Aðvörun til skógarbænda á Suðurlandi og hugsanlega á Vesturlandi líka.
Eftir kalt og blautt sumar á suðurlandi var það von okkar að ekki yrðu vandræði með ertuyglu.
Ekki hefur borið á henni fyrr en nú 7. sept. Nú virðist hún ætla að blossa upp aftur samkvæmt fregnum úr
uppsveitum Árnessýslu.
Eins og menn vita þá eru ungar greniplöntur í hættu og yglan er fljót að éta barr þeirra upp til agna, og þá eru þær dauðar.
Það er því send út áminning og aðvörun núna. Farið og skoðið í grenigróðursetningar ykkar 1-5 ára. Ef einhver ygla finnst grípið til úðunar. Faraldurinn getur blossað upp á fáeinum dögum þannig að það dugir ekki að skoða bara einu sinni, skoðið aftur eftir
3-5 daga.
Ganga verður að hverri plöntu og úða með bakúðadælu. Þau efni sem hægt er að nota eru skordýralyfin Permacekt C og Desis. Fæst í Húsasmiðjunni, Biko, Garðheimum og víðar.