Aðalfundur 2020
Aðalfundur Félags skógareigenda á Suðurlandi 2020, haldinn fimmtudaginn 11.júní að Reykjum í Ölfusi
Formaður félagsins, María E. Ingvadóttir setti 29. aðalfund Félags skógareigenda á Suðurlandi l 17:00 og bauð fundarmenn velkomna.
1.
Embættismenn fundarins voru María E. Ingvadóttir, sem stjórnaði fundi og Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir sem ritaði fundargerð.
2.
Formaður flutti skýrslu stjórnar fyrir starfsárið 2019-2020 og er hún hér skráð orðrétt:
Á starfsárinu voru haldnir 6 stjórnarfundir, en eins og áður, eru fundargerðir á heimasíðunni okkar, skogarbondi.is, ásamt frásögnum af félagsfundum.
Starfsárið hófst á Jónsmessu, að þessu sinni var efnt til fjölbreyttari fjölskylduhátíðar, skógarhátíðar, á Snæfoksstöðum í samstarfi við Skógræktarfélag Árnesinga.
Ýmis skemmtan var í boði. Svo að eitthvað sé nefnt, leiðbeindi Ólafur Oddsson við tálgun í tré,Magnús á Flúðum sýndi tálguðu munina sína og fuglarnir hans Úlla á Selfossi voru á sínum stað.Farið var í leiki, Hrönn bauð upp á lummur og kaffi, kvenfélagskonur seldu kökur, farið í skoðunarferðir um skóginn og svo auðvitað grillað.Þátttaka var góð og dagurinn ánægjulegur.
Ákveðið var að brydda upp á þeirri nýjung að halda félagsfund í Guðmundarlundi í Kópavogi, þann 9. nóvember.Félagsmenn áttu ekki erindi í kaupstaðinn þann daginn, mæting var dræm, en fundurinn mjög skemmtilegur.Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir, dóttir Guðmundar H. Jónssonar, sem hóf skógrækt á þessu svæði um 1970, rakti sögu Guðmundarlundar og deildi með okkur skemmtilegum minningum sínum um gróðursetningarferðir í Guðmundarlund.Skógræktarfélag Kópavogs fékk Guðmundarlund að gjöf 1997, frá Guðmundi H. Jónssyni og fjölskyldu hans og hefur haldið áfram myndarlegri uppbyggingu þar.
Á síðasta aðalfundi félagsins, sagði ég frá áhuga okkar á að stofna til leshringa, með svipuðu sniði og Kraftmeiri skóga leshringirnir voru.Ætlunin var að vinna þetta með skógræktarfélögum á hverju svæði.Jú, þar var áhugi, en það var okkar að leiða þetta starf og skipuleggja og það gafst ekki alveg tími í það.Hugmyndin er hins vegar áhugaverð og gaman ef næðist samstarf um þetta verkefni.
Þann 6. mars var boðið í heimsókn í verksmiðjuna Límtré Vírnet á Flúðum.Það var vel mætt og mjög áhugavert að sjá og heyra um starfsemina þar.Þeir eru allir af vilja gerðir til að vinna með okkur skógarbændum og eru að gera tilraunir með að vinna límtrésbita úr nokkrum íslenskum trjátegundum.Síðan var haldið í Efra-Sel og málin rædd og snæddur kvöldverður.Þar kynnti Bjarnheiður, ritari félagsins, skoðanakönnun, sem send yrði félagsmönnum, en við höfðum áhuga á að vita, hvað félagsmönnum þætti um félagsstarfið og hvað mætti gera öðruvísi eða betur fara.Bjarnheiður mun kynna niðurstöður hér á eftir.Í mars á síðasta ári var send inn umsögn til umhverfis- og auðlindaráðuneytis, vegna breytinga á lögum um náttúruvernd og í janúar síðastliðnum, umsögn um Landsáætlun í skógrækt.
Haldinn var fundur á Selfossi, í fyrradag, þar sem rædd var staða afurðaverkefnisins okkar og næstu skref rædd.Fyrir þau ykkar sem ekki voru þar, var farið yfir gang mála.Eins og áður hefur komið fram, er vinnsla grisjunarviðar varla nógu umfangsmikil til að byrja með, til að starfa ein og sér, en mjög álitleg með annarri starfsemi.Þess vegna var það skoðað að kaupa Garðyrkjustöðina Kvista, sem er önnur af stærstu plöntuframleiðendum landsins.Þetta er vel rekin stöð og myndarlega og faglega staðið að trjáplöntu framleiðslunni.Þar eru góðir möguleikar á að koma uppaðstöðu til að kurla og hefja aðra vinnslu úr afurðum skóganna á Suðurlandi. Tveir góðir fjárfestar ætluðu að koma að því að bjóða í Kvista, en einnig var reiknað með að skógarbændur tækju þátt í að fjármagna verkefnið.Þessir fjárfestar hættu við, vegna breyttra forsendna.Þannig að nú er leitað nýrra og þá einnig horft til skógarbænda.
Eigendur Kvista hafa ákveðið að, ef stöðin ekki selst, munu þeir loka Kvistum, hætta starfsemi, þegar afhentar hafa verið þær plöntur, sem samið hefur verið um.
Það er auðvitað afleit staða og áhyggjuefni, þegar markmiðið er að efla skógrækt í landinu og þar með framleiðsluna.
Næsta skref hjá okkur, undirbúningsnefndinni, er að funda með eigendum Kvista, sá fundur er í fyrramálið.
Vonandi verður fljótlega boðað til nýs fundar með skógarbændum, um þetta verkefni.
Annað sem ég vildi nefna, er sú staða sem upp er komin hjá Garðyrkjuskólanum hér á Reykjum.Framleiðendur skógarplantna eru flestir garðyrkjufræðingar.Skólinn hefur verið rekinn myndarlega og faglega, þrátt fyrir mismikinn skilning þeirra sem farameð yfirstjórn skólans.Ég veit ekki hvernig best er að verja starfsemi skólans og faglega uppbyggingu, en eitthvað þarf að gera. Þessi skóli þarf að fá byr í vængina.
Ég hef verið formaður félagsins í 10 ár og kominn tími til að nýtt fólk taki við.Þessi ár hafa verið ánægjuleg.Mitt markmið var að vinna að því að gera félagið enn öflugra, félag sem stæði vörð um hagsmuni skógarbænda, miðlaði fróðleik og upplýsingum sem kæmu skógræktendum að gagni.Ég get ekki metið árangurinn, en held þó að eitthvað hafi þokast í rétta átt.Með mér hefur starfað öflugt og gott fólk, öll þessi ár og færi ég þeim góðar þakkir fyrir, bæði fyrir samstarfið, en einnig fyrir góðan vinarhug.
Nýrri stjórn óska ég velfarnaðar og veit að verkefnin verða margvísleg.
María E. Ingvadóttir
3.
Gjaldkeri, Októ Einarsson, kynnti ársreikning félagsins fyrir 2019. Leitað var eftir athugasemdum við skýrslu formanns og ársreikning. Skýrslan og ársreikningur voru samþykkt samhljóða.
4.
Kosning stjórnar, skoðunarmanna og fulltrúa FsS í LSE.
Kosið er í aðalstjórn til þriggja ára í senn, en í varastjórn til eins árs. Á síðasta ári var stjórnin þannig skipuð: formaður María E. Ingvadóttir; ritari Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir; gjaldkeri Októ Einarsson. Hrönn Guðmundsdóttir og Sigurður Karl Sigurkarlsson voru kjörin meðstjórnendur á ársfundi FsS 2019, en Hannes Lentz og Sigríður Jóna Sigurfinnsdóttir voru kjörin í varastjórn. Hrönn óskaði eftir því að skipta um sæti við Hannes og var það fyrirkomulag haft út árið.
