top of page

Aðalfundur LSE 2009

Tófti aðalfundur Landssamtaka skógareigenda

haldinn á Stórutjörnum 18. og 19. september 2009

Dagskrá fundarins:

Föstudagur 18. september

Kl. 16:00 Fundur settur.

Kl. 16:15 Kosnir starfsmenn fundarins.

Kl. 16:15 Mál lögð fyrir fundinn.

Ávörp gesta

Kl. 17:00 Ný stefnumótun í skógræktarmálum Íslands – Þröstur Eysteinsson.

Kl. 18:00 Skipað í nefndir fundarins og málum vísað til nefnda.

Kl. 18:15 Fundi frestað. Nefndir hefja störf.

Kl. 19:30 Kvöldmatur.

Kl. 20:30 Framhald nefndarstarfa.

Kl. 20:30 Þingeyjarsýslur – Menning og saga. Ætlað mökum fundarmanna og öðrum fundargestum sem hafa lokið nefndarstörfum.

Laugardagur 19. september

Kl. 08:00 Morgunverður.

Kl. 09:00 Framhald aðalfundar. Skýrsla stjórnar.

Kl. 09:45 Ávörp gesta.

Kaffi

Kl. 10:30 Nefndir skila áliti.

Kl. 11:15 Kosningar:

Tveir menn í stjórn,

þrír menn í varastjórn,

tveir skoðunarmenn.

Kl. 11:30 Önnur mál.

Kl. 12:45 Fundarlok.

Kl. 12:45 Hádegismatur.

Kl. 14:00 Ferð að Vöglum – skógarskoðun

Fararstjóri; Aðalsteinn Jónsson

Leiðsögn um Vaglaskóg: Sigurður Skúlason

Kl. 17:30 Komið í Stórutjarnaskóla.

Kl. 19:00 Fordrykkur.

Kl. 19:30 Árshátíð skógarbænda.

1. Fundur settur.

Formaður LSE, Edda Kr. Björnsdóttir, setti fund og minntist látinna félaga við það tækifæri, Stefáns Jónssonar og Hákons Aðalsteinssonar.

2. Kosnir starfsmenn fundarins.

Starfsmenn fundarins voru kjörnir;

Tryggi Harðarson, sveitarstjóri Þingeyjarsveitar, fundarstjóri, til vara Páll Ingvarsson. Freyja Gunnarsdóttir fundarritari og til vara Rakel Jónsdóttir.

Fundarstjóri bauð menn velkomna og gengið var til dagskrár.

3. Mál lögð fyrir fundinn.

Ávörp gesta

Jón Bjarnason landbúnaðarráðherra ávarpaði fundinn. Nefnd á vegum landbúnaðarráðuneytis um stefnumótun í nytjaskógrækt er starfandi. Nefndin á að skila inn til ráðherra skýrslu um landshlutabundnu skógræktarverkefnin sem stuðst verður við til þess að ákvarða fjárframlög næstu 10 ára. Fjárveiting til landshlutaverkefnanna lækkar um 6 – 7 % á þessu ári og búast má við lækkun fjárframlaga á næsta ári líka.

Björn Bj. Jónsson, starfsmaður LSE, fór yfir það helsta sem hefur verið í deiglunni hjá samtökunum. Sagði að það væru 848 kennitölur innan landssamtakanna s.s. félagar í LSE. Kynnti einnig nýútkomna bók um brunavarnir og sagði að á síðustu tveimur árum (2007 og 2008) hefðu orðið 287 útköll vegna gróðurelda.

Á vegum LSE hefur verið nefnd að störfum um verðmat á skógum og fór BBJ vel yfir þær forsendur sem nefndin hefur lagt niður fyrir sig í útreikningum á verðmæti skóga.

María E. Ingvadóttir fjallaði um kolefnisbindingu og störf nefndar sem hefur verið að vinna í þeim málum.

Vinnuheitið er SkógarKol og aðilar að samstarfinu eru LSE, Mógilsá og LHV.

Markmið er að þróa og koma í gagnið mats-og vottunaraðila fyrir kolefnisbindingu í íslenskum skógum ásamt því að stuðla að uppbyggingu á kolefnismarkaði með kolefnisbindingu skógræktar á Íslandi.

Ávinningur á því að koma slíku kerfi upp er að trúverðug úttekt á kolefnisbindingu gerir hana að söluvöru og opnar skógræktendum möguleika á að sela vöru sína á opinberum og óopinberum mörkuðum.

Starfsmaður verkefnisins er Brynhildur Bjarnadóttir sem mun á næstunni heimsækja skógræktarverkefnin.

