Tillögur fyrir aðalfund LSE 2018 á Hellu.
Tillögur fyrir aðalfund LSE á Hellu 2018
ALSHERJARNEFND FJÁRHAGSNEFND FAGNEFND FÉLAGSMÁLANEFND KOLEFNISNEFND KJÖRBRÉFANEFND
Tillögur frá LSE
1. Nýtt greiðsluform
„Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn á Hellu 5. og 6. október 2018, leggur til að laun stjórnar sé ákveðin fyrir fram og að aðalfundur LSE ákveði launataxta fyrir þá stjórn sem mun vinna fram að næsta aðalfundi.“
2. Formaður með tvöföld laun
,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn á Hellu 5. og 6. október 2018, leggur til að laun stjórnar verði óbreytt að öðru leyti en því að laun formanns verði tvöföld laun almenns stjórnarmanns. Síðan verði greiddir dagpeningar fyrir fundarsetu og nefndarstörf“
3. Árgjöld
,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn á Hellu 5. og 6. október 2018, leggur til að árgjöld til LSE fyrir 2019 óbreytt eða kr. 5000 á hverja jörð og kr. 1500 á hvern skráðan félaga. Eindagi félagsgjalda sé 1. nóvember."
Greinargerð:Tillagan felur í sér sama fyrirkomulag á innheimtu félagsgjalda og á síðasta ári. Gert er ráð fyrir að innheimt félagsgjöld skili sér til LSE sama ár og þau eru innheimt hjá félögunum.
4. Nýskógrækt og sveitafélög
,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn á Hellu 5. og 6. október 2018, skorar á sveitarfélög að samræma afgreiðslu framkvæmdaleyfa vegna skógræktar.
Greinargerð:Afgreiðsla á framkvæmdaleyfi vegna skógræktar er mjög mismunandi á milli sveitarfélaga og heftir það afgreiðslu mála og mismunar umsækjendum þar sem kostnaður er einnig mismunandi. Þar sem um sambærilega framkvæmd er að ræða hvar sem menn búa á landinu ætti afgreiðsla framkvæmdaleyfis að vera stöðluð eða sambærileg.
5. Verkefnaflutningur frá Skógræktinni til LSE
,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn á Hellu 5.-6. október 2018, felur stjórn LSE að hefja viðræður við Skógræktina um það, hvort tímabært sé, að LSE taki að sér ákveðin verkefni sem Skógræktin sinni í dag.
Greinargerð: Hugmyndir hafa verið uppi um, að LSE, sem samnefnari skógarbænda, gæti tekið að sér ákveðin verkefni, sem Skógræktin sinnir nú. Svo sem ráðgjöf og uppgjör við skógarbændur, upplýsingagjöf og fræðslu, eða jafnvel plöntuafhendingu.Í dag er allt ferlið í höndum Skógræktarinnar og spurning hversu æskilegt það er, eða hvort til greina komi að Skógræktin deildi út ákveðnum verkefnum til LSE.
Tillögur frá stjórn FSA
6. Kostnaðarmat skógræktar
,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn á Hellu 5.-6. október 2018, felur stjórn LSE að kostnaðarmeta skógrækt og einkum afurðir skógarins við lokahögg“
Greinargerð: Taxtar við skógarvinnu eru háir á Íslandi samanborið við önnur lönd. Samt sem áður virðist það lítt duga til að laða ungt fólk að skógrækt og skógræktarvinnu. Að einhverju leyti er það vegna samkeppni við aðra vinnu og hafa ber í huga að Ísland er dýrt land. Mikill kostnaður þýðir væntanlega dýrara timbur þegar kemur að lokahöggi sem vinnur gegn okkur til lengri tíma litið. Það þurfa allir að vera meðvitaðir um hvert stefnir bæði varðandi nýliðun í greininni, umhirðu og viðargæði og síðan afurðaverð. Jafnframt er nauðsynlegt að peningalegt virði ræktunarinnar liggi fyrir við sölu á á skógræktarjörðum.
7. Verklag við uppgjör
,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn á Hellu 5.-6. október 2018, beinir því til stjórnar LSE að fara með Skógræktinni yfir það fyrirkomulag sem er við úttektir framkvæmda og fjárhagsuppgjör við bændur.“
Greinargerð: Umhugsunarvert er að í dag eru allar framkvæmdir og fjárhagslegt uppgjör við skógarbændur framkvæmdar af Skógræktinni. Þar er átt við áætlanagerð, útvegun plantna, framkvæmdir og fjárhagslegt uppgjör.
