Aðalfundur LSE 2009

PDF

Tófti aðalfundur Landssamtaka skógareigenda

haldinn á Stórutjörnum 18. og 19. september 2009

Dagskrá fundarins:

Föstudagur 18. september

Kl. 16:00 Fundur settur.

Kl. 16:15 Kosnir starfsmenn fundarins.

Kl. 16:15 Mál lögð fyrir fundinn.

Ávörp gesta

Kl. 17:00 Ný stefnumótun í skógræktarmálum Íslands – Þröstur Eysteinsson.

Kl. 18:00 Skipað í nefndir fundarins og málum vísað til nefnda.

Kl. 18:15 Fundi frestað. Nefndir hefja störf.

Kl. 19:30 Kvöldmatur.

Kl. 20:30 Framhald nefndarstarfa.

Kl. 20:30 Þingeyjarsýslur – Menning og saga. Ætlað mökum fundarmanna og öðrum fundargestum sem hafa lokið nefndarstörfum.

Laugardagur 19. september

Kl. 08:00 Morgunverður.

Kl. 09:00 Framhald aðalfundar. Skýrsla stjórnar.

Kl. 09:45 Ávörp gesta.

Kaffi

Kl. 10:30 Nefndir skila áliti.

Kl. 11:15 Kosningar:

Tveir menn í stjórn,

þrír menn í varastjórn,

tveir skoðunarmenn.

Kl. 11:30 Önnur mál.

Kl. 12:45 Fundarlok.

Kl. 12:45 Hádegismatur.

Kl. 14:00 Ferð að Vöglum – skógarskoðun

Fararstjóri; Aðalsteinn Jónsson

Leiðsögn um Vaglaskóg: Sigurður Skúlason

Kl. 17:30 Komið í Stórutjarnaskóla.

Kl. 19:00 Fordrykkur.

Kl. 19:30 Árshátíð skógarbænda.

1. Fundur settur.

Formaður LSE, Edda Kr. Björnsdóttir, setti fund og minntist látinna félaga við það tækifæri, Stefáns Jónssonar og Hákons Aðalsteinssonar.

2. Kosnir starfsmenn fundarins.

Starfsmenn fundarins voru kjörnir;

Tryggi Harðarson, sveitarstjóri Þingeyjarsveitar, fundarstjóri, til vara Páll Ingvarsson. Freyja Gunnarsdóttir fundarritari og til vara Rakel Jónsdóttir.

Fundarstjóri bauð menn velkomna og gengið var til dagskrár.

3. Mál lögð fyrir fundinn.

Ávörp gesta

Jón Bjarnason landbúnaðarráðherra ávarpaði fundinn. Nefnd á vegum landbúnaðarráðuneytis um stefnumótun í nytjaskógrækt er starfandi. Nefndin á að skila inn til ráðherra skýrslu um landshlutabundnu skógræktarverkefnin sem stuðst verður við til þess að ákvarða fjárframlög næstu 10 ára. Fjárveiting til landshlutaverkefnanna lækkar um 6 – 7 % á þessu ári og búast má við lækkun fjárframlaga á næsta ári líka.

Björn Bj. Jónsson, starfsmaður LSE, fór yfir það helsta sem hefur verið í deiglunni hjá samtökunum. Sagði að það væru 848 kennitölur innan landssamtakanna s.s. félagar í LSE. Kynnti einnig nýútkomna bók um brunavarnir og sagði að á síðustu tveimur árum (2007 og 2008) hefðu orðið 287 útköll vegna gróðurelda.

Á vegum LSE hefur verið nefnd að störfum um verðmat á skógum og fór BBJ vel yfir þær forsendur sem nefndin hefur lagt niður fyrir sig í útreikningum á verðmæti skóga.

María E. Ingvadóttir fjallaði um kolefnisbindingu og störf nefndar sem hefur verið að vinna í þeim málum.

Vinnuheitið er SkógarKol og aðilar að samstarfinu eru LSE, Mógilsá og LHV.

Markmið er að þróa og koma í gagnið mats-og vottunaraðila fyrir kolefnisbindingu í íslenskum skógum ásamt því að stuðla að uppbyggingu á kolefnismarkaði með kolefnisbindingu skógræktar á Íslandi.

Ávinningur á því að koma slíku kerfi upp er að trúverðug úttekt á kolefnisbindingu gerir hana að söluvöru og opnar skógræktendum möguleika á að sela vöru sína á opinberum og óopinberum mörkuðum.

