FSA 2024 - fundur 5
Fundur í stjórn Fsa haldinn 29. april. 2024 kl. 20.30 í fundarsal BsA.
Fyrsti fundur nýrrar stjórnar.
Mætt eru: Lilja Sigurðardóttir, Glúmur Kjartansson, Sigfús Oddsson, Þorsteinn Pétursson og Vigdís Sveinbjörnsdóttir
1. Stjórn skiptir með sér verkum þannig: formaður Þorsteinn Pétursson, gjaldkeri Sigfús Oddsson og ritari Vigdís Sveinbjörnsdóttir, meðstjórnendur Lilja Sigurðardóttir og Glúmur Kjartansson.
2. Starfið framundan: Búið er að leggja drög að námskeiði – sælureitur í
skóginum – í umsjá Jóns Kr. sem haldið yrði næsta haust. Þorsteinn mun tala við
Jón um tímasetningu þess. Skógardagurinn er á sínum stað. Vilji er til þess að
Þórhalla og Helgi haldi áfram sínum störfum í nefndinni og Lilja tekur að sér að
vera tengiliður við stjórn og mun hafa samband við þau.
Heimsókn til skógarbónda hefur verið flest sumur og verður stefnt að því að láta það
ekki falla niður þetta árið. Einnig verði stefnt að að því að halda samkomu í byrjun
desember eins og oft hefur verið og verður nánar ákveðið síðar.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 21.30
Fundargerð ritaði Vigdís Sveinbjörnsdóttir
FSA 2024 - fundur 4
Fundur í stjórn Fsa haldinn 16.apríl. 2024 kl. 18.15 að heimili formanns
Mætt eru: Maríanna Jóhannsdóttir, Halldór Sigurðsson, Þórhalla Þráinsdóttir og Vigdís Sveinbjörnsdóttir
Undirbúningur fyrir aðalfund sem haldinn verður 18. apríl
Þórhalla fór yfir stöðuna á ársreikningnum og rædd voru nokkur atriði varðandi hann svo sem þá sem skulda félagsgjöld og styrkir sem búið var að lofa vegna skógardagsins sem ekki hafa verið greiddir. Farið var yfir það hvað ástæða væri til að afskrifa og fella niður þannig að hægt verði að ganga frá ársreikningnum fyrir aðalfundinn.
Maríanna fór yfir drög að skýrslu stjórnar og mun senda á stjórnarmenn ef þeir vildu gera athugasemdir.
Halldór mun fara yfir sögu kurlarans sem hann hefur kynnt sér undanfarið.
Búið er að leggja drög að námskeiði – sælureitur í skóginum – í umsjá Jóns Kr. sem haldið yrði næsta haust.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19.40
Fundargerð ritaði Vigdís Sveinbjörnsdóttir
FSA 2024 – fundur 3
Fundur í stjórn Fsa haldinn 29. feb. 2024 kl. 15.00 að heimili formanns
Mætt eru: Maríanna Jóhannsdóttir, Halldór Sigurðsson, Þórhalla Þráinsdóttir og Vigdís Sveinbjörnsdóttir auk Bjarna Björgvinssonar stjórnarmanns í skógBÍ. Þorsteinn Pétursson boðaði forföll.
Matarskógur. Verkefni sem Elisabeth hjá Skógræktarfélagi Íslands er að vinna að og samþykkt hefur verið að félagið taki þátt í. Félagið ber ekki kostnað af verkefninu, en Elisabeth vill hitta fólk af svæðinu sem hefur þekkingu og reynslu á þessu sviði. Hún reiknar með að koma með kynningarfund austur á næstunni ef verkefnið fær styrkinn sem sótt er um.
Samráðsfundur vegna taxta í bændaskógrækt
Bjarni sagði frá samráðsfundinum sem hann sat sem stjórnarmaður skógBÍ. Það varð talsverð umræða um taxta fyrir unnin verk í skógrækt sem óánægja hefur verið með síðustu ár.
FsA ítrekar þá skoðun sína að fara þurfi ítarlega yfir þann grunn sem liggur til grundvallar töxtum í bændaskógrækt og leggur til að skipaður verði starfshópur sem fari yfir þennan grundvöll og þróun síðustu ára. Í starfshópi þessum ættu sæti einn frá Landi og skógi, einn frá skógarbændum og einn frá BÍ sem yrði formaður. Niðurstöður liggi fyrir í janúar 2025.
Námskeið
Fyrirhuguðu námskeiði sem talað var um að halda 29. feb. hefur verið frestað.
Hugmyndir að námskeiðum til umræðu:
- Námskeið fyrir unga fólkið til að vekja skógaráhuga
- Plöntuframleiðsla í smáum stíl
- Sælureitur í skóginum
Nánar ákveðið síðar.
Kurlaramálið
Halldór hefur aflað upplýsinga um afdrif kurlara sem félagið lagði til fjármagn í kaup á.
Félagið tók þátt í kaupum á kurlara sem átti að vera samvinnuverkefni og gæti gæti gengið milli manna.
Eignarhaldið skiptist með eftirfarandi hætti: Skógrækt 44,58 % ,Héraðs og austurlandsskógar 35 % , Búnaðarfélag Fljótsdals 5,83 %, Sveinn Ingimarsson 5,83 % og Félag skógarbænda á Héraði 8.75 %.
Ákveðið var að kaupa svo stóran kurlara að þegar til kom nýttist hann ekki eins og fyrirhugað var. Kurlarinn var staðsettur hjá skógræktinni á Hallormsstað sem átti að sjá um geymslu hans og rekstur og hefur Sveinn Ingimarsson gert hann út.
Afla þarf frekari upplýsinga um málið og fá eignarhaldið á hreint.
