top of page

Stjórnarfundir FsS 2018


4 stjórnarfundur 2018

5. stjórnarfundur FSS​​​​

Stjórnarfundur hjá Félagi skógareigenda á Suðurlandi,

haldinn 8.11. 2018 að Víðihvammi 10, Kópavogi kl. 10:30

Mættir: María E. Ingvadóttir, Bjarnheiður Guðmundsdóttir, Októ Einarsson, Sigríður Hjartar og Sigurður Karl Sigurkarlsson

1.

Að loknum aðalfundi og Landbúnaðarsýningu. Aðalfundur LSE var haldinn á Hótel Stracta á Hellu fyrstu helgina í október. Þar sem hann var haldinn á Suðurlandi bar Félag skógareigenda á Suðurlandi ábyrgð framkvæmd fundarins. Fundinn sóttu um 80 manns og fór hann í alla staði vel fram að lokinni hefðbundinni glímu við hátalarakerfi í upphafi fundar. Að loknum fundarstörfum á laugardag var farið í skógarferð og ræktunin í Ölversholti skoðuð. Veður var vott en viðmót heimamanna í Ölversholti hlýtt og notalegt ekki síður en veitingar á vegum FsS og góðs styrktaraðila. Hátíðardagskráin á laugardagskvöldið fór mjög vel fram. Ungur og upprennandi stórsöngvari, Birgir Stefánsson, söng nokkur lög við undirleik móður sinnar, Katrínar Sigurðardóttur. Þau voru frábær og var þeim klappað lof í lófa.

2. Landbúnaðarsýningin í Laugardalshöll var haldin næstu helgi á eftir, 12.-14. október. LSE var þar með fallegan kynningarbás, þar sem a.m.k. 10 skógareigendur og hagleiksmenn kynntu starfsemina og hversu fjölbreyttar skógarnytjar eru. Flestir sýnendur komu af Suðurlandi, sem eðlilegt er vegna staðsetningar sýningarinnar og stjórn FsS tók virkan þátt í uppsetningu bássins og upplýsingagjöf á staðnum.

3.

Skógræktarlögin. Í mótun eru ný skógræktarlög. Áliti á drögum laganna þarf að skila fyrir 15. nóvember. Á stjórnarfundinum var velt upp ýmsum athugasemdum og samþykkt að skila inn umsögn.

4.

Næstu félagsfundir. Vegna aðalfundar LSE og Landbúnaðarsýningarinnar varð ekki af félagsfundi í október eins og svo oft áður. Stefnt er að því að hafa félagsfund í nóvember og var ýmsum málum sem eru verðug fundarefni velt upp eins og nöfnum fyrirlesara. Nánar verður sagt frá væntanlegum félagsfundi síðar.

5.

Félagsstarfið. Félagsstarfið var til umræðu eins og á flestum stjórnarfundum FsS. Að undanförnu hafa flestir fundir snúist um fræðslu um ákveðin málefni, ekki verið rabbfundir eða skoðanaskiptafundir, þótt félagar hafi alltaf getað komið skoðunum sínum á framfæri, ekki síst á aðalfundum. Stjórnin lýsir eftir röddum félagsmanna. Allar fundargerðir stjórnar eru birtar á heimasíðu LSE skogarbondi.is . Áður sendum við annað veifið fréttabréfið okkar, Skógarpóstinn, til félagsmanna en kostnaður við það var of mikill. Sú spurning hefur vaknað hversu mikið heimasíðan er lesin og þess vegna fengu félagar FsS núna sendan tölvupóst með helstu fréttum af stjórnarfundi og ábendingum á mikilvæg netföng.

6.

Innheimta árgjalda. Innheimtan er undir væntingum þótt eindagi greiðslu sé liðinn. Félagar hafa nefnt háa greiðsluupphæð og að hluti LSE í greiðslunni vegi of þungt. Nokkuð hefur verið um úrsagnir.