8. Flutningur til Landbúnaðarráðuneytis
,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn á Hellu 5.-7. október 2018, leggur þunga áherslu á að bændaskógræktin verði færð frá Umhverfisráðuneyti til Landbúnaðarráðuneytis.“
Rök: bændaskógrækt er eins og hver önnur grein landbúnaðar og því eðlilegt að hún sé undir Landbúnaðarráðuneytinu og fjármagn til hennar verði greitt út af Búnaðarstofu eins og annar stuðningur til landbúnaðarins.
9.Samráðsfundir
,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn á Hellu 5.-6. október 2018, felur stjórn LSE að koma á samráði við Skógræktina sbr.6. gr. laga um breytingu á ýmsum lögum vegna nýrrar skógræktarstofnunar. Samráðsfundir myndu koma upplýsingum betur til bænda og færa þá nær ákvarðanatöku í einstökum málum. Skógarbændur leggja þunga áherslu á að koma að ákvarðanatöku um ráðstöfun fjármagns í bændaskógrækt.“
10. Girðingartillaga.
,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn á Hellu 5.-6. október 2018, leggur til að eftirfarandi tillaga um girðingarmál verði samþykkt.“
- Skýr ákvæði verði í skógræktarsamningum um girðingar, bæði nýjar og úreltar og hvernig eftirliti verði háttað.
- Ríkið standi við sínar skuldbindingar um fjárveitingar.
- Tekið verði tillit til þess hve auðvelt er að girða og halda við girðingum á viðkomandi skógræktarsvæði.
- Bændur fái efni og vinnu greitt strax við verklok eins og aðrir þegnar samfélagsins.
- Skógræktin annist allt eftirlit
Greinargerð:
Í gegnum árin hefur girðingarkostnaður á skógræktarjörðum verið greiddur að fullu þegar landið er friðað, eftir undirritun skógræktarsamninga. Friðun er forsenda skógræktarinnar, en nú eru uppi hugmyndir um að girðingarvinnan verði ekki að fullu greidd fyrr en eftir jafnvel 10 ár. Það er umhugsunarvert af hverju svo algengt er að farið er fram á það við bændur að þeir láni sín vinnulaun bæði í skógrækt og öðrum greinum. Þeir sem eru að leggja slíkt til mættu gjarnan setja sig í þeirra spor. Ætli sé líklegt að samtök launafólks myndu skrifa undir þvílík tilboð frá vinnuveitendum. Reglur af þessu tagi vinna á móti því að ungt fólk komi inn í greinina og án kynslóðaskipta mun búgreinin eiga erfitt uppdráttar. Í öðru lagi er ekki hægt að reikna með styðstru mögulegu leið umhverfis skógræktarlandið, það verður að meta í hverju tilviki fyrir sig.
Það verða þó að vera ákvæði í skógræktarsamningunum um að ekki sé hægt að hefja framkvæmdir fyrr en fjármagn liggur fyrir og ef ekki verður plantað í landið innan þess tíma sem skógræktarsamningurinn hljóðar upp á geti skógræktin krafist endurgreiðslu á því fjármagni sem í girðinuna fór. Það er því lykilatriði að ríkið standi við þær áætlanir sem það gerir um fjárframlög til skógræktar en eins og við vitum hefur það ekki allt af staðist.
Hvað varðar hugmynd Skógræktarinnar um kvaðratrótar reglu um lengd girðinga þá er hún í sjálfu sér góð til að gera útreikninga á blaði en alls ekki í framkvæmd. Þetta gildir einkum ef viðkomandi land er erfitt girðingarland, en slíkt land er þar sem er mikill bratti, lítill jarðvegur, mikið um gil og árfarvegi, hreyfing á landinu (skriðuhætta), snjóþyngsli og snjóskriður, mikill áganur vatns í leysingum og jafnvel krapaflóð og mjög brattar brekkur og börð sem kalla á sigfestur, horn og auka aflstaura. Þetta er algjör andstaða við þau svæði þar sem land er slétt, með djúpum jarðvegi og jafnvel engum vatnsföllum. Með því að láta hugann reika um einstök svæði á landinu er ekki erfitt að sjá hvar er auðvelt að girða og hvar erfitt. Það er ekki sanngjarnt að allir fái sömu geiðslu fyrir girðingar, heldur að skipta girðingarkostnaði niður í einhverja flokka t.d. með því að bæta 30% 60% og 90% álagi á girðinguna eftir því hversu erfitt landið er. Hliðstæðar reglur þurfa að gilda um viðhald. Sum okkar hafa áratuga reynslu í því að girða og halda við girðingum og vitum að máltækið ,,vel skal vanda það sem lengi á að standa“ á vel við um þessi mannvirki.
