Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda 2008
Fundargerð
Haldinn að Hvoli á Hvolsvelli 4. og 5. apríl 2008
Stjórn LSE 2007/2008
Edda Kristín Björnsdóttir – Formaður
Ásvaldur Magnússon – varaformaður
Þórarinn Svavarsson – Gjaldkeri
Reynir Ásgeirsson- Ritari
Stefán Jónsson –Meðstjórnandi
Þorsteinn Pétursson –Varamaður
Rafn F.Johnson – Varamaður
Álfhildur Ólafsóttir –Varamaður
Skoðunarmenn reikninga eru;
Ásmundur Guðmundsson
Jóhanna H. Sigurðardóttir
Fulltrúi á Búnaðarþingi er
Edda Kr. Björnsdóttir
Fulltrúi LSE í nefnd um landsáætlun í skógrækt 2009 –2020
Álfhildur Ólafsdóttir/ við tók Karólína Hulda Guðmundsdóttir
Fulltrúi LSE í um Grænni skóga er
Þórarinn Svavarsson
Aðalfundir LSE.
Fundarstaðir, dagsetning og ár.
1997 28. júní Stofnfundur, Hallormsstaður.
1998 25. - 27. september Haukadalur, Árnessýslu.
1999 27. - 28. ágúst Hrafnagil, Eyjafirði.
2000 11. - 12. ágúst Hvanneyri, Borgarfirði.
2001 10. - 11. ágúst Hallormsstaður, Fljótsdalshéraði.
2002 09. - 10. ágúst Núpur, Dýrafirði.
2003 05. - 06. september Goðaland, Fljótshlíð.
2004 13. - 15. ágúst Húnavellir, A-Hún.
2005 19. - 20. ágúst Laugar Sælingsdal.
2006 23. - 24. júní Hallormsstaður, Fljótsdalshéraði.
2007 24. - 26. ágúst Reykhólar, Barðaströnd.
2008 04.- 05. apríl Hvolsvöllur, Rangárþingi
Dagskrá
aðalfundar Landssamtaka skógareigenda
að Hvoli á Hvolsvelli 4. og 5. apríl 2008.
Dagskrá :
Föstudagur 4. apríl
16:00 Fundur settur í Hvolnum Hvolsvelli.
16:15 Kosnir starfsmenn fundarins.
16:15 Mál lögð fyrir fundinn.
17:00 Nýjar áherslur í skógrækt – brunavarnir í skógi/erindi og umræður.
18:00 Skipað í nefndir fundarins og málum vísað til nefnda.
18:15 Fundi frestað. Nefndir hefja störf.
19:30 Kvöldmatur.
20:30 Framhald nefndarstarfa.
20:30 Hvolsvöllur - Menning og saga. Ætlað mökum fundarmanna og öðrum
fundargestum sem hafa lokið nefndarstörfum.
Laugardagur 5. apríl
08:00 Morgunverður.
09:00 Framhald aðalfundar. Skýrsla stjórnar.
09:45 Ávörp gesta.
Kaffi.
10:30 Nefndir skila álitum.
11:15 Kosningar:
Ein aðalmaður í stjórn,
þrír menn í varastjórn,
tveir endurskoðendur.
11:30 Önnur mál.
12:00 Fundarlok.
12:15 Hádegismatur.
13:00 Ferð í Haukadal - skógarskoðun.
20:15 Árshátíð skógarbænda.
Fundur var settur 4. apríl, kl. 16.00. Fundarstjóri var kosinn Drífa Hjartardóttir, fundarritarar Margrét Þórðardóttir og María E. Ingvadóttir.
Edda Kristín Björnsdóttir, formaður samtakanna flutti skýrslu stjórnar. ( fskj.1) Nefndi hún breyttan fundartíma, en fundur snemma vors hentar flestum vel, þ.e., áður en vorannir byrja í skógum landsins. Einnig sagði hún frá fundi stjórnar um kolefnismál, með fulltrúum Skógræktar ríkisins og Bændasamtakanna. Í framhaldi þess fundar var umhverfisráðherra, Þórunni Sveinbjarnardóttur og landbúnaðarráðherra, Einar Guðfinnssyni, send yfirlýsing, (fskj.2), þar sem mótmælt var úthlutun losunarheimilda gróðurhúsalofttegunda af hálfu stjórnvalda þann 28. september 2007. Það svar fékkst, að engum losunarheimildum, sem orðið hafi til með skógrækt, hafi verið úthlutað.
Fundað var með landshlutaverkefnum í skógrækt og fjallað um flutning Skógræktar ríkisins yfir til umhverfisráðuneytis. Heimasíða samtakanna er orðin að veruleika og starfshópur um verðmat á skógum, sem Björn B. Jónsson leiðir, hefur tekið til starfa. Björn B. Jónsson situr einnig í nefnd sem vinnur að undirbúningi trygginga á skógum og brunavörnum í skóglendi.
