top of page

Sex greinar um kolefnisbindinguÍ haustmánuðum 2020 birtust sex greinar í Bændablaðinu, skrifaðar af Þresti Eysteinssyni, skógaræktarstjóra, Guunlaugi Guðjónssyni, fjármálastjóra Skógræktarinnar og Hafliða Herði Hafliðasyni, verkefnisstjóra Kolefnisbrúarinnar (LSE). Allar greinarnar höfðu saman yfirbragð, myndskreytt af Hlyni Gauti Sigurðssyni, framkæmdastjóra LSE.
Hér eru allar greinarnar í greinabálknum saman komnar. 

Skógrækt og loftslagsmálin – Inngangur

Þröstur Eysteinsson

Skógræktarstjóri


Það kann að vera að bera í bakkafullan lækinn að fjalla um möguleika aukinnar skógræktar sem lið í að takast á við loftslagsbreytingar, en það er reyndar talsverð þróun í þeim efnum um heim allan sem og hér á landi, sem vert er að segja frá. Svo veitir e.t.v. ekki af að rifja eitt og annað upp af og til.


Meðal þess sem nokkuð hefur borið á eru skoðanaskipti um ágæti mismunandi aðferða við að binda kolefni. Þar höldum við skógræktarmenn skógrækt að sjálfsögðu fram sem góðum kosti. Aðrir halda fram landgræðsluaðgerðum án trjáa eða endurheimt votlendis, enn aðrir niðurdælingu CO2 í djúpar borholur eða jafnvel að dreifa áburði yfir hafið. Fólk er þó almennt sammála um að binding á CO2 úr andrúmsloftinu sé nauðsynlegur liður í bæði viðbrögðum við og aðlögun að loftslagsbreytingum ekki síður en að draga úr losun, breyta neysluvenjum og aðlaga landbúnað að nýjum skilyrðum. Án bindingar mun kolefnishlutleysi ekki nást fyrir árið 2050, hvað þá 2040.


Stundum eru menn kappsamir í að verja sinn málstað. Það er af hinu góða því það sýnir að mönnum er alvara, enda skiptir mjög miklu máli að ná árangri í að stemma stigu við hraðfara loftslagsbreytingum. Margir halda því fram að loftslagsbreytingar séu brýnustu úrlausnaratriði sem mannkynið hefur nokkru sinni staðið frammi fyrir.


Mismunandi aðferðir við að binda CO2 úr andrúmsloftinu eða draga úr losun eru byggðar á mismunandi forsendum og erfitt getur verið að bera þær saman. Engu að síður ber okkur að meta árangur og skilvirkni hverrar þeirra svo hægt sé að taka skynsamar ákvarðanir og móta áherslur. Til þess þarf að stunda rannsóknir, safna mýgrút af mæligögnum og vinna úr þeim. Þar eru mismunandi aðgerðaflokkar komnir mislangt. Því byggist samanburður oft á ónógum upplýsingum og jafnvel misskilningi.


Ef t.d. er verið að bera saman skógrækt og endurheimt votlendis er annars vegar um bindingu CO2 úr andrúmsloftinu að ræða og hins vegar um að ræða samdrátt í losun. Það eitt og sér er illa samanburðarhæft þó mæla megi hvort tveggja í tonnum CO2 á hektara. Í því felst líka ákveðinn misskilningur að miða helst við þann samanburð, því í raun er oftast allt annað en mögulegur loftslagsávinningur sem ræður því hvort skynsamlegra sé að velja skógrækt eða endurheimt votlendis sem loftslagsaðgerð á tilteknum stað. Skógrækt krefst þess að einhver sé á staðnum til að gróðursetja, girða og halda girðingum við. Hún hentar því ágætlega í og nálægt byggð en verr á svæðum þar sem aðgengi er erfitt eða ómögulegt er að friða land fyrir beit. Endurheimt votlendis hentar að sama skapi illa á svæðum þar sem ræktun, beitarnytjar eða annað á nærliggjandi landi gæti skaðast við hækkaða vatnsstöðu eða þar sem framræst land er orðið skógi eða kjarri vaxið og því líklegt til að binda nú þegar meira en það losar. Hún hentar hins vegar ágætlega á eyðijörðum eða þar sem önnur landnotkun skaðast ekki þótt land blotni.