Hugsanleg framkvæmd hérlendis eftir heimsóknir:

Endurkortlagning á gróðursetningum (a.m.k. 8-12 ára reitir) og eftir hana leggur vottunaraðili út “stratifíseraða random” mælireiti í gagnagrunn (tölvu).

Mælireitir verði síðan heimsóttir og ákveðnum grunnupplýsingum safnað s.s. þvermáli, hæð o. s. frv.

Frá þeim upplýsingum er kolefnisforði metinn (binding/losun)

Vottunaraðili mælir nokkra reiti sjálfur og vottar.

María segir nauðsynlegt að bændur verði tilbúnir þegar kolefnismarkaðir opnast eftir það ,,frost” sem myndaðist við efnahagshrunið.

4. Ný stefnumótun í skógræktarmálum Íslands - Þröstur Eysteinsson

Þröstur Eysteinsson ræddi stefnumótun í skógrækt en þar er um að ræða vinnu nefndar sem er að vinna í þeim málum.

Það er til opinber stefna sem finnst víða m.a. Skógræktarlög, lög um landshlutaverkefni og náttúruverndarlög ásamt ýmsum samningum og samstarfsverkefnum s.s. Hekluskógar og Landgræðsluskógar.

Einnig eru til lög og reglugerðir sem setja hömlur á skógrækt sem eru þá einnig hluti af stefnu í skógræktarmálum. Þar má nefna skipulags-og byggingarlög, lög um mat á umhverfisáhrifum, reglugerð um innflutning á plöntum.

Í árslok 2006 fól landbúnaðarráðherra skógræktarstjóra að undirbúa nýja stefnumótun í íslenskum skógræktarmálum. Í hópnum eru 7 aðilar undir forystu skógræktarstjóra.

Helsta fyrirmynd er skýrsla starfshóps um stefnumótun í skógrækt – drög sem komu í apríl 2001, danska landsáætlunin í skógrækt og síðan svokölluð skosk stefna sem nefndin hefur skoðað vel en margt er líkt með Íslendingum og Skotum m.a. svipaðar hefðir í landbúnaði.

Skotar eru komnir lengra í skógrækt, komnir í 17% skógarþekju en við í 0,3%, nokkur skógariðnaður er kominn, lokafelling er hafin, ferðaþjónusta lengra komin en Íslendingar hafa greiðari aðgang að skógum til útivistar og því eru Íslendingar duglegri við að nýta skóga til útivistar. Skotar hafa þegar komið sér upp stefnumiðum í skógrækt til 50 ára, þau stefnumið voru sett árið 2006.

Unnið er út frá hinum þremur stoðum sjálfbærrar þróunar; þeirri félagslegu, umhverfislegu og efnahagslegu ásamt sjö lykilþemum: loftslagsbreytingar, viðarnytjar, þróun úrvinnslu og viðskipta, samfélagsþróun, aðgengi og heilsa, umhverfisgæði og líffræðileg fjölbreytni.

ÞE vonast til að þessi nefndi skili af sér í vetur og þá fer skýrsla til hagsmunaaðila til umsagnar.

Sveinn Jónsson frá Kálfskinni ávarpaði fundinn. Spurði út í verðmat skógarins og vinnuna við það. Fór einnig vítt og breitt yfir ræktun.

ÞE svaraði spurningu um lerki og viðarmagn. Ræddi einnig útvegun á efni sem hefur stóraukust eftir hrun þ.e. eftirspurn eftir við innanlands.

Fundarstjóri bauð fólki að leggja fram mál fyrir fundinn þegar hér var komið.

María Ingvadóttir frá Félagi skógarbænda á Suðurlandi fór yfir punkta frá fundi skógarbænda sunnan heiða með nefnd um stefnumótun í nytjaskógrækt og lagði í framhaldinu fram tvær tillögur frá félaginu.

Hljóðaði önnur tillagan upp á að tryggja þyrfti að Rannsóknarstöðin að Mógilsá gæti eflst og styrkst sem sjálfstæð og vísindaleg rannsóknarstöð og viðurkenndur vottunaraðili en hin um að koma þyrfti á skilvirkum gagnagrunni þannig að skógareigendur gætu nýtt sér á sem bestan máta allar þær rannsóknir sem framkvæmdar hafa verið og niðurstöður þeirra sem tengjast skógrækt.

Sigurður Jónsson lagði fram tillögu um nýja tilhögun á útgáfu fréttablaðsins ,,Við skógareigendur”.

Jóhann Gísli Jóhannsson lagði fram tillögu frá Félagi skógarbænda á Héraði þar sem skorað er á landbúnaðarráðherra að breyta skipun á formönnum stjórna landshlutaverkefnanna.

Þórarinn Svavarsson gjaldkeri LSE lagði fram tillögur um laun stjórnarmanna sem og fjárhagsáætlun fyrir árin 2009 og 2010.

