top of page

Toppnum náð


Þröstur á lerkitoppi

Tvítoppaklipping og snyrting trjáa

Heilbrigðir skógar

Mannfólkið elur börnin sín svo þau vaxi og dafni. Við hjálpum búfénu okkar að komast á legg. Mesta ummönnunin fer fram fyrstu árin, svo gerist hitt svolítið af sjálfu sér. Þetta á ekki síður við um skógana okkar. Skógarauðlindin vex og dafnar sé henni sinnt sem skildi. Í velhirtum skógi standa heilbrigð tré. Tré eiga oft erfitt fyrstu vaxtarárin eftir gróðursetningu því á þeim tíma eiga þau í sífelldri baráttu við ofuröfl náttúrunnar, svo sem óáreiðanlegar árstíðir, næturfrost, skafrenning, beitardýr, frostlyftingu, samkeppnisgróður og skordýraplágur. Sé ætlunin að rækta einstofna tré í garði eða umfangsmikinn nytjaskóg getur það skipt öllu að kunna grunnatriðin við tvítoppaklippingu.

Klippur og handskar

Þau verkfæri sem þarf í verkið eru handklippur og greinasög. Mikilvægt er að verkfærin séu beitt og hrein , fari vel í hendi og séu meðfærileg. Handska og hlý föt má ekki vanmeta. Öryggisgleraugu geta verið góð við vissar aðstæður og plástrar munu koma sér vel einn daginn. Eftir notkun, ef ætlunin er að fara í annan skóg, er gott að sótthreinsa verkfærin áður en þau eru notuð á nýjum stað. Með hlýnandi veðurfari er aldrei að vita hvaða skordýr eða sveppagró berast til landsins og ekki viljum við vera dreifingaraðili á smiti milli skóga landsins.

Vetur, sumar og vor

Besti ástíminn til að vinna í skógi er á veturna þegar er sem kaldast. Gott er að sjá formið á lauf og barrfellandi trjánum á þeim tíma og þegar dagurinn er sem stystur er alltaf jafn hressandi að koma sér út til að vinna. Á vorin má eiga vona á að lauftrjám blæði (lekur safi úr sárinu) þegar toppar eru sagaðar af og getur það haft áhrif á sárið sem myndast, sérstaklega þegar sárið verður stórt. Á haustin og framan að fyrstu frostum er ekki æskilegt að eiga við tré. Á þeim tíma geta verið sveppagró í loftinu sem sýkja tré í gegnum sárin. Þetta veldur því að ígerð kemst í sárið sem getur leitt til að tréð nær ekki að loka því og verðu því með opið sár í mörg ár.drepið tréð[LH1] [HGS2] [LH3] . Skaðinn getur verið mikill og við viljum ekki bjóða hættunni heim[LH4] .

Aflimunin

Þegar toppur er sagaður eða klipptur af stofni trés skal alltaf hafa sem hreinastan skurð og skiptir þá miklu að verfærin séu beitt. Passa þarf að særa ekki börkinn í kringum sárið eða nærliggjandi greinar. Það veldur því að trénu gengur illa að loka sárinu. Venjulega þegar toppur á tré er klipptur af er gott að hafa tvennt að leiðarljósi: að klippa sem næst stofni og að skilja eftir sem minnst yfirborð á sárinu. Þessi regla á þó ekki við um furur, þar má ekki saga í greinahálsinn, en það er hulsa sem umleikur greinina aðliggjandi stofninum. Ef furugrein er eins og putti að þykkt nær hulsan venjulega um 3 mm. inn á greinina út frá stofni. Það er mikilvægt að tvítoppaklipping fari fram á því vaxtarskeiði sem best hentar, en þá er tréð oftast um og yfir mannhæð. Ef tré eru klippt ung getur verið lýjandi að bogra yfir hverri plöntu. Ef beðið er of lengi með tvítoppaklippingu gengur verkið hægt fyrir sig og sárin á trénu verða stærri en þyrftu að vera auk þess þarf meiri lagni við þegar klippa þarf svera toppa. Ef um mjög sveran topp er að ræða er best að saga hann svolítið frá stofni til að létta á honum. Eftir á má saga stubbinn af við stofninn.[LH5] . Eftir að grein er klipp eða söguð af skal láta sárið afskiptalaust og ekki á að mála eða lakka yfir.

Hugtakið

Orðið „tvítoppaklipping“ útskírir aðeins hluta þess verks sem æskilegt er að vinna. Ef ætlunin er að klippa tvítoppa mætti einnig huga að því að snyrta tréð svo sem að huga að auka stofnum, þéttum greinakrönsum, óeðlilegum greinavinklum og öðru óæskilegu. Best og auðveldast er að sinna trjám frá hnéhæð og upp í rúmlega mannhæð. Trjáplöntur eiga það til að mynda marga stofna upp af sömu rót. Það er ágætis regla að bíða með að snyrta trén þar sem stofnarnir mynda skjól fyrir hvern anna, þeir eru auk þess í innbyrðis samkeppni sem leiðir til þess að vöxtur verður meira á hæðina og auðveldara verður að velja þegar kemur að klippingu. Auðveldast og best er að klippa stofna frá hnéhæð upp í mannhæð því þá eru trén búin að súpa seyðið af því versta sem náttúran bíður upp á, svo sem næturfrost, samkeppni við gróður, skaraveður og fannfergi. Þá fara trén í skóginum að veita hvort öðru skjól og uppvöxtur trjánna ætti að vera upp á við hér eftir.

