top of page

Samspil sauðfjár og skógræktar – vitum við nóg?


Samspil sauðfjár og skógræktar – vitum við nóg?

Í skógarstefnu 21. aldar er talað um að höfuðviðfangsefnið sé að auka flatarmál skóga og að því verði meðal annars náð með friðun lands fyrir beit og með breytingum á fyrirkomulagi beitar. Með aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar sem kynnt var haustið 2018 varð kolefnisbinding eitt meginhlutverk Skógaræktarinnar.

Landssamtök sauðfjárbænda stefna einnig að kolefnisjöfnun sauðfjárræktarinnar fyrir 2022. Má gera því skóna að skógrækt sauðfjárbænda þurfi að stóraukast á allra næstu árum ef það takmark á að nást.

Beitarskemmdir eða beitaráhrif?

Í gegnum tíðina höfum við heyrt að ef skógur verður fyrir beit þá séu það skemmdir. En skógarskemmdir eru afstætt hugtak, þær geta verið efnahagslegar, útlitslegar eða tilfinningalegar. Það er nauðsynlegt að gera skýran greinarmun á þessum þáttum. Þó birkiskógur sé bitinn þannig að hann sé lauflaus eins langt upp og sauðfé nær, eru það útlitslegar eða tilfinningalegar skemmdir en ekki endilega efnislegar. Ef skógurinn fær hinsvegar ekki tíma og frið til að endurnýja sig þegar þess er þörf þá skemmist hann og eyðileggst. Ef ræktaður ungskógur er beittur þannig að einhver tré missa toppsprotann, önnur eru tröðkuð niður eða brotin, eru það ekki endilega skemmdir á skógi, ef nægilega mörg tré eru eftir óskemmd miðað við endanleg markmið skógarins.

„Sérhver grein bitin þýðir ekki skemmt tré. Sérhvert tré bitið þýðir ekki skemmdan skóg,“ er góð tilvitnun úr erlendri vísindagrein sem vert er að hafa í huga.

MIkill kostnaður af friðun

Kostnaður við friðun og vörslu skóga er gríðarlegur, en það er á könnu Skógræktarinnar að meta hversu lengi hennar er þörf hjá einstökum bændum sem eru í skógrækt á lögbýlum. Stytting þess tíma, eða jafnvel að sleppa friðun fyrir ákveðnar trjátegundir þar sem beitarþungi er lítill, þýðir sparnað og þann sparnað má vega upp á móti hugsanlega auknum kostnaði við nýskógrækt fyrstu árin vegna einhverra aukinna affalla samhliða hugsanlegri beit. En í dag er ekki til næg þekking til að almennt skipuleggja skógrækt samhliða beit, eða skipuleggja beit í grónum skógi. Þó vissulega hafa nokkrir einstaklingar mikla og góða reynslu af beit í sínum skógi.

Hvernig má beita?

Varasamt er að draga of almennar ályktanir af einstökum beitarrannsóknum. Grunninn þarf að breikka og styrkja. Niðurstöður í meistaraverkefni mínu um sauðfjárbeit í ræktuðum ungskógi gilda t.d. bara fyrir sumarbeit lerkis í mólendi. Þó niðurstöður þess hafi bent til að óhætt sé að beita ungan lerkiskóg yfir sumartímann ef nægur annar gróður er til staðar, má ekki álykta sem svo að sauðfjárbeit í skógi sé í fínu lagi við allar aðstæður. Verkefnið var bara lítill biti í það púsluspil sem sem setja þarf saman um beit í íslenskum skógum.

Skóglendi getur verið frábært beitiland, gróskumikið og skjólgott. Æ fleiri bændur spyrja nú hvenær óhætt er að sleppa búsmala og þá í hversu miklu magni á skógræktarland sem vaxið er úr grasi án þess að valda óásættanlegum skemmdum eða afföllum á trjágróðrinum. En það er alveg ljóst að engar algildar reglur eru til og virk beitarstýring er alltaf nauðsynleg í skógarbeit og því þarf að fylgjast vel með hegðun sauðfjár í skógi og vera tilbúinn að grípa inn í ef þess er þörf.

Við þurfum að rannsaka meira

Skógræktarfólk býr yfir gríðarlegri og góðri þekkingu á áhrifum veðurfars, jarðvegsskilyrða, skordýra og sjúkdóma á tré og skóga og hvernig megi bregðast við þeim. Áhrif húsdýrabeitar hafa nánast ekkert verið rannsökuð. Einnig hefur lítið farið fyrir beitarrannsóknum í sauðfjárrækt síðan rannsóknir RALA fóru fram fyrir um 40 árum.

Mest er þörf á frekari rannsóknum á mun á beitaráhrifum milli trjátegunda og mismunandi beitartíma sauðfjár. Best væri að þær rannsóknir væru gerðar með mismunandi beitarþunga, vegna þess hve erfitt er að gefa út leiðbeiningar um beitarþunga ef meðferðirnar eru einungis beit/ekki beit. Allt land er hægt að eyðileggja með of þungri beit, hvort sem það er skóg eða mólendi. Og engin þörf er á að rannsaka HVORT beit geti skemmt skóga heldur HVERNIG. Rannsóknir ættu bæði að beinast að hvort og hvenær óhætt er að beita skóg, bæði aldurs-, stærðar- og tímalega og áhrifum á endurnýjun skógar. Fyrr er ekki hægt að gefa út neinar traustar leiðbeiningar um hvernig skógrækt og beit fara saman. Einnig væri áhugavert að skoða mun á áhrifum skógarbeitar milli sauðfjár, nautgripa og hrossa, en þó eru rannsóknir á sauðfjárbeit brýnastar þar sem sauðfjárbeit er sú nýting sem mest áhrif hefur á úthaga.

Breytt nálgun nauðsynleg?

Á tímum skipulagðrar skógrækar sl. öld hefur þess verið vandlega gætt að aðskilja skóglendi og beitardýr. Eðlilega, þar sem fyrri reynsla af nýtingu náttúrulegra skóga á Íslandi gaf ekki ástæðu til annars. Beit birkiskóga var af illri nauðsyn stunduð hér á landi með hagsmuni búfjár í huga frekar en skógarins. Í dag lifum við á öðrum og breyttum tímum og er því ekki kominn tími til að skógræktarfólk og sauðfjárbændur hugi að breyttri nálgun?


Skóglendi getur verið frábært beitiland, skjólgolt og gróskumikið.

Guðríður Baldvinsdóttir,

sauðfjár- og skógarbóndi á Lóni

Höfundur er skógarbóndi og MSc í skógrækt með áherslu á sauðfjárbeit í lerkiskógi.

Birt í Bændablaðinu. 4.tbl 2019 (bls 58)

bottom of page