top of page

Stóra blekkingin um "lausagöngu"

Grein í fyrsta tölublaði Bændablaðsins um stóru blekkinguna sem talsmenn sauðfjárbænda halda að fólki og þjóðinni, og Bændasamtökin ösnuðust til að taka undir sl. sumar, þ.e. að orðið "lausaganga" gefi búfjáreigendum frelsi frá því að bera ábyrgð á dýrunum sínum. Það er tóm vitleysa og stenst ekki nokkra skoðun af neinu tagi.


Auðvitað bera kindaeigendur ábyrgð á kindunum sínum og auðvitað eru eigur landeigenda friðhelgar skv. Stjórnarskrá lýðveldisins. Allt annað er tóm vitleysa - sem allir geta skilið sem velta málinu aðeins fyrir sér. Hvað þá ef þeir skoða lögin í landinu og hvernig þau hafa verið allt frá landnámi.

Greinin er nokkuð löng - en vonandi líka fróðleg.




Greinin í heild sinni er hér.

Stóra blekkingin um "lausagöngu"


Eðlilega er landbúnaður hagkvæmastur þegar tekst að stunda hann í löndum annarra en þeirra sem hafa af honum tekjur. Freistnivandi þeirrar hagkvæmni er gamall og vel þekktur. Nýtt er að hagnýting sumra á eigum annarra í íslenskum landbúnaði er réttlætt fullum hálsi, með svokallaðri „lausagöngu“ búfjár. Af orðræðunni mætti halda að til væru eldgömul lög, mögulega borin upp af Snorra Sturlusyni á Þingvöllum, þess efnis að búfé í þeirri göngu eigi helgan rétt til að éta hvað sem að kjafti þess kemur í annarra manna löndum. Þess vegna hafi búfé í aldir valsað um allar landsins koppagrundir. Kastaði tólfunum sl. sumar þegar Bændasamtök Íslands gerðu þvíumlíkan málflutning að sínum í bréfi til sveitarstjórna landsins.

 

Ekki Snorri, heldur Steingrímur

 

Ekki var það Snorri í Reykholti sem kom orðinu „lausagöngu“ í íslensk lög, heldur Steingrímur J. Sigfússon, enda kom orðið „lausaganga“ ekki fyrir í lögum fyrr en árið 1991. Lögin voru nr. 46 um búfjárhald og hljóðaði 2. gr. þannig:

 

„Landbúnaðarráðherra hefur á hendi æðstu stjórn þeirra mála er lúta að meðferð búfjár og eftirliti með búfjárhaldi sem kveðið er á um í lögum þessum. Með búfé er í lögum þessum átt við alifugla, geitur, hross, kanínur, loðdýr, nautgripi, sauðfé, svín og önnur dýr sem haldin verða til nytja. Rísi ágreiningur um hvað falla skuli undir hugtakið búfé sker landbúnaðarráðherra úr þeim ágreiningi. Með vörslu búfjár er í lögum þessum átt við að búfjáreigandi haldi því búfé sem varslan tekur til innan ákveðins afmarkaðs svæðis, en með lausagöngu búfjár að búfé geti gengið á annars manns land í óleyfi.“

 

Greinin var skýrð í frumvarpinu með eftirfarandi hætti:

 

Um 2. gr. Hér er kveðið á um yfirstjórn þessa málaflokks og gildissvið, þ.e. til hvaða búfjártegunda ákvæði frumvarpsins ná.

 

Augljóslega er fráleitt að orðið „lausaganga“ í greininni hafi búið til einhvern íveru- eða beitarrétt fyrir búfé í annarra manna löndum eða afnumið ábyrgð búfjáreigenda á búfé sínu í byggð, sem var tiltekin í Grágás á þjóðveldisöld, síðar í Jónsbók, í Réttarbót Eiríks konungs Magnússonar og er nú IV. kafli laga um afréttamálefni nr. 6/1986.

 

Meiri varsla!

 

Í lögunum þar sem orðið lausaganga kemur fyrir, var sveitarstjórnum veitt heimild til að krefjast vörslu búfjár innan afmarkaðs svæðis, þ.e. innan girðinga. Í um tíu aldir höfðu búfjáreigendur verið ábyrgir fyrir að búfé, sem þeir héldu í byggð, færi ekki þangað sem það mátti ekki vera. Fram til ársins 1991 réðu þeir alfarið sjálfir hvernig þeir fóru að því, en lengst af var það gert með gæslu, en einnig með girðingum (görðum), náttúrulegum mörkum eða öðrum hætti. Heimildin til að skylda vörslu innan girðinga var skýrð með eftirfarandi hætti:

 

Um 5. gr.