María hefur verið formaður í áratug og gefur ekki kost á sér til endurkjörs. Bjarnheiður hefur verið gjaldkeri í 2 ár og ritari í 1 ár og gefur ekki kost á sér til endurkjörs. Októ hefur verið meðstjórnandi í eitt ár og gjaldkeri í eitt ár, hann gefur ekki kost á sér til endurkjörs. Hannes Lentz og Sigurður Karl Sigurkarlsson gáfu ekki kost á sér til endurkjörs.
Skoðunarmenn reikninga hafa um árabil verið Ragnar G. lngimarsson og Halldór Elís
Guðnason. Þeir gáfu kost á sér áfram og voru samhljóða endurkjörnir.
Björn Bjarndal Jónsson hefur verið fulltrúi FsS í stjórn LSE. Hann gefur kost á sér áfram og var það einróma samþykkt.
Björn Bjarndal Jónsson bauð sig fram í embætti formanns og var kjörinn einróma.
Eftirtaldir buðu sig fram í aðalstjórn: Hrönn Guðmundsdóttir, Ísólfur Gylfi Pálmason, Sigríður Jóna Sigurfinnsdóttir og Sólveig Pálsdóttir. Agnes Geirdal, Rafn A. Sigurðsson og Þórarinn Þorfinnsson samþykktu framboð í varastjórn. Bæði aðal- og varastjórn var samhljóða kjörin.
Að kosningum loknum fór Björn í pontu og þakkaði fyrir traustið sem fundarmenn sýndu nýrri stjórn með einróma kjöri og þakkaði fráfarandi stjórn fyrir vel unnin störf.
5.
Árgjald var kr. 10.000 á síðasta ári. Af því fóru kr. 6.500 til Landssamtakanna. Samþykkt var að árgjald yrði áfram 10.000 kr.
Önnur mál.
Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir sagði frá viðhorfskönnun sem gerð var meðal félagsmanna FsS. Könnunin var prufukeyrð á félagsfundi sem haldinn var á Efra- Seli í Hrunamannahreppi 6. mars 2020. Niðurstaðan lofaði góðu og ákveðið var að senda könnunina rafrænt til allra skráðra félaga í FsS. Þrátt fyrir ítrekanir náðist aðeins 21% svarhlutfall, svo niðurstöður könnunarinnar eru ómarktækar. Svörin sem bárust verða kynnt nýrri stjórn, en öll svör eru órekjanleg.
Hlynur Gauti Sigurðsson, framkvæmdastjóri, LSE fjallaði um það helsta sem er á döfinni á þeim vettvangi.
Hann kynnti stjórn LSE en í henni eiga sæti fulltrúar allra fimm aðildarfélaga samtakanna. Stjórnina skipa: Jóhann Gísli Jóhannsson, FsA, formaður; Sigrún Hrönn Þorsteinsdóttir, FsN, varaformaður; Guðmundur Rúnar Vífilsson, FsV, gjaldkeri; Björn Bjarndal Jónsson, FsS, ritari; og Naomi Bos, FsVfj, meðstjórnandi. Hlynur fjallaði um vefsíðu samtakanna http://skogarbondi.is/ . Það þarf að efla ýmsa þætti á henni og er uppfærsla síðunnar í vinnslu.
Köngull er þáttur LSE í Hlaðvarpi Bændasamtakanna. Erindinu Slagur út í loftið var útvarpað 23. desember 2019 (https://podtail.com/en/podcast/hla-an-hla-varp-baendabla-sins/kongull-thattur-landssamtaka-skogareigenda-1-slagu/).
Unnið er að gerð vefsins http://skogartolur.is/ og stefnan er að skógarbændur fái aðgang að síðunni.
Hlynur sagði frá útgáfu á skógartengdu efni. Hann sagði að vel gengi að fá birt efni í Bændablaðinu og skógartengt efni sem þar birtist er gefið út í sérritinu Skógareigendur sem er sent til allra félagsmanna LSE. Hann benti einnig á gagnlegt efni og skýrslur á vef Skógræktarinnar https://www.skogur.is/ .
Hlynur sagði fjárhagsstöðu LSE vera góða. Hann sagði frá eftirfarandi atburðum sem nú eru framundan hjá LSE: Skógargöngur aðildarfélaga, FsS er með skógargöngu að Núpum í Ölfusi 21. júní kl 19; Fagráðstefna skógræktar verður haldin 14. október 2020; Hópferð verður farin á sýninguna Elmia skógarsýningin í Smálöndunum í Svíþjóð hefst 18. maí 2021; Landbúnaðarsýning 8. okt. 2021.
Að lokum hvatti Hlynur skógarbændur til að vera duglega að minna á sig og upplýsa þingmenn um skógrækt og þarfir greinarinna.
Hannes Lentz spurði fundinn hvaða áhrif það hefði á stöðu skógræktar, ef Kvistir hætta trjáplöntuframleiðslu næsta haust eins og fyrirhugað er. María svaraði því að ekkert væri fast í hendi sem gæti fyllt það skarð. Bjarnheiður spurði hvort innflutningur á trjáplöntum kæmi til greina. María svaraði að það væri óvíst. María sagði að enn væri unnið að því af fullum krafti að finna fjárfesta fyrir Kvista.
María spurði Hlyn hvernig útreikningum á kolefnisbindingu í skógi verði háttað. Hann sagði að mælingar á bindingu skóga yrðu gerðar með úttekt á skógi.
Sigurður Jónsson kvað sér hljóðs. Hann óskaði félaginu til hamingju með nýju stjórnina og sagði síðan frá því að hann hefði keypt sér öflugan kurlara. Hann býður fram kurl og þjónustu við kurlun.
Björn Bjarndal Jónson ítrekaði þakkir sínar fyrir það traust sem honum var sýnt með kosningu og til fráfarandi stjórnar fyrir unnin störf. Hann sagðist vona að unnt yrði að endurtaka viðhorfskönnunina sem kynnt var á félagsfundi 6. mars s.l. Hann minntist á fækkun félagsmanna og lagði áherslu á mikilvægi þess að snúa þeirri þróun við.
Bjarnheiður þakkaði meðstjórnendum fyrir gefandi samstarf. Hún þakkaði síðan Maríu f.h. meðstjórnenda fyrir óeigingjarna og mikla vinnu í þágu eflingar skógræktar og hagsmunagæslu fyrir skógarbændur. Þessum þökkum fylgdi blómvöndur og boð um málsverð á veitingastað.
Dagskránni lauk um kl 18:30. Fundarmenn voru 35.
Fundargerð ritaði Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir
Aðalfundur 2019
Aðalfundur Félags skógareigenda á Suðurlandi, laugardaginn 6. apríl, 2019
haldinn að Gunnarsholti.
Formaður félagsins, María E. Ingvadóttir setti 28. aðalfund Félags skógareigenda á Suðurlandi kl. 11 og bauð fundarmenn velkomna.
Gengið var til dagskrár.
1.
Tilnefning embættismanna fundarins. Stungið var uppá Hannesi Lentz sem fundarstjóra og Sigríði Hjartar sem fundarritara og var það samþykkt.
2.
Formaður flutti skýrslu stjórnar fyrir starfsárið 2018 og fylgir hún hér með óstytt:
Á heimasíðu okkar, skogarbondi.is, eru allar fundargerðir stjórnar og frásagnir af félagsfundum, þannig að líklega verður nokkuð um endurtekningar hjá mér, ég reikna með að þið lesið vandlega og reglulega allt sem fer á þessa ágætu síðu. Einnig vil ég benda þeim á sem ekki vita, að fésbókarsíðan trjáræktarklúbburinn er mjög fróðleg, og jafnvel hægt að leita þar ráða og þar eru góð skoðanaskipti varðandi ýmis vandamál, en líka um góðan árangur. Og ekki má gleyma vefsíðu Skógræktarinnar, skogur.is.
