Fundur hjá Félagi skógareigenda á Suðurlandi haldinn að Þingborg í Flóa 25.11. 2017 kl. 10
María E. Ingvadóttir formaður setti fundinn og ræddi um nauðsyn þess að koma afurðum skógarins i verð en lítill sem enginn farvegur er fyrir það sem stendur. Hún minnti á að Samband sunnlenskra sveitafélaga hefði veitt FsS 6 milljónir króna í styrk til Átaksverkefnis sóknaráætlunar Suðurlands, gerðar sóknaráætlunar fyrir úrvinnslu skógarafurða á Suðurlandi, en samningur þess efnis var undirritaður á félagsfundi FsS á þessu ári. Ingvar Pétur Guðbjörnsson hefði verið ráðinn sem verkefnisstjóri og nú lægi skýrsla hans fyrir og yrði kynnt fundarmönnum. Stjórnin hefði tilnefnt í bráðabirgðastjórn undirbúningsfélags þrjá aðila, þá Jón Helga Guðmundsson, forstjóra BYKO, Magnús Gunnarsson, fv. formann Skógræktarfélags Íslands og Maríu E. Ingvadóttur, formann FsS. Auk þess myndi Ingvar Pétur starfa með bráðabirgðastjórninni. Mikilvægt væri að sem flestir félagsmenn gerðust stofnaðilar að fyrirhuguðu rekstrarfélagi, en vonast væri eftir að stofnfundur verði haldinn í janúar 2018. Að lokum kynnti hún fundarstjórann, Jónatan Garðarsson, nýjan formann Skógræktarfélags Íslands, sem gaf Ingvari Pétri orðið. Ingvar Pétur kvaðst hafa unnið við skýrslugerð frá því í apríl og skilað fyrstu drögum skýrslu til SASS i september og nú væri lokaskýrslan tibúin og búið að rýna hana. Nú væri réttur tímapunktur fyrir næstu skref. Í FsS eru 203 greiðandi félagar en á Suðurlandi eru 121 lögbýli með samninga við Skógræktina en 137 þegar skjólbeltajarðir eru taldar með. 10.081 ha er eyrnamerktur nytjaskógrækt og tæplega 13 milljón plöntur hafa verið settar niður á árunum 1997-2016. Talið er að 18.000 m-3 af grisjunarviði hafi safnast upp frá 2012 og 3-4.000 m-3 muni falla til árlega fram til 2030. Þetta skapar grundvöll til að hefja vinnslu skógarafurða. Auk þessa falla til um 1.000 m-3 af hreinu timbri á gámasvæðum sveitarfélaganna. Nær enginn farvegur er fyrir íslenskar skógarafurðir eins og málin standa. ELKEM á Grundartanga tekur við 1.-2.000 tonnum árlega í gegnum Skógræktina og Suðurland fær aðeins að láta lítinn hluta af því timburmagni. Auk þess er selt dálítið af arinvið og eldivið fyrir pítsastaði. Einn aðili á SV-landi framleiðir undirburð undir búfé og notar við það timbur frá gámastöðvum. Stærstur hluti skógarafurða svo sem kurl, undirburður, eldiviður og girðingarstaurar er innfluttur. Stefnt er að því að stofna einkahlutafélag um vinnslu skógarafurða með hlutafé í byrjun 100 milljónir króna. Takist það þarf ekki að taka nein langtímalán vegna starfseminnar. Félagið yrði staðsett á Suðurlandi og myndi skapa um 3 ársstörf auk afleiddra starfa. Í byrjun yrði lögð áhersla á vörur sem auðvelt er að koma á markað og þekking er til staðar í landinu. Stefna félagsins yrði að tryggja sunnlenskum skógarbændum farveg fyrir afurðir sínar. Það hyggst félagið gera með því að koma upp vinnslu úr skógarafurðum úr sunnlenskum skógum og öðrum tilfallandi hreinum og vinnanlegum viði sem til fellur á Suðurlandi. Framtíðarsýnin er að verða stöndugt fyrirtæki sem skapar atvinnu og arð fyrir eigendur sína. Félagið vill vinna á sjálfbærum grunni, framleiða hágæða afurðir, m.a. byggingar- og klæðningarefni, undirburð fyrir búfé, kurl í stíga, beð og reiðskemmur, arinkubba og taka þátt í nýsköpun með skógarafurðir. Áhersla verði strax lögð á að komast í samstarf við háskóla og aðra viðurkennda aðila á sviði nýsköpunar, rannsókna og þróunar þannig að efni úr sunnlenskum skógum geti leikið lykilhlutvek í lífhagkerfinu og nýsköpun. Þannig hyggst félagið hámarka arðsemi sína og vera í fararbroddi á Íslandi í nýtingu skógarafurða.
