top of page

Skógarganga að Ferstiklu í Hvalfirði -FsV


Félag skógarbænda á Vesturlandi var stofnað þann 23. júní 1997. Hefð er að félagsmenn hittist þennan dag hjá einhverjum skógarbónda innan félagsins og skoði skógræktina hjá honum. Í ár buðu hjónin Guðmundur Rúnar Vífilsson og Margrét Stefánsdóttir að Ferstiklu skógarbændum í heimsókn. Ánægjulegt var hversu vel skógarbændur mættu í gönguna en einnig voru með í för framkvæmdastjóri LSE, starfsmenn skógræktarinnar á svæðinu auk þeirra Sigríðar Júlíu Brynleifsdóttur og Þrastar Eysteinssonar en ákveðið var að slá saman skógargöngunni og fundi með þeim. Guðmundur Rúnar leiddi hópinn um skóginn sem er orðinn mjög vöxtulegur og fjölbreyttur.

Fyrr um daginn hafði verið mikið gróðurveður en á meðan skógargangan fór fram var þurrt og skapaðist því góð stemming meðal göngumanna.

Bændur á Ferstiklu gerðu samning við Skógræktina 2001. Fyrstu fimm árin var sett niður með plógi, oftast Markúsarplógi. Þessi fimm ár voru gróðursettar tugir þúsunda plantna á hverju ári. Greni og ösp

í túnin en lerki og fura í melinn, birkið var svo sett víða í jaðrana. Eftir fyrstu fimm árin hefur verið sett niður 4 til 12 þúsund plöntur á ári. Verið er að loka svæðum sem ekki hefur verið gróðursett í eða íbætur settar í svæði þar sem lifun er ekki nægilega góð. Skógræktargirðingin er 120 hektarar og á ekki eftir að setja niður í nema 3 til 4 hektara og íbætur í annað eins.

Reyndar hófst skógrækt á Ferstiklu mun fyrr. Um 1988 bauðst bændum að fá tilsögn Norðmanna um hvernig gróðursetja ætti trjáplöntur. Þessi aðstoð var þegin og upp frá því var gróðursett á hverju ári í það svæði. Þar er í dag kominn myndarlegur skógur.

Eftir skógargönguna var boðið upp á ketilkaffi og brjóstbirtu unna úr íslensku birki. Sigríður Júlía og Þröstur fluttu stutt erindi og gáfu skógarbændum fræ, Þröstur færði gestgjöfunum boli með áletruninni "Minna kjaftæði, meiri skóg." Félag skógarbænda á Vesturlandi færði Ellert Arnari Maríssyni bókina Flóru Íslands að gjöf en hann lauk mastersprófi frá Landbúnaðarháskóla Íslands og fjallaði ritgerð hans um viðarmagnúttekt fyrir Vesturland.

Síðan var boðið upp á súpu á Hernámssetrinu og Guðjón staðarhaldari hélt bráðskemmtilega kynningu á safninu. Safnið er stöðugt að eflast og er orðið verulega áhugavert.

Bergþóra Jónsdóttir, Formaður Félags skógarbænda á Vesturlandi


F

bottom of page