Síðan þarf að finna lausn varðandi þær girðingar sem taka yfir stór svæði, jafnvel nokkrar jarðir en sú aðferð var algeng á svæði Héraðsskóga í árdaga þess verkefnis. Þar komu oft fleiri að s.s. sveitarfélög og Vegagerðin. Í sumum tilvikum liggja þessar girðingar yfir jarðir sem alls ekki eru í skógrækt og þeir bændur hafa því jafnvel engan hag af því að halda þeim við. Samninga sem til eru um þessar girðingar þarf að fara í gegn um og taka ákvaðanir í framhaldi af því.
Eftir einhver ár verða girðingarnar ekki nauðsynlegar til að verja ræktunina og þá þurfa að vera ákvæði í samningunum um hver ber ábyrgð á þeim og séu þær komnar úr notkun þarf aðhreinsa þær upp úr landinu.
11.Kolefnismál.
,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn á Hellu 5.-6. október 2018, bendir á að samkvæmt samningi um skógrækt á bújörðum eiga bændur allar afurðir sem verða til í skóginum (í 1.gr. segir að skógurinn sé eign landeiganda) þar með talda kolefnisbindinguna. Stjórn LSE er falið að finna farveg fyrir sölu kolefnis úr nytjaskógum bænda.“
Tillögaga frá Sigurði Jónssyni (FSS)
12.Tilgangur LSE og aðildarfélagana
Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn á Hellu 5.-6. október 2018 að stjórn LSE skipi nefnd sem hafi það hlutverk að skilgreina betur hlutverk LSE og aðildarfélaga þess.
Skoðað verði sérstaklega:
1. Hvert er félagslegt hlutverk aðildarfélaga innan LSE.
2. Hver á að koma LSE og aðildarfélaga að vera í skógarsölu skógarafurða.
3. Er stofnun sölufélags í nafni LSE eða aðildarfélaga tímabær.
Nefndin ber að skila niðurstöðu sinnar á næsta aðalfundi LSE.
Greinagerð.
Í framtíðarsýn Landssamtaka skógareigenda 2012-2022, samvinna -þekking - árangur" er ekki skilgreind undir liðnum "hlutverk" hver aðkoma samtakanna eða aðildarfélaga skal vera í afurða- og úrvinnslumálum skógarafurða. Er það mjög bagalegt, sér í lagi þar sem aðkoma skógarbænda til framtíðar verður í sölu á timbri og öðrum nytjum skóga.
Sömuleiðis er hvergi getið um hlutverk skógarbænda í félagslegu hlutverki Landssamtaka skógareigenda í stefnumótun samtakanna, né í lögum LSE. Mikilvægt er að bæta úr því til að stefna til lengri tíma sé skýr hvort sem er í afurðamálum skógarbænda eða félagslegu hlutverki skógarbændafélaga.
Ásgerði Hrunamannahreppi, Sigurður Jónsson
Tillögur frá Lúðvíg Lárussyni (FSV)
13. Fimmtán daga fyrirvari
Tillaga til Aðalfundar LSE 5.-6. 10.2018 um að álykta að senda út tölvupóst/póst 15 dögum fyrir næsta aðalfund LSE ár hvert framkvæmd stjórnar á þeim málefnum sem samþykkt voru á síðasta aðalfundi. Hafi ekki tekist að ljúka verkinu er beðið um stutta skýringu á stöðunni.
14. Gróðrarstöðvar í hvern landshluta
Tillaga til Aðalfundar og stjórnar LSE 5-7. 10.2018 að álykta að stofnaðar verði öflugar framleiðslustöðvar fyrir skógarplöntur í helstu landsfjórðungum þannig að framleiðslan komist sem fyrst til skógarbænda og bíði sem styst fyrir gróðursetningu.
