top of page

Skógargöngur með Skógræktinni

Bréf frá Sigríði Júlí Brynleifsdóttur


Góðan daginn kæru skógarbændur,


Ég ætla að byrja á að þakka ykkur öllum fyrir frábært starf í vor/sumar. Þolinmæði, seigla, jákvæðni og bjartsýni eru orð sem lýsa ykkur best.

Plöntur fóru að berast á dreifingarstöðvar í maí en fljótlega kom í ljós skemmdir á plöntum vegna kulda í vor, þá tóku við þurrkar víða um land sem gerðu alla mjög óörugga með næstu skref. Samt sem áður hefur tekist að tæma dreifingarstöðvar, gróðursetningum lokið og framkvæmdaskýrslur eru að berast ráðgjöfum og fyrir austan á aðalskrifstofu er unnið að uppgjörum.

Ég vil minna ykkur á að skila bökkum á næstu dreifngarstöð en mikilvægt er að við skilum þeim af okkur til framleiðenda.

Núna í júlí eru flestir ráðgjafar að taka sér sumarfrí. Við gerum ráð fyrir að ef veðurfarið verður með okkur í liði í sumar geti flutningar á plöntum vegna haustgróðursetninga farið í gang í fyrrihlutanum í ágúst. Eins og við vitum getur þó alltaf brugðið til beggja þegar veðurfarið á í hlut en við vonum það besta.


Á síðasta ári fórum við Þröstur í heimsóknir til allra skógarbændafélaganna en þar gafst gott tækifæri til að hittast og ræða málin. Þetta mæltist vel fyrir og verður endurtekið í sumar.

Strax eftir verslunarmannahelgi munum við fara á flandur um landið. Við höfum verið í sambandi við stjórnir skógarbændafélaganna í öllum landshlutum sem sjá um skipulagningu á heimsóknunum í samstarfi við skógarbændur, útfærslurnar eru mismunandi, allt eftir tíma og aðstæðum á hverju svæði.

Dagskráin lítur svona út:

  • Þriðjudagur 3.ágúst. Austurland: Síðdegisganga að Meðalnesi í Fellum, hressing á eftir.

  • Fimmtudagur 4.ágúst. Norðurland: Eyjafjörður, nánari staðsetning óljós en viðburðurinn hefst kl 15, farið verður í göngu og boði uppá spjall og kaffi á eftir.

  • Mánudagur 9.ágúst. Suðurland: Uppsveitir, rútuferð sem hefst kl 9 og stendur allan daginn. Nánir upplýsingar er að fá hjá Birni Jónssyni (bjorn@bjarndal.is)

  • Þriðjudagur 10.ágúst. Vesturland: Borgarfjarðarrúntur, byrjað verður í Hvammi í Skorradal kl 13, farið verður rúntur á einkabílum og komið við á 2-3 skógarjörðum og endað í síðdegishressingu í Hvítársíðu.

  • Miðvikudagur 11.ágúst. Vestfirðir: Heimsókn að Höfða í Dýrafirði, mæting kl 13 og byrjað verður í súpu a la Alla og Sighvatur og síðan farið út í fræðslugöngu um Höfðaskóg.


Endilega takið þessa daga frá. Þetta verður boðað nánar þegar nær dregur á heimasíðu LSE https://www.skogarbondi.is/ og https://www.skogur.is/

Við viljum þakkar stjórnum skógarbændafélaganna fyrir frábærar viðtökur og samstarf við að undirbúa þetta.


Hún Brynja Hrafnkelsdóttir, sérfræðingur á Mógilsá óskar eftir upplýsingum um skaðvalda í skógum samanber frétt hér https://www.skogur.is/is/um-skograektina/frettir-og-vidburdir/frettir-og-pistlar/upplysingar-um-skadvalda-a-trjam-oskast Ég hvet ykkur til að hafa augun opin og senda Brynju ábendingar.


Í haust verður breyting á starfsmannamálum hjá skógarþjónustunni þar sem Lárus Heiðarsson (ráðgjafi á Austurlandi) mun færast yfir á rannsóknarsvið en hann mun koma þeim Maríu og Borja inn í sín verkefni, þá er Kári sumarstarfsmaður á Austurlandi til að létta undir með þeim.

Undirrituð er á leið í námsleyfi í haust en mun sinna 50% starfi frá 1.september, Valgerður Jónsdóttir mun taka hluta af mínum verkefnum næsta árið.

Þið verðið upplýst um þessar breytingar nánar eftir sumarfrí.


Skrifstofa skógræktarráðgjafa á Vesturlandi sem verið hefur á Hvanneyri mun flytja að Hvammi í Skorradal strax eftir Verslunarmannahelgi. Þar verða skógræktarráðgjafar, skógarvörður og skógarhöggsmenn með sína starfsaðstöðu á sama stað. Endurbætur hafa verið í gangi í Hvammi og starfsmannahúsið hefur fengið andlitslyftingu núna síðustu mánuði, þar sem m.a. efri hæðinni hefur verið breytt í skrifstofurými. Skógarbændum gefst gott tækifæri til að skoða nýju aðstöðuna þann 10.ágúst n.k.


Þetta verður ekki lengra í þetta sinn, ég óska ykkur alls hins besta og njótið sumarsins.

Sigga




コメント


bottom of page