3 – 5 m millibil

Það er mikilvægt fyrir heilbrigði skógarins að sem flest tré séu einstofna því margtoppa tré brotna yfirleitt seinna á lífsleiðinni og geta valdið tjóni. Auk þess eykst viðarnýting skógarins eftir því sem fleiri tré eru einstofna. Fyrir óreynda verkmenn getur þessi vinna þótt seinleg og þá er ágætt að leggja áherslu á að taka tré í 3-5 metra fjarlægð frá hvort öðru. Það eru þau tré sem munu standa fram að lokahöggi. Að því loknu má fara aðra umferð og sinna afganginum af skóginum.

Aðgerðin

Gott er að staldra við og virða fyrir sér verkefnið áður en verkfærin eru dregin á loft. Eftir því sem meiri tíma er varið við skógræktina þeim mun meiri afurða er að vænta þegar kemur að uppskeru. Hér á eftir er farið yfir 3 skref við snyrtingu á tré. Fyrstu tvö skrefin ganga út á að búa til bein og teinrétt tré. Síðasta skrefið gengur út á að auka styrk í viðnum.

1)Val á stofni

Fyrst skal horfa á form trésins og horfa eftir þeim stofnum sem eru beinastir og sterklegastir. Þegar þeir eru skoðaðir nánar skal horfa eftir hvort efsta brumið á þeim sé vænlegt til vaxtar. Skoða þarf vöxt síðasta árs eða ára til að meta hvort vaxtaþrótturinn sé góður. Eftir þessa athugun ætti einhver eða einhverjir stofnar að bera af.

2)Tvítoppaklipping

Næst er horft á toppinn. Ef fleiri en einn toppur er á trénu skal klippa þá lökustu burt og er sama verkregla höfð eins og lýst var í liðinum „Val á stofni“.

3)Snyrting

Svo er horft á greinabygginguna og leitað eftir þéttum greinakrönsum þar sem fjöldi greina vaxa úr sama kransinum. Í þannig tilfellum má klippa nokkrar greinar úr kransinum og gera hann ögn eðlilegri. Þéttur greinakrans eykur stress í viðnum og gerir hann veikari. Stundum brotna tré einmitt þar í miklum stormum. Næst er horft á krappa greinavinkla. Ef stofninn, sem er valinn til að lifa, hefur grein með einkennileg krappan vinkil miðað við stofninn er vissara að klippa hana frá. Slík grein myndar „gankvist“ í viðinn og minkar gæði viðarins.

Að lokum er gott að klippa af allra neðstu greinarnar trésins. Þessar greinar eru gjarnan er á kafi undir gróðri og geta verið erfiðar við að eiga þegar þær stækka og ætlunin er að komast að trénu til að fella.

Þegar komin er reynsla á vinnuna á verkmaðurinn að sjá tiltölulega fljótlega hvaða stofn skal velja með tilliti til byggingarlags og gæði toppa. Þá gengur vinnan hraða fyrir sig og hægt er að ná yfir stórt svæði á skömmum tíma.

Toppnum náð?

Fullyrða má að tvítoppaklipping sé mikilvægasta inngrip í skógrækt eftir gróðursetningu. Eftir það má skógurinn standa óáreittur þar til kemur að grisjun. Vissulega er þó ein aðgerð sem mælt er með að farið sé í eftir tvítoppaklippingu; aðgerð sem gerir skóginn bæði aðgengilegri og verðmeiri en það er uppkvistun. Farið verður betur í það í næsta blaði.

Útskýringarmyndir

Þegar trén eru lægri en hnéhæð er óæskilegt að klippa trén. Betra er að bíða í ár eða tvö og meta þá stöðina þar sem enn er hætta á t.d. næturfrostum við svörðinn.
Þegar tréð er komið yfir hnéhæð eru minni líkur að t.d. næturfrost hafi áhrif á vöxt þess.
Á þessu vaxtarskeiði er mjög gott að meta uppvaxandi skóg og klippa þar sem þurfa þykir.

Þegar tré er á þessu vaxtarskeiði er best að tvítoppaklippa og snyrta skóginn til að gera hann heilbrigðari og enn betri til nytja.
Mjög viðráðanlegt er að tvítoppaklippa og snyrta tré þegar þau eru í um hnéæð upp í rúmlega mannhæð. Þá virka verkfærin vel og sárið sem til verður er oftast smávægilegt og verður fljótt að loka sér.
Tvítoppur á lerki. Toppbrum trésins er skemmt. Vaxtarþróttur á hliðargrein er meiri en í upphaflegum stofni og með gott toppbrum. Hér skal klippa gamla stofninn af og láta kröftugu hliðargreinina mynda toppinn til framtíðar.Tréð aðlagar sig fljótt breyttum aðstæðum þar sem tréð er enn ungt.
Þéttur greinakrans á lerki. Með því að fjarlægja nokkrar greinar og skilja eftir fáar eykst styrkur trésins. Auðvelt er að laga greinakransa sem þessa þegar tréð er enn ungt.

Hlynur Gauti Sigurðsson skrifaði

Lárus Heiðarsson las yfir.

Birt í Bændablaðinu. 5.tbl 2019 (bls 50)

bottom of page