Skógardagurinn mikli
Skógardagurinn mikli verður 22. Júní upplýsti Þórhalla.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.45
Fundargerð ritaði Vigdís Sveinbjörnsdóttir
FSA 2024 – fundur 2
Fundur í stjórn Fsa haldinn 29. jan. 2024 kl. 18.30 að heimili formanns
Mætt eru: Maríanna Jóhannsdóttir, Halldór Sigurðsson, Þorsteinn Pétursson,Þórhalla Þráinsdóttir og Vigdís Sveinbjörnsdóttir.
1.Tillögur fyrir deildarfund skógBÍ.
- Eignarhald bænda á kolefnisbindingu. Maríanna setur saman texta og sendir áfram.
2. Skógaskrá. Skorað er á Land og skóg að fylgja eftir að skógaskrá sé uppfærð og aðgengileg
eins og lög gera ráð fyrir. – lög nr. 33 frá 15. maí 2019, 8. gr.
3. Fulltrúar á deildarfund búgreina.
Þorsteinn Pétursson, Vigdís Sveinbjörnsdóttir, Bjarni Björgvinsson, Óskar Bjarnason
og Halldór Sigurðsson.
4. Fulltrúi FsA í stjórn skógBÍ.
Samþykkt var að Bjarni Björgvinsson yrði fulltrúi FsA í stjórn SkógBÍ
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 20.15
Fundargerð ritaði Vigdís Sveinbjörnsdóttir
FSA 2024 – fundur 1
Fundur í stjórn Fsa haldinn 10. jan. 2024 kl. 17.00 að heimili formanns
Mætt eru: Maríanna Jóhannsdóttir, Halldór Sigurðsson, Þorsteinn Pétursson og Vigdís Sveinbjörnsdóttir.
1. Deildarfundir búgreina eru framundan – 12. febrúar og félagið á 5 fulltrúa. Opinn Teamsfundur verður þriðjudag 16. jan. Ákveðið að koma saman heima hjá formanni og tengjast fundinum.
Fulltrúar Fsa á deildarfundinn verða: Þorsteinn Pétursson, Jóhann Gísli Jóhannsson, Vigdís Sveinbjörnsdóttir, Halldór Sigurðsson, Bjarni Björgvinsson og Óskar Bjarnason.
2. Samráðsfundur.
Formaður fór yfir það sem fram kom á samráðsfundi sem hún sat þann 5. des. s.l. Þar voru 14 aðilar mættir.
3. Verkefni framundan
Klára þarf framhaldsaðalfundinn frá 2023 og halda aðalfund 2024. Stefnt á að halda þessa fundi 18. apríl n.k.Halldór mun panta húsið með veitingum.
Námskeið – hugmynd um að fá Jón Kr til að halda fyrir okkur námskeið – helst fyrir páska t.d. 29. febrúar. Hringt var í Jón Kr. og málið rætt við hann. Verður nánar ákveðið síðar.
4. Jólamarkaðurinn – jólakötturinn fór vel fram á nýjum stað og er þeim félagsmönnum sem komu að vinnu við undirbúning og frágang í húsinu vegna markaðarins þakkað fyrir framlagið.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18.30
Fundargerð ritaði Vigdís Sveinbjörnsdóttir
FSA 2023 – fundur 3
Fundur í stjórn Fsa haldinn 3. ágúst 2023 kl. 13.00 í Snjóholti
Mætt eru: Maríanna Jóhannsdóttir, Halldór Sigurðsson, Þorsteinn Pétursson og Vigdís Sveinbjörnsdóttir.
1. Bréf frá Bændasamtökunum varðandi lausagöngu sauðfjár sem borist hefur. Framundan er fundur stjórnar skógardeildar BÍ með formönnum félaga þar sem þessi mál verða til umræðu. Ljóst er að BÍ þarf að taka sjónarmið skógarbænda til greina ef þeir eiga að geta litið á Bændasamtökin sem sín samtök.
Stjórn FSA telur að nauðsynlegt sé að skógar og sauðfjárbændur tali saman og að skapa þurfi vetvang til þess. Ljóst er að aðstæður eru mjög mismunandi á landinu og leita þurfi mismunandi leiða til að leysa málin. Sjónarmið um þessi mál eru mörg og skoðanir sterkar, en Skógarbændur annars vegar og sauðfjárbændur hins vegar þurfa ræða þessi mál í sínum röðum með lausnamiðuðum huga. Síðan ættu þeir að kjósa sér talsmenn úr sínum röðum sem fái umbð sinna félaga til að ræða þessi mál og leita lausna sem báðir aðilar geti sætt sig við.
2. Félafsstarf. Ræddar hugmyndir um að halda námskeið eða annað til skemmtunar fyrir félagsmenn. Hugmynd að skoða með námskeið þar sem farið er í ýmis haustverk til undirbúnings vorverka. Formaður mun skoða með möguleika á því.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 14.00
Fundargerð ritaði Vigdís Sveinbjörnsdóttirleita
FSA 2023 – fundur 2
Fundur í stjórn Fsa haldinn 5. Apríl 2023 kl. 17.00 í fundarsal Bsa
Mætt eru: Maríanna Jóhannsdóttir, Þórhalla Þráinsdóttir, Halldór Sigurðsson, Þorsteinn Pétursson og Vigdís Sveinbjörnsdóttir.
1. Umræður um frumvarp um sameiningu landgræðslu og skógræktar sem nú er í umsagnaferli. Rætt um mikilvægi skrifstofunnar á Egilsstöðum og að halda starfsstöðinni á Austurlandi. Áður hefur verið send inn athugasemd við sama mál meðan það var í vinnuferli og er hægt að vísa í það og umsögn frá Múlaþingi. Maríanna mun vinna úr því og senda á stjórnarmenn.