Í metingnum um hver sé besta loftslagsaðgerðin er margt sagt sem ekki stenst nánari skoðun eða er byggt á hæpnum forsendum. Er sú samfélagsumræða dæmi um hvernig loftslagsmálin hafa verið leidd út um holt og móa, stundum af ásettu ráði af aðilum sem hugsa helst um skammtímahagsmuni, skilja ekki ógnina eða vilja bara engar breytingar. Á meðan fólk er að rífast um hlutina verður engin samstaða um lausnir. En hvaða hagsmunir geta verið mikilvægari en framtíð barna okkar og barnabarna? Við verðum að koma okkur að verki og hætta að afvegaleiða umræðuna með bölvuðu kjaftæði.


Í næstu tölublöðum Bændablaðsins verður röð greina um skógrækt og loftslagsmálin. Við vonum að þær verði bæði fræðandi og gagnlegar. 


Hvað er kolefnisbinding með skógrækt?

Þröstur Eysteinsson

Skógræktarstjóri


Hvað er eiginlega þetta kolefni? Kollegi minn fékk þessa spurningu einu sinni, hálfpartinn í gríni held ég. Og þó. Til að hafa sæmilegan skilning á frumefninu kolefni þarf maður helst að hafa setið háskólakúrsa í lífefnafræði, sem fæstir hafa gert. Vegna sérstakra eiginleika kolefnisatóma, umfram önnur frumefni, við að mynda tengingar við önnur atóm fær kolefni þá sérstöðu að heilu fræðigreinarnar fjalla eingöngu um það. Sumir segja að kolefni sé undirstaða lífs. Mér finnst réttara að segja að líf sé einn eiginleika kolefnis.


Líf er sú birtingarmynd kolefnis sem við höfum hvað mestan áhuga á, enda erum við lífverur. Þó er mun meira kolefni í efnasamböndum utan lífríkisins, t.d. í koltvísýringi (CO2) og metani (CH4) sem eru gastegundir, eða í kalksteini eða silfurbergi (CaCO3) sem er grjót. Ekki er síður mikið kolefni í hafinu, t.d. í formi uppleysts CO2, í skeljum dýra og í seti.


Þegar talað er um kolefnisforða er átt við að kolefni finnist í mismunandi formi, í mismiklu magni og á mismunandi stöðum. Koltvísýringur og metan mynda aðalkolefnisforða andrúmsloftsins. Kolefnisforðar á yfirborði jarðar eru einkum í lifandi og dauðum lífverum og í jarðvegi og vatni í margs konar efnasamböndum. Neðanjarðar eru stórir kolefnisforðar í kolum, olíu og jarðgasi sem er lífrænt kolefni úr fornum skógum eða seti. Stór hluti kalksteins í heiminum er einnig upprunninn í lífríkinu, úr skeljum í sjávarseti og fornum kóralrifjum.


Kolefni færist á milli þessara forða og er þá talað um kolefnishringrás. Ljóstillífun í laufblöðum plantna nýtir sér CO2 úr andrúmsloftinu og vatn neðan úr jarðveginum sem hráefni og sólarljós sem orkugjafa til að búa til sykrusameindina glúkósa (C6H12O6), sem er keðja kolefnisatóma með súrefnis- og vetnisatóm tengd við á ákveðinn hátt. Glúkósa nota síðan aðrar frumur plantnanna til að búa til aðrar kolefnissameindir, t.d. til að mynda stoðvefi (við), forðanæringu (fjölsykrur og fituefni), amínósýrur (sem mynda prótein), kjarnsýrur (erfðaefni) og fleiri lífrænar sameindir. Þar með er búið að færa kolefni úr forða andrúmsloftsins í forða lífríkisins. Þar heldur það svo áfram að flæða. Sumt endar í jarðvegi þegar smárætur vaxa þar um og drepast síðan. Sumt færist yfir í dýr þegar þau éta plönturnar og svo önnur dýr sem éta þau. Við orkumyndun lífvera, sem er í raun hægur bruni á lífrænum kolefnissamböndum, losnar kolefni aftur út í forða andrúmsloftsins sem CO2. Það gerist einnig þegar líf endar og sveppir, bakteríur og aðrar rotverur taka til við niðurbrotsiðju sína.


Svipaðar tilfærslur er hægt að lýsa á milli annarra kolefnisforða en ég læt duga að nefna eina. Það er sú tilfærsla sem á sér stað þegar maðurinn færir gamalt og vel geymt kolefni úr neðanjarðar kola- og olíuforðum, brennur það sem orkugjafa og úr verður CO2 sem bætist í forðann í andrúmsloftinu.