Stærsti hluti framleiðsluvara úr sunnlenskum grisjunarviði verður kurl til stóriðju og undirburður undir húsdýr. Eins og íslenska krónan er skráð núna er samkeppnin við innfluttar afurðir erfið, einkum kurlið. Eins er samkeppni hvað varðar innlenda framleiðslu; um undirburð við Furu, LímtréVírnet, Fellsskóg og Skógarafurðir; klæðningarefni við Skógarafurðir; um eldivið við Skógarafurðir, Fellsskóg, Skógræktina, skógræktarfélög og fleiri aðila.
Gerð hefur verið vönduð könnun á markaðnum, gerð markaðsstefnu og rekstraráætlun. Nú er rétti tíminn til að hefja rekstur þegar ljóst er að vel lítur út með árlegan grisjunarvið. Markaður er til staðar fyrir afurðirnar. Verð á markaði eru vel ásættanleg skv. frumathugun.
Greiðslur til skógarbænda. Áætlunin gerir ráð fyrir að greiða skógareigendum kr. 9.000 fyrir grisjun á hvern m-3, alls tæpar 700 milljónir á 13 árum. Áætlunin gerir ráð fyrir að sett verði upp gæðaflokkunarkerfi og greitt eftir því. Meðalgreiðsla verði kr. 4.000 á hvern m-3, alls rúmar 320 milljónir á 13 árum. Þannig skapast hvati til að framleiða gæðavöru og flokka efnið vel. Skilar árangri fyrir báða aðila.
Því er lagt til að stofna félag og hefja rekstur strax á árinu 2018. Allt lítur út fyrir að reksturinn verði arðbær frá fyrsta rekstrarári og atvinnuskapandi fyrir Suðurland með þremur beinum störfum auk afleiddra starfa. Starfsemin mun skila um 170 milljónum í ríkissjóð í formi tekju- og virðisaukaskatts á 13 árum. Miðað við rekstraráætlun er lagt upp með að greiða 40% fjárfestingarinnar í arð á 13 árum, en arðgreiðslur hefjast eftir 6 ár. Bændur fá að meðaltali um kr. 13.000 fyrir m-3 miðað við núverandi stöðu sem er vel ásættanlegt. Þetta mun stuðla að sjálfbærum rekstri á skógarjörðum, styðja við byggð, kolefnisbindingu, atvinnuþróun og aukna sjálfbærni landsins.
Næstur tók til máls Hrafnkell Guðnason hjá SASS og lýsti samskiptum Uppbyggingarsjóðs og FsS, hvernig þau María og Björn B. Jónsson hefðu unnið með USS að mótun hugmyndarinnar um áhersluverkefni, þar sem verkefnið hefði verið of viðamikið fyrir hefðbundin verkefni sem USS styrkti á sviði menningargeirans eða frumkvöðlastarfa. Grundvöllur fyrir að styrkur fékkst var að FsS stóð bak við og breið samstaða alls skógargeirans. Hér væri verið að móta nýja atvinnugrein á Íslandi. Þetta væru flottar hugmyndir um framtíðarrannsóknir og hann lofaði áframhaldandi samstarfi.