Ástvaldur Magnússon lagði fram tillögu um skipun nefndar á landsvísu til að semja um verktaxta.

Björn Bj. Jónsson þakkaði góð orð Sveins í Kálfskinni og lagði fram tillögu nefndar um verðmat skóga þar sem lagt er til að skipuð verði nefnd sem endurskoði árlega verðgrunninn.

5. Skipað í nefndir fundarins og málum vísað til nefnda.

Reynir Ásgeirsson kynnti nefndir til starfa:

Allsherjarnefnd – Formaður; Jóhann Gísli Jóhannsson. Til nefndarinnar var vísað tillögu nefndar um verðmat skóga.

Fjárhagsnefnd – Formaður; Þórarinn Svavarsson. Til nefndarinnar var vísað tillögum um laun stjórnar LSE og fjárhagsáætlun LSE.

Félagsmálanefnd – Formaður: Björn Ármann Ólafsson. Til nefndarinnar var vísað tillögu um nýja tilhögun við útgáfu fréttablaðsins „Við skógareigendur”, tillögu um nefnd til að semja um taxta og tillögu um að landbúnaðarráðherra breyti skipun á formönnum í stjórn landshlutaverkefnanna.

Kolefnisnefnd – Formaður; María E. Ingvadóttir. Til nefndarinnar var vísað tillögu um Rannsóknarstöðina á Mógilsá og tillögu um gagnagrunn.

Hulda Guðmundsdóttir sem hafði verið tilnefnd sem formaður allsherjarnefndar baðst undan formennsku í nefndarstörfum og við allsherjarnefnd tók við formennsku Jóhann Gísli Jóhannsson sem hafði verið tilnefndur formaður úrvinnslunefndar sem fékk engar tillögur til afgreiðslu.

Edda Kr. Björnsdóttir steig í pontu og lýsti ánægju sinni með það að landbúnaðarráðherra sæti enn í salnum sem og meðreiðarsveinar hans tveir. Hún þakkaði einnig stjórnarformanni Norðurlandsskóga fundarsetu.

Valgerður Jónsdóttir framkvæmdastjóri Norðurlandsskóga fór yfir nokkur praktísk atriði er varðaði mat og drykk.

6. Aðalfundi frestað og nefndastörf hefjast.

Kvöldmatur.

Framhald nefndastarfa.

7. Framhald aðalfundar. Skýrsla stjórnar

Edda Kr. Björnsdóttir formaður LSE flutti skýrslu stjórnar og fór yfir starf samtakanna frá síðasta aðalfundi.

Þórarinn Svavarsson gerði grein fyrir endurskoðuðum reikningi samtakanna.

Niðurstöður rekstrarreiknings;

Rekstrartekjur 7.154.031

rekstrargjöld 5.915.929

rekstrarhagnaður 1.238.102

Niðurstöður efnahagsreiknings;

Eignir 2.420.917

Eigið fé 2.353.928

Skuldir 66.989

Eigið fé og skuldir 2.420.917

Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.

BBJ þakkaði formanni góða skýrslu og góð orð í sinn garð. Hann svaraði einnig fyrirspurn úr sal varðandi samning LSE og Suðurlandsskóga um rekstur á skrifstofu vegna starfsmanns en samningurinn innifelur allan kostnað vegna starfsmanns.

BBJ sagði framtíðarverkefnið vera úrvinnslumálin og skógarbændur þyrftu að vera tilbúnir. Hann hafði m.a. kynnt sér slík mál hjá systursamtökum LSE á Norðurlöndum.

Reikningar samþykktir samhljóða.

8. Ávörp gesta.

Björgvin Eggertsson verkefnisstjóri Grænni skóga ávarpaði fundinn og bar kveðju rektors LBHÍ.

Spurði m.a. hve margir í salnum hefðu tekið þátt í námskeiðsröðum Grænni skóga og í ljós kom að meirihluti fundargesta höfðu tekið þátt.

BE sagðist hafa séð árangur af náminu í nefndarvinnunni sem fór fram daginn áður þar sem erfiðað spurningar hefðu verið lagðar fram.

BE fór yfir námskeiðshald í græna geiranum en það vinsælasta í vetur hefur verið námskeið um dráttarvélar (gamla traktora). Hvatti hann fólk til að hafa samband ef það hefði einhverjar óskir um námskeið.

BE þakkaði góðan fund og óskaði skógarbændum góðs gengis.

Svana Halldórsdóttir stjórnarmaður í Bændasamtökum Íslands og skógarbóndi ávarpaði fundinn. Svana fór aðeins yfir skipulag Bændasamtakanna sem eru regnhlífarsamtök í landbúnaði. Innan BÍ eru mörg samtök, m.a. LSE sem á einn fulltrúa á Búnaðarþingi enda skógrækt viðurkennd landbúnaðargrein.

