top of page

Skógarganga að Hofi -FsN


Þann 24. júní var blásið til skógargöngu í samstarfi Skógræktarinnar og Félags skógarbænda á Norðurlandi. Að þessu sinni var gangan haldin að Hofi í Vatnsdal þar sem ábúendurnir Eline Manon Schrijver og Jón Gíslason tóku á móti gestum. Vatnsdalurinn tók vel á móti göngufólki, enda óvíða fegurra, og þrátt fyrir rigningu í upphafi göngu var leikur einn að njóta þess að ganga um í fallegum skógi. Að Hofi er afskaplega fallegur og fjölbreyttur skógur og nóg að skoða. Fyrst var plantað þar upp úr 1930 en skógurinn er alls um 40 hektarar að stærð. Jón og Eline leiðsögðu gestum um skóginn, bæði eldri og yngri hluta. Í þeim eldri má meðal annars sjá töluvert af blæösp sem virðist kunna ákaflega vel við sig og ýmsar trjátegundir sem fyrri ábúendur settu niður af mikilli forsjálni fyrir um 90 árum. Gestir fengu einnig að kynna sér hentugan tækjakost sem Jón og Eline hafa komið sér upp til að nytja skóginn.

Að lokinni göngu var farið inn í sal gistiheimilisins að Hofi og drukkið kaffi. Þar fóru skógræktarstjóri, Þröstur Eysteinsson, og sviðsstjóri skógarauðlindasviðs, Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, yfir það helsta sem er í gangi hjá Skógræktinni þessa dagana, bæði dag frá degi og áætlanir til lengri tíma. Var það mjög gagnleg samræða fyrir skógarbændur. Ábúendum á Hofi eru færðar miklar þakkir fyrir afbragðs móttökur og gestum fyrir góða mætingu.


Laufey Leifsdóttir, FSN


Hofi tengjast margar þjóðsögur. Hér stendur Jón ofan á álfasteini sem Þórbergur Þórðarson sat eitt sinn við og taldi sig heyra í álfum innan úr. Dyngjuna í bakgrunni mátti ekki slá því þá var sagt að bestu kýrin dræpist eða sonurinn á bænum veiktist. Þar hefur ekki verið gróðursett.


Jón sagar trjábol í borð á augabragði.

Trjábolir sem bíða frekari vinnslu.

Úr eldri hluta skógarins að Hofi. Skógarbændur mættu vitanlega búnir eftir veðri.

bottom of page