2. Mál frá búgreinaþingi
a. Kolefnisbinding. Rætt um stöðuna varðandi kolefnisbindingu, vottunarmál og óljósa stöðu í þeim málum.
b. Girðingamál og sauðfjárbeit. Þar er vinna í gangi á vegum Bændasamtakanna. Haft var samband við Jóhann Gísla sem sagði frá þeirri vinnu sem farið hefur fram í þessu máli og staðan er óljós. Eins víst að ekkert skýrist fyrr en fyrir dómstólum.
3. Fundir framundan
a. Aðalfundur BsA verður 14. Apríl n.k. á Eiðum og væri gott ef skógarbændur sæju sér fært að mæta á fundinn. Þar verður m.a. á dagskránni hugmyndir að breyttu félagsfyrirkomulagi bænda á Austurlandi.
b. Næsta haust verður fagþing haldið á Varmalandi og verður nánar um það síðar.
4. Formaður sagði frá nýlegum fundi SKOGBI.
5. Aðalfundur Fsa var ákveðinn þann 27. Apríl n.k. á Eiðum kl. 17.00
6. Önnur mál
a. Þórhalla spurðist fyrir um hvar bókað hefði verið að fella niður félagsgjöld á
síðasta ári. Finna þarf fundargerð síðasta aðalfundar.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18.10
Fundargerð ritaði Vigdís Sveinbjörnsdóttir
FSA 2023 – fundur 1
Félag skógarbænda á Austurlandi, FSA – fundur 1, 2023
Fundur í stjórn Fsa haldinn í húsnæði BsA þann 1. feb. 2023 kl. 16.00. Mætt eru: Maríanna Jóhannsdóttir, Þórhalla Sigmundsdóttir, Halldór Sigurðsson og Vigdís Sveinbjörnsdóttir auk Jóhanns Gísla Jóhannssonar
1. Erindi til heimastjórnar Fljótsdalshéraðs þar sem bent er á mikilvægi þess að umsögn um sameiningu landgræðslu og skógræktar verði send inn frá sveitarfélaginu. Maríanna og Halldór munu ganga frá ályktun sem fer með erindinu.
2. Námskeið fyrir félagsmenn. Formaður hefur talað við Jón Kr. Arnarson um að fá hann til að halda námskeið fyrir félagsmenn um ræktun á berjarunnum og asparstiklingum. Hann nefndi 15. febrúar sem hugsanlegan námskeiðsdag.
3. Fundur skógbí og skógarbænda Jóhann Gísli sagði frá þessum sameiginlega fundi sem hann sat og haldinn var í nóvember s.l. þar sem rætt var um samstarfið. Nokkrar spurningar voru lagðar fram og hefur ekki enn verið svarað. Nokkuð rætt um aðkomu skógarbænda að BÍ og hve margir félagsmenn Lse væru ekki félagsmenn í skógbí. Eins varð umræða um Kolefnisbrúnna og stöðuna þar.
4. Skógardagurinn mikli. Samþykkt að taka þátt í því verkefni næsta 24. Júní n.k.
5. Flltrúar á búgreinaþingið verða Maríanna Jóhannsdóttir, Halldór Sigurðsson, Vigdís Sveinbjörnsdóttir, Hilmar Gunnlaugsson og Björn Ármann Ólafsson og varamaður er Þórhalla Sigmundsdóttir.
Að stjórnarfundi loknum verður almennur félagsfundur þar sem ræddar verða tillögur og erindi sem félagið vill senda inn á búgreinaþingið.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17.02 verður félagsfundur
Fundargerð ritaði Vigdís Sveinbjörnsdóttir
FSA 2022 – fundur 8
Félag skógarbænda á Austurlandi, FSA – fundur 8, 2022
Fundur í stjórn Fsa haldinn á heimili formanns þann 28. nóv. 2022 kl. 20.00. Mætt eru: Maríanna Jóhannsdóttir, Þórhalla Sigmundsdóttir, Halldór Sigurðsson, Þorsteinn Pétursson og Vigdís Sveinbjörnsdóttir auk Jóhanns Gísla Jóhannssonar
1. Væntanlegur fundur stjórnar BÍ og Skóg-bí sem verður eftir viku þar sem ræða á ýmis mál er varða greinina og stöðu skógarbænda innan BÍ.
Rætt var um hvaða punkta þyrfti að leggja áherslu á á þeim fundi. Ákveðið að setja saman áherslupunkta fyrir fundinn og mun Maríanna halda utan um þá samantekt.
2. Formannafundur á Mógilsá 14. Nóvember s.l. Halldór fór á fundinn fyrir hönd félagsins og sagði hann frá því sem þar var á dagskrá.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 22.00
Fundargerð ritaði Vigdís Sveinbjörnsdóttir
FSA 2022 – fundur 7
Félag skógarbænda á Austurlandi, FSA – fundur 7, 2022
Fundur í stjórn Fsa haldinn á heimili formanns þann 27. okt. 2022 kl. 20.00. Mætt eru: Maríanna Jóhannsdóttir, Þórhalla Sigmundsdóttir, Halldór Sigurðsson og Vigdís Sveinbjörnsdóttir.
1. Sameining skógræktar og landgræðslu. Rætt um frumvarp sem matvælaráðherra hefur lagt fram um sameiningu þessara tveggja stofnana. Umsögn um frumvarpið þarf að berast fyrir 1. nóvember n.k. Stjórnin mun vinna að slíkri umsögn fyrir þann tíma.
2. Jólakötturinn. Hann verður 10. desember n.k. í gróðrhúsi Barra kl. 11-16 . Senda þarf út til félaga upplýsingar um það og þau verkefni sem vinna þarf.