Eftir fund með landbúnaðarráðherra og beiðni til fjárlaganefndar, fskj.5, um fjármagn, vegna ráðningar starfsmanns til samtakanna, fékkst jákvætt svar, þannig að hægt var að ráða í hálfa stöðu þetta árið. Þetta er stórt skref, þótt hálfur sigur sé og var Björn B. Jónsson ráðinn í hálfa stöðu framkvæmdastjóra LSE út þetta árið.
Landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, Einar Guðfinnsson var gestur fundarins. Nefndi hann að staða skógræktar í sögu landsins hefði verið mörkuð á sínum tíma með stofnun Skógræktar ríkisins. Mikill metnaður hafi fylgt stofnun landshlutaverkefnanna í skógrækt og nefna má 17 ára gömul lög um Héraðsskóga. Aðrar áherslur eru í skógrækt í dag en áður, þar sem hugað er að annarri nýtingu og er ábyrgð skógarbænda mikil, til að vel takist. Fyrir utan nytjaskóg, er lögð áhersla á skjólskóga og svæði til útivistar, einnig horft til kolefnisbindingar og allar leiða þessar breyttu áherslur til meiri fjölbreytni í landbúnaði. Miklu fjármagni er veitt til skógræktar, enda um að ræða fjárfestingu til framtíðar. Verðmat á landi hefur hækkað og í framhaldi af því verður til ný sýn á verðmæti lands og skógrækt, kolefnisbindingu og eignarétt.
Réttur skógareigenda verður virtur í þeirri umræðu, enda er staða skógræktar í dag til orðin vegna atorku skógareigenda og skógrækt orðin atvinnugrein sem skiptir máli.
Mál lögð fyrir fundinn:
Edda, formaður samtakanna, kynnti áskorun, fskj.3, til umhverfisráðherra um að LSE ætti fulltrúa í fagráði í skógrækt og landgræðslu og brýna nauðsyn á því.
Kynnti hún tillögu um lagabreytingu, fskj.5, þar sem lagt er til að setning í 4. grein laga LSE falli niður.
Einnig voru bornar upp og samþykktar tillögur, fskj.5 um að plöntuframleiðendur noti aðeins viðurkennd fræ til framleiðslu sinnar og að þeir uppruna merki plöntur sínar, fskj.9.
Einnig var samþykkt áskorun fskj.5, til landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra um að stórauka framlög til landshlutaverkefna. Einnig fagnar LSE þeim áfanga að hafa fengið fjárráð til ráðningar starfsmanns í hálft starf. Stjórn LSE var falið að tilkynna Viðlagatryggingu Íslands, að vel komi til greina að brunatryggja nytjaskóga hér á landi.
2. Björn B. Jónsson kynnti kynningarefni Suðurlandsskóga og kortlagningu þess. Kynnti starf sitt, en hann hefur unnið að undirbúningi á tryggingum skóga og verðmati á þeim. Hann sagði frá heimsóknum sínum til allra landshlutaskógarfélaga, nema Vestfirðinga. Hann vinnur að því að fá styrki frá EB vegna skoðunar- og fræðsluferða skógarbænda til nágrannalanda. Nefndi að ef skógarbændur sæktu námskeiðið Grænni skógar, gætu þeir talist sérfræðingar og þar með yrði auðveldara að fá styrki fyrir þá. Úrvinnsla er það sem vekur mesta athygli um þessar mundir þar sem verð á timbri fer hækkandi. Skjólbelti þarf að klippa niður og blanda öðrum tegundum innan um og spurning hvernig hægt er að nýta það sem til fellur.
3. Guðmundur Magnússon kynnti nýja möguleika á nýtingu smáviðar, hvernig nýta má litla búta til að framleiða flögur til klæðingar á veggi. Guðmundur hefur kynnt sér þetta í Kanada og taldi mögulegt að nýta lerkið okkar á þennan hátt.
4. Björn B. Jónsson og Júlía Arulcheyan Björnsson kynntu brunavarnir í skógum, hvað gera má með einföldum hætti til varnar þessum vágesti. Mikilvægt er að flokka skógarsvæði niður eftir eiginleikum og hættustigi, kortleggja vegi og slóða og hvar er fært fyrir stærri tæki, gera áætlun um aðkomu, verkaskiptingu, eftirlit og aðgerðir, einnig hvar verkfæri og áhöld eru geymd og hvaðan aðgerðum yrði stjórnað.
5. Edda kynnti formenn málefnanefnda. Sigurður Jónsson stýrir fjármálanefnd, laga- og allsherjarnefnd er stýrt af Agnesi Geirdal, nefnd um brunavarnir í höndum K. Huldu Guðmundsdóttur og úrvinnslunefnd mun Björn Ármann Ólafsson leiða.
