Timbur er umhverfisvænsta hráefni til byggingaframkvæmda í heiminum.
Ísland er skóglítið land en möguleikar til skógræktar miklir. Hlýnun jarðar næstu áratugi er óumflýjanleg. Það mun hafa í för með sér mikla gróðureyðingu á heitum svæðum og bráðnun jökla, sem raskar jafnvægi hafstrauma. Vestrænar þjóðir reiða sig á skóga og timbrið sem úr þeim kemur. Ísland er þar engin undantekning. Mikill innflutningur á timbri er til landsins með tilheyrandi kolefnislosun.
Mikill áhugi er á skógrækt meðal landeiganda um allt land. Skógarbændur á um 500 skógræktarjörðum eru með aðild að Landssamtökum skógareigenda. Langflestir skógarbændur eru að rækta skóg til timburframleiðslu og má því segja að aukið skjól, hefting jarðfoks, ríkulegri beitarmöguleikar, aukin uppskera, jafnari vatnsbúskapar og kolefnisbinding séu dæmi um aukaafurðir skógarins. Með skógrækt má byggja upp atvinnu á landsbyggðinni, allt frá plöntuframleiðslu, gróðursetningu og umhirðu jafnt og þétt þar til lokatakmarki er náð, sem verður væntanlega timbur í fyrsta flokki.
Úr íslenskum skógum má rækta og vinna gæðavið af ýmsu tagi. Sé timbrið nýtt hérlendis er kolefnissporið lítið en gæði viðarins geta verið stórgóð. Samhliða vel hirtum og stækkandi skógum fer skógarmenning á Íslandi einnig vaxandi og er það eftirsóknarverður möguleiki að vita til þess að íslendingar geti á orðið sjálfum sér nægir um timbur um eftir hálfa öld.
Skógræktin, Landssamtök skógareigenda, Landbúnaðarháskóli Íslands, Skógræktarfélag Reykjavíkur og Nýsköpunarmiðstöð Íslands gerðu með sér viljayfirlýsingu um að efla gæðamál í nýtingu á timbri sem kemur úr íslenskum skógum á síðasta ári. Ýmsar leiðir eru til við að nýta skógarauðlindina.
Í einkageiranum eru mörg fyrirtæki farin að sýna samfélagslega ábyrgð í umhverfismálum og leita leiða til að minnka kolefnislosun. Límtré Vírnet er dæmi um fyrirtæki sem lætur sig loftslagsmálin varða. Í samvinnu við skógargeirann og Nýsköpunarmiðstöð Íslands, gerir það tilraunir með að vinna límtré úr íslenskum viði. Ef verkefnið skilar tilætluðum árangri er það allra hagur. Innflutningur á timbri minnkar, skógargeirinn selur timbrið í vinnslu og loftslagið nýtur góðs af öllu saman. Auk þess hefur Límtré Vírnet hafið vinnu við að meta kolefnisspor fyrirtækisins og hafið kolefnisjöfnun með því að gróðursetja tré á 1 hektara lands núna á vormánuðum hjá Skógræktinni sem vonandi verður hægt að nýta til framleiðslu á timbri á næstu áratugum. Með því skapast heilbrigð hringrás kolefnisbindingar í skógunum og nýting viðarafurða til framleiðslu á byggingarefnum í framtíðinni. Límtré Vírnet setti persónulegt met í framleiðslu á límtré árið 2018, þar sem rúmlega 3000 m3 af límtrésbitum úr u.þ.b. 4000 m3 af timbri úr FSC vottuðum Norrænum nytjaskógum voru framleiddir.
Mikill þrýstingur er kominn til notkunar timburs í byggingariðnaði í heiminum og nú þegar er gríðarleg aukning í notkun þess. Með aukinni eftirspurn eftir timbri er alveg ljóst, mikilvægi þess að hefja sjálfbæra timburvinnslu í mannvirkjagerð á Íslandi og skapa hér blómlegan, hátæknivæddan timburiðnað, sem gæti gert okkur kleyft að vera sjálfbær með okkar eigið byggingarefni í framtíðinni. Hvort að það sé hægt á Íslandi er meðal annars verið að reyna að svara með þessum rannsóknum á íslensku timbri.
Við getum minnkað CO2 í andrúmsloftinu á tvennan hátt, með því að minnka útstreymið og með því að fjarlægja það og binda í fast form. Með trjám gerum við hvorutveggja.
Ef við notum 1m3 af timbri í hús, þá minnkum við losunina um 1 tonn af CO2, sem er kolefnið í trénu. Við framleiðslu á byggingum með öðrum byggingaraðferðum er notað að meðaltali 1 tonn af CO2. Með því að nota timbur í staðinn fyrir önnur byggingarefni spörum við því 2 tonn af CO2. Eitt tonn af CO2 samsvarar útblæstri frá 430 lítrum af bensíni.
Skógar á landinu binda nú um 400 þúsund tonn af CO2 árlega. Í dag þekja ræktaðir skógar aðeins 0,42 % landsins. Unnið er að því að ræktaðir og náttúrulegir skógar geti þakið um 4 prósent landsins árið 2040. Tré eru að mestu leyti kolefni og er tilvalið byggingarefni. Þess vegna eigum við að nota timbur til að bæta umhverfisgæði okkar.
Starfshópur um viðargæði
Alaskaösp söguð í borð og planka.
Í Þjórsárdal er timbrið úr skóginum nýtt sem byggingarefni.
Límtré Vírnet gerir tilraunir með límtré úr fjórum helstu timburtegundum sem ræktaðar eru á íslandi, talið ofan og niður: rússalerki, alaskaösp, sitkagreni og stafafura