3. Kolefnisbinding. Formaður sagði frá samtali sínu við forsvarsmenn Ygg sem hafa áhuga á að komast í samband við skógarbæmdur á svæðinu. Rætt var um að þeim bjóðist að koma á félagsfund þegar hann verður til að kynna sína starfsemi og þá verði jafnframt fengin kynning á Kolefnisbrúnni.
4. Formannafundur verður á Mógilsá 14. nóvember n.k. Formaður kemst ekki á þann fund og mun Halldór fara.
5. Félagsfundur. Stefnt verði að félagsfundi í lok nóvember. Stefnt verði á sunnudaginn 27. nóv. og unnið að því að fá fræðslu á fundinn.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 21.30
Fundargerð ritaði Vigdís Sveinbjörnsdóttir
FSA 2022 – fundur 6
Félag skógarbænda á Austurlandi, FSA – fundur 6, 2022
Stjórnarfundur
Fundargerð
Fundur í stjórn Fsa haldinn í húsnæði Búnaðarsambands Austurlands þriðjudaginn 9. Ágúst 2022 kl. 20.15. Mætt eru: Maríanna Jóhannsdóttir, Þorsteinn Pétursson, Þórhalla Sigmundsdóttir, Halldór Sigurðsson og Vigdís Sveinbjörnsdóttir jafnframt sat Jóhann Gísli Jóhannsson fundinn.
1. Skógarganga – heimsókn í Víðivallagerði á fimmtudag í næstu viku. Þar er gert ráð fyrir ca. kílómeters göngu og boðið upp á veitingar þar í skógarrjóðri. Reiknað er með að fólk komi sér sjálft í Viðivallagerði og hittist þar kl. 16.00 og reiknað er með að heimsókninni ljúki kl. 18.00. Maríanna mun stjórna undirbúningi veitinga. Vigdís sendir upplýsingar á félagsmenn og tekur við skráningum.
2. Bréf frá Austurbrú varðandi félagskerfi bænda á Austurlandi sem verið er að skoða með Búnaðarsambandi Austurlands. Bréfið var til kynningar og var málið rætt vítt og breitt.
3. Félagsstarfið í haust og vetur. Boðað hefur verið til fræðslu og skemmtifundar í Reykholti í Reykholtsdal 22. – 24. október n.k. í anda landsfunda Lse sem nú eru aflagðir. Bændafundur er boðaður í hádeginu 23. ágúst n.k. á vegum bændasamtakanna.
Ýmsar hugmyndir voru ræddar um margvísleg námskeið fyrir félagsmenn. Tálgun, húsgagnasmíð, ræktun berjarunna, gerð skógarrjóðra og leshópar voru hugmyndir sem velt var upp.
4. Önnur mál
a. Þorsteinn Pétursson ræddi um breytingar reglna um þéttleika í skógrækt sem hann telur verða til þess að gæði trjánna minnka og velti fyrir sér hvort rannsóknir lægju þar að baki.
b. Rætt var vítt og breytt um skógrækt og skógarmenningu.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 21.45
Fundargerð ritaði Vigdís Sveinbjörnsdóttir
FSA 2022 – fundur 5
Félag skógarbænda á Austurlandi, FSA – fundur 5, 2022
Stjórnarfundur
Fundargerð
Fundur í stjórn Fsa haldinn í húsnæði Búnaðarsambands Austurlands mánudaginn 5. maí kl. 16.30.
Mætt eru: Maríanna Jóhannsdóttir, Þorsteinn Pétursson, Þórhalla Sigmundsdóttir, Halldór Sigurðsson og Vigdís Sveinbjörnsdóttir. Einnig sat fundinn að hluta Jóhann Gísli Jóhannsson.
1. Upplýsingar af samráðsfundi sem haldinn var í dag. Halldór sat fundinn fyrir hönd félagsins og gerði grein fyrir þeim málefnum sem þar voru á dagskrá og umræðum um þau. Í ljósi þeirrar umræðu sem á fundinum varð lýsir félagið yfir óánægju með að fá ekki að koma að ákvörðunum um taxta fyrir girðingar plöntun og umhirðu áður en fjárhagsáætlun Skógræktarinnar liggur fyrir því eftir það virðist enginn möguleiki að hnika neinu þar um. Án þess telur stjórn FsA þetta samráð í raun tilgangslaust.
2. Skógarganga í sumar. Stefnt er á að fara í heimsókn í Víðivallagerði í ágúst n.k. Nánari tímasetning verður ákveðin síðar.
3. Árshátíð skógarbænda 22.okt. Reiknað er með fræðaþingi á vegum skógarbændafélaganna og SKÓGBÍ þann 22.okt. í Reykholti í Borgarfirði og árshátíð um kvöldið.
4. Önnur mál.
a. Rætt var um úrsögn félagmanns úr félaginu og ástæður þess.
b. Rætt var um grisjun í skógum og velt upp þeirri hugmynd að fá fræðslu um þau mál á félagsfund í vor. Samþykkt að stefna að því.
c. Þórhalla sagði frá starfi undirbúningsnefndar Skógardagsins.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18.00
Fundargerð ritaði Vigdís Sveinbjörnsdóttir
FSA 2022 – fundur 4
Félag skógarbænda á Austurlandi, FSA – fundur 4, 2022
Stjórnarfundur
Fundargerð
Fundur í stjórn Fsa haldinn í húsnæði Búnaðarsambands Austurlands mánudaginn 11. Apríl kl. 16.00.