Fundi frestað og boðið til kvöldverðar.
Laugardagur 5. apríl, fundi framhaldið.
Þórarinn Svavarsson, gjaldkeri samtakanna gerði grein fyrir reikningum og áætlun ársins 2008, fskj.4.
Eftir umræður, var skýrsla formanns og reikningar félagsins bornir upp og samþykktir.
Umræður: Drífa Hjartardóttir benti á mögulega styrki sem hægt væri að sækja um.
Björn ræddi um kolefnisjöfnunarmálið og að ætlunin hefði verið að vinna að þeim málum með vottunarstofu, en það hefði breyst og nú væri unnið með Landsbankanum að því að finna annan vinnufarveg. Kannski mætti hugsa sér kolefnisjöfnunarfélög álíka og veiðifélög og að eignaréttur bænda sé viðurkenndur.
Vífill Búason ræddi um fundartímann og hvatti til betri fundarsóknar næst. Sigurður Jónsson sagði frá blaðaútgáfunni og Helga Dóra ræddi um mætinguna. Sigurbjörg benti á mikilvægi upplýsinga frá fagmönnum og Björn Jónsson bað fólk að leggja við hlustir hvað Jón Loftsson hefði um það að segja. Lilja Magnúsdóttir, Tálknafirði, taldi að ef rannsóknir ættu að gefa trúverðugar niðurstöður, þá tækju þær sinn tíma. Hún hvatti skógarbændur til að reka á eftir vísindalegum niðurstöðum fræðimanna. Ásvaldur Magnússon þakkaði góða fagráðstefnu og Sæmundur hvað það undarlegt ef vísindamenn treystu sér ekki til að votta skóginn. Fræðimenn mættu hlusta betur á skógareigendur og mikið af gagnlegum upplýsingum hefðu aldrei birst og þyrfti að ráða bót á því, t.d. varðandi Evrópulerkið.
Gestir fundarins:
Jón Loftsson ræddi um breytta vistun málefna skógræktar og taldi að betra hefði verið að málaflokkurinn væri á einum stað. Spurning hversu miklu Mógilsá gæti áorkað með sína 14 starfsmenn, en áður hefðu skógræktarfélögin verið aðal samstarfsaðilar en nú væru það landshlutasamtökin. Betra líf, er samtök verkefna og sérfræðinga og er meiningin að miðla út upplýsingum. Mógilsá mun leggja 5 milljónir í þetta verkefni og koma því í gang. Farið verður um landið og fundað með fulltrúum verkefnanna og sérfræðingar hitta skógarbændur, sjá hvar skóinn kreppir að. Skógrækt verður mikilvæg atvinnugrein á Íslandi. Mikilvægt er að halda áfram umræðu um kolefnisbindingu, en meta má skóg um leið og séð verður að vel hafi tekist til með gróðursetningu.
Ólöf Sigurbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri Héraðs- og Austurlandsskóga þakkaði fyrir góðan fund.
Nefndir skila af sér:
Fjármálanefnd:
Sigurður Jónsson ræddi fjárhagsstöðu samtakanna fskj. 4. og fjárhagsáætlun. Kynnti hann tillögur um laun stjórnar og fjárhagsáætlun.
Tillaga 1.
Aðalfundur LSE haldinn á Hvolsvelli dagana 4. og 5. apríl 2008 samþykkir að stjórn LSE fái laun fyrir árið 2008 sem hér segir:
Formaður 100.000.- 100.000.-
Gjaldkeri 75.000.- 75.000.-
Aðrir stjórnarmenn 60.000.- 180.000.-
355.000.-
Samþykkt.
Tillaga 2.
Aðalfundur LSE haldinn á Hvolsvelli dagana 4. og 5. apríl 2008 samþykkir eftirfarandi fjárhagsáætlun LSE fyrir starfsárið 2008:
Rekstrartekjur 2008 2007
Félagsgjöld 500.000 473.000
Ýmis framlög 1.000.000 939.024
Vaxtatekjur 300.000 118.358
Ríkisframlag 6.000.000
Samtals 7.800.000 1.530.382
Rekstrargjöld
Kostnaður vegna aðalfunda 600.000 582.728
Stjórnar- og fulltrúaráðsfundir 535.000 392.637
Ráðstefnur og námskeið 200.000 174.360
Aðkeypt sérfræðivinna 50.000 40.743
Rekstur skrifstofu 6.000.000 0
Annað 250.000 369.297
7.635.000 1.574.829
Rekstrarhagnaður (tap) 165.000 (44.447)
Samþykkt.
Allsherjar- og laganefnd.
Agnes Geirdal kynnti tillögur nefndarinnar.
