Formaður sauðfjárdeildar Bændasamtakanna heldur því fram í Skoðun í Vísi að „lausaganga“ í heimasveitum sé langt frá því að deyja – því engar lagabreytingar hafi verið gerðar er varða lausagöngu búfjár.
Frægt er að „laumað“ var í lög um búfjárhald árið 2002 ákvæðum sem virtust gefa kindum á flækingi beitarrétt í annarra manna heimalöndum, ef löndin væru ekki girt vottuðum girðingum og auglýst friðuð í Stjórnartíðindum. Þá leið ágangsbændum vel – og stukku jafnvel til og létu setja í fjallskilasamþykktir að menn mættu ekki ónáða kindurnar þeirra þegar þær gerðu sig heimakomna í heimalöndum þeirra.
Þannig segir í 11. gr. Fjallskilasamþykkt fyrir Múlasýslur:
Óheimilt er að valda búpeningi í ógirtum heimalöndum ónæði, allt frá því fé er sleppt að vori til fyrstu gangna. Þessi texti lýsir vel hvernig sumir kindaeigendur virðast líta á allan gróður sem sinn gróður og öll lönd sem sín lönd.
Gamanið tók af þegar Umboðsmaður Alþingis kvað upp úr í áliti í október 2022 að „lauman“ stæðist ekki eignarréttarákvæði Stjórnarskrár lýðveldisins og um ágangsmál giltu því áfram lög um afréttamálefni nr. 6/1986. Þau lög voru fyrst sett árið 1969 og voru byggð á þeim rétti sem verið hafði við lýði hér á landi frá fornu fari. Og hvað skyldu svo lögin, sem Umboðsmaður Alþingis vill meina að gildi í ágangsmálum, segja um svokallaða „lausagöngu“ búfjár í heimasveitum? Því er fljótsvarað; ekki neitt! Orðið „lausaganga“ finnst ekki í lögunum. Aftur á móti er í þeim lögum heill kafla um úrræði landeigenda við ágangi búfjár í heimasveitum. Og þar segir í 33. gr.:
Nú verður ágangur búfjár úr einu heimalandi í annað, og getur þá sá, er fyrir verður, kært til hreppstjóra. Stafi ágangurinn af búfé, sem vanrækt hefur verið að reka á fjall eftir fyrirmælum fjallskilasamþykktar, ber hreppsnefnd að sjá um, að eigendur reki fénaðinn til afréttar. Vanræki þeir það, lætur hún reka á þeirra kostnað. Stafi ágangur hins vegar af búfé, sem heimilt er að hafa í heimahögum, ber sveitarstjórn að láta smala ágangsfénaði og reka þangað, sem hann á að vera, á kostnað eiganda, nema annað sé ákveðið í fjallskilasamþykkt. Sinni sveitarstjórn ekki skyldum sínum skv. 1. mgr. að mati lögreglustjóra skal hann láta smala ágangsfénaði á kostnað eiganda.
Svo mörg eru þau orð. Beitarþjófnaður hefur verið ólöglegur á Íslandi frá Þjóðveldisöld og lagaákvæði þess efnis í Grágás og seinna í Jónsbók og í réttarbót Magnúsar konungs. Sauðfjáreigendur þurfa ekki að halda kindum sínum innan fjárheldra girðinga í heimasveitum, ef sveitastjórn krefst þess ekki, en þeir verða að gæta þess að skepnurnar þeirra fari ekki þangað þar sem þær mega ekki vera. Á þeim hvílir skyldur smalans, sem gætti ánna í seljum í aldir.
Að halda því fram að eigendur kinda séu frjálsir af skaða og skemmdum sem búfé þeirra veldur í annarra manna heimalöndum, er óskhyggja ágangseigenda og launaðra talsmanna þeirra. Þannig hefur það aldrei verið, er ekki og verður aldrei á meðan 72. gr. Stjórnarskrárinnar er eins og hún er. Sama hvað reynt verður að plotta og potast í stjórnmálamönnum og stjórnsýslu – þá verður því tæplega breytt. Um það vitna örlög „laumunnar“, sem átti að gera Ísland að einum stórum kindahaga. Henni var einfaldlega hent í ruslið.
Höfundur er lögfræðingur.
Frétt á Visir 15.mars 2023
Lausaganga í heimasveitum er þrautaganga
Kristín Magnúsdóttir skrifar 15. mars 2023 15:00
Mynd er óviðkomandi greininni að öðru leiti að á henni er fé á beit. Mynd:Hlynur
コメント