Mætt eru: Maríanna Jóhannsdóttir, Þorsteinn Pétursson og Vigdís Sveinbjörnsdóttir. Í síma var Halldór Sigurðsson og Þórhalla Sigmundsdóttir boðaði forföll. Einnig sat fundinn að hluta Jóhann Gísli Jóhannsson.
1. Félagsstarfið
a. Heimsókn. Þorsteinn hefur rætt við Bjarka Jónsson í Skógarafurðum um heimsókn til hans í Víðivelli og tillaga Bjarka var að hún yrði þann 30. apríl n.k. Samþykkt var að senda út til félagsmanna tilkynningu um heimsókn í Víðivelli þann 30. Apríl kl. 14.00 – 16.00. Veitingar verði í boði félagsins.
b. Námskeið Þorsteinn hafði jafnframt rætt við Bjarka Sigurðsson um smíðanámskeið. Hann var með hugmyndir að tímasetningu 22.-24. apríl námskeið sem væri 9 tímar. Ræða þarf betur um tilhögun og lengd áður en ákvörðun verður tekin.
2. Skógardagurinn mikli Formaður upplýsti að búið væri að halda einn fund í undirbúningsnefndinni. Dagsetning komin á skógardaginn mikla – þann 25. Júní og byrjað er að safna auglýsingum.
3. Fundur með skógræktarstjóra Formaður sagði frá ósk skógræktarstjóra um að funda með stjórn Fsa varðandi grisjunarmál. Stefnt á þann fund kl. 10.00 þann 12. Apríl.
Fleira ekki gert og fundi slitið
Fundargerð ritaði Vigdís Sveinbjörnsdóttir
FSA2022- Fundur 3
FSA 2022 – fundur 3
Félag skógarbænda á Austurlandi, FSA – fundur 3, 2022
Stjórnarfundur
Fundargerð
Fundur í stjórn Fsa haldinn í húsnæði Búnaðarsambands Austurlands miðvikudaginn 30. mars kl. 20.30. Mætt eru: Maríanna Jóhannsdóttir, Þórhalla Sigmundsdóttir (fór af fundi um kl. 21.00) Þorsteinn Pétursson, Halldór Sigurðsson og Vigdís Sveinbjörnsdóttir.
1. Stjórn skiptir með sér verkum. Formaður – Maríanna Jóhannsdóttir, gjaldkeri – Þórhalla Sigmundsdóttir og ritari – Vigdís Sveinbjörnsdóttir
2. Skógardagurinn mikli Farið var yfir umræður sem verið hafa um endurreisn á skógardeginum eftir covid – dvalann. Stjórn sammála um að vinna að því að halda skógardaginn 2022. Þórhöllu falið að hafa samband við aðila félagsins í samstarfsnefnd um skógardaginn.
3. Nýr félagi Davíð Þór Sigurðsson hefur sótt um inngöngu í félagið og verður formlega tekinn inn á næsta aðalfundi.
4. Skógartölur 2021 Skógræktarfélag Íslands kallar eftir upplýsingum um sölu skógarbænda og verður það áframsent út til félaganna.
5. Taxtar vegna skógarvinnu Mikil umræða hefur verið meðal skógarbænda vegna þeirra taxta sem þeir fá greitt eftir og er stjórn sammála um að það þurfi að fylgja því eftir að þetta verði leiðrétt. Halldór lagði fram tillögu að bókun sem var samþykkt samhljóða og er svohljóðandi:
Fyrir liggur bréf með tillögum að uppfærðum töxtum fyrir plöntun og aðra skógarvinnu á árinu 2022 undirritað af Sigríði Júlíu Brynleifsdóttur.
Þar kemur fram að samkomulag hafi verið milli LSE og Skógræktarinnar um að hækkanir á töxtum taki mið af launavísitölu 60% og vísitölu framfærslu 40% tímabilið janúar nýliðins árs til janúar yfirstandandi árs.
Stjórn Fsa hefur ávalt lagt til að eingöngu sé miðað við launavísitölu enda felast framkvæmdir nánast eingöngu í líkamlegri vinnu. Tekjur skógarbænda hafa lækkað jafnt og þétt undanfarin ár miðað við aðrar stéttir þar sem launavísitalann hefur alltaf hækkað töluvert meira en þessi blandaða vísitala. Jafnframt minnir stjórn á að skv. samráðsfundi s.l. vor komu fram alvarlegar athugasemdir frá skógarbændum við þessa blönduðu vísitölu. Sviðsstjóri Skógarþjónustusviðs tók þær athugasemdir til frekari úrvinnslu en sendi síðan taxtana óbreytta frá sér.
Erfitt er að kalla slík vinnubrögð samstarf eða samkomulag sbr. fyrra bréf.
Jafnframt var samþykkt að leita eftir aðstoð frá B.Í. við útreikninga og framsetningu upplýsinga þessu máli til stuðnings.
6. Félagsstarfið Samþykkt var að vinna að því að halda smíða/tálgunar námskeið fyrir félagsmenn og Þorsteini falið að hafa samband við Bjarka Sigurðsson um að taka að sér tilsögn á því. Jafnframt var Þorsteini falið að hafa samband við Bjarka Jónsson á Víðivöllum varðandi heimsókn til hans sem hugsanlega yrði í lok apríl.
7. Svæðisskipulag – umsögn Félaginu hefur borist til umsagnar tillaga að svæðisskipulagi. Engar athugasemdir lágu fyrir en hver og einn mun skoða þetta nánar.
8. Önnur mál a) Halldór vakti athygli á auglýsingu frá Ygdrasil félagi um kolefnisbindingu og markaðssetningu sem er að kynna sitt starf. Í framhaldinu spannst talsverð umræða um skógrækt, kolefnisbindingu, vottun og markaðssetningu þess.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 22.10
Fundargerð ritaði Vigdís Sveinbjörnsdóttir
FSA2022- Fundur 2
Félag skógarbænda á Austurlandi, FSA- Fundur 2, 2022
Stjórnarfundur
Fundargerð.