Eins og áður, hófst starfsárið á Jónsmessu, en farið var í Fljótshlíðina, í Heylæk til Sigurðar Haraldssonar og Elínar Snorradóttur. Veðurstofan spáði óveðri og ráðlagði fólki að halda sér heima við. Milli 20 og 30 manns, létu veðurspár ekki á sig fá og mættu í Heylæk. Í Heylæk er alvöru skógur og myndarlega staðið að öllu, það fengum við að sjá, en vegna veðurs var göngutúrinn í styttra lagi. Við borðuðum saman og áttum góða stund í skemmunni í Heylæk.
Stjórnarfundir frá aðalfundi 2018 til ársloka voru 3 og aðrir 3 hafa þeir verið sem af er þessu ári. Strax síðasta vor, var farið að huga að undirbúningi aðalfundar LSE, sem að þessu sinni var haldinn á Suðurlandi og í okkar umsjón. Fundurinn var á Hótel Stracta, helgina 5. til 6. október. Allt gekk upp og fundurinn ágætur, málefnalegur og ræðumenn hver öðrum áhugaverðari. Hátíðardagskráin gekk vel, ungur söngvari, Birgir Stefánsson, gladdi hátíðargesti með söng sínum og móðir hans Katrín Sigurðardóttir, lék undir. Nota bene, hún er Húsvíkingur.
Hefðbundin skógarferð laugardagsins, var að þessu sinni í Ölversholt, þar sem er vaxinn upp myndarlegur skógur. Eigendur tóku vel á móti okkur og heimsóknin mjög ánægjuleg.
Annað sem tók tímann sinn, samhliða aðalfundarundirbúningi, var Landbúnaðarsýningin í Laugardalshöll, dagana 12. til 14. október. Þar voru skógarbændur með myndarlegan bás, sem tókst vel í alla staði, enda aðsóknin mjög góð og margir sem lýstu ánægju sinni með framtakið. Það er á engan hallað, þótt ég segi, að ásamt þeim Bjarka í Skógarafurðum og Hlyni Gauta frá LSE, áttum við skógarbændur á Suðurlandi, stærstan þátt í að vel tókst til. Það var mikil vinna að setja upp básinn, taka hann niður og standa vaktir þessa helgi. Frá Suðurlandi sýndum við reyniviðarhúsgögnin frá Múlakoti, taflmennina hans Halldórs í Efra-Seli, skífurnar hans Guðmundar á Flúðum, fuglana hans Úlla á Selfossi, lerkistólinn með gærunni og brettin, hennar Steinunnar, asparviðarborðin frá Sigurði í Ásgerði og síðast en ekki síst, sýndi Agnes galdra hunangsframleiðslunnar. Ég tel mikilvægt að skógarbændur taki framvegis þátt í þessari sýningu.
Á stjórnarfundum, er reglulega rætt um það, hvernig efla megi félagsstarfið. Fyrir utan heimasíðurnar sem áður voru nefndar, þar sem félagsmenn geta séð fundargerðir og þannig fylgst með umræðum og bollaleggingum um það, hverju helst þurfi að sinna, þá eru það fræðandi félagsfundir sem bestir eru taldir til að kalla fólk saman til skrafs og ráðagerða. Þó að þar sé ákveðin dagskrá, gefst félagsmönnum tækifæri til að taka til máls og viðra skoðanir sínar og koma með nýjar hugmyndir. Það þarf að fylgjast vel með því, þegar yngri kynslóðin tekur við skógarjörð, eða nýir skógarbændur bætast í hópinn, að bjóða fólk velkomið í félagið. Einnig, þegar bændur í hefðbundnum búskap, taka til við skógrækt, að þeir finni sig velkomna í okkar hópi.
Í nokkur ár, höfum við fylgst með undirbúningi og vinnu við gerð gróðureldabæklingsins, Björn B. Jónsson hefur haldið okkur upplýstum um þessa vinnu. Fyrir nokkrum árum héldum við félagsfund í Efra-Seli, þar sem okkur voru kynnt tæki og tól, til að berjast við gróðurelda, við héldum einnig félagsfund með Birni og Brunavörnum Árnessýslu og nú er bæklingurinn kominn út, Gróðureldar, forvarnir og fyrstu viðbröð. Þið hafið mörg hver séð þennan bækling, en fyrir þá sem hafi ekki fengið hann, þá liggur hann hér frami. Á vefslóðinnni grodureldar.is er bæklingurinn útfærður frekar og þar eru einnig aðrar nytsamar upplýsingar. Ég ráðlegg ykkur, að fara inn á þessa heimasíðu og lesa vandlega allt sem þar er. Við vonum það besta, en búum okkur undir hið versta. Það getum við gert á ódýran hátt, með útsjónarsemi og fyrirhyggju í fararbroddi. Í framhaldi af útkomu gróðureldabæklingsins var haldið námskeið á Reykjum, það var vel sótt og mjög gagnlegt og verða þau væntanlega fleiri á Suðurlandi.
Í gangi er vinnuhópur, sem er að kynna sér reglur og kröfur sem liggja að baki viðurkenndum stöðlum og gæðamerkingum á timbri. Við skógarbændur erum að rækta tré, sem verða timbur einn daginn og það timbur á helst að fara í hæsta gæðaflokk. Til að svo megi verða, verður að hirða um trén með réttum hætti, snyrting og uppkvistun er vandaverk og ekki viljum við spilla fyrir gæðaflokkun í náinni framtíð. Hlynur Gauti mun fræða okkur um helstu atriði umhirðu hér á eftir, en fljótlega verður haldið námskeið á Reykjum um þetta mikilvæga verkefni. Ég vona að staðlahópurinn geti sem fyrst frætt okkur um þær vinnureglur sem við þurfum að tileinka okkur við umhirðu skóganna.
Á starfsárinu var nokkuð rætt um breyttar girðingareglur Skógræktarinnar og við hvaða vísitölu ætti að miða hækkanir á töxtum ársins. Haldnir voru samráðsfundir á Mógilsá. Við sendum inn athugasemdir við framlögð drög. Aðallega var tekist á um, við hvaða vísitölur ætti að miða hækkanir. Taxtarnir eru á heimasíðunni, skogarbondi.is. Verið var að velta fyrir sér, hvenær ætti að greiða fyrir nýjar girðingar og hvenær fyrir viðhald á þeim. Það eru ekki til nægir peningar til að gera allt, það er, að girða öll samningssvæði, áður en gróðursett er, en geta svo ekki gróðursett í svæðið, þar sem ekki eru til plöntur. Í stað þess sem nú er, að greiða fast árlega fyrir viðhald á girðingum, að greiða eftir framlögðum reikningum. Núverandi fyrirkomulag er þannig að greitt er hlutfallslega fyrir girðingar og viðhald þeirra. Ef ég man rétt, var vinnuþáttur bóndans metinn inn í þann taxta á sínum tíma. Það þarf að kanna frekar hvað Skógræktin hugsar sér, með nýju fyrirkomulagi. Er þá vinnan við viðhald girðinga ekki greidd, nema þegar um er að ræða aðkeypta verktaka. Eða á bóndinn að gefa út reikninga á sjálfan sig. Skógræktin hefur örugglega hugsað þetta til enda.
Loftslagsmál og skipulagning skógræktar voru á dagskrá félagsfundar síðastliðið vor hér í Gunnarsholti. Þar héldu mjög góð erindi, Árni Bragason og Anton Kári Halldórsson. Unnur Brá Konráðsdóttir, fulltrúi ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum, kom á stjórnarfund í janúar síðastliðnum og fræddi okkur um hvað væri framundan, varðandi viðurkenningu á bindingu og vottun og hvernig haldið verður utan um kolefnisbókhaldið. Það er stefnt að því að halda með henni félagsfund, um leið og meira kjöt verður komið á loftslags- og bindingarbeinin.
Þar sem Skógræktin hefur boðað það, að færri trjátegundum verður úthlutað, fengum við Aðalstein Sigurgeirsson á félagsfund í febrúar, til að fræða okkur um, hvaða tegundir vænlegast væri að við reyndum að framleiða sjálf og hvernig best væri að bera sig að. Vel tókst til, vona ég að sem flestir reyna að koma til fleiri trjátegundum, þó ekki nema til að gera skógana okkar aðeins fjölbreyttari á litinn og kannski blómlegri.