Fleira var ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. liðlega 13. Fundarritari Sigríður Hjartar

4 stjórnarfundur 2018

4. stjórnarfundur FSS​​

Stjórnarfundur hjá Félagi skógareigenda á Suðurlandi,

haldinn 19.9. 2018 að Víðihvammi 10, Kópavogi kl. 10

Mættir voru María E. Ingvadóttir formaður, Bjarnheiður Guðmundsdóttir, Hannes Lentz, Októ Einarsson, Sigurður Sigurkarlsson og Sigríður Hjartar.

1

Tilnefna þurfti fulltrúa til stjórnarkjörs Landssambands skógareigenda.

Sigríður Hjartar var tilnefnd til kjörs sem aðalfulltrúi en Októ Einarsson sem varafulltrúi.

2

Samningur umhverfisráðneytis við Skógræktina um gróðursetningu 1.000.000 birkiplantna var ræddur. Hann er fagnaðarefni en vekur um leið upp ýmsar spurningar um tilganginn.

Ljóst er að birki er ekki sú trjátegund, sem gagnast best til kolefnisbindingar. Í grein Arnórs Snorrasonar og Sigríðar Júlíu Brynleifsdóttur, sem birtist í Ársriti Skógræktarinnar 2017 sést að meðalbinding birkis/hektara per ár átonnum koldíoxiðs er við bestu skilyrði 3,4 en til samanburðar er binding alaskaaspar 23,2 sitkagrenis 10,5, stafafuru 9,4, síberíulerkis 7,2 og hægvaxta grenis 4,6 við bestu skilyrði.

Birki virðist hins vegar koma að góðum notum við heftingu sand- og vikurfoks.

Stjórn FsS eins og sjálfsagt allir skógarbændur vonast eftir myndarlegu framlagi ríkisstjórnarinnar til framleiðslu og gróðursetningar trjáplantna með mikla bindigetu koldíoxiðs til að auðvelda íslensku þjóðinni að standa við Parísarsáttmálann.

Eins er mikilvægt að skógrækt heyri undir eitt ráðuneyti, landbúnaðarráðuneytið, en ekki þrjú eins og nú er.

3

Framkvæmdir háðar framkvæmdaleyfi. Sú breyting sem orðið hefur á afgreiðslu framkvæmdaleyfis til nýræktunar skóga virðist síst vera til bóta. Áður var tilkynnt til sveitarstjórnar, sem ræddi málið og samþykkti eða synjaði eftir atvikum en nú þarf að sækja um framkvæmdaleyfi og greiða síðan fyrir, án þess að séð verði að sérstakt vinnuframlag af hálfu sveitarstjórnar sé innt af hendi.

4

Vinnu við Gróðureldabæklinginn er nú lokið og er sú vinna aðstandendum til mikils sóma. Mikilvægt er að efni hans verði rætt á opnum almennum fundum.

5

Undirbúningi rekstrarfélags miðar hægt en örugglega.

6

Aðalfundur LSE verður haldinn á Stracta hóteli á Hellu dagana 5.-7. október. Fundurinn er haldinn á félagssvæði okkar og FsS kemur því að undirbúningi og framvæmd hans. Mikilvægt er að félagsmenn FsS fjölmenni og verði sem sýnilegastir á fundinum. Þátttökutilkynningar þurfa að berast LSE sem allra fyrst, jafnvel þótt fólk ætli ekki að gista.

7

Undirbúningur framkvæmdarinnar er á fullu, búið er að fá fundarstjóra og fundarritara, ákveða skoðunarferð og verið að hnýta alla lausa enda.

8

Útgáfa blaðsins Við skógareigendur a vegum LSE hefur verið sett til hliðar sem stendur. Í stað þess er Bændablaðið opið fyrir greinar frá skógareigendum. Stofnuð hefur verið ritnefnd og okkar fulltrúi í henni er Hildur María Hilmarsdóttir á Spóastöðum, netfang spoi1@simnet.is

Nú þurfa félagsmenn að vera duglegir að skrifa um það sem þeim liggur á hjarta.