Tillaga 3.
Aðalfundur LSE haldinn á Hvolsvelli dagana 4. til 5. apríl 2008
samþykkir að setning í 4. greinar laga LSE „Kosningar skulu vera skriflegar” falli niður.
Samþykkt.
Tillaga 4.
Aðalfundur LSE haldinn á Hvolsvelli dagana 4. til 5. apríl 2008
beinir þeim tilmælum til landshlutaverkefnanna og annarra sem ráða vali á fræi til ræktunar birkis og reyniviðar að framvegis verði eingöngu notað fræ af viðurkenndum stofnum þessara tegunda og að plöntuframleiðendur upprunamerki alla framleiðslu sína.
Samþykkt með áornum breytingum.
Tillaga 5.
Aðalfundur LSE haldinn á Hvolsvelli dagana 4. til 5. apríl 2008
beinir þeim tilmælum til stjórnvalda og Orkuráðs, að gera nauðsynlegar lagabreytingar til að nýta megi niðurgreiðslur á rafhitun til greiðslu á stofnkostnaði við viðarkyndingu svipað og heimilt er með hitaveitu, enda er um vistvæna orku að ræða.
Samþykkt með áornum breytingum.
Tillaga 6.
Aðalfundur LSE haldinn á Hvolsvelli dagana 4. til 5. apríl 2008
felur stjórn LSE að tilkynna Viðlagatryggingu Íslands að vel geti komið til greina að brunatryggja nytjaskóga hér á landi og með því sé litið svo á, að vátryggingunni fylgi vátryggingarvernd af völdum tjónsatburða, sem Viðlagatrygging Íslands hefur með að gera, enda hafi vátryggingarfélagið innheimt iðgjöld til Viðlagatryggingar Íslands vegna þessara áhætta.
Samþykkt
Tillaga 7.
Aðalfundur LSE haldinn á Hvolsvelli dagana 4. til 5. apríl 2008 skorar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að beita sér fyrir því, að fjárveitingar til landshlutabundnu skógræktarverkefnanna verði stórauknar.
Greinargerð:
Undanfarin ár hafa fjárveitingar til skógræktarverkefnanna verið skertar og ekki verið í neinu samræmi við þá þingsályktunartillögu, sem samþykkt var af alþingi árið 2003, og gerði ráð fyrir árlegri aukningu fjármagns og mikilli uppbyggingu verkefnanna.
Þetta hefur komið sér afar illa fyrir þá fjölmörgu skógarbændur, sem taka þátt í verkefnunum um land allt og hafa treyst á, að stjórnvöld stæðu við þær áætlanir sem samþykktar voru. Þessi niðurskurður hefur rýrt tekjur skógarbænda og fækkað störfum á landsbyggðinni.
Það er ljóst, að með aukinni skógrækt hafa íslensk stjórnvöld einstakt tækifæri til að auka bindingu gróðurhúsalofttegunda og skapa um leið nýja auðlind, sem getur borið lífvænlegan úrvinnsluiðnað í framtíðinni.
Áhugi bænda á skógrækt er mikill og árangur af skógræktarstarfi þeirra er nú þegar orðinn sýnilegur.
Fundurinn áfellist stjórnvöld fyrir að standa ekki við gefin loforð og hvetur eindregið til að nýta þann áhuga og þekkingu, sem skapast hefur hjá hundruðum skógarbænda undanfarin ár,- standa nú við stóru orðin og sýna í verki þann vilja sem birst hefur í áætlunum um aukna skógrækt á undanförnum árum.
Samþykkt.
Tillaga 8.
Aðalfundur LSE haldinn á Hvolsvelli dagana 4. til 5. apríl 2008
fagnar þeim áfanga sem náðst hefur með því, að fá fjármagn til að ráða starfsmann fyrir landssamtökin. Fundurinn hvetur LSE til að leggja áherslu á aukið félagsstarf skógarbænda og beita sér fyrir aukinni samvinnu og samstarfi félaganna. Ennfremur að hafa forgöngu um skipulagningu fræðandi og skemmtilegra viðburða, er tengjast skógræktarstarfinu.
Jafnframt að hvetja aðildarfélögin að vera dugleg að nýta sér heimasíðu LSE til að koma upplýsingum af atburðum sem eru framundan hjá hverju félagi.
Samþykkt
Tillaga 9.
Aðalfundur LSE haldinn á Hvolsvelli dagana 4. til 5. apríl 2008
beinir því til Landbúnaðarháskóla Íslands og Mógilsár að vinna að skilgreiningu á góðu ræktunarlandi” og “skógræktarlandi” og hvort um raunverulega hagsmunaárekstra sé að ræða.
Samþykkt.
Tillaga 10.