Allt eru þetta náttúrulegir ferlar. Á undanförnum 200 árum hefur athafnasemi mannsins hins vegar aukið hraða tilfærslna á kolefni á milli forða. Við það hafa sumir forðar minnkað en aðrir stækkað. Kola- og olíuforðinn í jarðlögum hefur verið fluttur upp í andrúmsloftið með milligöngu iðnaðar og farartækja. Stærsti forði kolefnis í lífi á landi, viður trjáa, hefur verið rýrður mjög verulega með skógareyðingu og það kolefni hefur sömuleiðis endað sem CO2 í andrúmsloftinu að mestu. Við ósjálfbæra akuryrkju, ofbeit búfjár og jarðvegsrof rýrnar kolefnisforði jarðvegs og endar einnig uppi í loftinu að mestu. Sömuleiðis færist kolefni úr kalksteini upp í andrúmsloftið við sementsvinnslu. Vandamálið er að allt hefur þetta verið á einn veg, einstefna upp í loftið.


Uppsöfnun CO2 í andrúmsloftinu hefur verið mæld árlega síðan 1958. Á þeim 62 árum hefur magn þess aukist um þriðjung. Ekki nóg með það heldur hefur hert á aukningunni jafnt og þétt. Þetta er nú farið að hafa aðrar mælanlegar afleiðingar, einkum á hita. Skýringuna á því má finna á veraldarvefnum og því sleppi ég henni hér, en niðurstaðan er sú að aukið magn CO2 í andrúmsloftinu veldur hlýnun í neðri lögum þess. Afleiðingar þess eru bráðnun jökla, hækkandi sjávarborð og öfgakenndari breytileiki í veðri – þurrkar verða þurrari, stórrigningar verða stærri, stormar verða sterkari, hitabylgjur verða heitari og jafnvel kuldaköst kaldari. Ekki er síður alvarlegt að aukinn styrkur CO2 í andrúmsloftinu þýðir að meira af því leysist upp í hafinu og veldur þar súrnun í gegnum ákveðin efnahvörf. Það er aftur slæmt fyrir skeljamyndun svifdýra og kórala sem getur haft mjög neikvæð áhrif á allt lífríki sjávar. Það eru ekki síst slæmu fréttirnar fyrir okkur Íslendinga.


Til að stemma stigu við verstu afleiðingum aukningar CO2 í andrúmsloftinu er nauðsynlegt að gera tvennt: draga úr losun og efla leiðir til að snúa einstefnunni við, þ.e. að draga CO2 niður úr andrúmsloftinu. Nærtækasta og skilvirkasta leiðin til þess er með skógrækt, að vernda þá skóga sem fyrir eru, rækta nýja og að auka vöxt þeirra. Þannig er að langstærstur hluti þess kolefnis sem tekinn er úr andrúmsloftinu með ljóstillífun fer í að byggja stoðvefi trjáa, en kolefni er um 40% af massa trjáviðar. Í bolum stórra trjáa er því kolefnisforði sem getur verið bundinn þar í marga áratugi eða aldir. Eftir því hvernig sá viður er síðan nýttur getur kolefnið í honum verið bundið mjög lengi í viðbót, t.d. í byggingum.


Annar hluti kolefnisins endar í jarðveginum eins og fyrr sagði. Þar getur það verið bundið í aldir og árþúsundir svo fremi að ekki verði jarðvegsrof. Almennt gildir að gróður þar sem lífmassi eykst ár frá ári, eins og í vaxandi skógi, er einnig að skila kolefni til jarðvegarins og því meira eftir því sem vöxturinn er meiri.


Kolefnisbinding með skógrækt er tvímælalaust örugg og góð leið til að binda CO2 úr andrúmsloftinu til langs tíma. Það hlutverk skóga fer líka vel saman við annan ágóða skógræktar svo sem jarðvegsvernd, útivist og timburframleiðslu. Nú er bara að bretta upp ermar og fara að gróðursetja.
 


Ertu að hugsa um að kolefnisjafna þig?