Björn B. Jónsson hjá Skógræktinni flutti kveðju Þrastar Eysteinssonar skógræktarstjóra og lýsti áhuga þeirra beggja á úrvinnslumálum. Hann kvað það afrek ef tekst að setja af stað úrvinnslustöð og lýsti ánægju með þá aðila sem skipa undirbúningsstjórn. Hann ætlar að rýna betur í þær tölur sem IPG nefndi og væri verð þeirra afurða mjg gott.
Fundarmenn komu með ýmsar fyrirspurnir vegna skýrslunnar. Sigurður Jónsson spurði um staðsetningu verksmiðjunnar, kostnað við flutning timburs að verksmiðju og hver greiði kostnað við fyrstu grisjun. Því var svarað þannig að staðarval væri ekki ákveðið, æskilegt væri að flutningsleiðir að verksmiðju væru minna en 100 km, reiknað er með flutningskostnaði, en skógareigandi þarf sjálfur að grisja. Ríkið greiðir kostnað við fyrstu grisjun – Björn B. Jónsson benti á mikilvægi þess að ná niður grisjunarkostnaði sem væri mun meiri hér en á Norðurlöndum þá yrði meira eftir hjá bóndanum. Samvinna við aðra skógarbændur og Skógræktina væri mikilvæg. Hreinn Óskarsson spurði um yfirstjórn verksmiðjunnar og fékk þau svör að reiknað væri með að stjórnandi verksmiðjunnar væri í hálfu stjórnunarstarfi og hálfu í almennri vinnu. Eins spurði hann um samvinnu við Límtré. IPG kvað búið að biðja um fund með Límtré um húsnæðismál og viðarkaup. Sigurður Björgvinsson spurði um kolefnisjöfnun sem María sagði mikið hafa verið rædda innan LSE og þar væri starfandi kolefnisnefnd. Erfitt væri að fá umræðu og svör hjá umhverfisráðherrum. Það ætti eftir að vinna mikla vinnu við að meta kolefnisbindingu á hverri jörð. Ríkið geri alþjóðasamninga, en hefur ekki viljað viðurkenna eignarhald skógarbænda á bindingunni. Októ Einarsson spurði um verð á kurli, sem yrði stór hluti framleiðslunnar en IPG sagði að ekki væri reiknað með tekjum af þvi fyrstu árin. Gunnar Sverrisson spurði um fjármögnun ef ekki næðust þær 100 millj. í hlutafé sem reiknað væri með, en IPG sagði að fleiri reiknilíkön hefðu verið sett upp. Mikilvægt væri þó að félagið fjármagni sig með eigin hlutafé en ekki lánum. Björgvin Eggertsson nefndi að Skógræktafél. Árnesinga væri með smávægis viðarvinnslu en hvað væri um samvinnu. IPG kvað alltaf hafa verið reiknað með samstarfi við skógræktarfélögin á svæðinu. Sigurður Jónsson taldi framsetningu kynningarinnar góða en sagði að langan tíma tæki að byggja upp sölusambönd o.fl., það þyrfti að þróast.
Magnús Gunnarsson kom í pontu að loknum fyrirspurnum. Hann kvaðst vera nýkominn að þessari undirbúningsstjórn, nú væru tækifæri í skógarvinnslu en sýna þyrfti varfærni. Fjarlægð frá nýtingarstað skiptir máli. Kísiliðja myndi aftur fara í gang á Suðurlandi. Tímasetningin er rétt. Skógurinn er auðlind sem mun bara vaxa með árunum.