Það hafa nokkur frumvörp, sem okkur varða, litið dagsins ljós á starfsárinu og höfum við reynt að bregðast við þeim og senda inn athugasemdir. Nefna má frumvarp um skóga og skógrækt og svo breytingartillögu við náttúruverndarfrumvarpið. Ég sagði bregðast við. Það er nauðsynlegt að fylgjast vel með hvað þeir eru að sýsla við, ráðherrar og þingheimur. Skógar og skógrækt er enn til umræðu á þinginu, breytingar á náttúruverndarlögum eru á leiðinni í umræðu. Svo virðist sem að það eigi að snara báðum þessum málum í gegn fyrir vorið. Ég hvet ykkur til að kynna ykkur þessi mál á vef Alþingis, breytingartillögur á náttúruverndarlögum eru undarlegar, svo að ekki sé meira sagt. Þar er mjög vegið að umráðarétti og eignarrétti landeigenda, sem eru jú aðallega bændur, þar með taldir skógarbændur.
Stefnt er að því að halda upp á Jónsmessuna á Snæfoksstöðum, í samvinnu við Böðvar og Skógræktarfélag Árnesinga. Ætlunin er að hafa Jónsmessuhátíðina veglegri en áður, kannski vísir að skógardegi með stórum staf. Ýmsar hugmyndir um dagskrá eru komnar á blað, en ekkert ákveðið ennþá.
Í ár eru 30 ár frá því að Bændaskógrækt byrjaði á Suðurlandi og voru það frumkvöðlarnir í Hrosshaga, á Spóastöðum og á Galtalæk sem vöktu á því athygli við Björn. Við höfum rætt það aðeins, hvernig mætti halda upp á þessi tímamót, það mun einnig skýrast síðar. Orð Siggu Jónu gáfu eiginlega tóninn, „Hvað hefur gerst í 30 ár.“
Ég hef hlaupið hér yfir það helsta.
Ég þakka meðstjórnendum mínum fyrir mjög gott samstarf á starfsárinu, bæði aðalstjórn og varastjórn, einnig eru skoðunarmönnum færðar bestu þakkir. Þá ber að þakka framkvæmdastjóra Landssamtakanna, Hlyni Gauta Sigurðssyni og starfsmönnum Skógræktarinnar fyrir samstarfið.
Síðast en ekki síst, viljum við þakka Sigríði Hjartar fyrir samstarfið öll þessi ár. Ritarastarfið er nákvæmnis- og vandaverk, en eins og sjá má við lestur fundagerða, var ekki kastað til höndum við fundaritun. Við lestur fundagerðanna, sérstaklega félagsfundanna, gladdist ég mjög og það kom mér reyndar stundum á óvart, hvað þessir fundir okkar voru málefnalegir, umræður einstaklega gagnlegar og bráðskemmtilegar.
Við færum Sigríði litla gjöf sem þakklætisvott, fyrir langt og gott samstarf.
3.
Gjaldkeri, Bjarnheiður Guðmundsdóttir, kynnti ársreikning félagsins fyrir 2018.
Leitað var eftir fyrirspurnum og athugasemdum við skýrslu formanns og ársreikning, vakin var athygli á lágum vöxtum bankareiknings. Skýrslan og ársreikningur voru samþykkt samhljóða.
4.
Kosning stjórnar. Kosið er í aðalstjórn til þriggja ára í senn, en í varastjórn til eins árs.
Á síðasta starfsári var stjórnin þannig skipuð: formaður María E. Ingvadóttir, ritari Sigríður Hjartar, gjaldkeri Bjarnheiður Guðmundsdóttir, meðstjórnendur Októ Einarsson og Sigurður Karl Sigurkarlsson.
Í varastjórn voru Hannes Lentz, Sigríður Heiðmundsdóttir og Hildur María Hilmarsdóttir.
Formaður hafði gegnt því starfi í 3 kjörtímabil, en gaf kost á því að sitja áfram. Sigríður Hjartar hafði sömuleiðis setið í aðalstjórn þar sem hún gegndi starfi ritara. Hún gaf ekki kost á sér í aðalstjórn.
Agnes Geirdal gafeinnig kost á sér sem formaður.
Gengið var til skriflegra kosninga og hlaut María 24 atkvæði í formannssætið en Agnes 17, einn seðill var auður.
Ísólfur Gylfi Pálmason gaf kost á sér til setu í aðalstjórn og sama gerði Hrönn Guðmundsdóttir.
Áður en til kosningar kom, dróg Ísólfur Gylfi framboð sitt til baka. Hrönn var því sjálfkjörin í aðalstjórn.
Hannes Lentz gaf kost á sér áfram í varastjórn.
Sigríður Jónína Sigurfinnsdóttir og Sigríður Hjartar gáfu sömuleiðis kost á sér. Ekki komu fleiri framboð til setu i varastjórn og varð hún því sjálfkjörin.
Stjórn FsS er því skipuð á eftirfarandi hátt: María E. Ingvadóttir formaður, í aðalstjórn Bjarnheiður Guðmundsdóttir, Hrönn Guðmundsdóttir, Októ Einarsson og Sigurður Karl Sigurkarlsson. Í varastjórn eru Hannes Lentz, Sigríður Jónína Sigurfinnsdóttir og Sigríður Hjartar.
Skoðunarmenn reikninga hafa um árabil verið Ragnar G. Ingimarsson og Halldór Elís Guðnason, þeir gáfu kost á sér áfram og voru samhljóða endurkjörnir.
Varaskoðunarmenn hafa verið Sigurður Jónsson og Sigurbjörg Snorradóttir, þau voru sömuleiðis endurkosin.
Að kosningum loknum fór Ísólfur Gylfi í pontu, sagðist vilja þakka fráfarandi ritara og varamönnum fyrir vel unnin störf. Fyrir honum hefði vakað að vilja tengja saman kynslóðir, fá yngra og áhugasamara fólk í stjórn og þess vegna dregið sig í hlé. Agnes óskaði nýju stjórninni til hamingju, kvaðst hafa gefið kost á sér til að brjóta upp og hún væri eftir sem áður eldheit í skógrækt.
5.
Árgjald var kr. 10.000 á síðasta ári. Af því fóru kr. 6.500 til Landssamtakanna. Stjórnin lagði til að árgjaldið yrði óbreytt þetta ár kr. 10.000 og var það samþykkt.
Önnur mál.
Hlynur Gauti Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landssamtaka skógareigenda tók fyrstur til máls og þakkaði fráfarandi stjórn FsS og öllum félögum fyrir góð kynni og gott samstarf. Í máli sínu lagði hann einkum áherslu á þau málefni sem voru til umræðu á aðalfundi LSE s.l. haust og hvaða umfjöllun þau höfðu fengið á fundinum og innan stjórnar LSE. Meðal þess sem hann nefndi var óskin um að flytja skógræktarmálin alfarið til landbúnaðráðuneytis. Hann taldi að flutningurinn væri ekki tímabær, þar sem fjármunirnir liggja hjá umhverfisráðuneytinu.
Sömuleiðis nefndi hann að Skógræktin lofaði bættu verklagi við uppgjör frá því sem verið hefði undanfarin ár, vonandi gengi það eftir.
Girðingarreglurnar hafa iðulega verið til umræðu á fundum með Skógræktinni. Breytt form er á greiðslum fyrir viðhald, þar sem lagfæringar á girðingum skal vinna í samráði við ráðunaut landshlutans, sama gildir um viðhald á slóðum.
Ekki hafa komið auknir fjármunir til grisjunar, en vonast er eftir breytingum þar.
Rætt var um verkefnaflutning frá Skógræktinni til landssambandsins en ekki er vilji til þess hjá Skógræktinni að svo stöddu.
Umræðan um tilgang LSE og aðildarfélaganna er flókin og í stöðugri vinnslu.