Hafliði Hörður Hafliðason

Verkefnisstjóri Kolefnisbrúarinnar


Síðustu misseri hafa kolefnismál verið töluvert í umræðunni. Mörg ríki heims hafa sett sér mjög metnaðarfull markmið varðandi það að draga úr losun kolefnis útí andrúmsloftið og er það hið besta mál. Við þurfum hins vegar öll að gera okkur grein fyrir því hvað það er mikilvægt að við hefjum öflugar aðgerðir strax og fyrsta skref okkar á að vera að draga eins mikið úr losun og við mögulega getum. Þetta á bæði við einstaklinga og fyrirtæki. Óraunhæft er við núverandi aðstæður að draga alveg úr losun og því þurfum við að grípa til mótvægisaðgerða. Þar kemur kolefnsbinding með skógrækt sterk inn.


Við, sem viljum ekki bara komast í núllið heldur komast yfir það, horfum því með jákvæðum augum til skógræktar sem bestu lausnarinnar hérlendis við bindingu kolefnis. Skógrækt hefur markvisst verið stunduð hér á landi í áratugi og mikið er til af góðum rannsóknum sem geta sýnt fram á kolefnisbindingu trjáa. Einnig er hægt að styðjast við þessar rannsóknir og áætla með nokkurri nákvæmni bindingu næstu ára og áratuga. Þessar rannsóknir sýna vel þá miklu bindigetu sem skógarnir búa yfir. Það má líka geta þess að skógar af öllum stærðum í öðrum löndum eru að gera mjög góða hluti við að hreinsa andrúmsloftið og má þar t.d. nefna Amzon skóginn, sem stundum hefur verið kallaður lungu jarðarinnar.


Fólk og fyrirtæki hafa með aukinni umhverfisvitund, farið að horfa til þess hvernig þau geta dregið úr sinni losun, minnkað kolefnissporið sitt. Margir eru orðnir mjög góðir í því að flokka og fyrirtæki eru byrjuð með „grænt-bókhald“ og gera metnaðarfullar umhverfisskýrslur. Ein leið til þess að koma sér „í núllið“ (eða yfir núllið) er að fjárfesta í kolefniseiningum. Þá er búið að reikna út losun, oft yfir ákveðið tímabil og hægt að kaupa sér kolefniseiningar fyrir því sem uppá vantar.


Hérlendis er markaður með þessar einingar frekar vanþróaður. Í dag er hægt að fá lausnir sem hafa lítinn rekjanleika og eru óvottaðar. Það er t.d. í boði sumstaðar að kolefnisjafna ákveðnar ferðir, bensínlítra og ýmislegt fleira. Það er mikilvægt að huga að heiðarleika gagnvart heimkynnum okkar, jörðinni, og ekki síður okkur sjálfum þegar við ætlum að kolefnisjafna okkur og að við kaupum einingar af ábyrgum aðilum, sem byggja sitt verkefni á rannsóknum og hafa sýnileika. Öryggi og traust er hér eitt af lykilatriðunum. Við kaup á kolefniseiningum er því mikilvægt að fólk og fyrirtæki spyrji sig þeirra spurninga hvort að verkefnið sem það er að kaupa af sé trúverðugt, hvort að nægar rannsóknir liggi að baki kolefnisbindingunni og hvort að peningurinn skili sér ekki örugglega í kolefnisbindingu.


Með því að vafra aðeins um Netið, þá er hægt að nálgast upplýsingar um þónokkuð mörg verkefni sem bjóða uppá kolefnisbindingu. Líklegt er að fleiri verkefni komi til með að bjóða uppá þessa leið af kolefnisjöfnin í náinni framtíð eftir því sem umhverfisvitund verður sterkari. Ef þú ert í þessum hugleiðingum, þá er gott að kynna sér verkefnið vel sem býður uppá kolefniseiningar og velja vandlega.


Kostir þess að fjárfesta í kolefniseinginum með skógrækt eru fjölmargir, fyrir utan hversu tré eru öflug að binda kolefni. Stefnt er að því að fljótlega verði hægt að votta kolefniseiningar sem „framleiddar“ eru með skógrækt. Með skýru og ströngu útektar og vottunarferli verður hægt að rekja einingarnar og ganga úr skugga um að þær séu örugglega til staðar. Þetta þýðir þá að ef þú fjárfestir í vottuðum kolefninseiningum, þá getur þú verið alveg viss um að þær eru að skila sínu í því að efla umhverfið okkar.