9

Jólamarkaður var aftur ræddur. Lítið hefur heyrst frá félagsmönnum og lýsir stjórn FsS eftir viðbrögðum.

10

Landbúnaðarsýningin verður haldin í Laugardalshöll dagana 12.- 14. október. Skógarbændur verða þar með bás, þar sem við getum sýnt skógartengda hluti. Gaman væri að sem flestir taki þar þátt.

Fleira var ekki rætt, fundi slitið kl. 12:30.Fundarritari Sigríður Hjartar

3. stjórnarfundur FSS

4 stjórnarfundur 2018

Stjórnarfundur hjá Félagi skógareigenda á Suðurlandi,

haldinn 15.5. 2018 að Víðihvammi 10, Kópavogi kl. 11

Mættir voru María E. Ingvadóttir formaður, Bjarnheiður Guðmundsdóttir, Hannes Lentz, Októ Einarsson, Sigurður Sigurkarlsson og Sigríður Hjartar.

1

Stjórnin undirritaði formlega aðalfundargerð og þær breytingar á lögum félagsins sem gerðar voru á síðasta aðalfundi.

Nýr stjórnarmaður, Októ Einarsson, var boðinn velkominn til starfa og verkaskipting stjórnar ákveðin óbreytt,Sigríður Hjartar ritari og Bjarnheiður Guðmundsdóttir gjaldkeri.

2

Blað skógarbænda, Við skógareigendur, stendur á nokkrum tímamótum. Vestfirðingar, undir styrkri stjórn Lilju Magnúsdóttur, hafa séð um ritstjórn þess undanfarið. Erfitt hefur verið um öflun auglýsinga og prentun og dreifing eru kostnaðarsöm, en því hefur verið dreift á öll sveitaheimili landsins.Ýmsar hugmyndir voru ræddar um útgáfu blaðsins, m.a. að það komi út sem kálfur við Bændablaðið einu sinni á ári, en hingað til hefur Bændablaðið birt góðfúslega allar greinar frá Félagi skógareigenda. Eins var velt upp öðrum möguleikum á útgáfu blaðsins, en ekki var komist að niðurstöðu um besta kostinn.

3

Aðalfundur LSE verður nú í umsjón Félags skógareigenda á Suðurlandi. Hann verður haldinn á Hótel Stracta á Hellu dagana 5.-7. október. Miklar umræður urðu um ýmis framkvæmdaatriði, svo sem val á fundarstjóra, ritara og hans aðstoðarfólki. Eins var velt upp ýmsum nöfnum vegna vals á fyrirlesurum, skoðunarferð og sitthvað fleira. Félagar á Suðurlandi eru hvattir til að fjölmenna á aðalfundinn.

4

Jólamarkaður hefur áður verið ræddur innan stjórnar FsS. Engar undirtektir hafa heyrst hjá félögum, en sýnt þykir að það þyrfti að vera í tengslum við aðra jólamarkaði á starfssvæði FsS. Vonast er til að félagar láti í sé heyra.

5

Jónsmessan. Fyrirhuguð og árviss Jónsmessuganga verður að Heylæk í Fljótshlíð sunnudagskvöldið 24. júní, sjálfan Jónsmessudaginn. Vonast er eftir góðri þátttöku félagsmanna og ítrekun send út þegar nær dregur.

6

Kolefnismálin eru mikið hagsmunamál skógarbænda og hafa verið til umræðu innan félaga þeirra í mörg ár. Starfandi er kolefnisnefnd innan LSE og mikilvægt að hún láti meira til sín taka. Áhugi ríkisvaldsins á þeim málum virðist vera mjög takmarkaður og verðmætamat vantar. Brýnt er að taka fastar á málum.

Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 13.15.

Sigríður Hjartar fundarritari.

