top of page

Aðalfundargerð FsS 2023


Aðalfundur Félags skógareigenda á Suðurlandi, FsS

haldinn að Snæfoksstöðum í Grímsnesi 29. apríl 2023 kl. 10.00

1) Aðalfundarstörf.

Björn formaður setti fund og bauð alla velkomna, sérstaklega gesti fundarins, þau Hrefnu Jóhannesdóttur og Hlyn Gauta Sigurðsson. Hann minntist fyrrum formanns, Maríu E. Ingvadóttur, sem lést s.l. ár og bað fundargesti að minnast hennar með því að rísa úr sætum.

Þá lagði formaður til að Agnes Geirdal yrði fundarstjóri og Sigríður J. Sigurfinnsdóttir fundarritari. Var það samþykkt og tóku þær til starfa. – Fyrir fund og meðan á honum stóð var boðið til morgunverðar.

Formaður flutti skýrslu stjórnar frá sl ári.

Sigríður J sagði frá leshópunum. 3 hópar eru í gangi og hafa verið í 1 ár, alls um 30 manns. Hóparnir fá af og til fyrirlesara og eru þá saman. Þeir munu starfa í 2 ár til viðbótar. Áhugi er og líkur á að 1 hópur til viðbótar verði settur af stað.

Hrönn sagði frá Skóg-Bí. Sagði að nú værum við komin inn í Bændasamtökin og því finnst henni að við ættum að fjölmenna í félagið og vera sterk þar inni. Því fleiri félagar, því fleiri verða fulltrúarnir á Búnaðarþingi. Þá ræddi hún um búgreinaþingið, sagði frá starfsáætlun og málþingi sem halda á í október á Vesturlandi. Hrönn er í taxtanefnd og sagði að þar hefði verið samþykkt 9,3 % hækkun. Þá er Hrönn í skólanefnd Garðyrkjuskólans, sagði frá stöðu mála þar, sem líta orðið betur út, hún hefur trú á framtíð Garðyrkjuskólans.

Reikningar voru lagðir fram og skýrðir. Skýrsla stjórnar og reikningar voru samþykkt.

Kosningar: Björn B. Jónsson formaður var endurkjörinn til 3ja ára.

Sigríður J. gekk úr aðalstjórn og var Ragnheiður Aradóttir kjörin til 3ja ára.

Kosið var um 3 varamenn til 1 árs í senn, Það voru þau Agnes Geirdal, Þórarinn Þorfinnsson og Sigríður J. Sigurfinnsdóttir. Endurskoðendur voru kjörin til 1 árs: Sigríður Heiðmundsdóttir og Ragnar G. Ingimarsson.

Gjaldkeri lagði til sama árgjald, eða 5.000 kr, en tillaga kom um hækkun upp í 7.500 kr og var það samþykkt.


2) Fræ til framtíðar.

Björn formaður kynnti samantekt á stefnumótun FsS, og dreifði henni. Ítarlegri stefnumótun er aðgengileg á netinu, og búið er að senda hana til félagsmanna. Stefnan nær til ársins 2050 Ræddi hann um að auka þurfi fræðslu til skógarbænda, hún sé aldrei nógu mikil. Vinna að afurðamálum hefur því miður dottið niður og við þurfum að einbeita okkur að þeim málum. Einnig þurfum við að hafa „Fjölskylduna“ í fyrirrúmi, einbeita okkur að því, að bændaskógrækt sé fjölskyldusamvinna. Agnes fundarstjóri talaði um hvað stefnumótunin hefði verið skemmtileg vinna.

3) Ávarp.

