Að rækta upp skóg er gott. Víða um land eru fallegir og vel hirtir skógar, stórir og litlir með blómgróðri, sveppum og berjum. Fuglar syngja í trjánum. Fólk getur gengið um skógana og notið þeirra, jafnvel ferfætlingar líka. En svo eru það vanræktu skógarnir. Vanræksla skóga getur haft slæmar afleiðingar.
Á hverju ári fáum við fréttir af gróðureldum og oft brennur skóglendi á stórum svæðum. Fólki stendur ógn af þessum atburðum. Í Bandaríkjunum til dæmis hefur mikið verið gagnrýnt að skógar séu illa hirtir og þar sé mikill eldsmatur í þurru, dauðu efni. Skógarnir eru svo þéttir að einungis skógarfuglar og skordýr komast um þá. Þetta er ekki bundið við Bandaríkin því víða um heim brenna skógar að óþörfu.
Í skógum er kolefni bundið. Mesta kolefni ofan yfirborðs jarðar er bundið í skógum. Afleiðing lélegrar skógarumhirðu er m.a. aukin eldhætta í þurrkatíð og þar að auki verða skógarnir óaðlaðandi til útiveru. Vel hirtir skógar eru aftur á móti til prýði og verðmætra nytja.
En dæmum ekki of fljótt. Að grisja skóg er hörkupúl. Það tekur tíma og krefst sérhæfðar kunnáttu. Í ungum skógum er ólíklegt að hægt sé að selja timbrið til að greiða verkmönnum. En það borgar sig samt, bara ekki alveg strax. Grisjun borgar sig á margan hátt, ekki einungis fjárhagslega.
Hæglega má fullyrða að nytjar skógarins aukast með grisjun. Eftirstandandi tré „anda að sér“ kolefni andrúmsloftsins og við það gildna þau og hækka. Birtan í skógarbotninum eykst og aðgengi um skóginn verður spennandi eins og í ævintýrunum.
Títt hefur verið rætt um að auka þurfi fjármagn til skógarumhirðu í bæði þjóðskógum og bændaskógum. Víðast hvar er þó enn hægt að bregðast við og betur má ef duga skal. Umhirða er lykillinn að vörn gegn eldi í skógi, hámarks kolefnisbindingu, gæðatimbri úr skógunum og góðu aðgengi um fallega skóga.
Við skulum ekki loka skógunum með úr sér vöxnu greinaþykkni og lélegum trjám sem skyggja á góðu trén. Skógarauðlindin á að vera stolt okkar og stáss. Sýnum skógunum okkar sóma og önnumst um þá eins og kostur er. Þeir munu greiða ríkulega til fyrir sig. Mögulega fyrr en okkur grunar.
Hlynur Gauti Sigurðsson borgarskógfræðingur
Frétt á vef Bændablaðsins
Comments