top of page

Lög Landssamtaka Skógareigenda

1. gr.

Félagið heitir Landssamtök skógareigenda, skammstafað LSE. Heimili þess og varnarþing er heimili formanns hverju sinni.

Merki (logo) félagsins er þrír grænir fletir á hvítum grunni, sem merkir samfellu skóga. Nafn samtaka er undir í svörtu letri. Litirnir í merkinu eru pantone 343,356,368.

2. gr.

Félagið er landssamtök félaga skógarbænda. Skógarbóndi telst hver sá sem uppfyllir skilyrði 3. greinar samþykkta Bændasamtaka Íslands 1 og í atvinnuskyni stundar skógrækt til einhverra nota, s.s. fjölbreytts skógariðnaðar, ferðaþjónustu, útivistar eða landgræðslu.

3. gr.

Tilgangur samtakanna er:

1. Að sameina alla skógarbændur landsins í ein búgreinasamtök.

2. Að bæta aðstöðu skógræktar sem atvinnugreinar í sem víðustum skilningi, bændastéttinni

til hagsbóta.

3. Að vera samtök og málsvari þeirra sem stunda skógrækt á bújörðum.

4. Að annast samskipti og samningagerð fyrir hönd félagsmanna við opinbera aðila eða aðra

þá sem þeir óska. Einnig við hliðstæð samtök erlendis.

5. Að hvetja til rannsókna og fræðslu atvinnugreininni til hagsbóta.

6. Að leita leiða til að koma afurðum skógarins í verð.

4. gr.

Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum samtakanna og skal haldinn fyrir 1. nóvember ár hvert. Aðalfundur er löglegur sé til hans boðað með tölvupósti eða öðrum sambærilegum hætti með minnst 14 daga fyrirvara.

Stjórn samtakanna getur boðað til aukafundar þegar hún telur ástæðu til og aukafund skal halda ef þriðjungur félagsmanna æskir þess. Aðalfund sitja með fullum réttindum allir félagsmenn sem hafa greitt félagsgjald til LSE sem ákveðið er á aðalfundi.

Lögaðilar svo sem einkahlutafélög, félagsbú eða sameignarfélög geta einnig talist félagar að LSE samkvæmt þessari grein.

1.               3.grein Aðild að Bændasamtökum Íslands geta átt þeir einstaklingar og lögaðilar sem þess óska og stunda búrekstur í atvinnuskyni eða vegna eigin nota enda séu þeir aðilar að þeim félögum og félagasamtökum sem talin eru í 2. grein. Aðild einstaklinga skal óháð því hvort þeir stunda búrekstur í eigin nafni eða annarra.

Bændum, sem hætt hafa búskap vegna aldurs eða heilsubrests, skal heimil áframhaldandi þátttaka í viðkomandi félagi með fullum félagsréttindum, hafi þeir áfram búsetu á hlutaðeigandi félagssvæði. Undir búrekstur fellur hvers konar búfjárrækt, jarðrækt, skógrækt, garðrækt og ylrækt. Einnig eftirfarandi starfsemi, fari hún fram á lögbýlum: Eldi og veiðar vatnafiska, nýting hlunninda,framleiðsla og þjónusta.

Á aðalfundi skal stjórn leggja fram til umræðu og samþykktar:

1. Skýrslu um störf samtakanna á sl. ári.

2. Endurskoðaða reikninga fyrir sl. almanaksár.

3. Fjárhagsáætlun og tillögur um starfsemi samtakanna á næsta ári.

5. gr.

Stjórn LSE skipa fimm menn einn frá hverju félagssvæði kosnir á aðalfundi leynilegri

kosningu og skulu allir félagsmenn vera í kjöri. Eigi skal sami maður sitja í stjórn nema átta ár samfellt.

Fyrst skal kosinn formaður í beinni kosningu. Fái enginn meira en helming greiddra atkvæða skal kosið aftur bundinni kosningu milli þeirra tveggja sem flest atkvæði hlutu. Ef jafnt verður að nýju skal hlutkesti varpað.

Síðan skal kjósa fjóra meðstjórnendur. Náist ekki niðurstaða um hverjir séu rétt kjörnir stjórnarmenn í einni umferð kosninga, skal kosið aftur bundinni kosningu milli þeirra sem jafnir eru. Sé jafnt að nýju skal hlutkesti varpað. Síðast skal kjósa fimm til vara/varamenn, einn frá hverju félagssvæði. Stjórnin skiptir með sér verkum varaformanns, gjaldkera, ritara og meðstjórnenda svo fljótt sem kostur er.

Tveir skoðunarmenn og tveir til vara skulu kosnir til eins árs.

Heimilt er að skipa uppstillinganefnd vegna kosninga á aðalfundi, enda hafi fundarstjórum borist tillaga um slíkt í upphafi fundar. Uppstillinganefnd skal skipuð þremur aðalfundarfulltrúum og skal hún skila inn tillögum um jafn marga einstaklinga og kjósa skal, að öðrum kosti telst tillagan ekki gild.

Stjórn samtakanna fer með málefni samtakanna á milli aðalfunda. Stjórnin heldur skrá yfir félaga og skal hún liggja frammi á aðalfundi.

Hún má ekki skuldbinda samtökin fjárhagslega umfram það sem fram kemur í samþykktum aðalfundar.

Formaður er fulltrúi samtakanna á búnaðarþingi.

6.gr.

Stjórn Landssamtaka skógareigenda getur veitt viðurkenningar fyrir vel unnin störf í þágu skógareigenda. Viðurkenningarnar skulu byggðar á reglugerð sem stjórnin semur og er samþykkt af aðalfundi LSE.

7. gr.

Lög þessi öðlast gildi með samþykkt stofnfundar samtakanna. Tillögur t lagabreytinga skulu berast stjórn samtakanna eigi síðar en mánuði fyrir aðalfund og skulu þær sendar út með fundarboði. Til að breyta lögum þarf samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða á aðalfundi 2 .

2 Stofnfundur LSE var haldinn 28. júní 1997 á Hallormsstað.

8. gr

Verði landssamtökin lögð niður taka Bændasamtök Íslands eignir þeirra til varðveislu á verðtryggðum reikningi uns önnur hliðstæð samtök hafa verið stofnuð og gera kröfu í eignir þeirra fyrri.“

Reglugerð um heiðursviðurkenningar LSE

1. grein

Stjórn LSE getur kosið heiðursfélaga. Heiðursfélögum skal við hátíðlega athöfn afhent skrautritað heiðursfélagaskjal LSE áritað af stjórn, sem er æðsta viðurkenning samtakanna.

Heiðursfélaga skal aðeins tilnefna þá sem hafa unnið áralangt heillaríkt starf fyrir skógareigendur og gegnt veigamiklu ábyrgðarhlutverki fyrir landssamtökin. Þessa sæmd má einnig sýna merkum brautryðjendum skógareigenda.

Tilnefndur heiðursfélagi skal hafa hlotið gullmerki LSE.

2. grein

Gullmerki LSE er næstæðsta sæmdarviðurkenning LSE. Viðtakandi verður að hafa unnið í mörg ár árangursríkt starf fyrir skógareigendur t.d. verið a.m.k. 6 ár í stjórn LSE eða einstaklingi sem starfað hefur a.m.k. í aldarfjórðung til heilla fyrir skógareigendur. Veita skal þessa viðurkenningu við sérstök tækifæri t.d. afmæli einstaklings eða skógarbændafélags, Stjórn LSE veitir gullmerki LSE.

3. grein

Reglugerð þessi öðlast gildi þegar hún hefur verið samþykkt á ársfundi LSE.

 

bottom of page