Aðalfundur LSE 2019


Aðalfundargerð LSE 2018

PDF gögn

Fundargerð aðalfundar LSE 2019

Skýrsla stjórnar

Ársreikningur 2018 Aðgangsorð: skogur

Fjárhagsáætlun 2020

Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda 2019

Haldinn í Kjarnalundi við Akureyri

11. október 2019.

Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda

Dagskrá fundarins:

Föstudagur 11. október

Kl. 10:30 Býður fólk velkomið og gefur formanni orðið

Kl. 10:35 Setning fundar (formaður LSE)

Kl. 10:40 Kosning starfsmanna fundarins

Kl. 10:45 Skýrsla stjórnar

Kl. 11:05 Ársreikningar

Kl. 11:15 Umræða um skýrslu stjórnar

Kl. 12:00 Ávörp formanna aðildarfélaga LSE

Kl. 12:30 Hádegismatur

Kl. 13:00 Ávörp gesta

Kl. 14:00 Skógarauðlindasvið, pistill

Kl. 14:15 Mál lögð fyrir fundinn og vísað til nefnda

Kl. 15:00 Kaffihlé

Kl. 15:30 Nefndarstörf

Kl. 16:30 Afgreiðsla tillagna

Kl. 18:00 Kosningar

Kl. 19:00 Önnur mál

Kl. 19:30 Kvöldmatur

Kl. 20:00 Aukatími fyrir aðalfund

Kl. 22:00 Fundarlok

1

Býður fólk velkomið og gefur formanni orðið.

Formaður Félags skógarbænda á Norðurlandi, Sigurlína Jóhanna Jóhannesdóttir, bauð gesti velkomna. Bauð fólk velkomið á Norðurland og sagðist vonast til að fundurinn verði ánægjulegur. Sá siður hefur komist á að gestgjafar leysi fundargesti út með gjöfum og upplýsti Sigurlína að afhent yrðu tré í lok dags sem gjöf. Gaf hún síðan formanni LSE orðið.

2

Setning fundar og kosning starfsmanna fundarins.

Formaður LSE, Jóhann Gísli Jóhannsson, bauð gesti velkomna. Sagði frá því að fundurinn nú væri með nýju sniði, þ.e. að hann væri kláraður á einum degi en seinni daginn færi fram málþing um viðargæði og afurðir.

Starfsmenn fundarins voru skipaðir án athugasemda; Rögnvaldur Ólafsson fundarstjóri og Freyja Gunnarsdóttir fundarritari, henni til aðstoðar var skipuð Laufey Leifsdóttir.

Fundarstjóri tók við stjórn fundarins og fór yfir praktísk atriði og vatt sér síðan í dagskrá.

3

Skýrsla stjórnar.

Jóhann Gísli Jóhannsson formaður LSE bauð gesti og félagsmenn velkomna. Jóhann Gísli fór yfir starf samtakanna frá síðasta aðalfundi. Haldnir hafa verið sex stjórnarfundir frá síðasta aðalfundi og af þeim einn í fjarfundabúnaði.

Fór formaður yfir afgreiðslu á tillögum frá síðasta aðalfundi en afgreiðsla þeirra var á ýmsan veg. Sumum var beint til viðeigandi ráðuneyti og aðrar settar í vinnslu hjá nefndum á vegum LSE.

Fundað var með Sambandi íslenskra sveitarfélaga vegna tillögu um nýskógrækt og sveitarfélög. Málið er flókið en vilji fyrir hendi að greiða úr flækjustigum. Skógræktin kemur einnig að því að einfalda umsóknarferli vegna skógræktarsamninga og skipulags.

Leitað hefur verið undirtekta hjá Skógræktinni vegna tillögu um verkefnaflutning frá Skógræktinni til LSE, ekkert gert en verður áfram í umræðu og farvegi.

Ein tillagan fjallaði um að bændaskógrækt ætti að flytjast til landbúnaðarráðuneytis. Ekki talið tímabært þar sem peningarnir væru í umhverfisráðuneytinu og landbúnaðarráðuneyti væri hreinlega ekki í stakk búið til að sinna þessu verkefni eins og er.