Fundur í stjórn Fsa haldinn í húsnæði Búnaðarsambands Austurlands miðvikudaginn 9. feb 2022 og hefst kl 16:10. Mætt eru, Maríanna, Jónína, Þórhalla, Haukur, Halldór, Jóhann Gísli.
1. Fundarstjóri fyrir aðalfund FSA, formanni falið að finna fundarstjóra fyrir aðalfund sem verður 20. febrúar nk.
2. Fyrirlesari á aðalfund, stungið upp á Lárusi Heiðarsyni, þar sem við höfum góða reynslu af fræðsluerindum hans.
3. Fræðsluerindi frá skógarbónda: Rætt um að fá Guðmund á Árbakka til að kynna niðurstöður í máli hans gegn skógræktinni, kannað verður hvort hægt sé að fá hann til að kynna. Formanni falið að hafa samband við Guðmund.
4. Dagskrá aðalfundar, rætt um dagskrá aðalfundar. Ljóst er að stjórn mun ekki leggja til breytingar á lögum að þessu sinni. Ljóst er að það þarf að breyta þeim að ári vegna breytinga á LSE.
5. Rætt um stjórn, hverjir ætli að gefa kost á sér áfram, og hverjir ekki
6. Rætt um búgreinaþing, skógarbændur þurfa að koma sér saman um samþykktir fyrir nýja búgreinadeild skógarbænda í bændasamtökunum.
Fleira ekki tekið fyrir, fundi slitið kl. 17:45
Haukur Guðmundsson fr.
FSA2022- Fundur 1
Félag skógarbænda á Austurlandi, FSA- Fundur 1, 2022
Stjórnarfundur
Fundargerð.
Fundur í stjórn Fsa haldinn í húsnæði búnaðarsambands Austurlands mánudaginn 10. jan 2022 og hefst kl 16:20. Mætt eru, Maríanna, Jónína, Þórhalla, Haukur,Halldór, Jóhann Gísli, Guðmundur á Árbakka og dóttir hans Rósalind sem einnig er lögfræðingur hans.
1. Dagsetning aðalfundar FSA: Ákveðið að boða til fundar 27. feb kl 18.
2. Kjósa þarf fulltrúa fyrir búgreinaþing BÍ á aðalfundi. Kjörgengir eru þeir sem skráðir eru í bændasamtökin fyrir áramót 2021/2022. Kosið verður á fundi sem verður sérstaklega boðað til á næstunni.
3. Árgjald LSE. Rætt um að gjaldið sem innheimta er í ár gildi fyrir árin 2022 og 2023 vegna þess að fyrir árið 2022 var innheimt skilagjald til LSE sem ekki þarf að standa skil á.
4. Setja þarf upp fb síðu fyrir félagið, Haukur tekur það að sér.
5. Rætt um kolefnisbindingu, huga þarf að hagsmunum bænda. Hvernig verður t.d. með eldri skóga? Verða þeir teknir gildir í sölu bænda á kolefni úr sínum skógum?
6. Girðingastyrkir, rætt um þá og hvað skuli gera við aflagðar girðingar. Almenn umræða um girðingar. Á fundinn kom Lögfræðingurinn Rósalind Guðmudsdóttir sem hefur skoðað þessi mál sérstaklega og gerir grein fyrir stöðunni í ákeðnu máli sem hún tók að sér.
7. Rætt um niðurstöður þjónustukönnunar sem gerð var á starfsemi skógræktarinnar á meðal bænda.
8. Girðingamál, rætt um leiðir við greiðslu á viðhaldi girðinga sem og nýjar girðingar. Rætt um hvort sami taxti eigi að gilda um auðvelt land og erfitt land. Gera ætti áætlun og plan um girðingar í hverjum samningi.
9. Rætt um úrskurð í máli skógarbónda gegn skógræktinni um að fá greitt fyrir viðhald girðinga. Rósalind gerði grein fyrir helstu niðurstöðum sem eru í grófum dráttum að Skógræktinni ber að standa við gerða samninga um greiðslur fyrir viðhald og vörslu á girðingum. Umræður um úrskurð. Bíða skal eftir því hvort skógræktin uni dómnum til að byrja með. Rætt um að bændur ættu að senda inn kröfur vegna viðhalds girðinga vegna síðustu 4 ára, mikilvægt að bíða ekki of lengi að senda inn kröfur þar sem þær fyrnast.
10. Rætt um taxtamál, taxtar hafa komið frá skógræktinni og ekki er hlustað á athugasemdir bænda á þeim. Taxtar eru lágir og ekki virðist vera gert ráð fyrir launatengdum gjöldum, veikindarétti, orlofi osfrv.
Fleira ekki tekið fyrir, fundi slitið kl. 18:00
Haukur Guðmundsson fr.
FSA2021- Fundur 3
Félag skógarbænda á Austurlandi, FSA- Fundur 4
Stjórnarfundur
Fundargerð.
Fundur í stjórn Fsa haldinn í Snjóholti miðvikudaginn 28. okt 2021 og hefst kl 17:00. Mætt eru, Maríanna, Jónína, Þórhalla, Haukur,Halldór, Jóhann Gísli.
1. Hvatning til skógabænda um að ganga í BÍ. Rætt um tillögur til þess að hvetja skógarbændur til að ganga í samtökin. Rætt um að halda skemmtun á Eiðum, borða saman, vera með fræðslu og hvetja bændur til þess að ganga í félagið. Maríanna tekur að sér að kynna bændasamtökin fyrir félagsmönnum. Athuga hvort hægt sé að halda 19. nóvember á Eiðum og vera með mat.