Formaður þakkaði öllum þeim sem komu að fundinum fyrir gott framlag og sleit fundi kl. 11.45. Sigríður Hjartar fundarritari
Fundur félags skógareigenda á Suðurlandi með Uppbyggingarsjóði SASS
Fundur félags skógareigenda á Suðurlandi með Uppbyggingarsjóði SASS
Haldinn á Selfossi 17. febrúar 2017 kl. 13
María E. Ingvadóttir formaður FsS setti fundinn og bauð 24 fundarmenn velkomna. Nú yrði mikilvægt skref stigið hjá Félagi skógareigenda með undirritun samstarfssamnings við Uppbyggingarsjóð Sambands sunnlenskra sveitarfélaga sem mun veita félaginu styrk sem nemur kr. 6.000.000. Styrknum verður varið til að kanna, kortleggja og skrá hugsanlegar afurðir úr skógum á Suðurlandi, hverjar væru markaðsaðstæður og sölumöguleikar afurða skógarbænda. Á niðurstöðum þeirrar vinnu verður tekin ákvörðun um hvort grundvöllur sé fyrir stofnun rekstrarfélags til að annast afurða-, markaðs- og sölumál skógarafurða.Nú þegar og enn frekar í næstu framtíð fellur til grisjunar- og bolviður sem brýnt er að geta unnið verðmæti úr. Með samstilltu átaki mun skógarbændum á Suðurlandi takast að byggja upp öfluga atvinnugrein. Áformum stjórnvalda um stóraukna skógrækt verður væntanlega fylgt eftir af Skógræktinni sem við munum taka þátt í. Eins er markmiðið um aukna kolefnisbindingu og útfærsla þess nokkuð sem skógarbændur vilja koma að með virkum hætti.Bændur, sem fram til þessa hafa eingöngu verið í hefðbundnum búskap, þarf að hvetja og styrkja til að hefja skóg- og skjólbeltarækt, nýta þannig óræktað land, heppilegt undir skógrækt og notfæra sér markvisst að skóg- og skjólbeltarækt hækkar hitastig umhverfisins til hagsbóta fyrir ræktun og búsmala. Jafnframt þarf að hvetja þá bændur, sem þegar hafa hafið skógrækt, að auka hana. Skógarbændum þarf að standa til boða meiri fræðsla, stutt námskeið og skoðunarferðir. Þeir þurfa aðgang að heimasíðu, þar sem verða allar grunnupplýsingar og upplýsingar um afurða- og markaðsmál. Taka þarf mið af aðstæðum á hverju landsvæði og hverjum ræktunarstað við val á plöntum og nýta til hins ítrasta þá þekkingu, reynslu og eftirfylgni sem þegar er fyrir hendi. Skógarbændur vita að afurðir skógarins eru bæði háðar plöntugæðum og gæðum vinnu þeirra við nýskógrækt og umhirðu skógarins.Markmið skógarbænda á að vera að skógrækt og gæði skógarafurða verði sem mest og best, umhverfisvæn og umhverfismiðuð þannig að landið fái þá umhyggju og örfun sem best má vera. Jafnframt á að vera markmiðið að skógarbændur fái góðar tekjur af skógræktinni, sem verði uppbyggð og skipulögð á hagkvæman hátt.Fyrir hönd skógarbænda vill formaður þakka þeim, sem standa að Uppbyggingarsjóði, fyrir að sýna FsS það traust og tiltrú, sem fylgir þessum samningi. Skógareigendur munu gera sitt til að standa undir því trausti og hafa þá vissu að leiðarljósi, að innan nokkurra ára verði skógariðnaður með öflugri atvinnugreinum á Suðurlandi.Samstarfssamningurinn var því næst undirritaður af Hrafnkatli Guðnasyni, f.h. Uppbyggingarsjóðs, og Maríu E. Ingvadóttur, f.h. Félags skógareigenda á Suðurlandi. Vottar voru Þórður Freyr Sigurðsson hjá SASS og Björn B. Jónsson hjá Skógræktinni.