Hrefna Jóhannesdóttir er gestur fundarins. Hún þakkaði fyrir að fá að heimsækja okkur. Kynnti sig og sín störf. Hún er skógfræðingur að mennt, skógarbóndi að Silfrastöðum í Skagafirði, hún og hennar maður Johan Holst, tóku við jörðinni 2015 af föður hennar Jóhannesi. Þar hefur verið plantað alls 1,2 milljón plöntum. - Hrefna hefur verið í sveitarstjórn og er nýlega tekin við starfi hjá Skógræktinni sem sviðsstjóri, kemur til okkar sem slík en ekki síður til að hlusta á okkur sem skógarbóndi. Hrefna sagði aðeins frá Skógarþjónustunni en um 20 manns heyra undir hana. Hún fór yfir framkvæmdir ársins. Úthlutað er um 450 milljónum kr. Það vantar um 30 % meiri úthlutun til geta farið í allar þær framkvæmdir sem skógarbændur óska eftir. Ræddi hún um skipulagsmál, sem geta verið mjög misjöfn milli sveitarfélaga og oft reynst skógarbændum erfið. – Stjórnvöld hafa lagt áherslu á að það verði til skógarauðlind, sem verði grunnur að atvinnu víða um land, það þarf að verða til skógur í einkaeigu. Við skógarbændur verðum að sækja það hart að það komi nægt fjármagn. - Hvað varðar aðgang að ræktunarefni, þá er þessa dagana erfitt að fá nóg lerkifræ og framboð af ösp var ekki nóg í ár miðað við óskir framkvæmdaraðila. Eins þurfum við ávallt að vera vakandi fyrir því að nota réttar tegundir og kvæmi, í þessu samhengi hvatti Hrefna fundargesti til þess að hlusta á fyrirlestur Brynjars Skúlasonar frá fagráðstefnu Skógræktar 2023; Aðlögun erfðaefnis skógræktar að loftslagsbreytingum (https://www.youtube.com/watch?v=rnSGS0mGswg). – Hrefna var spurð, hvað með sameininguna við landgræðsluna, lendum við undir í þeim efnum? “Við þurfum að sjá til þess að svo verði ekki” og hvað með Hrym? “Já hann er kominn til úthlutunar” - Hrefna hrósaði stjórn fyrir gott starf.


4) Ávarp.

Hlynur Gauti Sigurðsson, starfsmaður Bændasamtakanna: Hlynur byrjar að þakka og hrósa stjórn fyrir frábært og öflugt starf, t.d. með stefnumótunina og leshópana. Þá skilaði hann kveðju frá Jóhanni Gísla formanni Skóg-BÍ. Hann ræddi um starf Búgreinadeildar skógarbænda innan BÍ. Hann fór yfir hvaða tillögur voru afgreiddar af aðalfundi Búgreinadeildar skógarbænda. Þá ræddi Hlynur um hvað skipti miklu máli að menn tali saman, sér í lagi ef ágreiningur er. Að taka samtalið sem leið til sátta. Vísar hann þar m.a. í ágreining sauðfjárbænda/skógarbænda. Slík mál þarf að leysa heima í héraði. Einnig sagði hann frá ágreiningi sem asparframleiðsla Skógræktarinnar hefur haft á búgreinar innan BÍ. Hann vísaði á áhugavert video á youtube um hraðræktun aspar (https://www.youtube.com/watch?v=0M0yJXPV-X0&t=5s). Að lokum kynnti hann fyrirhugað málþing á vegum Skóg-BÍ á Varmalandi í Borgarfirði þann 14. okt nk. og árshátíð skógarbænda í framhaldinu. Hann komst ekki yfir öll atriði í fyrirlestri sínum, eins og hann hefði viljað.


5) Starfið framundan.

Björn sagði frá Jónsmessugöngu FsS sem á að verða sunnudaginn 25. júní kl 14. Að þessu sinni verður farið í heimsókn til Ísólfs Gylfa og Steinunnar, að Uppsölum í Fljótshlíð. Þá nefndi hann að stjórn stefni að ferðalagi sem frestast hefur vegna Covid, þar sem á að fara um uppsveitir Árnessýslu, ferðin er ákveðin 23. ágúst. Þá vill hann leggja áherslu á meiri fræðslu fyrir skógarbændur og að Skógarpósturinn komi reglulega út.


6) Umræður og önnur mál.

Sigurður Jónsson tók til máls. Rifjaði hann upp upphafsár FsS, ræddi um samkeppni skógarbænda við Skógræktina, sem er erfið skógarbændum, og að við ættum að framleiða pappír eins og Ítalir.

Kjartan Ólafsson formaður Skógræktarfélags Árnesinga (Skr fél Árn) lýsti yfir ánægju sinni með að fá að sitja fundinn með okkur. Skr fél Árn er með alls kyns framleiðslu og tók hann undir orð Sigurðar um að erfitt sé að keppa við ríkið. Þau rækta um 700 ha skóg á Snæfoksstöðum, og eru mest í ýmis konar framleiðslu, en mörg önnur skógræktarfélög leggja meiri áherslu á yndisskóga og göngustíga.

