top of page

Nýtt álit innviðaráðuneytisins birt í máli um smölun á ágangsfé

Frétt af stjórnarráði Íslands, 23.júní 2023Innviðaráðuneytið hefur gefið út nýtt álit vegna stjórnsýslu sveitarfélagsins Snæfellsbæjar í máli sem sneri um smölun sveitarfélagsins á ágangsfé. Í því eru fyrri leiðbeiningar ráðuneytisins um skyldur sveitarfélaga varðandi smölun á ágangsfé (útg. júní 2021), felldar úr gildi eru í samræmi við álit umboðsmanns (útg. október 2022). Sveitarfélögum ber þannig skylda til að gera ráðstafanir til þess að smala ágangsfé, eins og kveðið er á um í ákvæðum laga um afréttarmálefni, fjallskil o.fl. (nr. 6/1986).


Í lögunum er m.a. kveðið á um að verði mikil brögð að ágangi búfjár úr afrétti í heimahaga, geti sá er fyrir verður, gert sveitarstjórn aðvart. Skal hún þá, ef um verulegan eða óeðlilegan ágang virðist að ræða, skipa fyrir um smölun ágangspenings og rekstur til afréttar eða skilaréttar. Einnig kemur fram að stafi ágangur af búfjár úr einu heimalandi í annað sem vanrækt hefur verið að reka á fjall eftir fyrirmælum fjallskilasamþykktar, ber hreppsnefnd að sjá um, að eigendur reki fénaðinn til afréttar. Vanræki þeir það, lætur hún reka á þeirra kostnað. Þá segir einnig að greiða skuli kostnað vegna smölunar ágangsfjár úr fjallskilasjóði eða sveitarsjóði en heimilt er þó að ákveða aðra skiptingu þess kostnaðar.


Í álitinu er bent á að ákvarðanir um smölun á ágangsfé, og eftir atvikum ákvörðun um að leggja á kostnað vegna slíkrar smölunar á búfjáreiganda, eru stjórnvaldsákvarðanir í skilningi stjórnsýslulaga. Sveitarfélög þurfa því einnig að gæta að þeim grundvallarreglum sem þar er getið, svo sem að mál sé nægilega vel upplýst.


Þá er vikið að því í álitinu að sveitarfélög eru sjálfstæð og staðbundin stjórnvöld sem ráða málefnum sínum sjálf eftir því sem lög ákveða, sbr. 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar. Er það því í höndum sveitarfélaga að haga framkvæmd þeirra verkefna sem þeim er falið að sinna skv. lögum með skilvirkum og vönduðum hætti á grundvelli meginreglu sveitarstjórnarréttar um ábyrga fjármálastjórn og í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti


Mikilvægt að endurskoða lög

Jafnframt áréttar ráðuneytið í áliti sínu að ákvæði laga um búfjárhald, nr. 38/2013 og laga um afréttarmálefni, nr. 6/1986 samræmist ekki í framkvæmd. Því telji ráðuneytið mikilvægt að ákvæði þessara laga verði endurskoðuð sem fyrst.
Comments


bottom of page