„Í áðurnefndu nefndaráliti er eingöngu fjallað um breytt viðhorf til vörslu með tilliti til umferðarmála. Ýmis önnur sjónarmið ýta á breytingar í þessum málum, t.d. breytt viðhorf í landnýtingu, m.a. með tilliti til aukinnar landfriðunar, breyttur búrekstur á jörðum í dreifbýli, sem felst í að búfjárhald leggst af á fjölda jarða. Þessi mál þarfnast því mun víðtækari umfjöllunar áður en endanleg stefnumörkun fer fram. Hér er gert ráð fyrir heimildum til einstakra sveitarfélaga til að setja reglur sem kveða á um meiri vörslu búfjár en almennar reglur gera ráð fyrir. Ljóst er að áhugi og frumkvæði heimaaðila er hið eina sem tryggt getur örugga framkvæmd þessara mála.“

 

Það eru því örgustu öfugmæli þegar því er haldið fram að orðið „lausaganga“ í lögum um búfjárhald árið 1991 hafi gefið búfé rétt til að valsa um byggðir landsins. Þvert á móti heimiluðu þau lög „meiri vörslu búfjár“ frá því sem almennar reglur gerðu ráð fyrir, vegna breytinga í sveitum landsins og með tilliti til öryggis vegfarenda.

 

Gæsla, annars kostnaður

 

Sumar sveitarstjórnir skirrast við að nýta nýfengna heimild sína til að skylda vörslu kinda innan girðinga. Breytir það vitaskuld engu um ábyrgð eigendanna á dýrum sínum í samræmi við lög um velferð dýra nr. 55/2013 og ákvæði IV. kafla laga um afréttamálefni nr. 6/1986, sem eru grundvallarlög um ágang búfjár og úrræði landeigenda við honum. Í greinargerð nefndar Ólafs Jóhannessonar, fv. prófessors og forsætisráðherra, sem samdi frumvarpið að lögunum, segir m.a.:

 

„Samkvæmt henni skyldi greiða fullar bætur fyrir beit túns, akra eða engja, þótt eigi væri löggarður um. Þetta ákvæði réttarbótarinnar verður að telja gild lög enn þann dag í dag.“

 

 

Þar segir enn fremur:

„Það virðist réttmætt að leggja með nokkrum hætti gæsluskyldu á eigendur og haldsmenn búpenings, hafi þeir ekki náð samkomulagi um sameiginlega hagbeit eða sveitarsamþykkt verið gerð um það efni, sbr. 14. og 51. gr. þessa lagafrumvarps. Á því sjónarmiði eru ákvæði 37. gr. frumvarps þessa reist, en þar er heimilað að láta fram fara smölun ágangsfjár og rekstur þess á afrétt eða þangað, sem það má vera, allt á kostnað fjáreiganda.“

 

Skv. lögum um ágang búfjár eru eigendur þess ábyrgir fyrir tjóni sem búfé þeirra veldur í annarra manna túnum, engjum og garðlöndum, hvort heldur þau eru girt eða ógirt. Þá er gæsluskylda lögð á eigendur búfjár, með nokkrum hætti, svo notuð séu orð greinagerðarinnar, því annars þurfa þeir að bera smölunarkostnað á ágangsgripum sínum, auk skaðabótanna vegna ólögmætrar beitar.

 

Ef búfjáreigendur vilja ekki bera þann kostnað verða þeir að gæta búfjár síns í byggð. Það er sú gæsluskylda sem hvílt hefur á búfjáreigendum frá þjóðveldisöld. Ef þeim er sama um kostnaðinn, geta þeir látið búfé sitt valsa í byggðinni, þ.e. þangað til því er smalað og skilað með reikningi fyrir smölun og ólögmæta beit.

 

Að ákvæði grundvallarlaga um eigendaábyrgð á búfé og úrræði landeigenda við heimildarlausri beit, sem eiga sér svipað langa sögu og byggðin í landinu, hafi hrokkið úr lagasafni þjóðarinnar þegar orðið „lausaganga“ kom fyrir í lögum um búfjárhald árið 1991, er óboðlegur málflutningur.

 


Kristín Magnúsdóttir

Höfundur er lögfræðingur, landeigandi og félagi í Bændasamtökum Íslands.

















Myndin fylgdi ekki með upprunalegu fréttinni.





Sjá upphaflegu útgáfu greinarinnar á bls 50 í Bændablaðinu









Comments


bottom of page