Hrefna tók aftur til máls og hvatti fólk til að mæta á málþingið í haust, það efli sameiningu milli félaganna á landinu.


Agnes fundarstjóri þakkað fyrir góðan fund. Björn formaður sagði að, að loknum fundi yrði stutt gönguferð með Bergi Björnssyni, starfsmanni Skr fél Árn.


Björn þakkaði gestum fyrir komuna, sagði að markmið okkar næsta árið væri að efla fjölskylduna í skóginum, og sleit fundi kl 12:30.


Sigríður J. Sigurfinnsdóttir fundarritariSkýrsla formanns
Ársskýrsla Félags skógareigenda á Suðurlandi (FsS)

fyrir starfsárið 2022-2023.

Góðir fundargestir.


Á starfsárinu sátu í sjórn FsS:

Björn Bjarndal Jónsson formaður, Sigríður J. Sigurfinnsdóttir ritari, Hrönn Guðmundsdóttir gjaldkeri og Sólveig Pálsdóttir og Rafn A. Sigurðsson meðstjórnendur.


Varastjórn skipuðu;

Agnes Geirdal, Ragnheiður Aradóttir og Þórarinn Þorfinnsson, en skoðunarmenn reikninga eru Ragnar G. Ingimarsson og Sigríður Heiðmundsdóttir.


Á árinu voru haldnir átta stjórnarfundir, en fundargerðir stjórnar eru settar á heimasíðuna www.skogarbondi.is eins og áður.


Almennir félagsfundur voru þrír, en tveir þeirra voru haldnir í tengslum við mótun framtíðarstefnu félagsins, sem lauk nú í vetur. Í nóvember kom Steinar Björgvinsson sérfræðingur í jólatrjám hjá Skógræktarfélagi Hafnafjarðar og fræddi okkur um ræktun og sölu á jólatrjám.

Brynjar Skúlason sérfræðingur hjá skógræktinni og skógarbóndi, var fenginn nú í mars til að fjalla um trjátegundir og eins um áburð og áburðargjöf í skógrækt.

Góður rómur var gerður að báðum þessum erindum.

Árleg Jónsmessuganga skógarbænda á Suðurlandi var sunnudagaginn 26. júní, en farið var í Þórsmörk að þessu sinni. Góð þátttaka var í ferðinni, þó Covid-19 hafi dregið nokkuð úr fjölda þátttakenda á síðustu stundu.

Aðalfararstjóri í ferðinni var Hreinn Óskarsson, m.a. sérfræðingur í gróðurfari Þórsmerkur, en hann leiddi skemmtilega göngu inni í Þórsmörk. Á leiðinni inn í Mörk fræddu Hallur í Bjargarkoti, Hálfdán Ómar á Ytra-Seljalandi og Ásgeir í Stóru-Mörk okkur um allt sem á leið okkar var, en þessir heiðurmenn eru allir staðkunnugir og því mikill fengur að fá þá í leiðsögn á leiðinni inn í Mörk.

Í lok göngunnar var grillað og hitað ketilkaffi, áður en haldið var heim á leið.Fésbókarsíðu Félags skógareigenda á Suðurlandi var viðhaldið á árinu og nokkur aukning hefur orðið á síðunni er kemur að félagafjölda. En betur má ef duga skal.


Stöðug vinna er við að uppfæra félagatalið og bæta skráningu eftir þörfum. Þessari vinnu líkur aldrei og mikilvægt að halda félagatalinu eins réttu og möguleiki er á, en félagar er minntir á að senda inn leiðréttingar um leið og breyting er á símanúmerum, heimilisfestu eða netföngum.

Félagar í dag eru 203 og hefur fjölgað lítilega á árinu.


Formaður, f.h. félagsins, tók á móti tveimur hópum í september á síðasta ári. Fyrst voru það finnskir skógræktarráðgjafar sem var tekið á móti í skóginum í Hrosshaga. Þá var skipulagt skógarprógram fyrir sænska skógarnemendur úr Háskólanum í Umeå, dagana 15. – 18. september. Nokkrir aðilar innan skógargeirans tóku á móti nemunum, auk þess sem formaður ferðaðist með hópnum um uppsveitir Árnessýslu.

Einnig fór formaður í ferð um uppsveitir Árnessýslu með eiganda Artic Plank slf, til að kynna fyrir honum möguleika á nýtingu á íslensku timbri til margs konar nota.

