top of page

Ber að neðan


Bændablaðið, Jólablaðið BLS 48

Ber að neðan, aflimun trjáa

Uppkvistun

Verið að saga af aspargreinar sem slá toppa af smáu greni. Myndin er tekin á Ekkjufelli, Fellum, þegar verkefnið "skógarsnyrtar" var uppi á sitt besta, 2014HGS.

Heilbrigður skógur

Að ganga um skóg þykir flestum yndislegt. Maður endurhleður batterýin í kyrrðinni og hreina loftinu. Fátt toppar þó að ganga um skóg og snyrta tré. Það er gott fyrir sálartetrið okkar, er góð líkamsrækt og gerir gæfu muninn fyrir skóginn. Að vera einn í skóginum eða vera með hóp, það er bæði gaman. Þetta er eitthvað sem allir þyrftu að prófa. Það er alltaf eitthvað hægt að möndla í skóginum.

Í útgáfu Bændablaðsins frá 14. mars 2019, á blaðsíðu 50, kom út greinin „Toppnum náð“ sem fjallaði um helstu atriði tvítoppaklippingar. Þessi grein er sjálfstætt framhald af henni og fjallar um uppkvistun trjáa.

Orðið „uppkvistun“

Uppkvistaður lerkiskógur á Héraði

Til eru nokkur orð sem notuð eru yfir að fjarlægja greinar af stofni trés. Með orðinu „uppkvistun[LH1] “ er átt við greinahreinsun á lifandi tré. „Afkvistun“ er þegar greinar eru fjarlægðar af stofni trés sem hefur þegar verið fellt, t.d. við grisjun eða stormfall. Í báðum tilfellum er um greinahreinsun að ræða, þó í mismunandi tilgangi.

Tilgangur

Það geta legið margar ástæður fyrir að uppkvista tré. Í görðum er gjarnan um fegrunaraðgerð að ræða eða bót á aðgengi. Þegar tré í nytjaskógi eru uppkvistuð er venjulega verið að gera góð tré betri og eftirsóknarverðari söluafurð síðar meir. Með uppkvistun verður álag viðarins jafnara og þar af leiðandi sterkari sé verkið unnið af kostgæfni. Uppkvistun er því hluti af ræktunarferli úrvals timburs.

Uppkvistun hressir bætir og kætir

Timbrið

Allar tegundir trjáa má uppkvista og gerir það öllum trjám gott. Greinar geta verið harðar eins og á greni, mjúkar eins og fura, stökkar eins og lerki og allt þar á milli. Markaðurinn ræður eftirspurn á nytjaviði en framboð á innlendum viði er og verður í höndum skógræktenda. Því fjölbreyttari sem skógarauðlindin er þeim mun meira úrval er á markaðnum. Vænta má að eftirspurn eftir kvistlausu timbri eigi eftir að aukast á næstu árum og áratugum[LH2] vegna vaxandi vitundar almennings kostum timburs.

Ekki á haustin

Það skal varast að uppkvista í skógum á haustin, eða frá byrjun september fram að kuldatíð vetrarins. Á því tímabili eru skógarnir að leggjast í dvala og geta illa varið sig fyrir sveppagróum sem ennþá eru í loftinu á þessum tíma og geta stundum farið illa með trén, komist þau í bert sár. Heppilegast er að klippa að vetri því þá eru greinar meðfærilegastar. Á sumrin er það í lagi trjánna vegna en það getur verið erfiðara að meta form trjánna þegar skógurinn er í skrúða. Á vorin er mikil vatnsupptaka í trjánum og sár eiga það til að „blæða“ mikið á þeim tíma. Það getur skemmt viðinn. Auk þess eru fiðraðir vinir okkar óhressir með langvarandi heimsóknir á vorin.

Undirbúningur

Uppkvistun nær í 5 metra. Gæðaviður, lerki

Þegar snyrta á tré er best að hafa meðferðis viðeigandi verkfæri, vinnuföt, vinnuhanska, skyndihjálparbúnað og öryggisgleraugu. Viðeigandi verkfæri eru greinasagir sem passa vel í hönd, ýmist með stuttu skafti eða löngu. Greinaklippur geta einnig komið að gagni. Keðjusagir, rafmagns eða bensín, eru ekki æskileg verkfæri því yfirleitt er ekki verið er saga sverari greinar en puttaþykkt og hættan á skemmdum á berki eftir slík verkfæri er meir en með handsög, þar sem auðveldara er að hafa stjórn á handsög en keðjusög. Það er góður siður að þrífa verkfærin vel og sótthreinsa ef ætlunin er að fara á milli landshluta eða skógarreita með verkfærin.

Sárið á trénu

Hér má sjá sögun eftir rétt og röng vinnubrögð, Geturðu greint á milli?