Aðalfundur LSE haldinn á Hvolsvelli dagana 4. til 5. apríl 2008
fagnar því, að Landssamtök skógareigenda fengu fjármagn á fjárlögum síðasta árs, til að ráða starfsmann fyrir samtökin.
Fundurinn skorar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að beita sér fyrir því, að samtökin fái í framtíðinni tryggt fjármagn til að standa straum af starfsmanni í fullu starfi.
Greinargerð:
Það er ungri búgrein, eins og skógrækt, afar mikilvægt að eiga sér hagsmunasamtök, sem gæta réttar þeirra og stuðla að uppbyggingu greinarinnar. Landssamtök skógareigenda hafa frá upphafi verið rekin af áhugafólki um skógrækt, sem lagt hefur mikið á sig til þess að efla og styrkja skógræktarstarf skógarbænda um land allt. Nú eru yfir 1000 félagsmenn í skógarbændafélögum um land allt og augljóst, að starfi Landssamtakanna verður ekki lengur sinnt í áhugamennsku.
Það er framtíð skógræktar afar mikilvægt, að tryggt verði að Landssamtök skógareigenda verði traust og öflug samtök, líkt og önnur búgreinafélög í landbúnaði.
Samþykkt með áornum breytingum.
Tillaga 11.
Aðalfundur LSE haldinn á Hvolsvelli dagana 4. til 5. apríl 2008 samþykkir svo hljóðandi ályktun :
Aðalfundur Félags skógarbænda á Suðurlandi haldin á Þingborg 6. mars 2008 beinir því til aðalfundar Landsamtaka skógareiganda að draga til baka hækkun félagsgjalda sem samþykkt voru á aðalfundi LSE 2007.
Þar sem fjármagn fyrir framkvæmdastjóra LSE hefur fengist með öðrum hætti telur aðalfundur FsS að forsendur fyrir hækkun félagsgjalda séu fallnar.
Edda, formaður samtakanna lagði til að samþykkt yrði tillaga frá síðasta aðalfundi um hækkun félagsgjalda yrði dregin til baka og var það samþykkt.
Nefnd um úrvinnslu skógarafurða leggur fram eftirfarandi tillögu:
Björn Ármann Ólafsson lagði fram tillöguna.
Tillaga 12.
Aðalfundur LSE haldinn á Hvolsvelli dagana 4. til 5. apríl 2008
hvetur stjórn LSE til að fylgja eftir að lögð verði áhersla á að hrinda í framkvæmd úrvinnslu afurða úr grisjunarvið sem þegar fellur til við skógrækt í landinu. Þegar er hafin vinnsla við grisjun sem byggir á að láta viðinn grotna í skóginum. Mikil verðmæti eru í þessum við ef hann er unninn og markaðssetur , einnig er mikilvægt að ná hinum út úr skóginum þar sem hann er mikill eldsmatur ef til skógarelda kemur. Margar leiðir eru til úrvinnslu úr þessu efni.
Þar má til dæmis nefna: Smíðavið, við til framleiðslu á klæðningaskífum, girðingarstólpa, hökkun í “pellets” (köggla til eldiviðar), kurlun í eldivið og fleira, kurl eða sag í síur, hökkun í lífmassa til eldsneytisframleiðslu o.m.fl..
Til að auðvelda úrvinnsluna þurfa bændur að ná grisjunarviðnum út úr skóginum og flokka hann í beina stofna sem smíðavið, kræklur sem nota má í skífur og úrgang í kurlun eða hökkun.
Nokkur verkefni eru í gangi, en önnur hafa dagað uppi og þarf að draga þau fram í dagsljósið að nýju. Styðja þarf við bakið á þeim verkefnum sem eru í gangi með ráðgjöf eða aðstoða við að leita ráðgjafar.
Leita þarf leiða til fjármögnunar hjá opinberum sjóðum eða á hinum frjálsa markaði, svo sem samþykkt var á síðasta aðalfundni LSE á Reykhólum. Samt þarf að gæta þess að skógarbændur sjálfir séu í forystu um framkvæmd verkefnanna en ekki þriðju aðili.
Það sem hér er nefnt er hvatning til að hrinda í framkvæmd hlutum sem hafa verið í umræðunni í nokkur ár. Trén vaxa, grisjunarviðurinn safnast upp og það kemur að því að fullvaxin tré verði felld til timburframleiðslu. Það er komið að því að fara að framkvæma.
Samþykkt.
Nefnd um eldvarnir í skógi á aðalfundi LSE 2008, gerir eftirfarandi tillögur:
Hulda Guðmundsdóttir fylgdi tillögum nefndarinnar úr hlaði og voru þær allar samþykktar óbreyttar.
Tillaga 13.