Formaður telur að LSE eins og önnur búgreinafélög eigi að vera undir landbúnaðarráðuneyti.

Girðingatillaga kom fram á síðasta aðalfundi og enn er meiningarmunur á því hvernig viðhaldi og greiðslum skuli fyrirkomið og ekki allir sáttir um framkvæmdina. Eitt félag hefur beðið um lagalega skoðun á framkvæmdinni og er beðið þeirrar niðurstöðu.

Ekki hefur náðst að vinna að kostnaðarmati í skógrækt vegna anna hjá framkvæmdastjóra LSE sem er aðeins í 80% starfi. Þarf að vinna málið vel þegar tími gefst í það sem og vinnu að stefnu LSE þar sem hlutverk LSE og aðildarfélaga í framtíðinni er mótað.

Reglulega rætt um peninga í grisjun þegar fundað er með Skógræktinni en tregt er um peninga í slíkt frá stjórnvöldum þar sem aðaláherslan er á kolefnisbindingu.

Varaformaður og framkvæmdastjóri LSE sóttu formannafund Bændasamtaka Íslands (BÍ) og formaður LSE Ársfundu BÍ. Segir formaður ársfund ekki vera fund ákvarðana. Framkvæmdastjóri kynnti bændum asparskógrækt á formannafundi sem aðgerð í stað endurheimt votlendis.

Samráðsfundir hafa verið tveir á árinu þar sem fundur síðasta árs frestaðist vegna veðurs. Formenn aðildarfélaga sitja einnig þessa samráðsfundi. Taxtamál mikið rædd enda liggja þau þungt á félagsmönnum og taxtar þykja lágir. Skógræktin féllst ekki á að hækka taxta fyrir gróðursetningu eftir almennri launavísitölu. Áframhaldandi slagur er í því að ná fram hækkunum. Fyrir þessum aðalfundi liggur fyrir tillaga um að stofna launanefnd LSE og Skógræktarinnar. Nýjar girðingareglur voru samþykktar á samráðsfundi en svo kom í ljós eftir fund að samþykki fulltrúa LSE byggðist á misskilningi og er málinu ekki lokið.

Fundir/hagsmunagæsla. Fundað var með Sambandi íslenskra sveitarfélaga um framkvæmdaleyfi og kolefnisbókhald sveitarfélaga, með Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og rætt um kolefnismál við samtökin og möguleika á að sjávarútvegsfyrirtæki komu að fjármögnun í skógrækt. Voru viðmælendur jákvæðir ef stjórnvöld gæfu afslátt af kolefnisgjaldi á olíu en það stendur ekki til hjá umhverfisráðherra.

Framkvæmdastjóri fór á fundi til allra aðildarfélaga nema aðalfund félagsins á Vestfjörðum. Framkvæmdastjóri LSE sat fundi um skipulag Fagráðstefnu skógræktar og ýmsa fleiri fundi m.a. náðu formaður og framkvæmdastjóri fundi með umhverfisráðherra og tveimur aðstoðarmönnum hans á Fagráðstefnunni.

Styrkir. LSE fékk styrk frá Framleiðnisjóði sem er ætlaður til vöruhönnunar, staðlainnleiðingar og skýrsluskrifa. Þá fékkst styrkur frá umhverfisráðuneyti til viðarmagnsúttektar með dróna.

Viðburðir. LSE tók þátt landbúnaðarsýningu í Laugardalshöll í október 2018 og vakti básinn mikla lukku. Fyrirhuguð er landbúnaðarsýning 2021 og segir formaður að það þyrfti að fara að huga strax að þátttöku og undirbúningi. Björn Steinar Blumenstein fékk styrk frá LSE til vöruhönnunar á húsgagnalínu og tók þátt í Hönnunarmars. LSE styrkti búfjárnemendur um kr. 1000 hvern í þátttöku ferðar um Suðurland. Bók um tré var boðin skógarbændum á góðum kjörum og var dreift á vegum LSE. Skipulögð var ferð á vegum LSE til Danmerkur, ekki er um styrkta ferð að ræða. Þakkaði formaður þeim sem sáu um skipulagninguna sem þótti til fyrirmyndar en það voru þau Maríanna Jóhannsdóttir, Hraundís Guðmundsdóttir og Hlynur Sigurðsson sem stóðu að henni.