Þegar grein er söguð eða klippt af stofni trés skal alltaf hafa sem og hreinastan skurð og skiptir þá miklu máli að verfærin séu beitt. Gæta þarf að særa ekki nærliggjandi greinar. Það er mismunandi milli trjátegunda hvað má klippa nærri stofni en í flestum tilvikum má hafa tvennt að leiðarljósi: að klippa sem næst stofni og að skilja eftir sem minnst yfirborð á sárinu.

Furugreinar

Til hægri á myndinn má sjá hvernig skurður eftir sög á að líta út á furu.

Við skilin, þar sem grein furu gengur í stofninn, má smá „krumpu“ og er hún greinlegri eftir því sem greinin er sverari. Þetta nefnist „greinarháls“ eða „hulsa“ og þar eru mikilvæg varnarhormón[LH3] fyrir tréð. Þegar grein er söguð á furu skal komast hjá því að særa greinarhálsinn, heldur saga alveg upp að henni.

Aðstæður eru misjafnar, hér rífur klakinn í botninun niður greinar og stofninn stórskemmist.

Varfærni er besta færnin

Tré sem brotnar í stormi brotnar þar sem það er veikast fyrir, eins og við tvístofn. Eitt viðmið er að uppkvista ekki mikið hærra en nemur hálfri hæð trésins. Tré, sem hafa fíngerða krónu og fella barr eða lauf, (t.d. lerki og birki) þola hærri uppkvistun en sígræn tré og krónumikil (fura og greni). Við þau tré getur jafnvel verið varasamt að afgreina hærra en þriðjung neðan af trénu. Tré í skógi veitir skjól fyrir hvert annað. Eftir því sem skógurinn er þéttari minnkar notagildi greina neðst á trjánum og með tímanum drepast þær og eru engum til gagns.

Gæðaviður

Betra er seint en aldrei. Hér var sagaður af tvístofn.

Þegar ætlunin er að rækta gæðavið er gott viðmið að uppkvista þegar stofn trésins er um það bil 5-7 cm í þvermál í brjósthæð (ÞBH) og þá eru trén venjulega 3-5 metra há. Það hefur lítið upp á sig að eiga við tré lægri en mannhæð. Þegar greinar eru sagaðar af tré sem er mikið sverara en 7 cm ÞBH þá eru greinarnar gjarnan orðnar sverari en fingur og skapar það mögulega skemmd í viðinn og eykur sýkingarhættu. Ef það er gert þarf lagni við þegar um sverar greinar er að ræða. T.d. er gott að saga rauf undir greininni fyrst og svo saga afganginn ofanfrá. Ef um mjög svera grein er að ræða er árangursríkast að saga greinina svolítið frá stofni með fyrrgreindri tækni til að létta á greininni svo að hún rífi ekki börkinn niður eftir trénu. Eftir á má saga stubbinn af stofninum. Eftir að tré hefur náð yfir 12 cm ÞBH gagnast uppkvistunin lítið við að búa til gæðavið því sárin stækka eftir því sem greinarnar gildna og það tekur lengri tíma fyrir tréð að loka sárunum og hlutfall gæðaviðar verður lítið. Alls ekki má notast við barefli og berja greinar af trjám. Við þannig athafnir brotna greinar ekki alltaf alveg af, greinar geta rifið börkinn niður eftir stofninum og slæmar holur geta opnast inn í stofninn. Ef ætlunin er að nota axir þarf mikla lagni við og vert að benda á að eitt rangt högg getur bæði skaða tré og mann. Eftir að grein er klipp eða söguð af skal láta það afskiptalaust og ekki mála eða lakka yfir.

Greinahrúga

Að lokinni greinahreinsun trés myndast gjarnan greinahrúga afsagaðra greina neðst við stofn trésins. Hrúgan getur virkað eins og bálköstur ef sinueldur kemst í þurran skógarbotninn. Því er gott að venja sig strax á það að færa hrúgunni til með einu eða tveimur spörkum eftir að tréð hefur verið uppkvistað. Einnig má safna greinunum saman, draga út í eyður eða á örfoka mel og nota í landgræðslu. Ekki skemmir ef fræfullir könglar eru á greinunum.

Jaðarsvæði

Varast að saga of mikið í jaðri skóga

Skipta má jöðrum í tvennt: Útjaðra og jaðrar í eyðum. Útjaðar er kragi í kringum skógarreit sem tekur á sig vind og snjó. Í skógarreitnum eru oft eyður þar sem sambærilegar aðstæður eru og við útjaðarinn. Eyður eru bæði af náttúrulegum ástæðum og mannlegum. Náttúrlega ástæður eru til dæmis klettar og dý, eða þar sem tré þrífast illa (Eyður hverfa yfirleitt með framvindu skógarins). Mannlegar ástæður eru mannvirki eins og vegir og aðrar skipulagsákvarðanir. Varhugavert er að opna skógarjaðra um of. Vindur og snjór getur bæði brotið greinar og jafnvel brotið trén sjálf. Þá er vissara að uppkvista aðeins fá tré í fyrstu 10 metrunum inn frá jaðri skógarins. Fyrir þá sem eru óöruggir með umhirðu á jaðrinum er vissara að gera minna fremur en meira og leita sér aðstoðar til þeirra sem betur þekkja.