SH sagði að skipting skógræktargeirans á milli tveggja ráðuneyta hefði ekki vakið ánægju innan BÍ.

SH fór aðeins inn á að umsókn að ESB væri í gangi og mikil vinna varðandi það hjá BÍ. Vænti hún hjálpar frá aðildarsamtökum BÍ við þá vinnu.

Óskaði skógræktinni í landinu alls góðs á komandi árum.

9. Nefndir skila áliti.

Tillögur frá allsherjarnefnd – Jóhann Gísli Jóhannsson

1. tillaga;

,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda (LSE), haldinn í Stórutjarnaskóla, 18. og 19. september 2009, leggur til að LSE skipi þriggja manna nefnd sem endurskoði árlega verðgrunn að verðmæti skóga.”

Samþykkt samhljóða

2. tillaga;

,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda (LSE), haldinn í Stórutjarnaskóla, 18. og 19. september 2009, leggur til að LSE skipi þriggja manna nefnd sem vinni að markaðsmálum á fjölbreyttum skógarafurðum til að hámarka verðmæti afurðanna.”

Samþykkt samhljóða

3. tillaga;

,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda (LSE), haldinn í Stórutjarnaskóla, 18. og 19. september 2009, samþykkir að á aðalfundi skuli skipað í allar nefndir fundarins.”

Samþykkt samhljóða

4. tillaga;

,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda (LSE), haldinn í Stórutjarnaskóla, 18. og 19. september 2009, beinir því til stjórnar LSE að huga að nýtingu lands.”

Dregin til baka

5. tillaga;

,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda (LSE), haldinn í Stórutjarnaskóla, 18. og 19. september 2009, beinir því til stjórnar LSE að hún vinni að því að minnst þrír fulltrúar mæti frá hverju félagi á aðalfund.”

Breytingartillaga:

,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda (LSE), haldinn í Stórutjarnaskóla, 18. og 19. september 2009, beinir því til stjórna aðildarfélaganna að þær vinni að því að minnst þrír fulltrúar mæti frá hverju félagi á aðalfund.”

Samþykkt samhljóða

,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda (LSE), haldinn í Stórutjarnaskóla, 18. og 19. september 2009, beinir því til stjórna aðildarfélaganna að þær vinni að því að minnst þrír fulltrúar mæti frá hverju félagi á aðalfund.”

Samþykkt samhljóða þegar tillagan var borin upp með breytingu

6. tillaga;

,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda (LSE), haldinn í Stórutjarnaskóla, 18. og 19. september 2009, vinni að því að fréttir og aðrir viðburðir hjá landshlutaverkefnunum verði settir inn á heimasíðu LSE.”

Breytingartillaga

,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda (LSE), haldinn í Stórutjarnaskóla, 18. og 19. september 2009, beinir því til aðildarfélaga og almennra félagsmannna, að þeir sendi umsjónarmanni heimasíðu LSE, fréttir af starfi og öðrum viðburðum landshlutaverkefnanna til birtingar á síðunni”

Samþykkt með þorra atkvæða gegn 1

,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda (LSE), haldinn í Stórutjarnaskóla, 18. og 19. september 2009, beinir því til aðildarfélaga og almennra félagsmannna, að þeir sendi umsjónarmanni heimasíðu LSE, fréttir af starfi og öðrum viðburðum landshlutaverkefnanna til birtingar á síðunni”

Samþykkt samhljóða þegar tillagan var borin upp með breytingu.

Mikil og góð umræða spannst um 4. tillögu allsherjarnefndar um nýtingu lands áður en tillagan var dregin til baka.

Björn Ármann Ólafsson ræddi 4. tillögu þar sem ályktað er um nýtingu lands, m.a. útfrá aðalskipulagi sveitarfélaga. Sagði BÁÓ mikilvægt að fara í þessa umræðu.

Einnig ræddi BÁÓ 5. tillögu um skyldumætingu á aðalfundi en þar nefndi hann hvort þyrfti að setja upp gulrót til að fá fólk á fundi.

Edda Kr. Björnsdóttir sagðist sjá sig tilneydda til að tjá sig um 4. tillögu. Sagði þetta gott mál og fagnar umræðu um nýtingu lands.

Sveinn í Kálfskinni ræddi einnig um 4. tillögu. Sagði það skyldu manna að skoða vel skynsamlega nýtingu lands. Þetta væri eitt af stóru málunum. Einnig ræddi Sveinn 2. tillögu þar sem ályktað er um markaðsmál.