2. Fræðsla á fundi, hvað skuli ræða. Stungið upp á því að skógræktin verði með erindi um stöðumat, framkvæmdir ársins 2020, og sérstaklega framtíðarsýn og horfur. Verður t.d. til nóg af plöntum handa skógarbændum ef skógræktin semur á fullu við fyrirtæki um að útvega plöntur í kolefnisbindingu?
3. Kolefnisbrú, rætt um að haldið verði málþing 26. nóvember og mögulega árshátíð skógarbænda í framhaldinu. Haukur sendir póst á félagsmenn og lætur vita ef ákveðið verður að fundi og árshátíð.
4. Samráðsfundur með skógræktinni: Rætt um komandi fund og farið yfir áherslur stjórnar.
5. Barramarkaður 11. des, Samþykkt að vera með og mest var rætt um sölu jólatrjáa.
Fleira ekki tekið fyrir, fundi slitið kl. 18:15
Haukur Guðmundsson fr.
FSA2021- Fundur 3
Félag skógarbænda á Austurlandi, FSA- Fundur 4
Stjórnarfundur
Fundargerð.
Fundur í stjórn Fsa haldinn á skrifstofu búnaðarsambands Austurlands miðvikudaginn 5. maí 2021 og hefst kl 16:30. Mætt eru, Maríanna, Jónína, Þórhalla, Haukur,Halldór, Lárus og Jóhann Gísli
1. Kosið í embætti hjá nýrri stjórn sem kjörinn var á aðalfundi. Maríanna kosinn formaður, Haukur ritari, Þórhalla gjaldkeri.
2. Tillögur fyrir aðalfund LSE:
1. Aðalfundur Landssambands skógareigenda, haldinn í Menntaskóla Borgarbyggðar, Borgarnesi 15. maí 2021, leggur þunga áherslu á að bændaskógrækt verði færð frá Umhverfisráðuneyti til Landbúnaðarráðuneytis. ” Greinargerð: Bændaskógrækt er eins og hver önnur grein landbúnaðar og því eðlilegt að hún sé undir Landbúnaðarráðuneytinu enda verða skógarbændur væntanlega aðilar að Bændasamtökum Íslands á yfirstandandi aðalfundi. Þannig skapast forsendur til þess að bændaskógrækt verði fjármögnuð í gegnum búvörusamning sem ætti að þýða öruggari fjármögnum til greinarinnar. Það er mjög mikilvægt að við uppbyggingu skógarauðlindar sé trygg fjármögnun til lengri tíma.
2. Aðalfundur Landssambands skógareigenda, haldinn í Menntaskóla Borgarbyggðar í Borgarnesi 24. apríl 2021, leitar til Umhverfisráðuneytis eftir því að skógarbændur geti framselt kolefniseiningar úr sínum skógum.“ Greinargerð: Þess er farið á leit við Umhverfisráðuneytið að það gefi skógarbændum leyfi til að selja kolefnisbindingu úr sínum skógum, óháð aldri skóganna, óski þeir þess. Kolefnisbinding sem fellur til innan bændaskógræktar verður fyrst og fremst nýtt til að kolefnisjafna búrekstur bænda eða til sölu innanlands. Enda kemur skýrt fram í skógræktarsamningum að skógurinn sé eign bóndans. Þannig aukast tekjur þeirra sem vinna að skógræktinni, sem ætti að efla búsetu í dreifbýli jafnframt því að mynda skattstofn fyrir ríkið.
3. Rætt um landsáætlun í skógrækt sem er á leið í gegnum alþingi. Koma þarf með athugasemdir og ræða innan félagana. Áætlunin mun verða kynnt á vefsíðu skógræktarinnar. Stjórn FSA hvetur félagsmenn FSA til að kynna sér landsáætlunina og koma með athugasemdir við hana sem og að óskað verði eftir að meiri metnaður verði sýndur í skógrækt.
4. Námsskeið í húsgagnagerð. Maríanna formaður var í samband við Ólaf Oddsson sem mun standa fyrir námsskeiði í húsgagnagerð hér eystra næsta haust. Það verður auglýst þegar nær dregur og tímasetning verður komin á það.
Fleira ekki tekið fyrir, fundi slitið kl. 17:45
Haukur Guðmundsson fr.
FSA2021- Fundur 2
Félag skógarbænda á Austurlandi, FSA- Fundur 2
Stjórnarfundur
Fundargerð.
Fundur í stjórn Fsa haldinn í Snjóholti miðvikudaginn 24. mars 2021 og hefst kl 17:00. Mætt eru, Maríanna, Jónína, Þórhalla, Haukur,Halldór og Jóhann Gísli var með á fundinum í restina í gegnum síma.
1. Könnun á sölumöguleikum grisjunarviðs úr skógum skógarbænda. Umræður þar um.
2. Aðalfundur LSE. Landsamtök skógareiganda munu halda aðalfund sinn í Borgarnesi 24.apríl, rætt var lauslega um dagskrá fundarins og hverjir myndu mæta á fundinn fyrir hönd FSA.
3. Facebook síða fyrir FSA. Rætt um að stofna facebook síðu fyrir félagið til að halda betur utan um starfið, Haukur tekur að sér að fara í málið.
4. Félagatal. Uppfæra þarf skrár félagsins ásamt netfangalista, Þórhalla og Haukur munu fara í það verkefni.
5. Girðingamál. Halldór hóf umræðu og rætt var um að skógræktin sé hætt að greiða fyrir viðhald á girðingum sem og að ætlast væri til að bændur ynnu kauplaust að því að viðhalda sínum girðingum utan um skógrækt.