Starfsmaður verkefnisins er Brynhildur Bjarnadóttir sem mun á næstunni heimsækja skógræktarverkefnin.

Hugsanleg framkvæmd hérlendis eftir heimsóknir:

Endurkortlagning á gróðursetningum (a.m.k. 8-12 ára reitir) og eftir hana leggur vottunaraðili út “stratifíseraða random” mælireiti í gagnagrunn (tölvu).

Mælireitir verði síðan heimsóttir og ákveðnum grunnupplýsingum safnað s.s. þvermáli, hæð o. s. frv.

Frá þeim upplýsingum er kolefnisforði metinn (binding/losun)

Vottunaraðili mælir nokkra reiti sjálfur og vottar.

María segir nauðsynlegt að bændur verði tilbúnir þegar kolefnismarkaðir opnast eftir það ,,frost” sem myndaðist við efnahagshrunið.

4. Ný stefnumótun í skógræktarmálum Íslands - Þröstur Eysteinsson

Þröstur Eysteinsson ræddi stefnumótun í skógrækt en þar er um að ræða vinnu nefndar sem er að vinna í þeim málum.

Það er til opinber stefna sem finnst víða m.a. Skógræktarlög, lög um landshlutaverkefni og náttúruverndarlög ásamt ýmsum samningum og samstarfsverkefnum s.s. Hekluskógar og Landgræðsluskógar.

Einnig eru til lög og reglugerðir sem setja hömlur á skógrækt sem eru þá einnig hluti af stefnu í skógræktarmálum. Þar má nefna skipulags-og byggingarlög, lög um mat á umhverfisáhrifum, reglugerð um innflutning á plöntum.

Í árslok 2006 fól landbúnaðarráðherra skógræktarstjóra að undirbúa nýja stefnumótun í íslenskum skógræktarmálum. Í hópnum eru 7 aðilar undir forystu skógræktarstjóra.

Helsta fyrirmynd er skýrsla starfshóps um stefnumótun í skógrækt – drög sem komu í apríl 2001, danska landsáætlunin í skógrækt og síðan svokölluð skosk stefna sem nefndin hefur skoðað vel en margt er líkt með Íslendingum og Skotum m.a. svipaðar hefðir í landbúnaði.

Skotar eru komnir lengra í skógrækt, komnir í 17% skógarþekju en við í 0,3%, nokkur skógariðnaður er kominn, lokafelling er hafin, ferðaþjónusta lengra komin en Íslendingar hafa greiðari aðgang að skógum til útivistar og því eru Íslendingar duglegri við að nýta skóga til útivistar. Skotar hafa þegar komið sér upp stefnumiðum í skógrækt til 50 ára, þau stefnumið voru sett árið 2006.

Unnið er út frá hinum þremur stoðum sjálfbærrar þróunar; þeirri félagslegu, umhverfislegu og efnahagslegu ásamt sjö lykilþemum: loftslagsbreytingar, viðarnytjar, þróun úrvinnslu og viðskipta, samfélagsþróun, aðgengi og heilsa, umhverfisgæði og líffræðileg fjölbreytni.

ÞE vonast til að þessi nefndi skili af sér í vetur og þá fer skýrsla til hagsmunaaðila til umsagnar.

Sveinn Jónsson frá Kálfskinni ávarpaði fundinn. Spurði út í verðmat skógarins og vinnuna við það. Fór einnig vítt og breitt yfir ræktun.

ÞE svaraði spurningu um lerki og viðarmagn. Ræddi einnig útvegun á efni sem hefur stóraukust eftir hrun þ.e. eftirspurn eftir við innanlands.

Fundarstjóri bauð fólki að leggja fram mál fyrir fundinn þegar hér var komið.

María Ingvadóttir frá Félagi skógarbænda á Suðurlandi fór yfir punkta frá fundi skógarbænda sunnan heiða með nefnd um stefnumótun í nytjaskógrækt og lagði í framhaldinu fram tvær tillögur frá félaginu.

Hljóðaði önnur tillagan upp á að tryggja þyrfti að Rannsóknarstöðin að Mógilsá gæti eflst og styrkst sem sjálfstæð og vísindaleg rannsóknarstöð og viðurkenndur vottunaraðili en hin um að koma þyrfti á skilvirkum gagnagrunni þannig að skógareigendur gætu nýtt sér á sem bestan máta allar þær rannsóknir sem framkvæmdar hafa verið og niðurstöður þeirra sem tengjast skógrækt.

Sigurður Jónsson lagði fram tillögu um nýja tilhögun á útgáfu fréttablaðsins ,,Við skógareigendur”.