Þórður Freyr Sigurðsson hjá SASS, sviðstjóri þróunarsviðs heldur utan um fjárveitingar til verkefnisins. Hann kvað sóknaráætlun Suðurlands vera byggðaáætlun fyrir uppbyggingarsjóð Suðurlands og þróunarverkefni. Þetta verkefni, sem er í raun stuðningur við heila atvinnugrein á upphafsstigum hennar, er ekki hefðbundið verkefni, heldur sértækt áhersluverkefni og mikilvægt að hafa viðlíkt fyrirtæki sem stefnt er að á svæðinu. Hrafnkell, sem er starfsmaður Háskóla Suðurlands, hefur unnið með Maríu, Birni B. Jónssyni og Þórði við mótun samstarfssamningsins og mun vinna áfram að verkefninu.Björn B. Jónsson lýsti ánægju sinni með þennan mikilvæga dag. Skógræktin sé ný og framsækin stofnun sem tók að fullu til starfa um áramótin. Markmiðið sé að byggja upp samstarf innan skógargeirans til að samhæfa getu á sviði markaðs- og sölumála með áherslu á að tryggja að markaðshlutdeild íslenskrar framleiðslu haldist í takti við aukna framleiðslu timburs og annarra skógarafurða. Skógræktin gegni einkum frumkvæðis- og samræmingarhlutverki á þessu sviði og dragi sig hvorki og snemma né of seint til hlés þegar markaður hefur myndast.Markmið Skógræktarinnar er að efla þekkingu, þróa tækni og aðferðir á allri virðiskeðju skógarafurða, frá skógi til neytenda.Björn er sem starfsmaður Skógræktarinnar ráðinn til að sinna afurða- og markaðsmálum.Með samningnum í dag sé í fyrsta sinn fjármagn til að sinna þeim málum á Suðurlandi.LSE hafi fengið í fyrsta sinn styrk í gegnum Búvörusamninginn til að sinna þessum málaflokki.Stýrihópur um afurða- og markaðsmál á vegum LSE og Skógræktarinnar kom í fyrsta sinn saman 16.2. Ný skýrsla um markaðs- og sölumál á Héraði mun koma öðrum landshlutum að góðu gagni í þeirri greiningarvinnu sem framundan er.Þessa dagana er verið að mæla sunnlenska skóga, ljóst er að vöxtur frá aldamótum hefur verið mun meiri en gert var ráð fyrir. Um 30.000 rúmmetrar af timbri geta orðið til fram til ársins 2030, sem fullunnin vara er það nálægt tveggja milljarða virði.Björn ráðlagði skógarbændum á Suðurlandi að mynda starfshóp sem leggur á ráðin um framhaldið. Jafnframt verði ráðinn hæfur einstaklingur til að taka saman og halda utanum staðreyndir um viðarmagn, viðartegundir, úrvinnslumöguleika og aðra mikilvæga þætti í undirbúningi á timburúrvinnslu.Einnig þarf að fara rækilega yfir kostnað við skógarhögg og útkeyrslu viðar úr skógi. Sá kostnaður þarf að lækka til að skógarbændur telji fjárhagslega eftirsóknarvert að ná í efni inn í skóginn.Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri kveður athugun á skógum á Eyjafjarðarsvæði og á Héraði staðfesta tölur Björns. Umrætt viðarmagn muni að mestu falla til á seinustu 5 árum tímabilsins, vel þarf að vinna núna við skipulagningu.Tvöfalda þarf núverandi upphæð sem varið er til skógræktar, úr 225 milljónum í 500 milljónir, til að ná því fjármagni sem varið var til gróðursetningar fyrir hrun.Síðan koma markaðsmálin. Helstu kaupendur kurls á næstunni, Elkem og Bakkaverksmiðjan, þurfa um 60 þúsund rúmmetra á ári, en langt er í að við getum fullnægt þeim markaði, sem borgar núna bærilega, en gengismál hafa áhrif á verðlagið. Kurlarar eru sérhæfðir miðað við grófleika framleiðslu.Hrönn Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri LSE gladdist yfir styrknum. Nýi stýrihópurinn um afurða- og markaðsmál er skipaður 6 manna teymi, til helminga frá Skógræktinni og LSE.Nokkur umræða var um samstarf við handverksfólk. Margt gott er verið að gera á landsvísu, skapa mikil verðmæti úr litlu viðarmagni. Mikilvægt er að þekkja vel þær viðartegundir sem handverksmenn nota. Björn er byrjaður að lista upp þá aðila sem eru að nýta skóginn að einhverju leiti. Ýmsum finnst kurl ekki fýsileg afurð, unnt væri að nota boli í einfaldar byggingar svo sem grill-eða skoðunarskýli. Leita þurfi til arkitekta og hugmyndasmiða. Þegar hafa verið byggð nokkur hús úr íslensku timbri og hjá LbhÍ hefur þegar verið reiknað út beygju- og burðarþol íslensks viðar.Fundi var slitið um kl. 14. Fundarritari Sigríður Hjartar
Fundur í félagi skógareiganda á Suðurlandihaldinn í Gunnarsholti 23.9. 2017
Fundarefni: Brunavarnir í skógum og tryggingamál.
