top of page

Geta ferðamenn grætt landið?


Eitt af vandamálunum sem stærri skógarbændur kljást við á hverju ári er að finna vinnufólk sem tilbúið er til að planta á vorin. Margir erlendir ferðamenn vilja kynnast menningu og náttúru Íslands. Þessar tvær þarfir geta mæst á réttum stað: við skógrækt ferðamanna.

Ferðamenn dagsins í dag eru ekki þeir sömu og fyrir einni kynslóð. Neyslumynstur almennt hafa breyst frá því að eyða peningum í að eiga og nota hlutina í að leigja hluti og upplifa. Þessi breyting á neyslumynstri er kynslóðatengd. Yngra fólk í dag ferðast mun meira en jafnaldrar þess gerðu fyrir 1-2 kynslóðum. Lágfargjaldaflugfélög bjóða upp á að fólk ferðist mikið og er eftirspurnin þá helst í því að upplifa eitthvað, jafnvel það eitt að hafa komið til ákveðins lands.

Með auknu flugi eykst útblástur gróðurhúsalofttegunda. Langflestir átta sig á þessu þótt viðkomandi grípi því miður of sjaldan til aðgerða ætluðum til að minnka nettó kolefnisspor ferðalaga.

Íslenskir skógarbændur til bjargar.

Tiltölulega auðvelt væri fyrir íslenska skógarbændur að mæta þörfum nútíma ferðamanna fyrir upplifun. Það eitt að planta 100-200 trjám í íslenskri náttúru myndu margir skilgreina sem upplifun. Fengi ferðamaðurinn hádegismat og sögur af landssvæðinu eða úr héraðinu sem hann væri í yrði upplifunin þeim mun meiri. Í ofanálag væri hann að kolefnisjafna sitt ferðalag til Íslands, a.m.k. að hluta, og væri það annar stór plús í huga viðkomandi.

Fyrir skógarbóndann væri þetta kjörið fyrirkomulag. Auðvelt er að kenna fólki hvernig á að planta trjám og þótt afköstin hjá óþjálfuðum einstaklingi séu mun minni en hjá verktaka er betra að 3-4 ferðamenn planti trjám þann daginn frekar en enginn.

Það skal tekið skýrt fram að ferðamennirnir væru ekki vinnuafl heldur væru þeir að fá þjónustu sem skógarbóndinn veitti þeim. Gjaldið fyrir þjónustuna gæti verið afskaplega lágt, e.t.v. 1000kr. fyrir trjáplöntun, heita súpu í hádeginu og leiðsögn um svæðið, því fullur skilningur ætti að vera á því að skógarbóndinn fær einnig „greiðslu“ í formi plantaðrar plöntu. Gistiaðstaða gæti verið seld sér eða í samvinnu við hótel í nágrenninu.

Þá væri kjörið að veita þá þjónustu að senda viðkomandi tölvupóst árlega með myndum af svæðinu sem hann plantaði í svo upplifun ferðamannsins vari í mörg ár. Það væri ekki aðeins auðvelt í framkvæmd heldur kjörið tækifæri til þess að minna ferðamanninn reglulega á Íslandsdvöl hans. Slíkt veldur jákvæðu umtali og er frábær auglýsing fyrir Ísland sem áfangastað ferðamanna þar sem aðgerðir til varnar loftslagsbreytingum eru í hávegum hafðar.

Auðvelt í framkvæmd og hefði margvíslegar jákvæðar afleiðingar.

Framtakssamir skógarbændur ættu hiklaust að íhuga þennan möguleika. Kæmist á opinbert samstarf milli ólíkra samtaka væri það vitanlega jákvætt en ekkert ætti að stöðva nokkurn mann frá því að framkvæma þetta upp á eigin spýtur. Framtakssamur skógarbóndi myndi setja sig í samband við hótel og ferðaskrifstofur til að ræða samstarf til að veita þessa skógræktunarþjónustu. Einfaldir einblöðungar sem liggja frammi á helstu áfangastöðum ferðamanna í nágrenninu væru góð auglýsing á þjónustunni. Og flugfélög sem fljúga til Íslands myndu mörg hver vera tilbúin til þess að bjóða upp á möguleikann að koma ferðamanninum í samband við skógarbóndann óskaði ferðamaðurinn eftir því.

Með þessu fyrirkomulagi væru margar flugur slegnar í einu höggi. Í fyrsta lagi myndi geta skógarbænda á Íslandi til að stækka skóglendi sitt á ódýran hátt aukast. Í öðru lagi fengi ferðamaðurinn upplifun sem væri sérstök í samanburði við aðra áfangastaði og entist honum lengi, sérstaklega fengi hann ljósmyndir af svæðinu árlega. Í þriðja lagi gætu skógarbændur fengið af þessu tekjur, t.d. vegna sölu á gistiaðstöðu. Þá myndi þetta auka flóru upplifana í íslenskri ferðaþjónustu og auglýsa Ísland sem umhverfisvænan áfangastað. Síðast en ekki síst kæmi þetta heimsbyggðinni allri vel í baráttunni við loftslagsbreytingar.

Ólafur Margeirrson hagfræðingur.


bottom of page