Jóhann Gísli Jóhannsson lagði fram tillögu frá Félagi skógarbænda á Héraði þar sem skorað er á landbúnaðarráðherra að breyta skipun á formönnum stjórna landshlutaverkefnanna.

Þórarinn Svavarsson gjaldkeri LSE lagði fram tillögur um laun stjórnarmanna sem og fjárhagsáætlun fyrir árin 2009 og 2010.

Ástvaldur Magnússon lagði fram tillögu um skipun nefndar á landsvísu til að semja um verktaxta.

Björn Bj. Jónsson þakkaði góð orð Sveins í Kálfskinni og lagði fram tillögu nefndar um verðmat skóga þar sem lagt er til að skipuð verði nefnd sem endurskoði árlega verðgrunninn.

5. Skipað í nefndir fundarins og málum vísað til nefnda.

Reynir Ásgeirsson kynnti nefndir til starfa:

Allsherjarnefnd – Formaður; Jóhann Gísli Jóhannsson. Til nefndarinnar var vísað tillögu nefndar um verðmat skóga.

Fjárhagsnefnd – Formaður; Þórarinn Svavarsson. Til nefndarinnar var vísað tillögum um laun stjórnar LSE og fjárhagsáætlun LSE.

Félagsmálanefnd – Formaður: Björn Ármann Ólafsson. Til nefndarinnar var vísað tillögu um nýja tilhögun við útgáfu fréttablaðsins „Við skógareigendur”, tillögu um nefnd til að semja um taxta og tillögu um að landbúnaðarráðherra breyti skipun á formönnum í stjórn landshlutaverkefnanna.

Kolefnisnefnd – Formaður; María E. Ingvadóttir. Til nefndarinnar var vísað tillögu um Rannsóknarstöðina á Mógilsá og tillögu um gagnagrunn.

Hulda Guðmundsdóttir sem hafði verið tilnefnd sem formaður allsherjarnefndar baðst undan formennsku í nefndarstörfum og við allsherjarnefnd tók við formennsku Jóhann Gísli Jóhannsson sem hafði verið tilnefndur formaður úrvinnslunefndar sem fékk engar tillögur til afgreiðslu.

Edda Kr. Björnsdóttir steig í pontu og lýsti ánægju sinni með það að landbúnaðarráðherra sæti enn í salnum sem og meðreiðarsveinar hans tveir. Hún þakkaði einnig stjórnarformanni Norðurlandsskóga fundarsetu.

Valgerður Jónsdóttir framkvæmdastjóri Norðurlandsskóga fór yfir nokkur praktísk atriði er varðaði mat og drykk.

6. Aðalfundi frestað og nefndastörf hefjast.

Kvöldmatur.

Framhald nefndastarfa.

7. Framhald aðalfundar. Skýrsla stjórnar

Edda Kr. Björnsdóttir formaður LSE flutti skýrslu stjórnar og fór yfir starf samtakanna frá síðasta aðalfundi.

Þórarinn Svavarsson gerði grein fyrir endurskoðuðum reikningi samtakanna.

Niðurstöður rekstrarreiknings;

Rekstrartekjur 7.154.031

rekstrargjöld 5.915.929

rekstrarhagnaður 1.238.102

Niðurstöður efnahagsreiknings;

Eignir 2.420.917

Eigið fé 2.353.928

Skuldir 66.989

Eigið fé og skuldir 2.420.917

Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.

BBJ þakkaði formanni góða skýrslu og góð orð í sinn garð. Hann svaraði einnig fyrirspurn úr sal varðandi samning LSE og Suðurlandsskóga um rekstur á skrifstofu vegna starfsmanns en samningurinn innifelur allan kostnað vegna starfsmanns.

BBJ sagði framtíðarverkefnið vera úrvinnslumálin og skógarbændur þyrftu að vera tilbúnir. Hann hafði m.a. kynnt sér slík mál hjá systursamtökum LSE á Norðurlöndum.

Reikningar samþykktir samhljóða.

8. Ávörp gesta.

Björgvin Eggertsson verkefnisstjóri Grænni skóga ávarpaði fundinn og bar kveðju rektors LBHÍ.

Spurði m.a. hve margir í salnum hefðu tekið þátt í námskeiðsröðum Grænni skóga og í ljós kom að meirihluti fundargesta höfðu tekið þátt.

BE sagðist hafa séð árangur af náminu í nefndarvinnunni sem fór fram daginn áður þar sem erfiðað spurningar hefðu verið lagðar fram.