Ellefti aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn á Hvolsvelli 4. og 5. apríl 2008, gerir eftirfarandi athugasemd við frumvarp til skipulagslaga, á þingskjali nr. 616, mál nr. 374
Við 2.mgr. 12. gr. IV kafla, þar sem kveðið er á um stefnu varðandi landnotkun og byggðaþróun, á eftir orðunum „vatnsvernd, samgöngur“ komi „eldvarnir í skóglendi“ á undan orðunum „o.fl.“
Greinargerð:
Á undanförnum árum hefur skógrækt aukist á landsvísu, í kjölfar laga um landshlutabundin skógræktarverkefni sem hófst með lögum um Héraðsskóga.
Víða um land er því skógur að vaxa upp á stórum svæðum og við það hafa skapast nýjar aðstæður varðandi eldhættu. Skógarbændum þykir nauðsynlegt að taka á því, strax á skipulagsstigi sveitarfélaga, að þar sé gert ráð fyrir eldvörnum í skóglendi.
Tillaga 14.
Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn á Hvolsvelli 4. og 5. apríl 2008, beinir þeim tilmælum til umhverfisnefndar Alþingis að inn í frumvarp til laga um breytingar á lögum um brunavarnir nr. 75/2000, mál nr. 376 á þskj 618 verði bætt ákvæðum um brunavarnir í skóglendi.
Greinargerð
Á undanförnum árum hefur skógrækt aukist á landsvísu, í kjölfar laga nr.um landshlutabundin skógræktarverkefni sem hófst með lögum um Héraðsskóga.
Víða um land er því skógur að vaxa upp á stórum svæðum og við það hafa skapast nýjar aðstæður varðandi eldhættu. Skógarbændum þykir nauðsynlegt að taka á því í lögum um brunavarnir verði tekið á eldvörnum í skóglendi.
Tillögur 13 og 14 verði sendar til Umhverfisnefndar Alþingis.
Tillaga 15.
Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn á Hvolsvelli 4. og 5. apríl 2008, beinir þeim tilmælum til landshlutaverkefna í skógrækt að þau fari að fordæmi Suðurlandsskóga og vinni brunavarnaáætlun sem hluta af skógræktarsamningi við hvern skógarbónda. Áætlanirnar liggi fyrir árið 2012.
Tillagan sendist á öll landshlutabundnu skógræktarverkefnin.
Tillaga 16.
Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn á Hvolsvelli 4. og 5. apríl 2008, beinir því til Skógræktar ríkisins að ljúka við gerð brunavarnaáætlana í öllum þjóðskógum landsins, fyrir árið 2012.
Tillagan sendist á S.r.
Tillaga 17.
Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn á Hvolsvelli 4. og 5. apríl 2008, skorar á umhverfisráðherra að hafa frumkvæði að endurskoðun brunavarnaáætlana sveitarfélaga m.t.t. brunavarna í skóglendi og viðbragða við skógareldum, svo sem með skráningu á staðsetningu neyðarverkfæra. Þar skal einkum bent á haugsugur sem reynst hafa vel við stórbruna eins og á Mýrunum árið 2006.
Tillagan sendist til umhverfisráðherra.
Tillaga 18.
Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn á Hvolsvelli 4. og 5. apríl 2008, skorar á aðildarfélög LSE að standa fyrir kynningu til skógarbænda á brunavörnum í skóglendi og gerð staðbundinna eldvarnaráætlana.
Tillagan sendist á öll aðildarfélög LSE
Tillaga 19.
Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn á Hvolsvelli 4. og 5. apríl 2008,
beinir því til stjórnar LSE að hún láti útbúa fyrir skógarbændur einfaldar leiðbeiningar um grunnatriði brunavarna í eigin skógi.
Tillaga 20.
Aðalfundur LSE haldinn á Hvolsvelli dagana 4. til 5. apríl 2008
felur stjórn LSE að tilkynna Viðlagatryggingu Íslands að vel geti komið til greina að brunatryggja nytjaskóga hér á landi og með því sé litið svo á, að vátryggingunni fylgi vátryggingarvernd af völdum tjónsatburða, sem Viðlagatrygging Íslands hefur með að gera, enda hafi vátryggingarfélagið innheimt iðgjöld til Viðlagatryggingar Íslands vegna þessara áhætta.
Stjórnarkjör:
Einn aðalmaður í stjórn átti að ganga út en það var Reynir Ásgeirsson, hann gaf kost á sér og var einróma kosin.
Stjórn LSE er þannig skipuð. Edda Kr. Björnsdóttir formaður Ásvaldur Magnússon varaformaður, Stefán Jónsson meðstjórnandi, Þórarinn Svavarsson gjaldkeri, og Reynir Ásgeirson ritari. Varamenn Þorsteinn Pétursson, Rafn Johnson, Anna Ragnarsdóttir.