Kolefnispakkinn – sölukerfi var kynnt á fagráðstefnunni, fróðlegur fyrirlestur þar um væri kominn á skogur.is.
Eins lýsti hann eftir nýjum hugmyndum fyrir næsta aðalfund LSE í Kjarnaskógi 11.- 13.október.
Við skógareigendur; gott samstarf væri við Bændablaðið um birtingu greina í öðru hverju blaði, greinarnar birtast líka á heimasíðu LSE.
Sem dæmi um verkefni i vinnslu nefndi hann Skógarfang, Gæðafjalir, viðarmagnsúttektina og þörf fyrir verktaka í gróðursetningu.
María formaður þakkaði fyrir traustið sem sér hefði verið sýnt og eins Agnesi fyrir að gefa kost á sér og hrista upp í félaginu. Hún vonaði að ný stjórn haldi áfram á þeirri braut að vera vakandi yfir umræðu um hagsmuni skógarbænda. Skógareigendur eiga ekki alltaf aðkomu að nefndarvinnu og undirbúningi að málum er varða okkar hagsmuni, né breytingum á lögum er okkur varða. Því er mikilvægt að fylgjast vel með og gera athugasemdir þegar tilefni er til.
Sigurður Jónsson taldi að Hlynur Gauti hefði ekki nefnt tillögu Sigurðar á aðalfundi LSE um hlutverk félagsmanna að móta stefnu LSE.
Sigurður var einn þeirra 30 aðila sem stofnuðu FsS fyrir 27 árum og sat þar lengi í stjórn. Hann kvaðst alla tíð hafa verið málsvari þeirra sem vilja vinna að skógrækt. „Við þurfum að ræða hvar við erum stödd, hvort við séum félagslega búin að ná markmiðum okkar, þótt oft séu haldnir góðir og gagnlegir fræðslufundir um ýmis málefni vantar félagsfundi til að ræða stefnu og vilja félagsins.“
Hlynur Gauti kvað nokkrar tillögur varðandi tilgang LSE hafa komið fram á aðalfundinum og hann hafi almennt átt við þær í orðum sínum án þess að draga fram nöfn einstakra flytjenda.
Björn B Jónsson þakkaði fyrir umræðu innan FsS um brunavarnir. Kominn væri út bæklingur um málefnið sem lægi frammi og eins væri heimasíðan grodureldar.is mjög mikilvæg. Nú væri komin röðin að skógarbændum sjálfum og sinna eigin eldvörnum og fara eftir þeim leiðbeiningum sem til væru.
Ný skógræktarlög verða væntanlega samþykkt í næstu viku. Framtíðin er björt með fjórföldun gróðursetninga.
Beðið var um kynningu á verkefninu Úrvinnsla á skógarafurðum. María varð til svara og sagði að þriggja manna nefnd hefði fundað reglulega í eitt og hálft ár og lagt mikla vinnu í að leita að hentugu húsnæði og tækjum, erfitt væri að byrja rekstur í of litlu húsnæði, sem kallaði á skammtímalausnir. Hún nefndi að gróðrarstöðin Kvistar væri til sölu og spurning væri að byrja á afurðavinnslu til hliðar við reksturinn. Vandinn væri að finna dugmikið fólk til að leiða verkefnið.
Í lokaorðum sínum sagði María:
Það á að efla nýskógrækt í landinu, það er kannski eðlilegt að ekki sé hugsað fyrir því að setja þarf fjögur hjól undir þann vagn, sem stendur eru þau líklega bara þrjú og púnkterað á einu þeirra.
Skógræktin er ný atvinnugrein, sem vonandi mun byggjast upp rólega, en markvisst og við verðum öll að taka þátt í því.
Brunavarnir og samstarf við sveitarfélög er nokkuð sem vinna þarf vel að. Einnig hvað varðar tryggingar á gróðurskemmdum.
Samstarf við Skógræktina þarf að vera gott og mikið og á jafnræðisgrunni.
Ég býð nýjan stjórnarmann velkominn til starfa, svo og varastjórnarmenn.
Fundarstjóra og fundarritara þakka ég vel unnin störf á fundinum.
Eftir stutt matarhlé var aftur gengið til dagskrár.
Þorbergur Hjalti Jónsson sérfræðingur hjá Skógræktinni hélt einstaklega fróðlegt erindi um þéttleika alaskaaspar og byggði erindi sitt á niðurstöðum á mælingum á tilraunasvæðinu í Sandlækjarmýri.
Hann sýndi fram á að nánast línulegt samband er á fjarlægð milli trjáa og þvermáls þeirra. Aspirnar eru um 8 ár að ná tveggja m hæð, eftir það verður meðalhækkun því sem næst 55 cm/ár.
Erindi Þorbergs Hjalta er ekki unnt að gefa nein nothæf skil í stuttum úrdrætti og því vísast til skogur.is
Hlynur Gauti flutti sömuleiðis fróðlegt erindi um uppkvistun og snyrtingu trjáa, með kröfur um gæðareglur timburs í huga.
Hann kvað rétta tímann til að huga að snyrtingu trjáa þegar þau væru á bilinu 1,5 – 3 m á hæð, tvístofnar veiki tréð og of margar greinar í hringnum hefðu sömu áhrif. Í Bændablaðinu var nýlega fróðleg grein um þetta málefni eftir Hlyn Gauta og hana má sjá á skogarbondi.is.
Að fyrirlestri loknum var ekið upp í Gunnlaugslund, þar sem Hlynur Gauti og Bergur Þór Björnsson starfsmaður Landgræðslunnar í Gunnarsholti sýndu fundarmönnum ótrúlega skemmtilegt svæði með sjálfsáinni stafafuru. Þeir ræddu vöxt furunnar og hvernig ætti að klippa hana til að fá sem best tré til ólíkra nota.
Dagskránni lauk um kl. 16. Fundarmenn voru 47.
Fundarritari Sigríður Hjartar
Aðalfundur 2018
Aðalfundur skógareigenda á Suðurlandi
27. aðalfundur haldinn að Reykjum í Ölfusi 21.4. 2018 kl. 11:00
María E. Ingvadóttir formaður setti fundinn og bauð fjölmennan hóp fundarmanna velkominn. Formaður stakk upp á Sigríði Heiðmundsdóttur sem fundarstjóra og Sigríði Hjartar sem fundarritara, var það samþykkt.
Formaður flutti skýrslu stjórnar fyrir starfsárið 2017.
Skýrsla stjórnar.
Sem áður, hófst starfsárið með Jónsmessugöngu. Áð var í Múlakoti hjá Sigríði og Stefáni, en síðan haldið austur í Giljaland, þar sem Þuríður Jónsdóttir og Sigurður Ólafsson tóku á móti okkur. Eftir góðar veitingar, var skógræktin þeirra skoðuð, en í Giljalandi er alvöru skógur og þar er einnig skógarrjóður, þar sem vel fer á að borða saman, ræða málin og kannski að syngja aðeins við opinn eld og skógarkaffið var á sínum stað. Það vakti áhuga skógarbænda, að Sigurður og Þuríður eiga vél sem léttilega flettir myndarlega boli í falleg viðarborð. Veður var ágætt og ferðin öll ánægjuleg.
Þann 23. september var félagsfundur í Gunnarsholti um brunavarnir í skógi og tryggingamál. Björn B. Jónsson hélt erindi um varnir gegn gróðurbruna á Íslandi, en hann er í vinnuhópi sem hefur unnið að því að taka saman upplýsingar sem nú hafa verið gefnar út í bæklingi sem dreift verður á öll sveitaheimili og til sumarhúsaeigenda.
Pétur Pétursson og Haukur Grönli fræddu fundarmenn um tæki og búnað Brunavarna Árnessýslu og ýmsar þarfar leiðir og aðgerðir sem betra er að þekkja til.
