Aðalfundur Félags skógarbænda á Austurlandi, haldinn á Eiðum 20. febrúar 2022 og hefst kl. 18:00. Maríanna formaður setur fund og býður fólk velkomið. Síðan afhendir hún Bjarna Björgvinssyni fundarstjórn og Haukur Guðmundsson ritar fundargerð.
Dagskrá aðalfundar:
1. Fundur settur, lögmæti fundar kannað.
2. Skýrsla stjórnar
3. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram.
4. Umræður um skýrslu og reikninga.
5. Inntaka nýrra félaga.
6. Félagsgjöld ársins ákveðin.
7. Tillögur um lagabreytingar
8. Kosning stjórnar og skoðunarmanna reikninga.
9. Tilnefna aðal- og varamann til setu í stjórn LSE til eins árs.
10. Önnur mál
11. Fundi slitið
1. Fundarstjóri úrskurðar lögmæti fundar en mættir eru um 25 félagsmenn. Bjarni Björgvinsson er skipaður fundarstjóri og óskaði hann eftir athugasemdum frá fundargestum um lögmæti fundar ef einhverjar væru. Engar athugasemdir komu fram um lögmæti fundar og hann er því lögmætur. Síðan er gengið til dagskrár.
2. Skýrsla stjórnar FSA fyrir árið 2021 sem Maríanna formaður flytur.
Skýrsla stjórnar FsA fyrir árið 2021
Stjórn félagsins var á síðasta starfsári skipuð Maríönnu Jóhannsdóttur, Halldóri Sigurðssyni, Þórhöllu Þráinsdóttur, Hauki Guðmundssyni og Jónínu Zophoníasdóttur. Varamenn eru Karl Jóhannsson og Lárus Heiðarsson.
Á síðasta ári hittist stjórn 5 sinnum á fundum en hafði talsverð rafræn samskipti. Það var búið að gera ráð fyrir ýmsu til að efla félagsandann en vegna heimsfaraldurs var allt slegið af nema mjög vel heppnuð og vel skipulögð skógarganga í Meðalnesi í Fellum þar sem Björn Ármann, Susan og fjölskylda þeirra buðu okkur heim 3. ágúst sl.
Það var á dagskrá stjórnar að halda fræðslufund og skemmtun fyrir skógarbændur í nóv. sl. en af því gat ekki orðið vegna reglna um fjöldatakmarkanir eins og allir hér þekkja. Það sama á við um námskeið í tálgun og smíði húsgagna úr skógarviði. Vonandi horfum við til bjartari tíma hvað það varðar.
Verkefni með öflugri aðkomu FsA sem áður voru árleg eins og Skógardagurinn mikli og Jólakötturinn hafa legið í covid dvala en skógarbændur og Skógræktin stóðu að jólatrjáasölu í Samfélagssmiðjunni (áður Blómabæ) á Egilsstöðum núna fyrir jólin og það heppnaðist vel og ljóst að aðkoma skógarbænda í því að auka notkun íslenskra jólatrjáa á kostnað innfluttra ýmist lifandi eða úr plasti er nauðsynleg og þar þurfum við að efla okkar aðkomu enn frekar.
Baráttumál okkar frá síðasta aðalfundi um að skógarbændur færðust milli ráðuneyta, úr umhverfisráðuneyti í landbúnaðarráðuneyti varð að veruleika og því ber að fagna – þar með er skógrækt á lögbýlum enn frekar skilgreind sem landbúnaður.
Á síðasta ári sameinuðust Landssamtök skógareigenda Bændasamtökum Íslands eins og ætti ekki að hafa farið fram hjá neinum hér, búið er að kynna málið vel og verður að líkindum gert enn betur hér á eftir. Þar hafa skógarbændur öflugt félag á bak við sig sem við ættum að koma sterk inn í vegna kolefnisbindingar með skógrækt svo eitthvað sé nefnt. Stjórn hvetur félaga í FsA að skrá sig í Bændasamtök Íslands.
Girðingamál hafa verið einn af ásteytingarsteinum okkar skógarbænda og Skógræktarinnar undanfarin ár bæði hvað varðar kostnað við viðhald girðinga og nýjar girðingar. Skógræktin hefur gert það að markmiði sínu að innan fárra ára verði stofnframlög til girðinga úr gamla kerfinu úr sögunni en nýjar reglur um framlög vegna girðingamála samningssvæða í skógrækt á lögbýlum var kynnt á Teams fundi 15. des sl. og Skógræktin gerir ráð fyrir að þær reglur hafi tekið gildi 1.janúar 2022. Þær voru hins vegar einungis til kynningar á svokölluðum samráðsfundi Skógræktarinnar.
Á sambærilegum fundi 4. mars 21 var líka kynnt taxtahækkun. Formaður LSE gagnrýndi Skógræktina fyrir einstrengingshátt við ákvarðanir sem snúa að töxtum. Þar kynnir Skógræktin niðurstöðuna sem var 7,93% hækkun frá árinu áður. LSE sendi inn tillögu um 10.35% hækkun taxta. Í bókun fundarins kemur fram að Skógræktin þurfi að taka upp rekstaráætlun sína ef af þeirri hækkun verði og muni upplýsa stjórn LSE um niðurstöðu í kjölfarið. Ég bendi enn á að þetta heita samráðsfundir.
Að öðru leyti vísar stjórn í fundargerðir sem eru aðgengilegar á heimasíðunni skogarbondi.is og þar er hægt að fylgjast með störfum stjórnar og því sem hún brennur fyrir.
3. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram: Þórhalla gjaldkeri fór yfir ársreikning félagsins: Helstu niðurstöður eru þær að reksturinn er sterkur og töluverðir fjármunir eru til í félaginu sem að hluta má rekja til þess að lítið hefur verið hægt að gera í samkomum og fræðslu til handa félagsmönnum síðustu 2 ár vegna covid. Töluvert er um útistandandi félagsgjöld.
4. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning: Orðið var gefið laust um skýrslu stjórnar og ársreikning og rætt var almennt um stöðu á kurlara í eigu félagsins, hvar hann væri staðsettur og hvort hann hefði verið í einhverjum verkefnum undanfarið. Rætt um útistandandi félagsgjöld, gjaldkeri ætlar að ýta á eftir því að þau verði innheimt.Voru reikningar því næst bornir upp og samþykktir samhljóða með fyrirvara um samþykkt endurskoðenda.
5. Inntaka nýrra félaga. Engir nýir félagar hafa sótt um inngöngu
6. Félagsgjöld ársins ákveðin: Fyrir liggur tillaga frá stjórn um að ekki verði innheimt félagsgjöld vegna ársins 2022, þar sem innheimt gjöld á síðasta ári voru það há að þau duga vel fyrir rekstri ársins 2022.
7. Tillögur um lagabreytingar: Engar tillögur liggja fyrir um lagabreytingar. Halldór kynnir fyrirhugaðar lagabreytingar sem félagið stefnir á að leggja fram fyrir aðalfund að ári. Þ.e að LSE verður lagt niður og í stað verður kosið um fulltrúa í stjórn búgreinafélags skógarbænda hjá BÍ. Jóhann Gísli útskýrir betur fyrirhugaða breytingu.
8. Kosning stjórnar og varastjórnar: Maríanna Jóhannsdóttir, Halldór Sigurðsson og Þórhalla Þráinsdóttir gefa kost á sér áfram. Haukur Guðmundsson og Jónína Zophaníasdóttir gefa ekki kost á sér áfram. Óskað er eftir tilnefningum til stjórnar. Þorsteinn Pétursson og Vigdís Sveinbjörnsdóttir gefa kost á sér og eru klöppuð upp. Varamenn og skoðunarmenn gefa kost á sér áfram, og eru klöppuð upp. Það eru Karl Jóhannsson og Lárus Heiðarsson ásamt skoðunarmönnunum Eddu Björnsdóttur og Elvari Vignissyni.
9. Tilnefna aðal- og varamann til setu í stjórn LSE til eins árs: Ekki er tilnefnt að þessu sinni þar sem til stendur að LSE renni inn í búgreinadeild skógarbænda í bændasamtökunum. Á næsta ári á að leggja fram tillögu um að þessi liður falli út úr lögum félagsins. Sjá lið 7 í fundargerð þessari.
10. Önnur mál:
· Guðmundur Aðalsteinsson segir frá úrskurði Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins vegna girðinga á landi hans. Ræðir einnig almennt um taxtamál og það að skógarbændur þurfi hærri taxta fyrir vinnu sína. Rætt um framhaldið í girðingamálum í ljósi úrskurðarins.
· Taxtamál og almennar umræður um girðingar:
Rætt almennt um taxtamál, rætt um að samráð sé ekki haft við félög skógarbænda um taxta. Mótmælt hefur verið en skógræktin hefur ekki tekið tillit til tillaga bænda. Rætt um að kjör skógarbænda hafi verið rýrð á hverju ári undanfarin ár. Endurheimta þarf réttindi og kjör bænda. Mikilvægt að innheimta kostnað við viðhald girðinga vegna síðustu 4 ára svo kröfur fyrnist ekki.
Halldór Sigurðsson, Guðmundur Aðalsteinsson, Jóhann Gísli, Þorsteinn Pétursson og Guðmundur Ólason taka til máls um ofangreindan lið.
· Tillögur fyrir búgreinadeild skógarbænda BÍ: Jóhann Gísli kynnir og ræðir um drög að ályktunum sem lagðar verði fyrir nýja deild á stofnfundi hennar. Ræðir einnig um fjölda skógarbænda sem skráð sig hafa í félagið og hvetur fleiri til að skrá sig í samtökin. Skógarbændur eru langflestir með mjög lága veltu af skógrækt, undir 2 milljónir og greiða lægsta félagsgjald BÍ. Margir lentu í vandræðum með að skrá sig í bændasamtökin. Jóhann kynnir einnig hver staðan er á Kolefnisbrú, fyrirtækis sem ætlað er að halda utan um og selja kolefniseiningar úr skógum skógarbænda.
Annað:
· Unnar Elíson tekur til máls um vottun á kolefnisbindingu skóga, Jóhann Gísli ræðir hvernig það verði gert, margir milliliðir munu vilja taka það að sér. Lárus Heiðarsson leggur orð í belg.
· Rætt um kolefnisbindingu eldri skóga, almennar umræður.
· Óskað er eftir tillögum frá skógarbændum á búgreinaþing.
· Óskar Bjarnason biður um orðið: Ræðir um viðarkurlara, ekki er vitað nóg um rekstur þessa kurlara, ræða þarf um afgjald fyrir kurlara og að það dugi fyrir afskriftum að lágmarki.
Bókun: Fundur beinir því til stjórnar að leitað verði skriflegra skýringa á því hvers vegna hlutur FSA um rekstur á kurlara sé tekjulaus.
Var því næst gengið til kvöldverðar og að honum loknum flutti Lárus Heiðarsson fræðsluerindi.
Aðalfundi slitið kl 19:30
Fundarritari.
Haukur Guðmundsson
_____________________
Fundarstjóri.
Bjarni Björgvinsson
_____________________
Comentarios