Það eru spennandi tímar framundan í kolefnismálum. Við þurfum öll að leggjast á eitt með að draga úr losun og fjárfesta í kolefnisbindingarverkefnum sem starfa af ábyrgð. Skógrækt er leiðandi á heimsvísu varðandi kolefnisbindingu og mikil tækifæri eru hérlendis við að byggja upp öfluga skóga sem binda kolefni með nokkuð einföldum hætti. Með því leggjum við okkar af mörkum við að kolefnisjafna okkur, og jafnvel koma okkur í plús. 


Af hverju að votta kolefnisbindingu?

Gunnlaugur Guðjónsson

Skógræktin


Vottun (e. Validation/Verification/Certification) Reglulegt mat á verkefni með hliðsjón af reglum óháðs staðals, unnið af aðila með viðeigandi opinbert leyfi. Við vottun skal metið hversu mikil kolefnisbinding hefur orðið á viðkomandi svæði og staðfest að farið hafi verið eftir skilyrðum viðkomandi staðals. Vottunaraðili (e. Verification body) Sjálfstæður þriðji aðili með viðeigandi opinbert leyfi til að staðfesta og votta verkefni sem gengist hafa undir skilyrði óháðs staðals.

Ýmsar leiðir eru til að binda kolefni og jafna koltvísýringslosun frá athöfnum okkar og starfsemi. En mikilvægt er að allir geti treyst því að sú kolefnisjöfnun sem auglýst er hafi raunverulega farið fram. Þess vegna er nauðsynlegt að kolefnisjöfnun sé vottuð. Ef leitað er eftir kolefnisbindingu með skógrækt til að kolefnisjafna rekstur fyrirtækis er mikilvægt að átta sig á muninum á vottaðri kolefnisbindingu og því að greiða fyrir kolefnisbindingu án vottunar. Hver er eiginlega munurinn á þessu tvennu og af hverju er svona mikilvægt að votta kolefnisbindingu? Hvað er vottun og hvað á ég að velja?


Til að tryggt sé að kolefnisbinding sé raunveruleg gera vottunarstaðlar eftirfarandi kröfur:


· Varanleiki (e. Permanence) Tryggt sé að kolefni sem tekið hefur verið úr andrúmsloftinu og geymt í skógi sé bundið þar í þann skilgreinda tíma sem verkefnið lofar.


· Viðbót (e. Additionality) Verkefni er „viðbót“ ef það og tilheyrandi aðgerðir eru ekki áskildar í lögum og hefðu ekki orðið að veruleika án viðkomandi verkefnis.


· Kolefnisleki (e. Leakage) Losun koltvísýrings sem tilheyrir ekki bókhaldi viðkomandi verkefnis en verður þó til af völdum þess. Dæmi um þetta getur verið landbúnaðarstarfsemi sem færð er frá einum stað til annars og veldur þar skógareyðingu eða þyngri nytjum á skóglausu landi.


Afskráning (e. Retire)

Færsla á kolefniseiningum í kolefnisskrá yfir á afskráningarreikning sem öllum er aðgengilegur. Þetta er gert til að sýna að viðkomandi einingar hafi verið teknar úr umferð og þær megi ekki nota meir.

Þá er mikilvægt að ekki verði til tvítalning (e. Double-counting) á kolefniseiningum þegar kemur að því að nota kolefnisbindingu til að jafna á móti losun þannig að enginn vafi leiki á fullyrðingum um kolefnishlutleysi. Þetta er tryggt með því að skrá kolefniseiningar í sérstaka kolefnisskrá. Í kolefnisskránni er haldið utan um inneign, viðskipti og afskráningu á vottuðum kolefniseiningum.


Kolefnisverkefni skulu tryggja að kolefnisbinding sé vottuð samkvæmt viðurkenndum stöðlum s.s. Skógarkolefni, VERRA - Verified Carbon Standard (VCS) eða Gold Standard. Þetta eru óháðir staðlar sem hafa verið samdir af óháðum þriðja aðila. Vottun er strangt ferli sem veitir sjálfstæða staðfestingu á losun og tryggir að kolefnisjöfnun þín sé raunveruleg og varanleg. Gæði kolefniseininga verða því ekki tryggð nema með vottun frá slíkum aðila. Þegar þú velur kolefnisbindingu skaltu leita að annað hvort vottuðum eða a.m.k. staðfestum verkefnum til að tryggja gæði fjárfestingar þinnar og að um ósvikna kolefnisbindingu sé að ræða.