Hannes Lentz ræddi um nauðsyn þess að hægt verði að tryggja skógana, en í kjölfarið, skipaði stjórnin þá Hannes og Sigurð Karl Sigurkarlsson í nefnd sem skyldi kanna grundvöll þess að hægt verði að tryggja skógana.
Þann 7. apríl s.l., var félagsfundur í Gunnarsholti, þar sem Árni Bragason, landgræðslustjóri flutti erindi um loftslagsmál. Á aðalfundi Landssamtaka landeigenda í síðasta mánuði, var komið inn á skipulagsmál og samskipti við ríkisvaldið, þegar kemur að þjóðlendum og þjóðgörðum, einnig réttindi landeigenda. Í framhaldi af því var Antoni Kára Halldórssyni, byggingar- og skipulagsfulltrúa Rangárþings eystra, boðið að ræða um skógrækt í skipulagi sveitafélagsins, þjóðlendu- og þjóðgarðamál, skráningu fornminja og fleira. Einnig var komið inn á brunavarnir, enda bera sveitafélögin ábyrgð á þeim. Björn B. Jónsson svaraði spurningum þar um, vakti hann einnig athygli á að í smíðum væri heimasíðan brunavarnir.is. Fundurinn var vel sóttur og umræður málefnalegar.
Eins og áður hefur komið fram, fengum við styrk frá Sambandi íslenskra sveitafélaga, sem átaksverkefni sóknaráætlunar Suðurlands, 6 milljónir króna. Á starfsárinu vann Ingvar Pétur Guðbjörnsson, verkefnisstjórinn okkar, áfram að gerð viðskiptaáætlunar vegna væntanlegs rekstrarfélags. Þessi viðskiptaáætlun var kynnt á góðum fundi í Þingborg, laugardaginn 25. nóvember.
Stjórnin tilnefndi bráðabirgðastjórn sem skyldi undirbúa stofnun félagsins, safna hlutafé og kynna verkefnið fyrir áhugasömum fjárfestum. Í þessari bráðabirgðastjórn eru Jón Helgi Guðmundsson, Magnús Gunnarsson og undirrituð.
Ingvar Pétur hefur unnið með bráðbirgðastjórninni, aðallega með því að heimsækja skógarbændur og aðra fjárfesta. Bráðbirgðastjórnin hefur hist reglulega og farið yfir stöðuna og lagt á ráðin. Unnið er að því að finna hentugt húsnæði og einnig hefur verið skoðaður vænlegur vélakostur og verkefnið kynnt stærri fjárfestum.
Þessi undirbúningur stofnunar rekstrarfélags hefur tekið lengri tíma en ætlað var, en meiningin er að, að loknum stofnfundi, verði komin mynd á verkefnið, þannig að hefjast megi strax handa við að koma rekstrinum í gang.
Skógræktin hefur boðað stjórn Landssamtaka skógarbænda til fundar ásamt formönnum félaganna, bæði vor og haust og eru þetta ágætir samráðsfundir. Skógræktin er að finna sinn sess í samskiptum við skógarbændur og skógarbændur að átta sig á, með hvaða hætti samstarf þetta getur leitt til betri árangurs skógræktar í landinu. Þar er auðvitað fyrst að nefna fjárframlög til skógræktar, sem þyrftu að fjórfaldast, ef reyna á að koma jöfnuði á kolefnisbúskapinn.
Einnig eru gæðamál sameiginlegt áhugamál og ráðgjöf til skógarbænda.
Tillögur Skógræktarinnar um girðingareglur voru ræddar og lagði LSE fram tillögur um breytingar, einnig sendu félögin inn sínar athugasemdir. Aðallega var tekist á um það, hvenær ætti að greiða kostnað vegna girðinga, áður en verk væri hafið, í áföngum eftir því sem verkið væri unnið, eða við verkslok. Fjármagn er takmarkað, óþarfi að girða þar sem engar plöntur fást í stykkið, planta skal í afgirt eða öruggt svæði, samkvæmt skógræktarsamningi, það er í mörg horn að líta. Ekki er komin endanleg niðurstaða.
Einnig voru taxtar vegna gróðursetninga 2018 ræddir og fannst fólki að taxtar ættu að halda betur í við almennar verðlagshækkanir, jafnvel að taka mið af launavísitölu. Taxtarnir hafa ekki verið birtir í endanlegri útgáfu.
Varðandi taxta, þá er það þó stór áfangi að þeir verði samræmdir um allt land.
Þeir hjá Sambandi íslenskra sveitafélaga, buðu mér og Ingvari Pétri til fundar, þar sem farið var yfir hvernig gengi með stofnun rekstrarfélagsins. Í framhaldi af því og eftir mjög gagnlegar viðræður, lögðu þeir til að þeir mundu, á heimasíðu sinni, birta umsóknarblað, sem sérstaklega væri ætlað hönnuðum sem væru að vinna með hráefni úr skógi. Okkar megin, munum við svo hvetja hönnuði til samstarfs og í framhaldinu til að sækja um styrk til sjóðsins. Þarna er tækifæri til frekari samvinnu og lögðu þeir til að við mundum hittast mánaðarlega.
Ljóst er að við munum horfa til fleiri afurða en undirburðs og arinkubba, þó að góðar vörur séu, en meiri verðmæti liggja í framleiðslu hráefna til frekari vinnslu. Til gamans má nefna, að á aðalfundi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, var kynntu mjög fallegur varalitur, unninn úr efnum úr lúpínunni. Þar sem hugvitið er, þar eru nýjungarnar.
Þegar er hafinn undirbúningur aðalfundar Landssamtaka skógareigenda sem verður að þessu sinni á Suðurlandi, í umsjón okkar félags. Fundurinn verður á Hóteli Stracta á Hellu, dagana 5. til 7. október.
Viku síðar verður Landbúnaðarsýning í Hörpu og hefur LSE tryggt sér sýningarbás á góðum stað. Félögin munu öll koma að skipulagi þessa svæðis.
Það væri gaman ef félagsmenn sendu inn hugmyndir, bæði vegna kynninga á aðalfundi og hvernig megi sem best nýta sýningarbásinn í Hörpunni.
Hér hef ég hlaupið yfir það helsta í starfi félagsins, en vil benda á, að fundargerðir eru inn á svæði FsS á skogarbondi.is.
Ég vil þakka meðstjórnendum mínum gott samstarf, en þeir eru Sigríður Hjartar, Bjarnheiður Guðmundsdóttir, Hannes Lentz og Sigríður Heiðmundsdóttir. Varamaður í stjórn, Sigurður Karl Sigurkarlsson hefur einnig mætt á stjórnarfundina og er akkur af því. Skoðunarmönnum reikninga eru einnig færðar bestu þakkir.
Skýrsla formanns var samþykkt athugasemdalaust með öllum greiddum atkvæðum.
Bjarnheiður Guðmundsdóttir gjaldkeri fór yfir reikninga félagsins og skýrði þá.
Helstu tekjuliðir voru félagsgjöld og styrkir fá Uppbyggingarsjóði Suðurlands og LSE vegna stofnunar rekstrarfélags, en stærstu kostnaðarliðir voru aðkeypt verktakavinna vegna stofnunar rekstrarfélags, félagsgjöld til LSE og funda- og viðskiptakostnaður.
Reikningar félagsins voru samþykktir athugasemdalaust.
Kosning embættismanna félagsins.
Kjörtímabil manna í aðalstjórn er þrjú ár. Samkvæmt því höfðu þau Sigríður Heiðmundsdóttir og Hannes Lentz lokið kjörtímabili sínu og gáfu ekki kost á sér til frekari starfa í aðalstjórn.
Stungið að upp á að Sigurður Karl Sigurkarlsson á Skammbeinsstöðum, sem verið hefur í varastjórn, og Októ Einarsson á Heiðarlæk tækju sæti í aðalstjórn, var það samþykkt.
