top of page

Viðskipti með kolefnisbindingu

Viðskipti með kolefnisbindingu

Við blasir að á komandi árum og áratugum verði æ dýrara að losa gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið. Kjósi fólk að ráðast í kolefnisjöfnun er nauðsynlegt að hún sé samkvæmt reglum og stöðlum og með viðurkennda vottun. Öðruvísi er ekki tryggt að hún verði viðurkennd í losunarbókhaldi.

Fyrirtæki sem stunda efnahagslega starfsemi menga yfirleitt eitthvað eða hafa neikvæð áhrif á umhverfi sitt á einhvern hátt. Þetta er misjafnt eftir fyrirtækjum og eðli starfsemi þeirra. Stundum greiða fyrirtæki fyrir þessi neikvæðu áhrif með einhverjum hætti, t.d. fyrir meðhöndlun úrgangs. Ein gæði sem fyrirtæki hafa hingað til getað nýtt sér án þess að greiða fyrir er losun á koltvísýringi út í andrúmsloftið. Þannig endurspeglast kostnaður samfélagsins vegna loftslagsbreytinga ekki í verði þeirra vara sem fyrirtækin sem losa koltvísýring út í amdrúmsloftið framleiða. Þetta hefur breyst á undanförnum árum og mun sú þróun ágerast að fyrirtæki þurfi að draga úr losun eins og mögulegt er. Það er hins vegar alveg ljóst að næstum ómögulegt er fyrir mörg fyrirtæki að ná kolefnishlutleysi með því að draga bara úr losun þar sem nánast óhjákvæmilegt er að þau muni losa koltvísýring út í andrúmsloftið í starfsemi sinni. Þetta þýðir að fyrirtækin þurfa að greiða með einhverjum hætti fyrir þá losun sem óhjákvæmilega hlýst af starfsemi þeirra, s.s með því að kaupa kolefnisbindingu til að jafna á móti losuninni. Mynd 1. sýnir á einfaldan hátt hvernig þessi viðskipti munu geta átt sér stað.

Mynd 1. Leiðin að kolefnishlutleysi


Fyrirtæki þurfa ekki bara í auknum mæli að svara ákalli viðskiptavina sinna um samfélagslega ábyrgð og sjálfbæra nýtingu auðlinda heldur má einnig gera ráð fyrir því í náinni framtíð að þjóðríki muni skylda fyrirtæki til að ná kolefnishlutleysi. Skoðum aðeins þau skref sem þarf að taka á þessari vegferð, mynd 2.:
Mynd 2. Virðiskeðja kolefnisjöfnunar


· Kolefnisbókhald. Lykillinn að því að því að vita hvað fyrirtæki losar mikið kolefni er að fyrirtækið haldi kolefnisbókhald. Þar er gerð grein fyrir allri losun vegna starfsemi fyrirtækisins.

· Niðurstaða úr kolefnisbókhaldi verður óhjákvæmilega neikvæð þar sem fyrirtækið er bara að losa kolefni en hefur ekki tryggt kolefnisjöfnun á móti. Frumkvæði og metnaður fyrirtækja, krafa viðskiptavina og eftir atvikum lög og reglur skapa þannig eftirspurn eftir kolefnisjöfnun.

· Hér hefur fyrirtæki val um aðferð til kolefnisjöfnunar. Ein sú leið sem hægt er að mæla sterklega með er skógrækt. Ræktun skóga er náttúruleg og hagkvæm leið til að binda kolefni. Nú hefur fyrirtækið möguleika á að ná kolefnishlutleysi með því að kaupa kolefnisbindingu í skógrækt.

· Til þess að fyrirtækið geti haldið fram kolefnishlutleysi þarf allt ferlið að vera samkvæmt gildandi reglum og stöðlum og vottað af óháðum þriðja aðila, hvort sem það er losun, aðgerðir til að minnka losun eða aðgerðir til kolefnisjöfnunar.
Án vottunar verða engin viðskipti með kolefniseiningar en það er efni annarrar greinar sem birtist á næstunni.

Gunnlaugur Guðjónsson

Skógræktin

Comments


bottom of page