Verkefni sem selja kolefnisbindingu án vottunar veita ekki næga tryggingu fyrir því að kolefnisbindingin sé raunveruleg. Það þýðir að allar fullyrðingar um kolefnishlutleysi eru óstaðfestar og þar með er ekki hægt að sýna fram á með óyggjandi hætti að kolefnisbindingin hafi farið fram. Þetta getur leitt til þess að fyrirtæki sem keypt hafa óvottaðar kolefniseiningar komast að því síðar að fjárfesting þeirra er ekki ósvikin. Ef svo reynist nýtast þessi útgjöld ekki til kolefnisjöfnunar í loftslagsbókhaldi fyrirtækisins.


Þó að það kunni að virðast fjárhagslega skynsamlegt að kaupa óstaðfesta kolefnisbindingu, sérstaklega ef umrætt verkefni lítur út fyrir að vera raunverulegt, þá er mögulegt að til verði „fölsk eign“. Ef fyrirtæki hefur haldið fram kolefnishlutleysi við viðskiptavini sína og samfélagið allt en svo kemur upp úr dúrnum að fullyrðingarnar reynast rangar getur það valdið fyrirtækinu álitshnekki og ómældu fjárhagslegu tjóni. Enn fremur má segja, að með því að kaupa óstaðfesta kolefnisbindingu sé verið að koma í veg fyrir að fé renni til vottaðra verkefna sem tryggja að viðkomandi aðgerð hafi raunverulegan loftlagslagsávinning.


 

Viðskipti með kolefnisbindingu

Gunnlaugur Guðjónsson

Skógræktin


Við blasir að á komandi árum og áratugum verði æ dýrara að losa gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið. Kjósi fólk að ráðast í kolefnisjöfnun er nauðsynlegt að hún sé samkvæmt reglum og stöðlum og með viðurkennda vottun. Öðruvísi er ekki tryggt að hún verði viðurkennd í losunarbókhaldi.


Fyrirtæki sem stunda efnahagslega starfsemi menga yfirleitt eitthvað eða hafa neikvæð áhrif á umhverfi sitt á einhvern hátt. Þetta er misjafnt eftir fyrirtækjum og eðli starfsemi þeirra. Stundum greiða fyrirtæki fyrir þessi neikvæðu áhrif með einhverjum hætti, t.d. fyrir meðhöndlun úrgangs. Ein gæði sem fyrirtæki hafa hingað til getað nýtt sér án þess að greiða fyrir er losun á koltvísýringi út í andrúmsloftið. Þannig endurspeglast kostnaður samfélagsins vegna loftslagsbreytinga ekki í verði þeirra vara sem fyrirtækin sem losa koltvísýring út í amdrúmsloftið framleiða. Þetta hefur breyst á undanförnum árum og mun sú þróun ágerast að fyrirtæki þurfi að draga úr losun eins og mögulegt er. Það er hins vegar alveg ljóst að næstum ómögulegt er fyrir mörg fyrirtæki að ná kolefnishlutleysi með því að draga bara úr losun þar sem nánast óhjákvæmilegt er að þau muni losa koltvísýring út í andrúmsloftið í starfsemi sinni. Þetta þýðir að fyrirtækin þurfa að greiða með einhverjum hætti fyrir þá losun sem óhjákvæmilega hlýst af starfsemi þeirra, s.s með því að kaupa kolefnisbindingu til að jafna á móti losuninni. Mynd 1. sýnir á einfaldan hátt hvernig þessi viðskipti munu geta átt sér stað.


Mynd 1. Leiðin að kolefnishlutleysi


Fyrirtæki þurfa ekki bara í auknum mæli að svara ákalli viðskiptavina sinna um samfélagslega ábyrgð og sjálfbæra nýtingu auðlinda heldur má einnig gera ráð fyrir því í náinni framtíð að þjóðríki muni skylda fyrirtæki til að ná kolefnishlutleysi.Skoðum aðeins þau skref sem þarf að takaá þessari vegferð, mynd 2.:


· Kolefnisbókhald. Lykillinn að því að því að vita hvað fyrirtæki losar mikið kolefni er að fyrirtækið haldi kolefnisbókhald. Þar er gerð grein fyrir allri losun vegna starfsemi fyrirtækisins.