Skoðunarmenn: Ásmundur Guðmundsson og Jóhanna H. Sigurðardóttir.
Fulltrúi á Búnaðarþingi, Edda K. Björnsdóttir, fulltrúi í nefnd um landsáætlun í skógrækt 2009-2020, Álfhildur Ólafsdóttir, fulltrúi í Grænni skógum, Þórarinn Svavarsson.
Önnur mál:
Tillaga Eddu, fskj.2, um áskorun til umhverfisráðherra um að LSE eigi fulltrúa í fagráði í skógrækt og landgræðslu var samþykkt.
Edda, formaður samtakanna, opnaði formlega heimasíðuna, www.skogarbaendur.net og hvatti félögin til að hafa þetta veffang inni á sinni síðu til að auðvelda aðgang.
Anna Ragnarsdóttir nýkjörin í varastjórn kynnti sig.
Fundurinn sendir góðar kveðjur til Stefáns Jónssonar með óskum um betri heilsu.
Samþykkt var að styrkja Guðmund Magnússon um kr. 100.000, til Kanadaferðar vegna athugana hans á flöguklæðningum úr afgangsviði.
Fundi slitið kl.12.40.
Fylgiskjöl:
Skýrsla stjórnar, Eddu Kristínar Björnsdóttur
Yfirlýsing send umhverfis- og landbúnaðarráðherra um losunarheimildir
Athugasemd vegna skipunar umhverfisráðherra í fagráð
Rekstrar- og efnahagsreikningur.
Fundargerð rituðu María E. Ingvadóttir og Margrét Þórðardóttir.
Fylgiskjal 1.
Skýrsla stjórnar Landssamtaka Skógareigenda, flutt á aðalfundi samtakanna að Hótel Hvolsvelli 4. og 5. apríl 2008
Ágætur félagar.
Það var ákveðið á síðasta aðalfundi Landssamtaka Skógareigenda sem haldin var á Reykhólum 24 og 25 ágúst 2007 að færa fram aðalfundinn og gera tilraun með að halda hann í tengslum við fagráðstefnuna í skógrækt sem hefð er fyrir að halda snemma vors. Þetta er að vísu kannski full snemmt fyrir einhverja, en það er erfitt að gera svo öllum líki og vonandi eigum við hér góðan fund og þokum okkar málum áfram eins og alltaf.
Stjórnin byrjaði strax að vinna eftir aðalfund og var fyrst sendar út samþykktar tillögur frá fundinum til þeirra sem málin snéru að.
Við boðuðum til fundar um kolefnismálin og var hann haldinn að Rjúpnasölum 14. í Kópavogi þann 9. október. Þar mættu nokkrir nefndarmenn auk stjórnarmanna ásamt þeim Þresti Eysteinssyni frá Skógrækt ríkisins og Daði Má Kristóferssyni hagfræðingi Bændasamtaka Íslands. Í framhaldi af þeim fundi sendi stjórn LSE frá sér yfirlýsingu þar sem við mótmæltum úthlutun losunarheimilda gróðurhúsalofttegunda af hálfu stjórnvalda þann 28. sept. s.l. Mótmælin voru send umhverfisráðherra Þórunni Sveinbjarnardóttur og landbúnaðarráðherra Einari Kr. Guðfinnssyni.
Við fengum síðan svar frá Umhverfisráðuneytinu um “að það hafi engum losunarheimildum verið úthlutað sem orðið hafi til með skógrækt, hvorki í skógum í eigu ríkisins eða í eigu annarra” eins og stóð í bréfinu.
Þann 8. nóvember 2007 héldum við svo haustfundinn þar sem stjórnin og framkvæmdastjórar verkefnanna hittust og fóru yfir ýmis mál sem brenna á og varaðar samskipti verkefnanna og skógarbænda.
Þar var mikið rætt um flutning Skógræktar ríkisins yfir til umhverfisráðuneytisins og sendum við umsögn okkar um “bandorms”- frumvarpið svokallaða til þingsins.
Á fundinum var m.a. samþykkt að stefna að formlegri opnun á heimasíðu fyrir LSE á næsta aðalfundi, og eins og þið sjáið verður það að veruleika hér í dag.
Við ýttum úr vör starfshópi í samvinnu við Skógrækt ríkisins og
Skógræktarfélagi Íslands um verðmat á skógi og hefur Björn B. Jónsson leitt það starf fyrir okkar hönd.
Björn situr einnig fyrir okkar hönd í nefnd sem vinnu að tryggingum og brunavörnum í skóglendi.
Á aðalfundinum var stjórninni enn og aftur falið að leita leiða til að fjármagna starfsmann fyrir samtökin og fóru Edda og Ásvaldur á fund með Landbúnaðarráðherra og ræddu ýmsar leiðir í því efni.