6. Búnaðarþing 2021. Jóhann Gísli fór lauslega yfir hvað farið hefði fram á fundinum en helsta niðurstaða fundarins var sú að samþykkt var að sameina búgreinafélög og bændasamtök Íslands undir merkjum BÍ. Þetta á síðan eftir að leggja til samþykktar í búgreinafélögunum, þar á meðal félögum skógarbænda.
Fleira ekki tekið fyrir, fundi slitið kl. 17:55
Haukur Guðmundsson fr.
FSA2021- Fundur 1
Félag skógarbænda á Austurlandi, FSA- Fundur 1
Stjórnarfundur
Fundargerð.
Fundur í stjórn Fsa haldinn í Snjóholti miðvikudaginn 3. mars 2021 og hefst kl 17:00. Mætt eru, Maríanna, Jónína, Þórhalla, Haukur, Halldór og Jóhann Gísli.
1. Samráðsfundur skógræktarinnar og félaga skógarbænda. Halldór vakti máls á því að hækkun taxta 2021 er áætluð 7,93%, þar sem vísitala neysluverðs gildir 40% og launavísitala 60%. Fundarmenn eru ekki sammála því að vísitala neysluverðs eigi að hafa svona hátt gildi og sjá ekki skýr rök fyrir því þar sem fyrst og fremst sé verið að greiða fyrir vinnu. Laun skógarbænda halda áfram að lækka miðað við önnur laun og ljóst að þessi stefna að fylgja ekki launavísitölu í hækkun taxta á þátt í því. Stjórn myndi vilja hækka hlut launavísitölu í jöfnunni.
2. Ný skipulagslög. Rætt var um ný skipulagslög. Þau gera það erfitt og tímafrekt að hefja skógrækt og einnig var rætt um jarðalög, samkvæmt þeim er ekki hægt að planta í ræktarland. Allt gerir þetta skógrækt flóknari, dýrari og erfiðari í framkvæmd.
3. Fyrirkomulag á sölu jólatrjáa. Setja þarf samræmdar reglur yfir allt landið um það hvernig eigi að hátta töku jólatrjáa úr bændaskógum. Stjórn er sammála því en hefur þá skoðun að bændur eigi að mega taka út út skógi án þess að þurfa sérstakt leyfi skógræktarinnar og að ekki eigi að banna slíkt. Engu að síður er ekki æskilegt að fella heilu reitina og því gott að hafa smá leiðbeiningar á blaði handa bændum um hvernig æskilegt sé að haga töku jólatrjáa úr skógum.
4. Hvað er samþykktur kostnaður í skógrækt. Skógræktin vill reyna að koma sér út úr því að greiða kostnað vegna girðinga. Þar á bæ vilja menn ekki greiða fyrir viðhald eins og áður var og jafnvel ekki taka þátt í að girða nýgirðingar vegna skógræktar. Fundarmenn eru hugsi yfir þessari þróun.
5. Lág laun fyrir grisjun. Tekin var umræða um laun fyrir grisjun (bilun) á ungskógum. Haukur hefur reynslu af þessri vinnu og segir laun ekki samkeppnishæf við aðra geira lengur. Vissulega hafi laun hækkað eitthvað á hverju ári en almenn laun í landinu hafi hækkað meira. Væntanlega sé þetta bil orðið til vegna þess að laun skógarbænda taka mið af blöndu af vísitölu neysluverð og vísitölu launa án þess að kafað hafi verið djúpt í greiningar á því. Hafa verður í huga að verktakar í grisjun þurfa að fjárfesta í töluverðum búnaði sem og að nauðsynlegt er að vera með torfærutæki til að komast leiðar sinnar að grisjunarreitum í flestum tilfellum.
6. Aðalfundur LSE. Tekin var stutt umræða um fyrirhugaðan fund LSE sem planaður er í Borgarnesi ásamt auka búnaðarþingi stuttu síðar. Skógarbændur virðist flestir vilja fara úr umhverfisráðuneyti og yfir í landbúnaðarráðuneyti og verður það vonandi rætt á fundinum.
7. Kolefnisbrú. Rætt var lauslega um stöðuna á því verkefni. Stofna á einkahlutafélag utan um verkefnið en það hefur ekki verið gert ennþá en er vonandi á lokametrunum. Fengist hefur styrkur frá garðyrkjubændum inn í verkefnið upp á 7,5 milljónir sem mun nýtast til að vinna fyrir þá. Unnið er að því að koma vottunarferlinu af stað og finna aðila til vottunar. Rætt var um mögulegt samstarf við kúabændur í þessu verkefni.
8. Aðalfundur FSA. Ákveðið að halda aðalfund 14. apríl 2021 á Eiðum
9. Námsskeið í húsgagnasmíð úr afurðum. Tillaga um að fá þetta námsskeið hingað austur kom inn á borð stjórnar. Stjórn tekur vel í það og skoðar málið og kannar með húsnæði fyrir námsskeið ef af verður.
10. Skógardagurinn mikli. Ákveða þarf mjög fljótlega hvort halda eigi daginn á þessu ári. Stjórn hefur vilja til þess en ljóst er að mjög erfitt er að taka ákvörðun um að halda svona stóra hátíð á covid tímum. Ólíklegt að hægt sé að halda í ár. Ræða á við fulltrúa skógræktarinnar og taka ákvörðun sem fyrst.
11. Dagskrá búnaðarþings 2021. Rætt var lauslega um dagskrá búnaðarþings. Helsta mál fundarins er tillaga um sameingu búgreinafélaga og bændasamtaka íslands.
Fleira ekki tekið fyrir, fundi slitið kl. 18:55
Haukur Guðmundsson fr.
Comments