Aðdragandi
Fyrir áratug eða svo juku Héraðs- og Austurlandsskógar áherslu á umhirðu ungskóga á Fljótsdalshéraði og umsvif snemmgrisjunar urðu áberandi allt í kringum Lagarfljótið. Víða mátti heyra í keðjusögum. Skógurinn er þarna enn og ef þið hlustið vel heyrist kannski enn í keðjusögum verktakanna þrátt fyrir að nú séu margir komnir með hljóðlátar rafmagnskeðjusagir. Eitt vinnuteymanna var skipað þeim Borgþóri Jónssyni, skógarbónda á Hvammi, og Kristjáni Má Magnússyni, skógarbónda á Stóra-Steinsvaði, en báðir hafa þeir umtalsverða þekkingu á stórvirkum vinnuvélum. Á vormánuðum 2014 flutti fyrirtæki Kristjáns „7, 9, 13 ehf.“ inn skógarhöggsvél af gerðinni Gremo 1050h. Það var gert í samráði við Skógrækt ríkisins og var fyrirséð að umfangsmikil vinna biði nú í skógum sem beðið höfðu grisjunar vegna þess að ekki borgaði sig vinna verkið með keðjusög. Ári seinna flutti Kristján Már inn útkeyrsluvél af sömu tegund.
Fyrsta högg Gremo
Nú eru fimm ár liðin frá því fyrsti skógarreiturinn, lerki í Mjóanesi á Völlum á Fljótsdalshéraði, var grisjaður með Gremo-vélinni. Þar sýndi sig útsjónarsemi skógarhöggsmannsins og tækjalagni vélamannsins. Um ári síðar var Óskar Grönholm ráðinn skógvélamaður til að stýra skógarhöggsvélinni. Óskar lærði í Finnlandi og er eini Íslendingurinn sem lokið hefur námi í skógvélatækni frá viðurkenndum skógtækniskóla. Mælieiningin rúmmetri (m3) er notuð þegar talað er um afköst í grisjun og er átt við samanlagt rúmmál trjábola sem eru felldir. Á fyrsta árinu, 2014, voru sagaðir 1.500 m3 og næstu ár á eftir voru sagaðir um 2.000 m3 ár hvert. Þetta þykja kannski ekki ýkja háar tölur ef miðað er við afköst erlendis en þessir skógarreitir sem hér um ræðir eru vart hæfir til samanburðar við reiti í rótgrónum skógum nágrannalandanna. Auk þess hafa grisjunarverkefnin einungis dugað til vinnu hálft árið eða svo.
Óskar að undirbúa Gremo skógarhöggsvélina_Mynd Hreinn Óskarsson
Gremo við grisjun á stórgreinóttri stafafurur_Mynd Pétur Halldórsson
Staflað í stæður eftir útkeyrslu á Gremo_Mynd Hreinn Óskarsson
Skógarauðlindin dafnar
Kristján segir reynsluna af skógarhöggsvélinni síðustu fimm ár hafa verið upp og ofan. Tegundir eins og greni, lerki og ösp eru mjög viðráðanlegar en það sama er ekki hægt að segja um stafafuruna. „Verkefnin hafa verið fjölbreytt en mest hefur þó verið sagað af afleitri stafafuru, við erum að saga um 50 ára gamla skóga og þá var mikið notað af kvæminu Skagway, en það er agalegt kvæmi,“ segir Kristján um blessaða stafafuruna og lýsir henni sem grófgreinóttri og margstofna. „Á þessum tíma, þegar þau tré sem við erum að saga núna voru gróðursett, voru menn meira að hugsa um lifun en gæði. Nú eru valin betri kvæmi og ég held að skógarbændur séu almennt farnir að sinna skóginum sínum betur með tvítoppaklippingu, uppkvistun og snemmgrisjun“. Hann nefnir að hann hafi fest kaup á stærri og öflugri fellihaus til að ráða betur við fururnar en sá gamli var sendur til uppgerðar hjá framleiðandanum. Þaðan fékk Kristján þau skilaboð að álíka meðferð á fellihaus hefði sjaldan sést. En skógarnir vaxa sem aldrei fyrr og verkefni fyrir skógarhöggsvélina verða fleiri með hverju árinu. Kristján kveðst því vera bjartsýnn fyrir hönd íslenskar skógræktar.