Umsagnir til Alþingis. LSE skilaði umsögnum um frumvarp um svæðisbundna flutningsjöfnun, ný skógræktarlög og Miðhálendisþjóðgarð.

Bókhald LSE. KPMG sá um bókhald fyrir LSE en er nú komið til BÍ og mun flytjast til Hótel Sögu eftir áramótin. Kostnaður við bókhaldið hjá KPMG var orðinn 10% af fjármagni sem er of dýrt fyrir lítil félagasamtök.

Við skógareigendur – blaðið. Útgáfa blaðsins fór undir Bændablaðið í því formi að vera sérliður í því blaði. Formaður hvetur ritnefndir til að vera virkar og hvetja fólk til skrifa.

Jólatré. Sagði formaður þau mál hálffrosin en enn sé verið að reyna. Ekki náðist að funda með ráðherra fyrir þennan aðalfund. Um er að ræða mál vegna tillögu frá síðasta aðalfundi.

Erlend mál. Framkvæmdastjóri LSE sat fund framkvæmdastjóra norrænna skógarbændafélaga (NFS) sem áheyrnarfulltrúi. Sagði formaður hann hafa komið af þeim fundi fullur af hugmyndum.

Skógarfang og Gæðafjalir. LSE er þátttakandi í tveimur verkefnum Skógarfangi með Skógræktinni og Gæðafjölum með BÍ. Í Skógarfangi er að koma að lokaskilum sem eru skrif skýrslu þar sem m.a. er verið að skrifa framtíðarstefna LSE þar inn.

Verkefnið, Gæðafjalir, er teymisvinna sem vinnur m.a. að staðlamálum íslensks timburs vottun fyrir íslenska skóga og miða vinnunni vel áfram.

Þá sagði formaður frá vinnu með BÍ varðandi kolefnismál en á fundi í ágúst var LSE beðið að skoða hvað þessir tveir aðilar gætu gert saman í þessum málum. Búið að búa til teiknimynd með hugmyndum/útskýringum sem verður sýnd þegar formaður hefur lokið máli sínu.

Fram undan er fundur með formönnum stærstu búgreinafélaganna og svo verður lögð fram sameiginleg tillaga/skýrsla á formannafundi 24. október nk.

Útgangspunktur að þjappa sér saman um vinnu við þetta mál sem og fleiri í stað þess að hvert félag/búgrein væri að eyða óhemju fjármunum hvert í sínu horni.

Bíómynd/teiknimynd sýnd um kolefnisbrúna sem er hugmynd LSE um kolefnisaðgerðir. Hlynur Sigurðsson og Gunnlaugur Guðjónsson unnu að hugmyndinni.

4

Ársreikningar.

Sigrún Hrönn Þorsteinsdóttir gerði grein fyrir endurskoðuðum reikningum samtakanna árið 2018.

Niðurstöður rekstrarreiknings;

Rekstrartekjur 19.946.553

Rekstrargjöld 19.140.425

Rekstrarhagnaður 840.009

Niðurstöður efnahagsreiknings;

Eignir 3.003.993

Eigið fé 2.519.950

Eigið fé og skuldir 3.003.993

Fundarstjóri vísaði reikningum samtakanna til fjárhagsnefndar til umfjöllunar.

Undirritaðir og endurskoðaðir reikningarnir fylgja fundargerð ásamt skýrslu stjórnar.

5

Umræða um skýrslu stjórnar og reikninga.

Björn Ármann Ólafsson hefur áhyggjur af að skógarbændur sé að verða gleymdur kynstofn innan ráðuneyta eftir að hlusta á skýrslu stjórnar. Landbúnaðurinn sé ofan í skúffu í sjávarútvegsráðuneytinu og erfitt við umhverfisráðuneytið að eiga. Þurfum við ekki að fara að gera eitthvað til að láta að hlusta á okkur? Umræðan sé orðin undarleg og á þá leið að skógrækt sé slæm og stuðli að hlýnun. Talað var um að setja meiri peninga í skógrækt á síðasta ári en þegar kom að fjárlagatillögum hjá Alþingi var skorið niður.