2 stjórnarfundur 2018

2 . stjórnarfundur FSS​​

Stjórnarfundur hjá Félagi skógareigenda á Suðurlandi,

haldinn 22.3. 2018 að Víðihvammi 10, Kópavogi kl. 15.30

Mættir:

María E. Ingvadóttir, Sigríður Hjartar og Sigurður Sigurkarlsson,

Sigríður Heiðmundsdóttir símleiðis.

Bjarnheiður Guðmundsdóttir og Hannes Lentz tilkynntu forföll.

Ákveðið hefur verið að halda aðalfund félagsins að Reykjum í Ölfusi laugardaginn 21.4. kl. 11.

Formlegt fundarboð hefur verið sent út, þar sem dagskrá er útlistuð.

24. Jónsmessuganga félagsins verður farin sunnudagskvöldið 24.6., á sjálfri Jónsmessunni.

Sigurður Haraldsson skógarbóndi á Heylæk í Fljótshlíð hefur samþykkt að taka á móti FsS og leiða okkur um ræktunina á Heylæk sem er orðin mjög mikil vöxtum. Nánar verður tilkynnt um Jónsmessugönguna síðar.

Samráðsfundur Skógræktarinnar var haldinn á Mógilsá í byrjun mars þar sem farið var yfir stöðuna. Áhugavert væri að ræða frekar verksvið LSE og hinna einstöku félaga skógarbænda annars vegar og Skógræktarinnar hins vegar á næsta samráðsfundi.

Aðeins eru nu tveir stórir framleiðendur skógarplantna, efast má um að raunhæf samkeppni sé á þeim markaði.

Það vekur athygli hvesu hátt hutfall framlags ríkisins til Skógræktarinnar fer í rekstur stofnunarinnar og þar með fer minna til plöntukaupa sem leiðir til færri nýrra samninga og seinkunar á að staðið sé við þegar gerða samninga við skógarbændur.

Aðalfundur Nýsköpunarmiðstöðvarinnar var haldinn nýlega og sat formaður FsS fundinn. Þetta var góður og fróðlegur fundur og gefur fyrirheit um góða samvinnu.

Formaðurinn og Ingvar Pétur áttu góðan fund með SASS mönnum, vegna loka samstarfssamningsins og ákveðin var frekari samvinna.

Trygginganefnd FsS er að störfum og hefur miðað nokkuð, þótt lokamarki sé ekki náð.

Aðalfundi Landsambands landeigenda er nýlokið. Landeigendur eru á mörgum sviðum að beita sér fyrir sömu málum og skógareigendur og spurning er hvort ekki ætti að koma á meira sambandi. Örn Bergsson sem verið hefur formaður félagsins frá stofnun lét af störfum eftir 10 ára starf, en við tók Óskar Magnússon.

Félagsfundur verður haldinn 7. apríl, staður og stund verða auglýst á næstu dögum. Erfitt er að takmarka sig við eitt ákveðið umræðuefni því af nógu er að taka. Bæklingurinn um brunavarnir mun vera tilbúinn og hann er örugglega stútfullur af fróðleik. LbhÍ hyggur á námskeiðishald um efnið í haust. Aðgerðir sveitarfélaga í brunavörnum skipta alla landeigendur máli, en skógareigendur þurfa að huga séstaklega að eigin vörnum. Fleira brennur á okkur gagnvart sveitarfélögunum eins og hvort þau hafi skógræktaráætlanir og sitthvað fleira mætti tína til.

Skordýr í skógi eru líka eitt vinsælasta umræðuefni skógareigenda a..m.k. að sumarlagi, gaman væri að heyra eitthvað um það. Unnið er að undirbúningi að stofnun rekstrarfélags, í framhaldi af fundinum í Þingborg í byrjun jólaföstu. Sú vinna gengur vel, ekki er kominn tími á stofnfundinn, en væntanlega er ekki langt í hann.