Í varastjórn er kosið árlega. Hildur María Hilmarsdóttir, Spóastöðum, gefur kost á sér áfram. Sigríður Heiðmundsdóttir og Hannes Lentz, sem voru í aðalstjórn, gefa kost á sér í varastjórn. Þessir þrír félagar hlutu einróma kosningu í varastjórn.
Skoðunarmenn reikninga kosnir í eitt ár voru kjörnir sem fyrr Ragnar Ingimarsson, Péturshólma og Halldór E. Guðnason, Efra Seli. Til vara sem fyrr eru Sigurbjörg Snorradóttir og Sigurður Jónsson.
Októ Einarsson var boðinn velkominn í stjórn og Erni Karlssyni, sem hættir í varastjórn, þökkuð vel unnin störf.
Ákvörðun árgjalds.
Lagt var til að árgjald FsS væri óbreytt frá fyrra ári kr. 10.000.- . Þar af fara kr. 6.500.- til LSE.
Samþykkt.
Önnur mál.
Lagabreytingar.
Þörf var á breytingum á lögunum frá 2012. Félögum hafa verið sendar rafrænt tillögur stjórnar um lagabreytingar. Eins tillögu félagsmanns um orðalagsbreytingu á skilgreiningu félagssvæðis. Jafnframt kom ábending um að þyrfti að vera í lögum hvernig félaginu skuli slitið.
Allar þessar breytingar voru samþykktar. Félagsmönnum verða send lögin með samþykktum breytingum auk þess sem þau birtast á skogarbondi.is undir FsS.
Tilnefning fulltrúa FsS til stjórnarkjörs LSE.
Samþykktir LSE heimila hámarkssetu samfellt í stjórn þess 8 ár. Nú hefur María náð þessu marki, en formannstímabil hennar hjá okkur stendur enn eitt ár. Venja er hjá FsS að formaður félagsins sitji í stjórn LSE. Samkvæmt okkar lögum er ritari varamaður formanns. Stungið var upp á að Sigríður Hjartar ritari yrði aðalmaður til kjörs í stjórn LSE, en María varamaður.
Samþykkt.
María formaður ræddi verkefnin framundan:
Það sem efst er á blaði er að halda stofnfund rekstrarfélagsins og hefja rekstur. Undirbúningur gengur vel, en tekur lengri tíma en ráðgert var, en þannig er það þegar vel skal gera.
Það þarf að hugsa til þess, að hver jörð verði tekin út, þannig að ljóst sé, hvert viðarmagnið er á jörðinni, hver er grisjunarþörfin og hvernig líta þessar tölur út næstu 20 árin. Skógræktin hefur áætlað að framkvæma þetta með miklum tilkostnaði. Framkvæmdastjóri LSE hefur kynnt nýjar leiðir, þ.e. að nota dróna og litlar flugvélar til slíkra úttekta. Landgræðslan hefur nýtt sér þessa tækni.
Til að skógareigandi geti gert sínar ræktunaráætlanir og söluáætlanir, þurfa þessar upplýsingar að liggja fyrir.
Sala á bindingu kolefnis er enn óljós stærð, kannski öllu heldur óskilgreint hugtak, en lítið hefur þokast í þá átt,
að fá viðurkenndan eignarétt á kolefnisbindingu. Það virðist auðveldara að benda á þá sem losa kolefni og setja á þá verðmiða. Kolefnisnefnd LSE er til og er starfandi, það verður gaman að heyra frá henni á aðalfundinum í haust.
Skógræktin er að pússa hnökra af sínum vinnugangi, þannig að dráttur á uppgjöri til bænda, ætti ekki að endurtaka sig á þessu ári. Einnig er Skógræktin að átta sig á hvað er hvers og hvurs er hvað. Skógræktin er opinber stofnun, hún er talsmaður stjórnvalda um málefni skógræktar á Íslandi, hún er rannsóknarstofnun, hún er ráðgefandi um skógrækt og allt er henni við kemur, hún deilir út til skógarbænda því fjármagni sem ætlað er til skógræktar. Það skiptir miklu máli að yfirbygging Skógræktarinnar sé á skynsamlegum nótum, þannig að það fari ekki of stór hluti þess fjármagns sem eyrnamerkt er skógrækt, í rekstur stofnunarinnar.
Félög skógarbænda, með sinn samráðs- og samvinnuvettvang sem Landssamtök skógareigenda eru, verða alltaf að vera á tánum við að verja sína hagsmuni, í orði og í verki. Bæði gagnvart Skógræktinni og stjórnvöldum.
Þar ber hæst eignarétturinn, kolefnisbindingin og fjármagn til skógræktar, sem er snar þáttur í að standa við alþjóðasamninga.
Nýja fyrirtækið okkar, sem vonandi lítur fljótlega dagsins ljós, mun hafa í mörg horn að líta. Það verða hagsmunir okkar skógarbænda allra, að vinna saman að því að byggja upp þessa mikilvægu starfsemi. Afla hráefnis, framleiða og selja. Það mun líka skipta miklu máli, hversu vel við munum sinna vöruþróun og eigum við að taka á móti nýjum hugmyndum með opnum huga. Þegar hefur litlum fræjum verið sáð í frjóa mold hjá stofnunum sem eru tilbúnar til að vinna með okkur. Ég tel að rannsóknar- og þróunarvinna verði þessu fyrirtæki mikilvæg og verði lykill að stærri og áhugaverðari verkefnum, en við nú sjáum fyrir.
Ef við stefnum að sama marki, þá tekst okkur ætlunarverkið, að náum góðum árangri.
Þá tók Björn B. Jónsson til máls.
Í upphafi flutti hann kveðju Sigríðar Júlíu Brynleifsdóttur. Hún er sviðsstjóri skógarauðlindarinnar hjá Skógræktinni en það svið hefur tekið yfir þátt landshlutaverkefnanna. Undir sviðið heyra nytjaskógar á lögbýlum, rekstur þjóðskóga, framkvæmdir og samstarf við verkaka, áætlanagerð einstakra svæða og úttektir þeirra, fræmál og móttaka ferðamanna svo eitthvað sé nefnt.
Á Suðurlandi voru gróðursettar 427 þúsund plöntur árið 2017, mest af því er fura og ösp.
Nú er farið að hnitsetja gróðursetningar og því er mun auðveldara fyrir alla að halda utan um hvað fer í jörð og hvar það er. Skógarbændur geta sjálfir hnitsett þar sem tækjakostur til þess er ekki flókinn; gsm-tæki og snjallsími. Leiðbeiningar má finna á heimasíðunni skogur.is.
Mikil aðsókn er í skógrækt og hafa verið gerðir um 620 samningar. Til stendur að fjórfalda gróðursetninar á næstu árum.
Innan Þjóðskóga hafa verið miklar framkvæmdir og vinnubrögð hjá Skógræktinni eru til fyrirmyndar bæði hvað snertir gerð göngustíga og tröppur. Mættu aðrir aðilar læra af þeim vinnubrögðum.
Fræhúsið á Vöglum sér um fræmál, nægir að benda á lerkiblendinginn Hrym. Eins sér það um stiklinga o.fl. Á Tumastöðum hefur meðal annars Þorsteinn Tómasson aðstöðu fyrir birkitilraunir sínar, þar má nefna rauða, finnska birkið.
Björn nefndi málafylgjuáætlun – mikilvægt væri að fylgja málum vel eftir við þingmenn og ráðherra þannig að aukafjármagn komi inn. Skógræktin væri tilbúin til uppbyggingar.
Einn fundarmanna lét í ljós áhyggjur af plöntuframleiðslu, þar væru ekki góðar fréttir. Barri væri að loka. Þá væru aðeins eftir ein stöð á Akureyri og önnur á Suðurlandi, samkeppnin væri því lítil. Mikilvægt væri líka að gæði framleiðslunnar væru í lagi en á það hefði stundum skort.
Björn sagði að hann væri ekki lengur í ráðgjöf heldur í afurða- og markaðsmálum. Gott samstarf væri við LSE er margt ætti eftir að vinna frá grunni, svo sem gæðamál. Hann nefndi nýja gæðastaðla á timbri hjá EES og við hefðum leyfi til að notfæra okkur sænska staðla.