Farið sé að tala um íslenskar skógarplöntur sem hættulegar plöntur, stafafura sé ágeng og fari að taka yfir Ísland ásamt lúpínu. Viðraði einnig áhyggjur af girðingamálum en þar sé enn byggt á 800 ára gömlum reglum. Komin tími til að leysa málin. Segir að það sé ljóst að skógur leysi mál um kolefnisbindingu. Skýrsla stjórnar sé ágæt en sagði honum að skógarbændur væru ekki á góðum stað.

6

Ávörp formanna aðildarfélaga LSE.

Félag skógarbænda á Vesturlandi - Bergþóra Jónsdóttir

Stefna Félags skógarbænda á Vesturlandi (FSV) er að vera málsvari þeirra sem stunda skógrækt á svæðinu. Eftir þeirri stefnu hefur verið unnið í 22 ár og á þeim tíma hafa skógar vaxið upp.

Ekki hefur verið stefna að stofna afurðafélag en það er að koma að grisjun og þá koma afurðir. Hvað verður þá, afurðafélag verktaka, bænda eða hvað er spurningin. Félagið sjálft veit ekki áætlaða þörf grisjunar á svæðinu en það studdi mastersverkefni sem snéri að viðarmagnspá til 30 ára á Vesturlandi.

Nokkrir bændur hafa selt jólatré og fer vonandi fjölgandi. Skógarbændur eru vanir að bíða og bíða nú eftir 2020 en þá vona þeir að skógarplöntum fjölgi til skógarbænda.

Formaðurinn segir spennandi tíma framundan, meiri plöntun, meiri kolefnisbinding.

Önnur aðalstefna félagsins er að efla samheldni meðal skógarbænda og leggja áherslu á fræðslumál. Félagið hefur staðið að námskeiðahaldi, m.a. umhirðunámskeiði 2018, fengið fræðsluerindi á fundi og eru dugleg að heimsækja skógana hjá hvort öðru. Telja aðalfund LSE mikilvægan og styrkja félagsmenn til farar.

Aðalstefnan sé að hafa gaman saman.

Félag skógarbænda á Vestfjörðum – Naomi Bos

Naomi segir félag skógarbænda á Vestfjörðum vera lítið en fjölbreytt þar sem jarðir í skógrækt eru vítt og breytt um Vestfirði þannig að þegar skógarbændur koma saman til funda s.s. aðalfundar þá kynnast þeir skógrækt á nýjum stað þar sem flakkað er með fundina um firðina og alltaf er farið í skógargöngu.

Hún segir að sín persónulega skoðun á skógrækt sé að á síðustu áratugum hafi skógrækt á Íslandi breyst mikið. Skógrækt sé ekki lengur áhugamál heldur atvinnugrein og mikilvæg fjárfesting til framtíðar.

Nefndi hún einnig hið metnaðarfulla markmið stjórnvalda að Ísland yrði orðið kolefnishlutlaust 2040 og sagði það augljóst að í því markmiði væri skógrækt mikilvæg jafnvel ómissandi. Til að ná þessu markmiði þarf aukið fjármagn til skógræktar og það til allra þátta sem tilheyra skógrækt en of oft fá skógarbændur að heyra að það vanti peninga.

Mikilvægt sé að fræða fólk og nýta áhuga þess og sýna fram á hvað skógrækt er mikilvæg og geri gagn. Mikilvægast sé þó að fræða og kenna yngstu kynslóðunum um skógrækt og umhverfi og fá þau til að taka þátt.

Bendir skógarbændum á að taka börnin og barnabörnin með þegar verið er að gróðursetja eða ganga um skógin. Þau séu framtíðin og skógarbændur megi vera stoltir af vinnu sinni við skógrækt sem hluta af því að skapa komandi kynslóðum betri heim.