Fundi slitið kl 16.45.

fundarritari Sigríður Hjartar

1 stjórnarfundur 2018

1. Stjórnarfundur ​​

Stjórnarfundur hjá Félagi skógareigenda á Suðurlandi,

haldinn 29.01. 2018 að Víðihvammi 10, Kópavogi kl. 10:00

Mættir:

María E. Ingvadóttir,

Bjarnheiður Guðmundsdóttir,

Hannes Lentz,

Sigríður Hjartar,

Sigurður Sigurkarlsson.

Sigríður Heiðmundsdóttir tilkynnti forföll vegna anna.

Áður en gengið var til boðaðrar dagskrár var farið yfir félagatal og innheimtu árgjalda.

Samkvæmt félagaskrá eru 235 aðilar skráðir í Félag skógareigenda á Suðurlandi. Félagar eru hvattir til að tilkynna breytingar sem kunna að verða á netföngum o.þ.h. en dálítil brögð eru á því að það gleymist. Skil á árgjöldum eru góð en nokkrir hafa þó dregið að gera upp eldri árgjöld. Haft verður samband við þá og vonast stjórnin eftir skjótum viðbrögðum.

Á þessum fyrsta fundi stjórnar á nýju ári voru nokkur föst atriði sem tekin voru fyrir.

1

Aðalfundur. Þessi fundur hefur oftast verið haldinn um miðjan maí sem hefur mælst misjafnlega fyrir, því var ákveðið að boða til aðalfundar laugardaginn 21. apríl kl. 11.

Fundarstaður hefur ekki verið ákveðinn, en leitast verður við að hafa hann miðsvæðis.

Dagskrá aðalfundar er að venju nokkuð hefðbundin. Nokkur breyting er fyrirsjáanleg á skipan stjórnar en hafa ber í huga að fólk í aðalstjórn er kosið til þriggja ára í senn, en varamenn eru kosnir árlega.

Lagabreytinga er þörf að þessu sinni, þar sem breyting hefur orðið á skipan skógræktarmála.

Hafi félagar tillögur til breytinga á lögum félagsins þarf að koma þeim til stjórnar FsS fyrir 1.3. Tillögur til lagabreytinga skal senda út með boðun aðalfundar. Lög FsS má sjá á www.skogarbondi.is .

2

Jónsmessuganga er fastur viðburður og hefur verið blásið til hennar nær árvisst frá stofnun félagsins 1992. Jónsmessan 24. júní er að þessu sinni á sunnudegi og það er sá dagur sem stjórnin horfir til og biður félaga að taka frá. Staður og stund verða tilkynnt síðar.

3

Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, LSE. Nú er komin röðin að Félagi skógareigenda á Suðurlandi að halda aðalfundinn, sem er haldinn til skiptis af landshlutafélögum skógarbænda. Fundarstaður verður á Hótel Stracta á Hellu og fundardagar dagana 5. til 7. október. Stjórnin hvetur félaga til að fjölmenna á fundinn og rétta hjálparhönd við undirbúning. Bréf til allra skógarbænda þar sem koma fram upplýsingar um skráningu, kostnað o.fl. verður sent félögum þegar nær dregur.

4

Brunavarnir. Stjórnarmennirnir Hannes Lentz og Sigurður Karl Sigurkarlsson hafa verið að kanna tryggingamál skógareigenda, skoða grunn og markmið. Nokkrar lykilupplýsingar vantar enn áður en tryggingafélög geta tekið afstöðu til þessara mála.

Nýr bæklingur um brunavarnir er í burðarliðnum. Stjórnin horfir til félagsfundar 7. apríl þar sem vonandi verður unnt að kynna bæklinginn. Staður og stund kynnt síðar.

Félagsmenn eru beðnir að taka frá dagana 7.4., 21.4., 24.6. og 5.-7.10.

Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 12.30.

Fundarritari Sigríður Hjartar

bottom of page