Hugmyndir eru um notkun dróna við úttekt á viðarmagni í skógum en grunninn vantar.
Sama má segja um sölutilhögun, það er ekki nóg að hafa timburstæður úti í skógi ef söluapparatið vantar. Eins vantar tilfinnanlega skipulega hönnunarvinnu úr skógarafurðum.
Stýrihópurinn um mótun vinnureglna um brunavarnir i skógum hefur starfað í nokkur ár og bæklingurinn góði er nú loks tilbúinn, aðeins er eftir að prenta hann. Fjármögnunin er erfið þar sem hönnun, prentun og dreifing kosta um 6 milljónir. Bæklingnum verður deift til landeigenda um land allt. Eins verður bæklingurinn og ítarefni á heimasíðunni skogur.is.
Mikilvægt er að skógarbændur mæti vel á námskeiðin sem fyrirhugað er að halda i haust um brunavarnir í skógum.
Stöðluð kort yfir varnir gegn skógareldum þurfa að vera til fyrir hvert ræktunarsvæði. Hvar eru vatnsból, stígar, nota þarf alþjóðleg tákn fyrir flóttaleiðir o.m.fl. Neyðarlínan þarf raunveruleikann, ekki áætlanir.
Brunavarnir Árnessýslu ætla að borga og uppfæra heimasíðuna grodureldar.is
Tillaga hefur komið fram um að félag slökkviliðsstjóra leiði nýjan stýrihóp og lagt er til að Björn Traustason verði fulltrúi skógargeirans.
Afurðamál hafa verið ofarlega í huga félaga FsS og nokkuð borið á góma á fundum. Tveir ungir vöruhönnuðir skýrðu lauslega frá verkefnum sínum.
Björn Steinar Blumenstein gerði skógarnytjar að sínu viðfangsefni. Björn hefur verið nálægt garðyrkju frá blautu barnsbeini og þegar að því kom að velja sé braut í lífinu stóð valið á milli ylræktar og vöruhönnunar, þar sem vöruhönnunin varð ofan á.
Björn kvað skógarumhvefið vera langhlaup og mikilvægar rannsóknir væru unnar m.a. á Mógilsá. Hönnuðir þurfi að miðla upplýsingum, hámarka gróða skógareigenda með því að búa til afurðir, fullvinna efnið. Það þarf að sanna að unnt sé að gera eitthvað úr auðlindunum núna, við núverandi úrvinnsluleiðir. Hann reyndi að virkja íslenska hönnuði og fékk 23 tillögur sem spönnuðu breitt svið, allt frá stólum yfir í eldspýtur. Björn gerði sjálfur frummyndir úr þessum tillögum og hélt sýningu á þeim en hönnuðurnir eiga hugverkið. Hann vil gjarnan halda rannsókninni áfram, en LSE hefur veitt til verkefnisins kr. 200.000.-
Áhugi á húsgagnalínu úr íslenskum viði er töluverður en þarna er auðvitað spurning um framboð og eftirspurn – og verð, en þetta mætti tengja við raunveruleika skógarbænda, húsgögn geti speglað menningu.
Sóley Þráinsdóttir vöruhönnuður skýrði frá lokaverkefni sínu við Listaháskólann fyrir ári síðan, en hún skoðaði hreinsieiginleika furunnar og ónýtta nýtingarmöguleika úrgangs frá hrossaslátrun.
Flestar þær hreinsivörur sem eru á markaðinum eru innfluttar og innihalda venjulega mikið vatn, auðlind sem við Íslendingar eigum í ríkum mæli. Endalaus fjöldi vörumerkja er á markaðnum og mjög mikið notað af kemiskum efnum sem er meira og minna spreyjað út í loftið úr alls kyns plastbrúsum. Segja má að óhreinlæti fylgi öllu þessu hreinlæti.
Rannsóknin beindist að furunni þar sem mikið fellur til við grisjun. Furan hefur einkum farið í viðarkurl eða eldivið en æskilegt er að nota hliðarafurðirnar betur. Furuviðurinn er frekar léttur en hann mætti nota í ýmis hreinlætisáhöld, svo sem bursta eða sópa.
Furuolía, sem fæst með eimingu á furunálum, er náttúrulegt sótthreinsi- og bakteríudrepandi efni. Furuolía í vatni – furuvatn - er mun mildara sótthreinsiefni en sjálf furuolían, gæti notast sem húðhreinsun o.fl.
Tjaran úr kjarnavið er bakteríudrepandi o.m.fl. Hún nýtist m.a. í sápur. Furukol sem fást við hitun án súrefnis, geta nýst sem filter, soga í sig óþef – lyfjakol. Askan hefur mildan skrúbbeiginleika og dálitla sýklavörn – hreinsimassi, dregur í sig fitu, stundum notuð í tannkrem o.fl..
Sóley skoðaði einnig sláturhússúrgang og einbeitti sér að hrossum, en sá úrgangur er mjög lítið nýttur. Hún horfði einkum á hrosshár annars vegar og fitu hins vegar. Hrosshárin – fax og tagl eru af mjög mismunandi grófleika og bæði mjúk og stíf. Þau eru hitaþolin – 187°C og mætti nota í margskonar bursta. Fitu, sem hefur svipaða efnafræðilega samsetningu og mannafita, mætti t.d. nota sem undirstöðu við sápugerð.
Vöruþróunarþjálfun snýst um miðlun rannsóknarvinnu yfir í nýtilega hluti.
Loks ræddi Gunnar Sverrisson í Hrosshaga um reynslu Hrosshaga- og Spóastaðabænda af skógarvinnsluvélum. Þeir hafa tvisvar fengið grisjað með stórri skógarhöggsvél sem heggur / afkvistar/ bútar niður/ keyrir út. Sú vél gekk vel á frosinni jörð, en hentar betur til fellingar en grisjunar. Þeir vildu fá meiri virðisauka heim á bæ og skoðuðu í Svíþjóð vél sem tekur felldan trjástofn, kvistar og bútar. Þar sem plantað hefur verið í beinar raðir má oft staðsetja vélina við braut, þá verða greinar og toppar eftir við brautina í hrúgu. Þessi vél, sem þeir keyptu svo frá Jötunvélum þarf ekki nema 40-50 ha traktor, en hann þarf að vera þungur. Æskilegt er að nokkur býli hafi samvinnu um tækið.
Loks steig Hlynur Gauti Sigurðsson nýr framkvæmdastjóri LSE í pontu og kynnti náms- og starfsferil sinn. Hlynur er frá Egilsstöðum og vann um hríð sem tæknimaður á Stöð 2. Hann nam m.a. Umhverfisskipulag hjá LbhÍ og sömuleiðis fræði Landslagsarkitekts. Hann hefur víða unnið sem ráðgjafi en einkum á Héraði.
Hann kvað starf LSE mikilvægt og gefandi, þetta væri regnhlífarsamband og heimasíða LSE sem má nálgast undir skogarbondi.is mikilvægt tæki skógarbænda. Þar má fá mikla fræðslu, upplýsingar um fundi og félagsstarf hinna ýmsu landshlutasamtaka og margt fleira. Það væri mikilvægt fyrir félögin að nota sér sem best síðuna, þar væru fjölbreyttar upplýsingar að fá svo sem um afurðamál, verktaka og fræðslumál. Eins sýndi hann myndband sem skýrði hvernig hæðarmælingar með aðstoð dróna væru framkvæmdar.
Hann sagðist hafa aðsetur í Bændahöllinni og þangað væru skógarbændur velkomnir.
María formaður flutti síðan nokkur lokaorð, þakkaði góð og fróðleg erindi, sem vekja bjartsýni og stórhug. Félögum þakkaði hún fyrir góða fundarsókn og jákvæðni nú sem endranær og sagði fundi slitið kl. liðlega 14.
Fundarritari Sigríður Hjartar