top of page

Jónsmessuganga að Núpum -FsS


Árleg Jónsmessuganga FsS var sunnudaginn 21. júní s.l., klukkan sjö um kvöldið.

Gengið var að þessu sinni um skóginn að Núpum í Ölfusi, sem er næsti bær fyrir neðan Hveragerði þegar ekið er í áttina að Þorlákshöfn.

Skógarbóndinn Guðmundur A. Birgisson leiddi hópinn um skóginn, sem voru nær 60 manns, og sagði frá þessum einstaka útivistar- og nytjaskógi. Þar sem er að finna allar helstu trjátegundir, ásamt miklu úrvali af eðaltrjám.

Upphaf skógræktar að Núpum er frá 1985, en stór hluti nytjaskógarins var plantað árið 2000 og næstu ár þar á eftir. Vöxtur skógarins er með eindæmum góður, en athygli vakti eðaltré sem er að finna vítt og breitt um skóginn. Þar á meðal er hlynur sem vex vel og er án allra óþrifa. Unnið er að því að rækta hlyn í nokkrum hekturum lands og verður fróðlegt að fylgjast með þeirri ræktun á næstu árum.

Rennisléttir göngustígar og vegslóðar eru um allan skóg sem eru vel við haldið m.a. með reglulegum slætti. Vandfundnir eru skógar með betra og snyrtilegra aðgengi en að Núpum og ræktendum til mikils sóma.

Um skóginn liggur gamla leiðin til Reykjavíkur, sem var farin fyrir fyrr á öldum og fyrir komu Kambanna sem liggja norður af Núpum.

Skógræktarstjóri var með í göngunni, ásamt fleirum stjórnendum Skógræktarinnar. Gaf það göngunni faglegt yfirbragð þar sem göngufólk gat spurt spurninga um allt er viðkemur skógrækt og fengið greið svör við.

Í lok göngunnar tók Unnur húsfreyja á móti hópnum í gróðurhúsinu á Núpum og veitti vel af mat og drykk. Í lokin var grillað í garðinum, lagið tekið við undirleik Ísólfs Gylfa og ketilkaffi drukkið áður en haldið var heim á leið.



Félag skógarbænda á Suðurlandi fór í sína árlegu Jónsmessugöngu um skóginn á Núpum í Ölfusi. Þar er meðal annars unnið að því að rækta hlin í nokkrum helkturum lands og verður fróðlegt að fylgjast með þeirri ræktun á næastu árum.



bottom of page