Stjórnarfundir FsS 2020

2. Stjórnarfundur ​​

Stjórnarfundur Félags skógareigenda á Suðurlandi, FsS, haldinn á Selfossi, 17.08.2020 kl 10:15

Mætt voru Björn B. Jónsson, Ísólfur Gylfi Pálmason, Hrönn Guðmundsdóttir, Sigríður J. Sigurfinnsdóttir, Sólveig Pálsdóttir og Rafn A. Sigurðsson

Björn setti fundinn og Sigríður las fundargerð síðasta fundar og var hún samþykkt. Ákveðið að nefndarmenn hafi 2 daga til að gera athugasemdir við fundargerðir þegar þær hafa verið sendar út.

1. Skógargangan að Núpum í sumar Mikil ánægja var með skógargönguna, skógurinn að Núpum er fjölbreyttur og sérstaklega skemmtilegt að sjá hve mikið er af Hlyn. Stjórnin vill leggja það til við forsvarsmenn Skógræktarinnar að skógarbændum verði boðið upp á úrval ýmissa trjátegunda, t.d að þeir geti fengið 1 bakka á ári af ýmsum „sjaldgæfari“ tegundum. Allir voru sammála um að skógargöngur eigi áfram að vera eitt af verkefnum okkar og við þurfum að hafa hugann við það hvar næsta skógarganga ætti að verða, gott að ákveða það fljótlega eftir áramót.

2. Fjármál Hrönn er að vinna að því að virkja prókúruna.

3. Félagatal Björn var búinn að sjá af hverju voru mistök í skráningu netfanga og hefur leiðrétt þau að mestu. Stjórn skipti á milli sín að yfirfara félagatalið betur. Talsverð fækkun hefur verið í félaginu sl ár og gæti það stafað af því að ekki er lögð jafnmikil áhersla á skjólbelti og áður. Stjórn FsS telur að Skógræktin þyrfti að auka skjólbeltarækt aftur og koma henni í fyrra horf. Einnig ætlar stjórnin að skoða sérstaklega hvort ekki séu áhugasamir einstaklingar sem stunda annars konar skógrækt en nytjaskógrækt, sem hefðu áhuga á að ganga í félagið og að starfa með því. Ritari heldur utan um félagatalið og þarf að fá að vita um allar breytingar.

4. Starfið framundan a) Fundir Stefnt er að því að halda opna fundi í hverri sýslu fyrir skógarbændur og aðra áhugasama. Auglýstur verður „Umræðufundur um skógrækt – opinn öllum áhugasömum um skógrækt“. Reynt verður að halda þessa fundi eftir miðjan október. b) Heimasíðan Heimasíða FsS er vistuð hjá heimasíðu LSE. Þar setjum við inn fundargerðir, fréttir og af starfi okkar. Heimasíðan þarf að vera lifandi og við þurfum að koma henni á framfæri. c) Fésbók Stefnum að því að opna fésbókarsíðu FsS. d) Leshópar Björn lýsir yfir áhuga sínum á að FsS stofni leshópa. Hægt væri að kynna þá á fundunum í október. Hámark 12 manns yrðu í hverjum hóp og gott væri að hafa bókina „Kraftmeiri skógur“ til að styðjast við. Hópunum yrði væntanlega skipt þannig að áhugasamir um t.d. skjólbeltarækt yrðu saman í hóp, þeir sem væru í nytjaskógrækt saman og þeir sem væru með skógrækt í smærri stíl o.s.frv. Leshópar yrðu einungis fyrir félagsmenn í FsS.

5. Aðalfundur LSE Áætlað er að halda aðalfund LSE að Hamri við Borgarnes 2.-4. okt nk. Nokkur óvissa er með fundarhöld vegna Covid. Björn ætlar að leggja það til í stjórn LSE að eingöngu muni mæta ca 5 fulltrúar frá hverju félagi. Ákveðið að styrkja þá sem fara á fundinn á svipaðan hátt og verið hefur.

6. Elmia Wood Á 4ra ára fresti er stór tækjasýning í skógrækt, í suður Svíþjóð, Elmia Wood. Björn hefur tekið að sér, f.h. LSE að skipuleggja hópferð á næstu sýningu, sem verður 17.-19. maí 2021.

7. Úrvinnslumál - Kvistar Rætt um framtíð garðyrkjustöðvarinnar á Kvistum. Stjórn vonast til að þar verði áframhaldandi plöntuframleiðsla.

8. Jólamarkaður Rætt um möguleika á hvort félagið gæti hugsanlega haldið jólamarkað, þar sem skógarbændur gætu komið sínum afurðum í sölu, í stíl við jólamarkaðinn í Heiðmörk. Ekki er gert ráð fyrir að jólamarkaður verði á þessu ári, en félagsmenn þurfa að ræða þessa hugmynd.

9. Stjórnarfundir FsS Samþykkt að halda stjórnarfundi kl 9:00 árdegis fyrsta fimmtudag í mánuði, oftast gert ráð fyrir að funda á netfundum.