Reynsla af fleiri skógarhöggsvélum hér á landi
Fáar stórar skógarhöggsvélar hafa verið notaðar á Íslandi í gegnum tíðina. Þar til Gremo-vél Kristjáns Más kom til sögunnar hafa tvær grisjunarvélar verið reyndar hérlendis. Sú fyrsta sem talist getur sérhæfð skógarhöggsvél, var flutt inn í október 2006 og var í eigu Guðjóns Helga Ólafssonar. Hún bar viðurnefnið „Græni drekinn“ og var af gerðinni Menzi Muck A91 4x4 plus. Hún var mjög lipur og skildi eftir sig mun mjórri vinnubrautir en aðrar vélar gera. Vélin var útbúin fellihaus sem réð vel við greinastórar og kræklóttar furur. Einnig hentaði hún vel í ýmis bústörf sem grafa, meira að segja til gróðursetningar, en hún var búin sérstökum gróðursetningarhaus. Í kjölfar efnahagshrunsins 2008 var stórlega skorið niður í skógrækt og urðu verkefni fyrir „Græna drekann“ fá eftir það. Guðjón neyddist því til að selja og fór vélin úr landi í október 2009.
Það kann að hljóma undarlega en síðar það sama ár var næsta skógarhöggsvél flutt inn. Hún var flutt inn fyrir afmarkað verkefni og var af gerðinni Timberjack 1470. Þetta var dönsk vél og var stýrimaðurinn líka danskur. Verkefnið var grenireitur í Skorradal og var eins konar undanfari að „Elkem-ævintýrinu“.[PH1] Að verki loknu, eða strax í byrjun næsta árs, var danska grisjunarvélin aftur flutt úr landi. Aldrei áður hefur einn kaupandi keypt svo mikið timbur af Skógræktinni, hvorki fyrr né síðar.
Græni Drekinn að við brattar aðstæður_Mynd Hreinn Óskarsson
Daninn grisjar sitkagreni í Skorradal á Timberjack skógarhöggsvél_Mynd Hreinn Óskarsson
Annað vélvætt skógarhögg
Þó þessi samantekt fjalli um skógarhöggsvélar má vissulega minnast líka á þá skógarhöggshausa sem keyptir hafa verið til landsins. Þeir eru yfirleitt tengdir við hefðbundnar beltavélar (gröfur). Þrír slíkir hausar hafa verið fluttir inn. Sorpa í Reykjavík flutti þann fyrsta inn árið 2004 til að afgreina tré úr einkagörðum en hann var einnig reyndur við grisjun í Heiðmörk. Hann var að gerðinni Log Max.
Þegar kyndistöð Skógarorku á Hallormsstað var stofnsett, árið 2009, þurfti að vera til brenni fyrir hana. Árin 2008 til 2015 stóð yfir umfangsmesta grisjun sem boðin hefur verið út á Íslandi. Árið 2010 keypti Sveinn Ingimarsson, skógarbóndi á Sturluflöt í Fljótsdal, til landsins grip- og klippikló af gerðinni Pentin Paja og sama ár flutti Einar Örn Guðsteinsson, skógarbóndi á Skeggjastöðum í Fellum, inn fellihaus af gerðinni Keto 51. Árið 2009 voru teknir út 1.000 m3 úr reitnum og í lok verks höfðu þeir samanlagt lokið við grisjun og útkeyrslu á 100 hekturum. Einar hefur allar götur síðan sinnt grisjunarverkefnum, ýmist fyrir Skógræktina á Hallormsstað eða skógarbændur á Héraði, og er þar af nægu að taka. Grisjun hjá Einari er íhlaupavinna og hefur hann verið að saga frá 300 m3- 500 m3 á vetri. Auk skógarhöggsins vinnur hann sem verktaki við ýmis önnur verkefni og er sauðfjárbóndi í ofanálag.
Högghaus Sorpu var reyndur í Heiðmörk_Mynd Hreinn Óskarsson
Gripklóin með lerkitré á leið í kyndistöðina_Mynd Þór Þorfinnsson
Keto-högghausinn hefur komið að sögun á Hallormsstað í um áratug_Mynd Þór Þorfinnsson
Fallin spýta
Þegar skyggnst er til baka má sjá að gengið hefur á ýmsu. Ef ekki væri fyrir framsækna frumkvöðla værum við stutt á veg komin við vélvætt skógarhögg. Skógarnir vaxa og samfélagið, loftslagið og efahagur þjóðarinnar nýtur góðs af. Aukin vélvædd grisjun hefur í för með sér meira af föllnu timbri. Viðarvinnslur eru ekki lengur einungis á herðum Skógræktarinnar heldur eru einkaaðilar farnir að áframvinna timbrið og ýmislegt hangir á spýtunni, vítt og breitt um landið. Skógurinn er þarna enn og ef við erum góð að rækta skóg munum við í auknum mæli heyra timbur falla í öllum landshlutum.
Myndbönd (VIdeo) af grisjunarvélunum Timberjack og GREMO.