Björn Bj. Jónsson tók til máls og sagðist taka undir flestar tillögurnar en vildi leggja fram breytingartillögu við 6. tillögu þar sem bætt yrði við inn í hana klausu um viðburði hjá landshlutaverkefnunum og skógarbændafélögum.

Einnig benti hann á að það væru fulltrúar frá öllum félögum á fundinum en ekki úr öllum stjórnum félaganna, spurning hvort ætti að hnykkja aðeins á 5. tillögu

Sigurbjörg Snorradóttir ræddi skipulag og nýtingu lands. Sagðist ekki sjá hvernig skógur gæti staðið annarri ræktun fyrir þrifum. Í sínum huga væri fínt að nýta land sem þarf að hvíla til að planta í, þegar þyrfti að nota landið í eitthvað annað væri bara að höggva.

Valgerður Jónsdóttir tók undir með Sigurbjörgu varðandi nýtingu lands. Benti nefndinni á að vinna tillöguna meira, sagði vanta meira kjöt á beinin og að gera betur grein fyrir hvað væri verið að fara með tillögunni. Valgerður ræddi einnig heimasíðumál.

Edda ræddi tillögu 4 og bar fram frávísunartillögu. Sagði nefnd vera að vinna í þessu máli og niðurstaða úr þeirri vinnu væntanleg á næstunni.

Helga Dóra Kristjánsdóttir ræddi tillögu 3. Sagði þetta ætti að vera undir undirbúningi stjórnar LSE fyrir aðalfund. Á stjórnarfundi LSE fyrir aðalfund ætti að liggja fyrir hverjir mæti á fundinn og skipa í nefndir eftir því. Einnig nefndi hún að það mættu vera nafnspjöld og upplýsingar um stjórn og nefndir í fundarmöppum.

Jóhann G. Jóhannsson nefndarformaður dró 4. tillögu til baka. Tók einnig undir með fleirum um heimasíðumál. Varðandi 5. tillögu vildi hann beina því til stjórna félaganna að minnst þrír úr stjórn aðildarfélags mæti á aðalfund.

Ræddi einnig um meiri festu í dagskrá aðalfundar. Byrja á skýrslu stjórnar en ekki hafa hana tvisvar og nefndarstörf ættu að fara fram báða dagana.

Ásvaldur Magnússon tók til máls um 5. tillögu, einnig ræddi hann um nýtingu lands. Sagði mun á því hvað væri verið að tala um þegar skógarbændur töluðu um ræktanlegt land eða akuryrkjubændur.

Tillögur frá félagsmálanefnd – Björn Ármann Ólafsson

1. tillaga;

,, Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda (LSE), haldinn í Stórutjarnaskóla, 18. og 19. september 2009 samþykkir að kjósa 5 manna nefnd til að semja um vinnutaxta bænda á landsvísu og skal einn nefndarmaður vera úr hverju aðildarfélagi.”

Samþykkt samhljóða

2. tillaga;

,, Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda (LSE), haldinn í Stórutjarnaskóla, 18. og 19. september 2009 samþykkir að færa Brunamálastofnun kærar þakkir fyrir aðstoð við gerð ritsins Gróðureldar sem kom út 30.apríl 2009.”

Samþykkt samhljóða

3. tillaga;

,, Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda (LSE), haldinn í Stórutjarnaskóla, 18. og 19. september 2009 samþykkir að skora á landbúnaðarráðherra að breyta skipun á formönnum stjórnar landshlutaverkefnanna.

Ráðherra leiti til stjórnar LSE um að tilnefna formannsefni í þessar stjórnir.”

Samþykkt samhljóða

4. tillaga;

,, Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda (LSE), haldinn í Stórutjarnaskóla, 18. og 19. september 2009 samþykkir að aðalfundur LSE tilnefni ritstjóra fréttablaðsins ,,Við skógareigendur” árlega. Ritstjóri starfi í samvinnu við framkvæmdastjóra og stjórn LSE. Ritstjóri velji sér síðan landshlutafélag til að vinna með að útgáfunni hverju sinni.”

Samþykkt samhljóða

Tillögur frá kolefnisnefnd – María E. Ingvadóttir

1. tillaga;

,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda (LSE), haldinn í Stórutjarnarskóla, 18. og 19. september 2009, leggur áherslu á hversu mikilvægt sé að á hverju svæði séu notuð fræ af því svæði.

Sameina þarf krafta, þekkingu og aðstöðu sem fyrir er og koma upp fræhúsum í hverjum landshluta.

Stjórn LSE er falið að vinna að því, að sem fyrst verði reist fræverkunarstöð og fræbanki sem þjóna mun öllu landinu.”

Breyting eftir vinnu nefndar.

,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda (LSE), haldinn í Stórutjarnaskóla, 18. og 19. september 2009, leggur áherslu á hversu mikilvægt sé að á hverju svæði séu notuð besta kvæmi af hverri tegund.