Fyrirlesarar voru Björn B Jónsson, Pétur Pétursson og Hannes Lentz
María E. Ingvadóttir formaður FsS setti fundinn kl. 10:30 og bauð 21 fundargest velkominn. Hún brýndi fyrir fundarmönnum mikilvægi umræðuefnisins og minnti einnig á mikilvægi þess að mæta vel á landsfund LSE sem haldinn verður á Reykjanesi við Ísafjarðardjúp dagana 13-14.10. Eins minnti hún á tilboð stjórnar um niðurgreiðslu á ferðakostnaði félagsmanna, ókeypis rútufargjaldi og niðurgreiðsu á uppihaldi sem nemur kr. 10.000.-
Erindi Björns B. Jónssonar fjallaði um varnir gegn gróðurbrunum á Íslandi.
Þetta mál hefur verið í alvarlegri skoðun í hartnær 10 ár og haldin nokkur málþing um efnið; í Þrastarlundi með norskum sérfræðingi, í Borgarnesi með bændasamtökum og sveitarstjórnarfólki og lokað málþing í Reykjavík með ýmsum völdum fulltrúum svo sem slökkviliðsstjórum. Árið 2009 kom út ítarlegur bæklingur Brunamálastofnunar, Gróðureldar.
Birni hefur verið falið að leiða frekara starf ásamt fulltrúum mannvirkjastofnunar, félagi skógareigenda o.fl. aðilum og von er á bæklingi um brunavarnir í skógum um áramót.
Hættan á skógabruna er breytileg eftir aldri skógarins. Á nýgróðursettum trjásvæðum er mest hætta á sinubruna, í ógrisjuðum ungskógi er hætt við að tré brenni en eldhætta í uppkvistuðum, þroskuðum skógi er ekki mikil.
Helstu áhrifavaldar eru landslag, jarðvegur, gróður og veðurfar en oftast kviknar í af mannavöldum, eftir því sem umferð um skógarsvæði er meiri eykst eldhættan.
Mest eldhætta er í furuskógum; ungum skógum er hættara en eldri og eins þar sem jarðvegur er grunnur. Eldsmatur er mikill í íslenskum skógum, einkum þar sem gróðursett er í fyrrum landbúnaðarlandi svo sem túnum.
Þar sem greinar barrtrjáa ná alveg niður að jörð er hætta á „krónu-eldi“ og eins þarf að huga vel að skógarjöðrum.
Landslag hefur áhrif á útbreiðsluhraða elds, hann er meiri í bröttum hlíðum en á láglendi, en almennt brennur skógareldur hraðar á láglendi en í fjalllendi. Eldhætta er meiri á daginn og í suðurhlíðum.
Brunahindranir eru vötn, ár og lækir og ógróin svæði eins og melar en einnig stígar og vegir. Einnig má gróðursetja laufskógabelti, einkum úr ösp, á barrskógarsvæðum sem brunahindrun.
Markmið vinnuhóps um brunavarnir í skógrækt er að gerð sé varnaráætlun fyrir svæðin; samræma þarf gögn, aðferðir og kortatákn, og gera þarf kort yfir skógarsvæði aðgengilegt neyðarlínu, þar sem kemur fram vegalagning, gerð og aðgengi vatnsbóla, varnarlínur, mannvirki á svæðinu s.s. byggingar, raflínur, skurðir, girðingar.
Neyðarlína þarf upplýsingar um raunverulegt ástand svæðis frá ári til árs.