10. Önnur mál Björn var spurður um sitt álit á því hvernig Skógræktin virkaði, varðandi samskipti við skógarbændur, samanborið við Landshlutaverkefnin áður. Hann telur að sameiningin hafi ekki tekist eins vel að öllu leyti og hann vonaðist til, m.a. vegna þessa að boðleiðirnar eru oft of langar.

Fleira ekki rætt, fundi slitið kl 12. Sigríður J. Sigurfinnsdóttir

1. Stjórnarfundur ​​nýrrar stjórnar

Stjórnarfundur nýrrar stjórnar FsS, haldinn á Selfossi 21. júní 2020 kl 17:30

Mætt voru Björn B. Jónsson, Ísólfur Gylfi Pálmason, Hrönn Guðmundsdóttir og Sólveig Pálsdóttir og Sigríður J. Sigurfinnsdóttir var tengd við fundinn með síma.

Björn setti fundinn. 1. Skipting innan stjórnar. Stjórn skipti með sér verkum þannig að Hrönn er gjaldkeri, Sigríður er ritari og Ísólfur Gylfi og Sólveig meðstjórnendur. Þau síðast nefndu eru kosin til 1 árs, Hrönn 2ja ára og Sigríður til 3ja ára.

2. Tilkynning til skattstjóra um breytingu á stjórn. Ný stjórn og varastjórn, ásamt meirihluta fyrri stjórnar þarf að skrifa undir „Tilkynningu um breytingu á stjórn“ sem verður send skattstjóra. Hrönn tekur að sér að safna undirskriftum og koma þeim til skila.

3. Prókúra. Hrönn er nýr gjaldkeri og verður því prókúruhafi FsS.

4. Félagatal. Formanni og ritara falið að yfirfara félagatal.

5. Varastjórn. Samþykkt að varamenn fái alltaf fundarboð og hafi möguleika á að mæta á fundi, þó ekki sé ætlast til þess, nema þeir þurfi að mæta vegna forfalla einhvers. Einnig að þeir fái fundargerðir sendar.

6. Skógarganga á Núpum. Skógarganga verður að kvöldi þessa dags að Núpum í Ölfusi í boði skógarbænda þar, Guðmundar og Unnar. Gangan hefst kl 19:00, áætluð 1 og ½ tíma ganga, og síðan sér stjórn FsS um að grilla pylsur. Ísólfur Gylfi kemur með gítar og söngskrá er tilbúin.

Fleira ekki rætt, fundi slitið kl 18:00. Sigríður J. Sigurfinnsdóttir

1. Stjórnarfundur ​​2020

Stjórnarfundur Félags skógareigenda á Suðurlandi, haldinn 3.mars 2020 að Víðihvammi 10, Kópavogi, klukkan 16:00.

Mættir: María E. Ingvadóttir, Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir, Hannes Lentz, Hrönn Guðmundsdóttir, Októ Einarsson, Sigríður J. Sigurfinnsdóttir og Sigurður Karl Sigurkarlsson.

1. Fundargerð frá síðasta stjórnarfundi var samþykkt samhljóða og án athugasemda.

2. Starfið framundan: Þann 6. mars mun FsS heimsækja verksmiðju Límtrés á Flúðum kl. 17:00. Þaðan verður haldið að Efra-Seli í Hrunamannahreppi, þar sem snæddur verður kvöldverður að loknum almennum félagsfundi Í boði FsS. Gengið var frá dagskrá fyrir félagsfundinn.

3. Viðhorfskönnun fyrir félagsmenn í FsS var kynnt. Októ og Bjarnheiður útbjuggu könnunina og fundurinn samþykkti að leggja hana fram á félagsfundinum á Efra-Seli og hafa í framhaldi umræður um fyrirhugaða könnun sem send verður til allra meðlima FsS.

4. Skv. landslögum þarf að skrá raunverulega eigendur FsS í Fyrirtækjaskrá. Gengið var frá eyðublöðum fyrir slíka skráningu og þau undirrituð af fundarmönnum.

5. Ákveðið var að halda aðalfund FsS að Reykjum 28. mars n.k. Leitað hefur verið til Ólafs Oddssonar um að halda fræðsluerindi í tengslum við aðalfundinn. Að loknum aðalfundarstörfum verður boðið upp á heimsókn í fyrirtækið Pure North Recycling, áður Fengur. Pure North Recycling hyggst endurnýta allt plast sem fellur til á landinu í framtíðinni.

6. Rætt var um kosningu nýrra félagsmanna til stjórnarsetu. Enginn af núverandi fulltrúum í aðalstjórn FsS gefur kost á sér til endurkjörs. Það þarf að kjósa formann til tveggja ára; tvo stjórnarmenn til eins árs; einn stjórnarmann til tveggja ára; og einn stjórnarmann til þriggja ára.

7. Jónsmessuferð félagsins í ár verður að Núpum í Ölfusi 21. júní. Mæting að Núpum er kl. 19:00.

Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 18:00.

Fundarritari Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir

 Landssamtök skógareigenda (LSE)  - Bændahöllinni við Hagatorg  - 107 Reykjvaík  -  GSM: 775 1070  -  hlynur@skogarbondi.is - kt 660897-2089