Sameina þarf krafta, þekkingu og aðstöðu sem fyrir er og koma upp fræhúsum í hverjum landshluta.

Stjórn LSE er falið að vinna að því, að sem fyrst verði reist fræverkunarstöð og fræbanki sem þjóna mun öllu landinu.”

Samþykkt samhljóða

2. tillaga;

,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda (LSE), haldinn í Stórutjarnaskóla, 18. og 19. september 2009, ályktar að þar sem mikilvægt er og hagkvæmt að nýta þá þekkingu og aðstöðu sem til er í landinu, þarf að tryggja aðgengi að fagfólki, upplýsingum og rannsóknarniðurstöðum, þannig að hægt sé að bregðast strax við þeim vandamálum sem upp koma hverju sinni.

Koma þarf á skilvirkum gagnagrunni þannig að skógareigendur geti nýtt sér á sem bestan máta allar þær rannsóknir og niðurstöður sem framkvæmdar hafa verið og tengjast skógrækt.

Við beinum því til stjórnar LSE að hún kanni hver gæti best sett upp og haldið við slíkum upplýsingabanka og sjái til þess að honum verði komið upp.”

Samþykkt samhjóða

3. tillaga;

,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda (LSE), haldinn í Stórutjarnaskóla, 18. og 19. september 2009, leggur áherslu á nauðsyn þess að tryggja að Rannsóknarstöðin að Mógilsá geti eflst og styrkst sem sjálfstæð og vísindaleg rannsóknarstöð og viðurkenndur vottunaraðili.

Því marki verður aðeins náð, verði hún sérstök stofnun, en ekki hluti af Skógrækt ríkisins.

Sé litið til framtíðar og viðurkenndra rannsóknarniðurstaðna og þess vottunarferlis sem ný verkefni kalla á, verður sjálfstæði Rannsóknarstöðvarinnar að vera hafið yfir allan vafa. Möguleikar hennar innanlands og erlendis eru margvíslegir og vegur hennar í vísindasamfélaginu gæti eflst til muna, ásamt umtalsverðum tekjumöguleikum.”

Samþykkt samhljóða

4. tillaga;

,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda (LSE), haldinn í Stórutjarnaskóla, 18. og 19. september 2009, ítrekar að þar sem kolefnisbinding skóga, er ein af afurðum skógarbænda, er mikilvægt að stjórnvöld styðji við þá vinnu sem nú er unnin til undirbúnings, mati og mælingu á kolefnisbindingu íslenskra skóga, enda er þar um að ræða mjög verðmæta vöru.

Minna má á mikilvægi kolefnisbindingar í skuldbindingum íslenska ríkisins í alþjóðlegum loftslagssamningum.”

Breyting eftir vinnu nefndar.

,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda (LSE), haldinn í Stórutjarnaskóla, 18. og 19. september 2009, ítrekar að þar sem kolefnisbinding skóga, er ein af afurðum skógarbænda, er mikilvægt að stjórnvöld styðji við þá vinnu sem nú er unnin til undirbúnings mati, mælingu og markaðssetningu á kolefnisbindingu íslenskra skóga, enda er þar um að ræða mjög verðmæta söluvöru.

Minna má á mikilvægi kolefnisbindingar í skuldbindingum íslenska ríkisins í alþjóðlegum loftslagssamningum.”

Samþykkt samhljóða

Nokkrar umræður urðu um tillögur kolefnisnefndar og varð úr að nefndin koman saman á ný til að fara yfir ýmsar athugasemdir og tillögur að orðalagsbreytingum sem komu fram í umræðum.

Edda Kr. Björnsdóttir gerði athugasemd við tillögu 4 og lagði fram breytingu á orðalagi þar sem inn kæmi að kolefnisbinding væri ein af aðalafurðum skógarbænda. Þorsteinn Pétursson vildi einnig gera orðalagsbreytingar á tillögunni þar sem hnykkt væri á kolefnisbindingu sem söluvöru.

Jóhann G. Jóhannsson tjáði sig um tillögur kolefnisnefndar og sagði þær alltof langar. Lagði til að kolefnisnefnd kæmi saman á ný og ynni tillögur sínar betur.

Valgerður Jónsdóttir tjáði sig um 1. tillögu og sagði hana ekki tímabæra. Bað nefndina að íhuga þessa tillögu aðeins og benti á að nefnd um stefnumótun í nytjaskógrækt væri að vinna að þessum málum. Valgerður sagðist einnig ekki vera sammála formanni um að kolefnisbindingin væri aðalafurð skógarbænda.