Fundir voru með Eflu, Skógræktinni, Límtré o.fl. sem hafa unnið að verkefni þar sem könnuð er hagkvæmni í þurrkun á timbri. Mjög spennandi verkefni.

Önnur fræðsla, þá fyrir félagsfólk var nokkur á árinu. M.a. námskeið í trjáfellingum og grisjun með keðjusög í Garðyrkjuskólanum, ásamt öðrum áhugaverður námskeiðum sem skólinn heldur.

Þrír leshópar störfuðu á síðasta starfsári. Hópstjórar í þessum leshópum eru Sigríður Jónína Sigurfinnsdóttir, Hrönn Guðmundsdóttir og Agnes Geirdal.

Nánar verður fjallað um leshópana hér á eftir.

Eins og öllum er kunnugt um þá heyrir Garðyrkjuskólinn nú undir Fjölbrautaskóla Suðurlands. Mikill áhugi er fyrir því að þessi yfirfærsla gangi upp og framtíð skólans verði tryggð. Uppbygging og endurbætur á húsakosti skólans er hafin og verður það verk vonandi öllum til sóma.

Formaður hefur fundað með staðarhaldara og endurmenntunarstjóra á Reykjum varðandi fræðslu fyrir félagsmenn FsS, ásamt skólameistara og formanni Bændasamtakanna. Á þessum fundum hefur verið mikill einhugur um framhald að hefja endurmenntun fyrir skógarbændur næsta haust.

Í þessu sambandi er rétt að geta þess að nefnd hefur verið skipuð af ráðherra, þar sem leggja á ráðin um framtíð Garðyrkjuskólans. Hrönn Guðmundsdóttir situr í þeirri nefnd.

TreProX, stóru Evrópuverkefni er lokið, sem var um fræðslu í meðhöndlun timburs, þurrkun og sögun. Sá sem hér stendur naut þess að fá að leiða þetta verkefni í byrjun, eða allt til að minni vinnu lauk hjá Skógræktinni. Lokaskýrsla er klár og heimasíða verkefnisins hefur verið opnuð fyrir almenningi. Þar er að finna bók um viðargæði, um 40 kennslumyndbönd og fyrirlestra um meðhöndlun timurs, ásamt mörgu öðru fróðlegu. Skógarbændur eru hvattir til að notfæra sér þetta efni eins og kostur er á heimasíðunni www.treprox.eu .

Skógarbændafélögin, ásamt Skóg-BÍ, sendu ráðherra bréf varðandi fyrirhugaða sameiningu Landgræðslunnar og Skógræktarinnar, Land og skógur. Þar var áréttað mikilvægi þess að nytjaskógrækt sæti ekki eftir við sameiningu þessara stofnanna. Ráðherra svaraði bréfinu og hét því að koma því í réttan farveg, að skógarbændur sitji ekki eftir í þessum efnum.

Sagt var á í bréfinu að bændur um allt land hafi barist fyrir tilurð skógræktar-verkefna á sínum tíma, og náðu árangri. Í framhaldinu urðu til Landshlutaverkefni í skógrækt og áttu skógarbændur sína fulltrúa í stjórnum þeirra. Með þessu móti komu bændur beint að uppbyggingu nytjaskógræktar og gátu þannig haft áhrif á markmið og leiðir sem farnar voru til að gera nytjaskógrækt að alvörubúgrein á sem stystum tíma. Það tókst svo eftir var tekið, bæði innan lands sem utan.

Í tengslum við umræðu um nýja stofnun, ásamt fleiri mál tengd nytjaskógrækt, fóru formaður og Hrönn Guðmundsdóttir, ásamt Siguði Jónssyni skógarbónda (sem var skipuleggjandi) á fund þingmanna Suðurlands þar sem við gátum komið okkar sjónarmiðum á framfæri. Þar gafst okkur einnig tækifæri að ná fundi með ráðherra, sem við þáðum og tókst vel í alla staði.

Á Búgreinaþing í vetur fóru fimm skógarbændur af Suðurlandi. Fundurinn þótti takast vel og var málefnalegur. Að sögn okkar fólks var of lítill tími fyrir skógarbændur til að tala saman um málefni skógarbænda. Vert er að taka undir það. Skógræktarstjóri lýsti yfir áhyggjum á fundinum um að Skóg-BÍ nái ekki til allra skógarbænda, en sömu áhyggjur hafa komið fram víðar og mikilvægt að vinna að lagfæringu á því. Hrönn Guðmundsdóttir var endurkjörin í stjórn Skóg-BÍ.