Uppkvistun nytjaskóga

Góð söluafurð af kvistlausum við fellst í lengd bolsins. Því þarf að fara í nokkur skipti að sama trénu til að greinahreinsa.
Gott er að hefja uppkvistun þegar tré er rúmlega mannhæða hátt. Bæði er það þægilegast manninum og trénu.
Ekki er æskilegt að uppkvista sígræn tré hærra en 1/3 af heildarhæð trés.

Nytjaskógrækt gengur út á að rækta tré sem síðan eru notuð í margvíslega úrvinnslu, t.d. kurl, eldivið og flettiefni. Mestur árangur og arðsemi næst af ræktuninni þegar tré eru stór og gallalaus. Til að ná fram mestum timburnytjum úr skógunum eru þeir grisjaðir á nokkurra ára fresti. Það er gert til að gefa gæðamestu trjánum svigrúm til aukins þvermálsvaxtar. Það eru ekki öll gróðursett tré sem verða flettiefni, en það eru þau tré sem henta best í vinnslu í sögunarmillum. Eftir því sem gæði trjánna eru meiri, þeim mun verðmeira er timbrið. Það þýðir að ekki er þörf á að uppkvista öll trén í skóginum heldur einungis góð einstofna tré sem standa með um það bil 5 metra millibili. Vissulega má uppkvista fleiri tré, en óvíst er að það skili sér í auknum tekjum til skógarbóndans. Ef önnur kynslóð trjáa er að vaxa upp í skógarbotninum skal gefa þeim trjám rými til að vaxa og þá getur verið gott að saga greinar neðan af fleiri eldri trjám svo þær slái ekki af toppa þeirra yngri. Árangursríkasta uppkvistunin er að fara að sömu trjánum með nokkurra ára millibili og taka lítið í senn en fæstir sem hafa þolinmæði í það. Það þarf þó að fara tvisvar til þrisvar sinnum til að uppkvista nægilega langt upp í tréð til að hafa árangur sem erfiði. Verðmætasti viðurinn er ávalt neðsti hluti trésins og því hærri sem hann er uppkvistaður (og kvistlaus) þeim mun eftirsóttari verður hann. Fylgjast ætti með fyrstu 3-5 neðstu metrunum að trénu og reyna eftir fremsta megni að uppkvista þegar sverleikinn er um 5-7 cm í þvermál. Svo vel megi vera þarf að gera þetta í nokkrum lotum með nokkurra ára millibili.

Aðgengi fyrir ferfætlinga um uppkvistaðan skóg.

Uppkvistun beitaskóga

Uppkvistun hentar beitardýrum

Ef ætlunin er að gera fallegan og aðgengilegan beitarskóg má vel hugsa sér að uppkvista nánast öll tré í reitnum. Gott er að skilja eitt og eitt tré eftir til að brjóta upp vind og gera ásýnd ögn meira spennandi. Undanskildu trén þurfa ekki að vera gæðatré, reyndar þarf ekkert tré að vera gæðatré, en það gæti þó verið æskilegt upp á að auka verðmæti trjánna í skóginum. Ef ætlunin er að gera beitarskóg fyrir stórgripi er gott skilja nokkur voldug tré eftir óuppkvistuð til að dýrin geti klóra sér. Varast ber að opna jaðra um of.

Uppkvistun útivistaskóga

Útivistaskóga eru jafn misjafnir eins og þeir eru margir. Það er því engum greiði gerður með að fjalla og um þá sérstaklega. Grisjun, gönguleiðir og útsýnisstaðir hefur allt að segja um hvort tré skulu uppkvistuð og með hvaða hætti. Mikilvægt er að uppkvista ekki of mikið því eins mikið og útsýni er mikilvægt þá er jafn mikilvægt að huga að lokunum í skógunum. Lokanirnar (óuppkvistuðu trén) geta verið mjög spennandi fyrir margar sakir t.d. fyrir fugla.

Samvera

Á jólunum kemur fjölskyldan saman og nýtur samvistar. Það er upplagt að njóta skógarins á jólunum, fara út og snyrta og uppkvista trén í skóginum. Að loknu góðu verki koma allir inn í jólagrautinn og iða af gleði og spenningi yfir því hver skuli fá möndluna.

Dæmi af hverfandi grein á uppkvistuðu lerki

Stofn getur "bjagast" við uppkvistun, en hann aðlagast og verður betri

Dæmi af hverfandi kvisti af stórri grein

Kvistirnir taka nokkur ár að hverfa, fer eftir stærð greinanna

bottom of page