Greinargerð: Þar sem ein stærsta gróðrarstöð landsins Barri hefur hætt og framleiðslutæki og þekking hefur mögulega tapast er mikilvægt að minnka skaðann sem mest með endurreisn plöntuframleiðslu á Íslandi.
15. Þinglýsing á bindingu kolefnis
Tillaga til Aðalfundar og stjórnar LSE 5-7. 10.2018 að leggja fram skýrar leiðbeiningar hvernig skógarbændur geta þinglýst kolefnisbindingu á jörðum sínum þannig að fram komi aðgerðaferlið þannig að allir skógarbændur sem vilja geta valið þessa leið.
Greinargerð: Þar sem einn skógarbóndi hefur að líkindum náð að þinglýsa kolefnisbindingu á jörð sinni er full ástæða til að allir þeir sem vilja gera hið sama geti gert það og sem fyrst áður en vindar stjórnmálanna breytast.
16.Kynslóðaskipti
Tillaga til Aðalfundar og stjórnar LSE 5-7. 10.2018 að vinna að finna gott fræðsluefni og mynda ráðgjafaþjónustu um kynslóðaskipti í skógrækt þar sem hún nær að minnsta kosti yfir þrjár kynslóðir miðað við venjulega mannsaldur. Ástæða er til að fræða um þennan þátt strax í upphafi þannig að vitneskja sé til um hvert stefnir og hvernig og hvað þarf til.
Greinargerð: Ekki er ólíklegt að skógarbændur geti lent í þeim vanda að næsta kynslóð erfingja hafi ekki tileinkað sér vinnuferli og þekkingu í skógrækt þannig að fyrsta kynslóðin byrjar af eldmóði en sú næsta hefur aflað sér annarrar menntunar og starfa sem er 9-17 virka daga þannig að skógrækt fellur ekki endilega vel að því mynstri. Hér má ímynda sér þætti eins og að kynna skógræktina fyrir börnum snemma, fræða og ræða hvað felst í þessu ferli þegar tími er til kominn þannig að önnur kynslóðin hefur víðari reynslu en sú fyrsta. Þetta má gera með fræðandi lesefni, myndrænu efni og minni hópfundum vina og barna þeirra sem síðan læra af hverju öðru. Líklegar að fyrirmyndir séu til sem má aðlaga aðstæðum hérlendis..
17. Áherslutrjátegundir við kolefnisbindingu
„Tillaga til Aðalfundar og stjórnar LSE 5-7. 10.2018 að leggja fram áætlun og beiðni um fjölda og breytileika þeirra trjátegunda sem skógarbændur í landshlutaverkefnunum treysta sér til að gróðursetja með háa kolefnisbindingu á jörðum sínum á ári hverju.“
Greinargerð: Í ljósi skuldbindingar Íslands við Parísarsáttmálann um kolefnisbindingu má það ljóst vera að fram að þeim tíma, árin 2030 og 2040, verða þau tré sem fara í jörðu héðan í frá ekki hálfnuð í vexti né kolefnisbindingu þegar kemur að þessum tímamótum. Því er eðlilegt að stjórnvöld horfist í augu við nauðsyn þess að stórauka framlag og vinna með skógarbændum ásamt þeim nýju sem bætast þurfa í hópinn að um samvinnu verði að ræða en ekki einhliða ákvörðun stjórnvalda.
Tillaga frá stjórn FSN
18. Greiðsla fyrir grisjun
„Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn á Hellu 5. og 6. október 2018, leggur til að LSE þrýsti á að Skógræktin sinni betur en hingað til verkliðum sem felast í auknu verðmæti skóga, þ.e. veita framlög til umhirðu ungskóga, svo sem snemmgrisjun og slóðagerð henni tengd.“
Greinargerð: Á undanförnum árum hefur umhirða ungskóga setið verulega á hakanum. Stjórn FSN skorar á stjórn LSE að þrýsta á Skógræktina að veita auknu fjármagni í fyrstu grisjun og slóðagerð í tengslum við hana. Verðmæti nytjaskóga byggist meðal annars á góðri umhirðu á fyrstu árunum.