Samráðsfundur með Skógræktinni voru tveir, en Hrönn og Björn hafa setið þessa fundi f.h. Sunnlendinga.

Sigríður Júlía Brynleifsdóttir hætti á síðasta ári sem sviðsstjóri skógarþjónustu Skógræktarinnar. Hrefna Jóhannesdóttir hefur tekið við því starfi og fagna skógarbændur að fá Hrefnu þarna inn, um leið og Sigríði Júlíu eru þökkuð hennar góðu störf.

Hrefna hefur góða menntun, er öflugur skógarbóndi og hefur mikla yfirsýn yfir það sem er að gerast hjá Skógræktinni í dag. Einnig þekkir hún þennan málaflokk vel út frá sveitarstjórnarmálum.


Á síðasta ári fagnaði Félag skógrbænda á Suðurlandi 30 ára afmæli sínu, en í tilefni af afmælinu var farið í stefnumótunarvinnu til framtíðar fyrir félagið eða allt til ársins 2050. Andrea Rafnar var ráðin til verksins og hefur haldið utan um stefnumótunarvinnuna, leitt hana og unnið úr því sem fram hefur komið og sett í heildstætt skjal, ásamt að draga það mikilvægasta út úr stefnumótunarskjalinu og sett í A5 bækling sem hefur verið prentaður og verður til dreifingar.


Félagskerfi skógarbænda í landinu eru á tímamótum og því viljum við grípa inn í núna með þessa vinnu, en það eru líka margar aðrar ástæður m.a. að margir skógarbændur eru hættir að hugsa um gróðursetningar, komnir að umhirðu skóga og farnir að huga að úrvinnslu. Það er líka mikilvægt að gera eins og gert er á Norðurlöndum og í allri Evrópu, að markaðssetja skógana okkar og uppbyggingu þeirra sem fjölskyldufyrirtæki. Okkur vantar meira af ungu fólki inn í skógræktina og þetta gæti verið ein leið til að ná til þess hóps.


Margar aðrar ástæður voru fyrir því að ráðist var í þessa vinnu. Má þar nefna:

1. Sameining Landshlutaverkefna í skógrækt og Skógrækt ríkisins og nú Skógræktarinnar og Landgræðslu ríkisins. Með þessum sameiningum eru línurnar að skerpast annars vegar í hlutverkum stofnana og hins vegar félagslega hluta skógræktar í landinu. Skógræktarlög segja til á skýran hátt um markmið ríkisins í uppbyggingu skóga, en taka ekki tillit til umhirðu- eða afurðaþátta skóga hjá bændum nema í litlu mæli.

Það er því tímabært að skógarbændur skýri sína stefnu sína í þessum málum áður en það verður of seint.

2. Margir/flestir skógarbændur eru með samning til 40 ára við ríkið. Nokkrir samningar eru þar af leiðandi að renna út eftir fá ár. Hvað gerist þá?

3. Félagslegi þáttur skógarbænda á landsvísu er í endurmótun og ekki allt sem er að ganga upp í því sambandi. Þarna þarf að grípa inní og hlutverk skógarbændafélaga þarf að koma sterkt inn í þá vinnu.

4. Hlutur skógarbænda á landsvísu í heildargróðursetningum í landinu öllu var kominn í u.þ.b. 80%, en hefur á stuttum tíma fallið hratt niður. Þessu þarf að mæta m.a. með ákveðinni stefnu skjólbelta- og nytjaskógræktar til langs tíma.

5. Standa þarf vörð um fræðslu og ráðgjöf til skógarbænda.


Þetta eru aðeins nokkrir punktar sem gerðu það að verkum að mikilvægt var að fara í þessa vinnu. Meira um það seinna í dagskránni á eftir.


Ég vil nota þetta tækifæri að þakka öllum þeim sem komu að vinnu við stefnuna, sérstaklega Andreu Rafnar sem vann virkilega gott starf, Halli Björgvinssyni sem vann einnig með okkur allan tímann og kom með góðar ábendingar um það sem mætti betur fara, ásamt stjórninni, félögum öllum og öðrum þeim sem veittu góð ráð.


Stjórnarfólk og félagar allir fá þakkir fyrir gott starf á árinu.Björn Bj Jónsson


Comments


bottom of page