Við fór svo í að sækja um fjármagn til fjárlaganefndar og fengum jákvæða afgreiðslu á fjárlögum þessa árs.
Við unnum að vísu bara hálfan sigur í þessu máli og okkur varð ljóst að við gætum ekki ráðið í fullt starf fyrir þetta ár. Það varð því sameiginleg niðurstaða stjórnar að auglýsa ekki starfið í ár, heldur leita að einstaklingi sem hefði þekkingu á okkar hagsmunum og gæti verið leiðandi í uppbygginu á félagsstarfi fyrir LSE og út í aðildarfélögunum. Við munum síðan endurskoða þessa ákvörðun okkar þegar líður á árið og stefnum við að því að fastráða starfsmann um næstu áramót.
Annar stjórnarfundur var svo haldin á Hótel Sögu 6. febrúar s.l. þar sem farið var yfir stöðuna og gengið til samninga við Björn B. Jónsson um að hann sinnti framkvæmdastjórastarfi fyrir LSE fram að næstu áramótum. Það skalt tekið fram að í raun er þetta samstarf milli stjórnar Suðurlandsskóga og LSE um starf Björns.
Við teljum að það hafi verið mikill áfangi fyrir okkur að ráða Björn og bindum við miklar vonir við hans starf og mun hann skýra frá starfi sínu fyrir okkar hönd hér á eftir.
Eins og þið vitið þá er stuttur tími frá síðasta aðalfundi, og þó skýrsla stjórnar sé ekki löng í þetta skiptið þá eru mörg mikilvæg mál í vinnslu sem Björn mun gera betri skil hér á eftir.
Gert á Miðhúsum 01.04.2008
Edda Kr. Björnsdóttir formaður
(sign)
Fylgiskjal 2.
Hvoli 5.apríl 2008.
Sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra
Einar Kr. Guðfinnsson
Sölvhólsgötu 7
150 Reykjavík
Erindi: Alvarlegar athugasemdir við skipan fagráðs í skógrækt og landgræðslu og beiðni um fulltrúa LSE í fagráðinu.
Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda haldinn að Hvoli 5. apríl 2008 fer þess á leit við Umhverfisráðherra að LSE eigi fulltrúa í fagráði um skógrækt og landgræðslu.
Fundurinn bendir á að um 80% af allri nýskógrækt sé framkvæmd af skógarbændum vítt og breitt um landið. Það eru um 700 skógarbændur starfandi innan landshlutaverkefna í skógrækt og skiptir öll ákvarðanataka og stefnumótun um þeirra málefni miklu máli fyrir þessa ört vaxandi búgrein.
Landssamtök skógareigenda eru regnhlífasamtök allra landshlutafélaganna og því telur fundurinn brýna nauðsyn á að samtökin eigi fulltrúa í fagráðinu.
Virðingarfyllst,
F.h. Landssamtaka skógareigenda
______________________________
Edda Kr. Björnsdóttir formaður
Samrit sent: Umhverfisráðherra Þórunni Sveinbjarnardóttur
Fylgiskjal 3.
Miðhúsum 15. okóber 2007
Umhverfisráðherra
Þórunn Sveinbjarnardóttir
Umhverfisráðuneytinu
Skuggasundi 1
150 Reykjavík
Efni; Mótmæli Landssamtaka skógareigenda við úthlutun á losunarheimildum gróðurhúsalofttegunda af hálfu stjórnvalda þann 28. september 2007
Þann 28. september s.l. var tilkynnt um úthlutun ríkisins á losunarheimildum til stóriðju á árunum 2008-2012 skv. lögum um losun gróðurhúsalofttegunda nr. 65/2007. Að hluta urðu þær losunarheimildir til við bindingu kolefnis í skógi sem ræktaður hefur verið síðan 1990.
Meirihluti þess skógar er á bújörðum og er eign þeirra sem þar búa og/eða eiga viðkomandi land. Afurðir skóganna, þ.m.t. kolefnisbinding, eru einnig eignir viðkomandi skógareiganda þar til þær eru seldar. Engin sala á kolefnisbindingu skóga hefur átt sér stað frá skógareigendum til ríkisins og hefur ríkið því úthlutað losunarheimildum sem það hafði ekki eignarrétt á, m.ö.o. ráðstafað eignum annarra.
Landssamtök skógareigenda mótmæla þessari ráðstöfun og viðurkenna ekki rétt ríkisins til úthlutunar losunarheimilda sem byggðar eru á bindingu kolefnis í skógum skógareigenda. Ennfremur telja Landssamtökin að skógareigendur hafi fullt frelsi til að ráðstafa að vild losunarheimildum sem skapast við kolefnisbindingu í skógum þeirra
F.h. Landssamtaka skógareigenda
Edda Kr. Björnsdóttir, formaður LSE