Mynd 2. Virðiskeðja kolefnisjöfnunar


· Niðurstaða úr kolefnisbókhaldi verður óhjákvæmilega neikvæð þar sem fyrirtækið er bara að losa kolefni en hefur ekki tryggt kolefnisjöfnun á móti. Frumkvæði og metnaður fyrirtækja, krafa viðskiptavina og eftir atvikum lög og reglur skapa þannig eftirspurn eftir kolefnisjöfnun.


· Hér hefur fyrirtæki val um aðferð til kolefnisjöfnunar. Ein sú leið sem hægt er að mæla sterklega með er skógrækt. Ræktun skóga er náttúruleg og hagkvæm leið til að binda kolefni. Nú hefur fyrirtækið möguleika á að ná kolefnishlutleysi með því að kaupa kolefnisbindingu í skógrækt.


· Til þess að fyrirtækið geti haldið fram kolefnishlutleysi þarf allt ferlið að vera samkvæmt gildandi reglum og stöðlum og vottað af óháðum þriðja aðila, hvort sem það er losun, aðgerðir til að minnka losun eða aðgerðir til kolefnisjöfnunar.Án vottunar verða engin viðskipti með kolefniseiningar en það er efni annarrar greinar sem birtist á næstunni.
Kolefnisbinding – jákvæð hliðaráhrif skógræktar

Hafliði Hörður Hafliðason

Verkefnisstjóri Kolefnisbrúarinnar


Stefna stjórnvalda er að Ísland nái kolefnishlutleysi árið 2040 og hefur metnaðarfull aðgerðaráætlun í þeim efnum verið sett fram. Mikilvægast er að draga sem mest við getum úr losun og binda það sem uppá vantar með ýmsum aðgerðum. Þar kemur skógrækt sterk inn, því ýmsar rannsóknir sýna fram á að kolefnisbinding með skógrækt gefur mjög góða raun. Skógrækt á Íslandi „tikkar“ einnig í mörg box í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, en þeim er ætlað að vera ákveðið leiðarljós aðildarríka að bættum heimi.

Ýmis tækifæri skapast með skógrækt, þar með talin fjölgun starfa. Framleiða þarf plönturnar, gróðursetja þær, sinna umhirðu á skóginum og fella og endurplanta þegar þar að kemur, svo nokkur dæmi séu tekin. Fyrir utan aukið verðmæti landsins sjálfs, þá eru tækifæri í úrvinnslu timburs, nýtingu skóga sem matarkistu (sveppir, ber o.fl.) sem hægt er að búa til verðmæti úr og einnig er hægt að nýta afurðir skóganna sem eldsneytisgjafa. Þarna skapast því kjörið tækifæri fyrir fólk að setja á laggirnar smáframleiðslufyrirtæki sem búa til verðmæti úr hreinum náttúruauðlindum.

Við þekkjum öll hversu vinsælir skógar eru sem útivistarsvæði og hafa þeir skapað sér skemmtilegan sess á Íslandi sem leik- heilsu- og afþreyingarsvæði fyrir fólk á öllum aldri. Með sjálfbærni að leiðarljósi getum við haldið áfram að byggja upp skógana okkar og búa til mikil verðmæti úr þeim. Ekkert í náttúrunni stendur í stað og bæta skógar nýstárlegum viskerfum í annars skóglítið og fremur einsleitt landslag. Líffræðileg áhrif skógræktar eru misjöfn en ef rétt er að málum staðið, þá geta þau verið mjög jákvæð og veitt skjól fyrir dýr og menn.

Jákvæð hliðaráhrif skógræktar eru mörg. Þar ber helst að nefna kolefnisbindingu. Ekki veitir okkur af því að vinna kröftuglega að þessum málum. Kolefnisbindingin gerir umhverfinu okkar gott og er mikilvægur þáttur þess að við getum náð kolefnishlutleysi. Við megum líka endilega hugsa lengra en kolefnishlutleysið og stefna á að fara yfir núllið. Markaðir með kolefniseiningar eru að þróast og það verður gaman að fylgjast með þegar virkir markaðir með vottaðar kolefniseiningar verða komnir á fullt. Það mun skapa tækifæri fyrir landeigendur að auka tekjur sínar, ásamt því að stuðla að auknu verðmæti jarða.

Við vitum að það þarf þolinmæði til þess að rækta skóga en með hliðsjón af því hversu miklu þeir geta skilað okkur í bættum lífsgæðum, jákvæðum fjárhagslegum og samfélagslegum þáttum, þá er um að gera að gefa í, og rækta meiri skóg.

Comments


bottom of page