a. bæði um stofn- og viðhaldskostnað girðinga. Ekki er hins vegar að sjá af gögnum málsins að þessari vinnu sé lokið, hvort reglurnar hafi verið samþykktar eða hvaða gildi þær hafa í tengslum við ákvarðanir Skógræktarinnar að þessu leyti.


Að mati ráðuneytisins er ljóst að í a. lið 1. mgr. 8. gr. reglugerðar má ráða að kostnaður vegna friðun og vörslu skógræktarlands teljist samþykktur kostnaður á meðan þess er þörf að mati landshlutaverkefnis. Ráðuneytið telur að skuldbinding um greiðslu samþykkts kostnaðar fyrir friðun og vörslu skógræktarlands á grundvelli samningsins sé því ekki án eðlilegra og nauðsynlegra takmarka. Út frá markmiði og tilgangi laganna og samningsins verður að ætla að kostnaður vegna viðhalds girðinga teljist einungis samþykktur kostnaður í þessum skilningi sé talið að viðhald girðinga sé nauðsynlegur þáttur í friðun og vörslu skógræktarlandsins. Sé girðing eða viðhald hennar ekki talin nauðsynlegur þáttur í slíkri friðun eða vörslu landsins, t.d. vegna þess að skógræktarlandið er komið á það stig í ræktunarferlinu að ekki sé lengur þörf á að verja það með þessum hætti þá verður að telja að slíkur kostnaður sé þá ekki lengur hluti af samþykktum kostnaði samningsins.


Ekki er að sjá af gögnum málsins að áður en hin kærða ákvörðun að hafna greiðslu vegna þessa verkþáttar hafi verið tekin hafi legið fyrir hlutlægt mat eða haldbær viðmið af hálfu Skógræktarinnar hvenær slíku marki verði talið náð, hvorki almennt varðandi samningsbundin skógræktarsvæði sem lög nr. 33/2019, sbr. 95/2006, fjalla um, né liggur fyrir hvort sérstakt mat hafi verið lagt á þennan þátt varðandi þau skógræktarsvæði kæranda sem deilt er um í kærunni. Þar sem kostnaður vegna friðunar og vörslu skógræktarlands er talinn hluti af samþykktum kostnaði umrædds samnings hefði krafa kæranda í máli þessu því átt að hljóta frekari efnislega meðferð af hálfu Skógræktarinnar að þessu leyti. Í slíku mati hefði Skógræktin m.a. átt að leggja á það sjálfstætt mat hvort markmiðum samnings um friðun og vörslu umræddra svæða yrði ekki náð án nauðsynlegs viðhalds girðinga um samningssvæðin eða hvort Skógræktin mæti það svo að ekki væri lengur þörf á slíkum girðingum um samningssvæði kæranda til að ná fram umræddum markmiðum.


Væri það niðurstaða slíks mats að þörf væri á girðingarviðhaldi til að ná markmiðum samnings hefði Skógræktinni borið að mati ráðuneytisins að leggja til grundvallar það verklag sem mælt er fyrir um í 8. gr. reglugerðarinnar varðandi sameiginleg viðmið fyrir landshlutaverkefnin um endurgreiðslu fyrir hverja einingu og hlutfall endurgreiðslu vegna þessa þáttar samningsins auk ákvörðunar um greiðslutilhögun slíks kostnaðar.


Ein af málsástæðum kæranda er sú að girðingar um skógræktarsvæði hafi verið lagðar fyrir ríkisfé og því hvíli sjálfstæð skylda að lögum á Skógræktinni að sjá um viðhald og endurbætur umræddra girðinga í eigu kæranda skv. lögum um girðingar, nr.135/2001. Að mati ráðuneytisins er ljóst að þær girðingar sem lagðar eru á vegum Skógræktarinnar falla undir umrædd ákvæði laganna enda ljóst að slíkar girðingar eru lagðar fyrir ríkisfé. Þótt það heildarfjármagn sem liggur til grundvallar samningum um landshlutaverkefni í skógrækt hafi verið úthlutað á fjárlögum til heildarverkefnisins þá er fjármagninu hins vegar úthlutað til einstakra verkefna á grundvelli samninga við tiltekna skógarbændur. Framlög til einstakra verkþátta, eins og t.d. til stofnkostnaðar eða viðhalds girðinga, teljast því ekki ríkisfé í skilningi laganna við úthlutun þeirra heldur eru þau fjárframlög samkvæmt tvíhliða samningum um þátttöku í landshlutaverkefni um skógrækt þar sem ljóst er að eignarhald og ábyrgð á verkefninu, þ.m.t. eignarhald girðinga er hjá skógarbónda. Ekki er því fallist á þá kröfu að Skógræktin beri sjálfstæða skyldu til viðhalds girðinga samkvæmt þeim lögum sem vísað til í kærunni umfram þær skyldur sem felast í samningum við kæranda.


Kærandi fer jafnframt fram á að ráðuneytið úrskurði um endurgreiðslu þess kostnaðar sem erindrekstur kæranda vegna máls þessa hefur haft í för með sér fyrir hann enda kostnaðurinn hluti af kostnaði við girðingar. Kröfu sína byggir kærandi á sakarreglu skaðabótaréttar sem og 10. gr. samnings milli sín og Skógræktarinnar. Ráðuneytið bendir á að kærumál þetta snúist um tiltekna og afmarkaða stjórnsýsluákvörðun sem sætir nú endurskoðun í kæruferli til æðra stjórnvalds. Til að kærustjórnvaldi sé heimilt að taka ákvörðun um greiðslu slíks kostnaðar til málsaðila verður að vera fyrir hendi sérstök lagaheimild. Hvorki í lögum nr. 33/2019, sbr. lög nr. 95/2006, né í stjórnsýslulögum er að finna ákvæði sem heimilar stjórnvöldum að ákvarða eða greiða málsaðilum kostnað sem tilkominn er vegna kæru sem þessarar. Hafi kærandi orðið fyrir tjóni er það verkefni dómstóla en ekki stjórnvalds sem er með kæruna til meðferðar að taka afstöðu til mögulegrar bótaskyldu stjórnvalda eða til fjárhæðar tjóns eða skaðabóta sem kærandi máls telur sig hafa orðið fyrir vegna samskipta við stjórnvöld að þessu leyti.



IV. Niðurstöður:

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið telur ráðuneytið að hin kærða ákvörðun Skógræktarinnar sé haldin þeim annmörkum að fella verði hana úr gildi og fela stofnunni að taka kröfu kæranda um greiðslu á kostnaði við nauðsynlega friðun og vörslu skógræktarlanda kæranda til efnismeðferðar að nýju.


Með vísan til rökstuðnings í kafli III. er kröfu kæranda um greiðslu útlagðs kostnaðar eða skaðabóta vegna máls þessa vísað frá.



Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun Skógræktarinnar að hafna alfarið greiðslu kostnaðar vegna friðunar og vörslu skógræktarlands kæranda er felld úr gildi. Lagt er fyrir Skógræktina að taka mál kæranda að nýju til efnismeðferðar.


Kröfu kæranda um greiðslu útlagðs kostnaðar eða skaðabóta vegna máls þessa er vísað frá.


Guðmundur Ingi Guðbrandsson

Hafsteinn S. Hafsteinsson




Comments


bottom of page