Björn Ármann Ólafsson ræddi einnig tillögu 1 og sagðist sammála Valgerði að það þyrfti að hugsa þetta betur, m.a. útfrá gæðakerfi þeirra gróðrastöðva sem fyrir hendi eru.

Tillaga frá Inga Tryggvasyni

,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda (LSE), haldinn í Stórutjarnaskóla, 18. og 19. september 2009, skorar á landbúnaðarráðherra að sjá til þess að framlög á fjárlögum ríkisins til landshlutabundinna skógræktarverkefna minnki alls ekki að raungildi frá því sem nú er.

Bendir fundurinn á að skógarbændur treysta margir á framlög til skógræktar sem hluta af afkomu sinni auk þess sem þjóðinni er nauðsynlegt að auka kolefnisbindingu í landinu.”

Samþykkt samhljóða

Tillögur frá fjárhagsnefnd – Þórarinn Svavarsson

1. tillaga;

,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda (LSE), haldinn í Stórutjarnaskóla, 18. og 19. september 2009, samþykkir eftirfarandi fjárhagsáætlun fyrir starfsárin 2009 og 2010:

Rekstrartekjur: 2010 2009 2008

Félagsgjöld 550.000 500.000 486.000

Ýmis framlög 400.000 400.000 405.946

Vaxtatekjur 300.000 280.000 262.085

Ríkisframlag 7.000.000 7.000.000 6.000.000

Tekjur alls 8.250.000 8.180.000 7.154.031

Rekstrargjöld

Kostnaður vegna aðalfunda 600.000 600.000 757.452

Stjórnar- og fundakostnaður 750.000 750.000 744.333

Ráðstefnur og námskeið 200.000 200.000 52.100

Þróunarvinna 2.000.000 2.000.000 50.266

Rekstur skrifstofu 4.000.000 4.000.000 4.000.000

Blaðaútgáfa 250.000 250.000 172.655

Annað 405.000 340.000 100.000

Vaxta- og bankakostnaður 45.000 40.000 39.123

Gjöld alls 8.250.000 8.180.000 5.915.929

Rekstrarhagnaður (tap) 0 0 1.238.102

Samþykkt samhjóða

2. tillaga;

,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda (LSE), haldinn í Stórutjarnaskóla, 18. og 19. september 2009, samþykkir að stjórn LSE fái þóknun fyrir árið 2009 sem hér segir:

Formaður 100.000 100.000

Gjaldkeri 75.000 75.000

Aðrir stjórnarmenn 60.000 180.000

---------------------------------------------------------------------------

Stjórnarlaun samtals 355.000

Samþykkt samhljóða

3. tillaga;

,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda (LSE), haldinn í Stórutjarnaskóla, 18. og 19. september 2009, samþykkir að stjórn LSE fái þóknun fyrir árið 2010 sem hér segir:

Formaður 100.000 100.000

Gjaldkeri 75.000 75.000

Aðrir stjórnarmenn 60.000 180.000

----------------------------------------------------------------------------

Stjórnarlaun samtals 355.000

Samþykkt samhljóða

4. tillaga

,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda (LSE), haldinn í Stórutjarnaskóla, 18. og 19. september 2009, samþykkir að félagsgjöld verði óbreytt”

Samþykkt samhljóða

10. Kosningar.

Kosning tveggja stjórnarmanna.

Úr stjórn áttu að ganga tveir stjórnarmenn, fulltrúi Norðlendinga og fulltrúi Vestfirðinga. Núverandi fulltrúar, Anna Ragnarsdóttir (varamaður Stefáns heitins Jónssonar) og Ásvaldur Magnússon, gáfu þau bæði kost á sér áfram. Uppástunga um Maríu E. Ingvarsdóttur sem fulltrúa Sunnlendinga í stjórn kom úr sal olli nokkrum umræðum um fyrir hvaða landshluta menn sætu í stjórn. María dró sig út úr framboði til aðalstjórnar en er í framboði til varastjórnar.

Ásvaldur Magnússon og Anna Ragnarsdóttir voru því sjálfkjörin til setu í aðalstjórn.

Kosning þriggja varamanna í stjórn.

Varamenn voru Anna Ragnarsdóttir, Rafn Johnson og Þorsteinn Pétursson. Uppástungur um þrjá varamenn frá félögum eru um: Sigrúnu Grímsdóttur frá Norðurlandi, Maríu E. Ingvadóttur frá Suðurlandi og Þorstein Pétursson frá Austurlandi. Varamenn kosnir; Sigrún Grímsdóttir, María E. Ingvadóttir og Þorsteinn Pétursson

Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga.

Skoðunarmenn kosnir; Ásmundur Guðmundsson og Jóhanna H. Sigurðardóttir.

Kosning tveggja varaskoðunarmanna reikninga.

