top of page

Um ágang

Höfundur: Pétur Kristinsson, er meðal annars lögmaður


Í tilefni af umræðu að undanförnu, m.a. greinarskrifum í Bændablaðið, er rétt að vekja athygli á eftirfarandi staðreyndum:


1. Skylda sveitarfélags til smölunar ágangsfjár er ekki stjórnvaldsákvörðun heldur lagaskylda. Um er að ræða bein fyrirmæli löggjafans til sveitarstjórna. Skoðanir eigenda ágangsfjárins eru þessu óviðkomandi.


2. Hvernig sveitarfélag fer með búfé eftir smölun kann að vera stjórnvaldsákvörðun en sú meðferð er landeigendum óviðkomandi og fellir ekki niður skyldu sveitarfélaga til smölunar.


3. Skylda sveitarstjórnar til smölunar verður ekki felld niður með ákvörðun eða samþykkt sveitarstjórna eða nefnda á þeirra vegum. Sveitarfélög breyta ekki lögum settum af Alþingi.


4. Ekki skiptir máli hvort lausaganga er leyfð eða bönnuð. Það að lausaganga búfjár sé leyfð veitir mönnum ekki rétt til að beita fé í annarra manna lönd. Hugtakið er skilgreint þannig í lögum um búfjárhald: „Lausaganga er þegar búfé getur gengið í annars manns land í óleyfi.“ Þarna stendur „getur“ en ekki „má“ og setningin endar á orðinu „óleyfi“.


5. Beitarréttur manns í landi annars manns er takmarkaður eignarréttur sem lýtur sömu reglum og annar eignarréttur. Ef menn eiga ekki slíkan rétt mega þeir ekki beita fé sínu í viðkomandi land.


6. Hugtakið ágangur þýðir „heimildarlaus beit“.


7. Það að búfé gangi í annarra manna lönd í óþökk landeigenda er einfaldlega ólögmætt ástand sem ber að rjúfa með þeim hætti sem kveðið er á um í 33. gr. laga nr. 6/1986 sé þess óskað. Eðli máls samkvæmt ber að gera það eins fljótt og auðið er eins og fram kemur t.d. í úrskurði innviðaráðuneytisins frá 18. apríl 2024.


8. Reglur sem um þetta gilda eru einfaldar og skýrar og samræmast því að á Íslandi er byggt á eignarréttarfyrirkomulagi. Búfjáreigandinn á búféð og ber ábyrgð á því eins og öðrum eignum sínum og landeigandinn á landið og ræður því hvernig með það er farið.


9. Eins og í öðrum málum þar sem gengið er á rétt manna liggur vandinn hjá gerandanum en ekki þolandanum. Eðlilegt væri því að sveitarstjórnir beindu kröftum sínum að búfjáreigendum en ekki landeigendum. Það mætti gera með þeim einfalda hætti að smala ágangsfé á kostnað búfjáreigenda eins og lögin gera ráð fyrir. Má þá ætla að búfjáreigendur gættu að sér og ágangi myndi linna. Væri vandamálið þar með úr sögunni.


10. Að lokum er rétt að benda á að flestir sauðfjáreigendur fá greitt sérstaklega úr ríkissjóði fyrir að beita fé sínu eingöngu þar sem þeir hafa til þess leyfi. Samkvæmt vef Hagstofunnar voru 1.429 sauðfjárbú í landinu í árslok 2020 og samkvæmt vef Landgræðslunnar fengu „tæplega 1.500“ greiðslur skv. framansögðu það ár. Höfundur er meðal annars lögmaður


Lausaganga búfjár orkar tvímælis. Mynd / John Wayne Hill



Greinin birtist fyrst í 10.tölublaði Bændablaðsins 30.maí 2024 -bls 51


Comentários


bottom of page