
Félagsfundur um „Stefnumótun“ Félags skógarbænda á Suðurlandi,
haldinn á Hótel Selfossi 5. nóv 2022 kl 11:00
Björn B. Jónsson, BBJ, formaður félagsins og fundarstjóri, setti fundinn og bauð gesti velkomna. Hann sagði frá því, að það væri afmælisgjöf til félagsins í tilefni 30 ára afmælis, að fara í þessa stefnumótunarvinnu, en í stefnunni er horft til ársins 2050. Ræddi hann lauslega um hlutverk félagsins, starfssvæði og starfið almennt. Þá talaði hann um samstarfið við Skógræktina, og þörfina á að finna nýjar leiðir til að auka nytjar og afurðir skóga. Nú horfum við fram á auknar grisjanir og mörg tækifæri eru framundan.
Andrea Rafnar tók við, en hún hefur haldið utan um stefnumótunarvinnuna og unnið úr því sem fram hefur komið. Hún sagði frá stefnunni og skýrði það sem þar kemur fram.
Þá var opnað fyrir umræður um stefnuna.
BBJ talaði um þá góðu stöðu á Íslandi að skógræktarlögin leyfa að ríkið greiði 97 % af upphafskostnaði við bændaskógrækt, og það sé mjög mikilvægt. Hins vegar sé það veikleiki að Skógræktin komi aðeins að aðstoð við bændur við 1. grisjun og síðan ekki söguna meir. Þess vegna vill félagið okkar ráða starfsmann, sem myndi koma þar inn og laga tómarúmið sem myndast þegar líður á seinni hluta ræktunarinnar. Þakkaði hann Andreu fyrir hennar góðu vinnu og tók salurinn undir það.
Björgvin Filippusson hrósaði stefnunni og sagði þetta mjög flotta vinnu. Stefnumótun er ákveðin sýn sem alltaf þarf að endurskoða.
Agnes Geirdal sagði þetta mjög áhugavert og mikil vinna á bak við. Nú þurfum við öll að hjálpast að við að vinna þetta áfram. Við erum komin með verkfæri og lykillinn er núna. Hún sagði ekki síður þörf á að þakka Birni fyrir hans þátt í vinnunni.
BBJ vonast til að við getum, jafnvel innan fárra ára ráðið starfsmann í 20-30% starf. Aukin samvinna við skógræktarfélögin ætti að vera í fararbroddi hjá félaginu.
Björgvin Eggertsson sagði þetta mjög flotta vinnu. Honum finnst vanta meiri samvinnu við skógræktarfélögin, og víða er mikil þekking til staðar. Hann telur að Skógræktin muni fara meira út í þjónustu við bændur.
BBJ tekur undir þessi orð hjá Björgvini.
Sigurður Haraldsson sagði frá ánægju erlendra ferðamanna sem heimsóttu skóg hans og urðu hissa á að það væri til alvöru skógur á Íslandi.
Kjartan Ólafsson formaður Skógræktarfélags Árnesinga ræddi um að auka þyrfti tengsl milli hinna ýmissu skógræktendafélaga. Þurfum að auka samvinnuna, erum öll að vinna að því sama. Skógræktarfélag Árnesinga er að berjast um á þessum vettvangi án styrkja, eru með 700 ha, og í ýmiss konar vinnslu, að fella, fletta o.fl.
BBJ þakkar Kjartani og er sammála honum.
Hallur Björgvinsson telur þetta afskaplega þarft plagg. Hann veltir framhaldinu hjá skógarbændum fyrir sér, flestir hér inni eru með samning. Svo lýkur honum og hvað þá? Margir aðilar vinna að skógrækt og auka þarf samvinnuna. Norrænu félögin vinna vel saman, og þar eru félög sem sinna öllum þáttum. Hér á landi kemur í ljós hvort þetta verði á vegum Skóg-BÍ. Félagið þarf að pressa á hvaða leið Bændasamtökin vilji fara. Allar atvinnugreinar hafa farið að blómstra þegar afurðafélögin urðu til. Þannig er það í skógræktinni í Skandinavíu. Það þurfa allir að fara að velta þessu fyrir sér.
BBJ þakkar Halli, og þakkar honum líka aðstoðina á fundum félagsins og við stefnumótunina.
Hrönn Guðmundsdóttir sem er í stjórn Skóg-BÍ segir að þar á bæ sé ekkert í gangi. Það þurfi virkilega að fara að vinna að framtíðarplani.
BBJ segir að LSE hafi verið með starfsmann í fullu starfi, en hann sé ekki lengur í starfi fyrir okkur. Hann er núna starfsmaður Bændasamtakanna, þar sem hann sinnir ýmsum fleiri störfum en að starfa fyrir skógarbændur.
Andrea lagði á það áherslu að nú sé mikilvægt að fylgja stefnunni eftir. Eftirfylgnin er það sem stundum verður útundan eftir stefnumótun og þá fer allt í súginn. Nú þarf að gera aðgerðaráætlun og ákveða hverjir sjái um hvað í þeim efnum.
Hrönn ræddi um mikilvægi skógræktarfélaganna.
Björgvin E sagði að um 2000 hefði félagið, FsS komið af stað námskeiðaröðinni Grænni skógum, sem síðan fór um allt land.
Ísólfur Gylfi hrósar stjórn og þakkar fyrir.
Þar með lauk umræðum um stefnumótunina, boðið var upp á súpu í hádeginu.
Seinni hluti fundarins var fræðsluerindi Steinars Björgvinssonar
Ræddi hann um ræktun og framleiðslu jólatrjáa og skrautgreina á Íslandi og innflutning á þeim.
Flutt er inn til landsins rúm 200 tonn af jólatrjám og 47 tonn af skrautgreinum, en þær eru fluttar inn allt árið. Íslensk framleiðsla er ¼ -1/5 af heildarsölu jólatrjáa. Helstu tegundir, íslenskar, eru Stafafura, Blágreni, Sitkagreni, Rauðgreni og Fjallaþinur. Vaxandi áhugi er fyrir tröpputrjám. Fjallaði hann um ýmis kvæmi, hvað hentar best, hvað er viðkvæmt fyrir úthafsloftslagi.
Steinar er starfsmaður Skógræktarfélags Hafnafjarðar, en félagið selur jólatré, sem þau hengja upp í gróðurhúsi, til sýnis. Hins vegar veit hann að stærri verslanir sem flytja inn jólatré til sölu, hengja þau upp og láta þessi íslensku liggja bakatil, og svo á félagið að taka þau til baka, því þau seldust ekki.
Kjartan Ó segir að það sé sama sagan hjá Skógræktarfélagi Árnesinga. Innfluttu trén eru í forgangi, en þau íslensku liggja í hrúgu bakatil.
Björn B Jónsson þakkaði Steinari fyrir fróðlegt erindi.
Þakkaði öllum fyrir komuna og sleit fundi kl 13:30
Sigríður J. Sigurfinnsdóttir, ritari FsS