top of page

Hugmyndir um framtíð skógræktar árið 2009

Fyrir áratug var eftirfarandi ályktun bókuð á fundi FsS vegna nefndarvinnu þar sem verkefnið var að endurskoða framtíð skógræktar á Íslandi. Sigurður Jónsson í Ásgerði, fyrrum stjórnarmaður FsS, færði framkvæmdastjóra LSE þessa bókun fyrir skömmu. Hún er forvitnileg og í henni kemur ýmislegt fram sem vert er að skoða. Margt má læra af sögunni.

 

Fundur að Gunnarsholti 24. júní 2009, með Endurskoðunarnefnd um framtíð skógræktar á Íslandi.

Nokkrir punktar frá stjórn Félags skógarbænda á Suðurlandi.

1. Ein stjórn yfir öllum verkefnum.

Skerpa þarf á stöðu skógræktar sem atvinnugreinar á Íslandi. Um er að ræða ört vaxandi atvinnugrein, þar sem skógarbændur stunda nytjaskógrækt af fullri alvöru og eftir viðurkenndum leiðum í samstarfi við fagfólk í greininni. Skógrækt er og verður atvinnuskapandi og verðmætaaukning í greininni getur orðið umtalsverð, ef vel og faglega er haldið á spilum. Skógrækt er stunduð um allt land og aðföng fengin úr nánasta umhverfi. Skógrækt og þróun afurða skógarins í söluhæfa vöru, tekur tíma eins og önnur þróunarvinna, en er þegar farin að skila árangri, þó í litlum mæli sé.

Til að ná fram markvissum og samræmdum vinnubrögðum, væri árangursríkt að Landssamtök skógareigenda mundu skipa fimm manna yfirstjórn, þar sem sætu fulltrúar úr hverjum landshluta. Þessari stjórn væri ætlað að vera andlit skógareigenda út á við, þátttakandi í mótun skógræktar á Íslandi og nýtingu og sölu á afurðum skógarins. Einnig að vera viðsemjandi varðandi fjármögnun verkefnanna og hagsmuna skógarbænda.

Þessi stjórn bæri ábyrgð á ráðningu framkvæmdastjóra verkefnanna og eftirfylgni og umsjón með fullnustu samninga vegna verkefnanna.

Framkvæmdastjóra væri falið að sjá um daglegan rekstur verkefnanna og tryggja þjónustu við skógareigendur svipað og verið hefur.

2. Rannsóknarstöðin að Mógilsá myndi eflast mjög og styrkjast sem sjálfstæð og vísindaleg rannsóknarstöð og viðurkenndur vottunaraðili, ef hún væri sérstök stofnun, en ekki hluti af Skógrækt ríkisins.

Sé litið til framtíðar og viðurkenndrar rannsóknarniðurstaðna og þess vottunarferlis sem ný verkefni kalla á, er mikilvægt að velta fyrir sér, hvernig hagkvæmast verður að nýta þá þekkingu og aðstöðu sem til er í landinu.

3. Tryggja þarf aðgengi skógareiganda og verkefnanna að fagfólki þannig að hægt sé að bregðast strax við þeim vandamálum sem koma upp hverju sinni.

Það þarf líka að koma á skilvirkum gagnagrunni þannig að skógareigendur geti nýtt sér á sem bestan máta allar þær rannsóknir og niðurstöður sem framkvæmdar hafa verið og tengjast skógrækt.

4. Fræ sem notuð eru til ræktunar nytjaskóga verða skilyrðislaust að koma frá viðurendum aðilum eða fræhúsum.

5. Auka þarf eftirlit með framleiðslu plantna og breyta fyrirkomulagi á útboðum.

6. Kolefnisbinding skóganna er alfarið í eigu skógareigenda.

7. Fella þarf niður ákvæði um að landeigandi þurfi að hafa lögbýli á skógræktarjörð sinni, til að vera gjaldgengur í verkefnin.

8. Samræma þarf verðtaxta að mestu leyti, en verkefnin þurfa samt að halda sjálfstæði sínu og sérstöðu/sérkennum miðað við hvern landshluta.

9. Raunhæft er að tvöfalda framlag til skógræktarverkefna á næstu árum, endurskoða ferlið og einfalda það, jafnframt að ná fram hagkvæmni með sameiningu skógræktarverkefnanna, má þar til dæmis benda á verkefnið Bændur græða landið.

bottom of page