Varaskoðunarmenn kosnir; Haraldur Magnússon og Hraundís Guðmundsdóttir

Kosning Búnaðarþingsfulltrúa.

Búnaðarþingsfulltrúi var Edda Kr. Björnsdóttir. Hún gaf kost á sér áfram. Ekkert mótframboð kom fram og verður hún því Búnaðarþingsfulltrúi áfram. Varamaður var og er Jóhann Þórhallsson.

11. Önnur mál.

Þorsteinn Pétursson kvaddi sér hljóðs undir liðnum önnur mál og ræddi launamál skógarbænda. Sagðist hafa verið í samninganefnd skógarbænda á Héraði í nokkur ár. Austanlands hafa verktaxtar þróast í samvinnu skógarbænda og landshlutaverkefnis.

Á þessu ári fóru verkefnin í samræmingu taxta á landsvísu og segir Þorsteinn að sú samræming hafi þýtt 2,5% lækkun hjá skógarbændum fyrir austan.

Brýnir hann skógarbændur um að halda fast um sitt og standa vörð um launamál.

Ingi Tryggvason spyr hvernig taxtamál hafa verið ákveðin yfir landið fram að þessu. Kom honum á óvart að uppgötva að ekki væri um sama taxta að ræða um land allt.

Jónas Sigurðarson á Lundarbrekku ræddi gæðamál þ.e. illa flokkaðar plöntur en brögð hafa verið að því að hann hafi fengið slíkt afhent.

Valgerður Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Norðurlandsskóga, sagði það rétt hjá Jónasi að það ætti ekki að líðast að bændur fengu óflokkaðar plöntur. Ítrekaði að skógarbændur ættu að hafa samband við verkefnið og skila slíku, ekki planta og tuða í hljóði.

Valgerður svaraði fyrirspurn Inga varðandi taxtana. Héraðsskógar voru einir fyrst og bjuggu til taxta, síðan hefur þetta þróast með hverju verkefni og fyrst núna var reynt að samræma taxta. Valgerður sagðist mjög sammála tillögunni um nefnd sem ynni að taxtamálum á landsvísu. Sagðist ekki skilja hvernig Þorsteinn fengi út þá lækkun sem hann talaði um í sínu máli.

Þorsteinn kom á ný í pontu og fór yfir það hvernig austanmenn reiknuðu út þessa lækkun sem Valgerður skildi ekki í.

Ásvaldur Magnússon sagði Valgerði hafa svarað vel fyrirspurn um taxtana en hann fór samt aðeins yfir málin. Sagði þá misjafna og jafnframt misjafnt milli verkefnanna hvernig þeir væru fundnir út. Hjá sumum væru það stjórnir verkefnanna sem ákvæðu þetta hjá öðrum væri um samninga milli verkefnis og skógarbænda að ræða.

Björn Bj. Jónsson þakkaði fyrir frábæran fund og góðar tillögur. Hvatti fólk til að vera virkt í því að koma málum á framfæri við framkvæmdastjóra LSE.

Valgerður Jónsdóttir var með kynningu í glæruformi sem Björn Traustason og Fanney Ósk Gísladóttir tóku saman.

Þar er farið yfir hlut skógræktar í ræktunarlandi framtíðarinnar. Samkvæmt þeirri flokkun sem þau gerðu sem er mjög þröng er framtíðarræktunarland 615 þúsund hektarar. Ef 5% af skógi klæddu láglendi næðist væri það bara 25% af þessu landi.

Edda Kr. Björnsdóttir lagði til að stjórn LSE yrði falið að finna ritstjóra/ritstjórn fyrir ,,Við skógareigendur” fram að næsta aðalfundi, ekki yrði kosið nú og samþykkti fundurinn það.

Edda svaraði þeirri gagnrýni sem hefur komið fram á stjórn LSE, m.a. um framkvæmd aðalfundar. Fór aðeins yfir sögu landshlutaverkefnanna sem og ástandið í þjóðfélaginu eftir efnahagshrunið og brýndi skógarbændur á að halda sínum málstað á lofti.

Edda færði hjónunum á Silfrastöðum Jóhannesi Jóhannssyni og Þóru Jóhannesdóttur, fána LSE sem viðurkenningu fyrir skógræktarstörf á Silfrastöðum í Blönduhlíð. Jóhannes tók við fánanum fyrir hönd hjónanna og þakkaði viðurkenninguna.

Þórarinn Svavarsson bar fundinum kveðju Bergþóru Jónsdóttur sem er formaður Félags skógarbænda á Vesturlandi ásamt því að bjóða til næsta aðalfundar á Vesturlandi í ágúst á næsta ári.

12. Fundarlok.

Fundarstjóri sleit fundi kl. 12:55

bottom of page