Jafnframt þarf að gera framtíðaráætlun um skipulag ræktunarsvæðisins, ræktun og brunavarnir.
Frá Brunavörnum Árnessýslu voru mættir Pétur Pétursson slökkviliðsstjóri og Haukur Grönli varaslökkviliðsstjóri. Í erindi Péturs kom fram hve vel búið er að Brunavörnum Árnessýslu, en stöðin á Selfossi er miðstöð 7 slökkvistöðva sýslunnar. Þar starfa 120 manns, flestir i hlutastarfi. Sveitarstjórnir bera ábyrgð á starfi slökkviliðsstjóra. Yfirmenn eru alltaf á vakt/bakvakt, en á Selfossi eru 4 varðstjórar og um 150 útköll á ári. Þeir hafa yfir að ráða 9 bílum, en nýr dælubíll með búnaði kostar á bilinu 80 – 130 milljónir og getur flutt um 30 tonn af vatni/froðu, en auk þess hafa þeir sérstaka tankbíla.
Pétur nefndi að gróðureldar séu um 90% af mannavöldum, en sem dæmi má nefna að kviknað getur í vegna mannlegra mistaka, frá sígarettum, grillum, vélarbilunum, bílslysum og flugeldum svo eitthvað sé nefnt.
6 stöðvar af 7 hafa kerrur með lausum búnaði, svo sem dælum, flotdælum, slöngum og börkum. Eins eru til sérstök flotsigti fyrir grunn vatnsból. Miklu máli skiptir að dælubúnaður sé léttur og meðfærilegur.
Sértækur búnaður eins og tankar fyrir þyrlur þurfa ákveðið dýpi og ákveðnar aðstæður til að koma að gagni.
Skógarbrunar eru áhættusöm vinna, eldveggur getur ferðast með gönguhraða. Kalla þarf til haugsugur, nærtækar vinnuvélar, jarðýtur, jafnvel plóga ef ryðja þarf skóg. Því eru forvarnir mjög mikilvægar og að brugðið sé strax við áður en slökkvilið kemst á staðinn samhliða því sem tilkynnt er um eldinn.
Samstarf milli Árnes- og Rangárvallasýslu er gott, en ekki mikið æft saman. Innbyrðis aðgangur að tækjum og fræðslu er góður.
Lýst var nauðsyn á skipulegu námskeiðishaldi fyrir skógareigendur og félög sumarbústaðaeigenda varðandi brunavarnir og eldsvoða i gróðri. Brunavarnir Árnessýslu eru ekki með eiginlega viðbragðsáætlun fyrir sumarbústaðasvæði, hvert svæði verður að skipuleggja sig.
Loks ræddi Hannes Lentz brunatryggingar skóga. Engar reglur eru til um tryggingar skógasvæða og þekking íslenskra tryggingafélaga nánast engin. Tryggingafélög þurfa magntölur, upplýsingar um fermetrafjölda, tegund skóga o.fl.
Þessi mál þarf að vinna hratt því skógar vaxa og skógarbændum fjölgar.Tryggingafélög vilja brunavarnakort/áætlun. Góðar brunavarnir ættu að leiða til lægri iðgjalda. Á Norðurlöndunum má fá fordæmi fyrir hvernig staðið er að tryggingamálum skóga. Skógarbændur í Noregi eru með eigið tryggingafélag.
Fyrir nokkrum árum áttu sér stað viðræður milli tryggingafélagsins Sjóvár og Skógræktarfélags Íslands, þær viðræður voru komnar nokkuð áleiðis. Kallað var eftir viðlagatryggingu á skógum en allt sem er brunatryggt er viðlagatryggt. Þessar viðræður runnu síðan út i sandinn.
Það er erfitt að tryggja skóga eftir fasteignamati, en þarna koma líka skattaleg sjónarmið inn og e.t.v. hentar lausafjártrygging betur.
Skógræktin þarf að koma betur að brunavarnaráætlunum, þær ættu að vera skilyrði fyrir nýskógrækt.
Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 12:30.
Fundarritari Sigríður Hjartar