top of page

Kolefnisbókhald, svar loftslagsráðherra

... af vef Alþingis 19.apríl 2023153. löggjafarþing 2022–2023.

Þingskjal 1590 — 627. mál.Svar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn

frá Líneik Önnu Sævarsdóttur um kolefnisbókhald.


1. Hvert er samspil vottaðra kolefniseininga, sem seldar eru á frjálsum markaði, og loftslagsbókhalds Íslands, þ.e. árlegs uppgjörs í samræmi við skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum?

Almennt er talað um tvenns konar kolefnismarkaði.

Annars vegar er um að ræða reglaða markaði, líkt og CDM-markaðinn (Clean Development Mechanism) sem settur var á laggirnar undir Kyoto-bókun loftslagssamningsins. Verkefni lutu þar sérstöku eftirliti og allar kolefniseiningar sem urðu til með tilstilli verkefnanna voru vottaðar. Þær einingar gátu ríki keypt til að uppfylla sínar loftslagsskuldbindingar. Þessi markaður lagðist af við lok gildistíma Kyoto-bókunarinnar.

Hins vegar er um að ræða valkvæða markaði með kolefniseiningar. Í flestum tilfellum er á þeim mörkuðum verið að selja vottaðar kolefniseiningar en einnig má nefna óvottaðar einingar eins og þær sem Kolviður og Votlendissjóður hafa selt undanfarin ár hér á landi og fyrirtæki hafa nýtt til að kolefnisjafna sína innri starfsemi. Ekki er haft sérstakt eftirlit með viðskiptum með kolefniseiningar á valkvæðum mörkuðum og þær einingar sem þar ganga kaupum og sölu hafa ekki áhrif á loftslagsbókhald ríkja og þá ekki inn í loftslagsbókhald Íslands.

Árétta verður að árangur af öllum landnýtingarverkefnum sem varða samdrátt í losun eða bindingu kolefnis hér á landi, svo sem frá skógrækt og landgræðslu, eru talin inn í íslenska losunarbókhaldið, sbr. svar við 3. lið fyrirspurnarinnar.


2. Eru vottaðar kolefniseiningar, sem seldar eru fyrirtækjum sem starfa erlendis, færðar með sama hætti í loftslagsbókhaldi Íslands og þær sem seldar eru fyrirtækjum sem starfa á Íslandi?

Kolefniseiningar á valkvæðum mörkuðum hafa sem áður segir ekki áhrif á losunarbókhald ríkja, hvort sem um er að ræða vottaðar einingar eða ekki og hvort sem um er að ræða einingar sem seldar eru milli ríkja eða ekki.


3. Hvaða áhrif hefur skógrækt, sem er til komin vegna sölu vottaðra kolefniseininga, á útreikning kolefnislosunar frá landnotkun (LULUCF) á Íslandi?

Einingar sem til verða vegna landnýtingarverkefna og seldar eru á valkvæðum mörkuðum, hvort sem er hér innan lands eða erlendis hafa ekki áhrif á losunarbókhaldið (sala íslenskra eininga út fyrir landsteinana hefur enn sem komið er ekki átt sér stað). Hins vegar telur árangur af öllum landnýtingarverkefnum sem varða samdrátt í losun eða bindingu kolefnis hér á landi, hvort sem um er að ræða skógrækt eða landgræðslu, inn í íslenska losunarbókhaldið.

Á alþjóðavettvangi á sér stað mikil umræða um markaði með kolefniseiningar. Á vettvangi loftslagssamningsins er enn verið að ganga frá útfærslu varðandi kolefnismarkaði sem setja skal á laggirnar skv. 6. gr. Parísarsamningsins. Þar er annars vegar um að ræða kerfi sem byggir á tvíhliða samningum milli ríkja (gr. 6.2) varðandi yfirfærslu vottaðra kolefniseininga frá skilgreindum verkefnum og hins vegar alþjóðlegt markaðskerfi með vottaðar kolefniseiningar (gr. 6.4) sem ríki geta nýtt gagnvart sínum landsmarkmiðum. Rík áhersla er á að regluverkið tryggi að hverja kolefniseiningu verði aðeins hægt að telja fram í einu ríki og því þarf að draga þær frá í losunarbókhaldi þess ríkis sem selur. Viðskipti með slíkar einingar munu lúta sérstöku eftirliti ólíkt því sem á við um kaup og sölu eininga á valkvæðum mörkuðum í dag.

Ákveðið hefur verið að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra skipi starfshóp sem falið verði að leggja mat á möguleika og áskoranir varðandi þátttöku íslenskra fyrirtækja og ríkisstofnana í alþjóðlegum kolefnismörkuðum.
コメント


bottom of page