Nálasýni efnagreind Ódýr trygging fyrir jólatrjáabændur Í nýútkomnu fréttabréfi samtaka norskra jólatrjáaframleiðenda, Norsk juletre, er minnt á að þegar trén eru í dvala sé upplagt að taka af þeim nálasýni til efnagreiningar. Nálasýnin gefa upplýsingar um efnaupptöku trjánna. Þessar upplýsingar má nota til að tryggja gott næringarástand trjánna og þar með betri og fallegri jólatrjáauppskeru. Einkenni um næringarskort á barrtrjám koma t.d. fram sem litabreyting á barrinu. Við skort á köfnunarefni (N) verður barrið ljósgrænt á bæði árssprota og eldri greinum. Við skort á kalí (K) er algengt að barrið gulni á eldri greinum því tréð reynir að bæta sér upp skortinn með því að færa kalí frá eldra barri yfir í barr á nýjum sprotum. Að greina vandann Ýmsar orsakir geta verið fyrir því að trén nái ekki í öll þau efni sem þeim eru nauðsynleg til að þau verði sem hraustust og fallegust. Með því að efnagreina nálasýni má greina næringarefnaskort áður en hann fer að sjást á trénu með berum augum. Slík greining getur verið fyrirbyggjandi því hún gerir kleift að laga áburðargjöf að ástandi trésins áður en upp koma vandamál eins og hörgulsjúkdómar. Efnagreining nálasýna er líka hentug leið til sjúkdómsgreiningar þegar í ljós koma á trjánum einkenni sem benda til vanþrifa. Nálasýni má taka hvenær sem er meðan trén eru í dvala á tímabilinu frá 1. nóvember til 1. apríl um það bil. Áður en sýnin eru tekin er gott að setja niður fyrir sér hvert markmiðið sé með sýnatökunni og hvaða upplýsinga skuli afla. Ef ætlunin er að fá almenna yfirsýn um ástand trjánna í tilteknum reit eru sýnin tekin vítt og breitt um svæðið. Ef aðeins er ætlunin að kanna afmarkaðan hluta reits þar grunur er um t.d. hörgulsjúkdóma er nóg að taka sýnin kerfisbundið á þeim afmarkaða hluta en gott er þó að hafa nokkur sýni til samanburðar annars staðar úr reitnum. Töluvert hefur verið rætt og ritað um hvort nota megi heila afklippta sprota sem nálasýni eða eingöngu nálar. Í umfjöllun Norsk juletre segir að taka verði fram ef sýnið inniheldur bæði nálar og sprota enda geti verið nokkur munur á efnainnihaldi sprota og nála. Þegar öllu sé á botninn hvolft sé best að hafa eingöngu nálar í sýnunum. Og til þess að sýnataka gefi góða mynd af ástandi trjáa í heilum reit eða hluta hans er mælt með því að sýni séu tekin af um það bil tuttugu trjám. Þannig sé tryggt að sýnatakan gefi góða hugmynd um meðaltréð í reitnum. Að taka sýni Einföld leið til að safna nálasýnum með tilviljanakenndu úrtaki úr reit er að finna lengstu línu í reitnum frá jaðri til jaðars. Svo eru ákveðnir til sýnatöku um það bil tuttugu punktar á þessari línu með jöfnu millibili. Þegar farið er milli þessara punkta er mjög mikilvægt að láta ekki útlit trjánna hafa áhrif á hvaða tré verður fyrir valinu til sýnatöku. Hættan er sú að staldrað sé, meðvitað eða ómeðvitað, við tré sem skera sig frá hinum, til dæmis tré sem virðast gulleitari en önnur eða tré sem eru annað hvort óvenju há eða óvenju lág. Taka verður sýnin vélrænt sem næst þeim punktum sem ákvarðaðir voru fyrir fram. Þó skal aðeins taka sýni af trjám sem hafa EKKI ...
frostskemmdir vind- eða þurrkskemmdir dauða sprota (rauðar nálar) skemmdir vegna utanaðkomandi áfalla skemmdir vegna óværu þakist þörungagróðri staðið í skugga
Gorden Haaland í Notodden sér um að taka nálasýni til rafrænnar skráningar fyrir hönd Norske juletre áður en þau eru send til alþjóðlega lífvísindafyrirtækisins Eurofins til efnagreiningar. Að greina eitt sýni kostar 1.100 norskar krónur, um 13.000 íslenskar, en svo lækkar verðið eftir því sem fleiri sýni eru send til greiningar. Ræktendur jólatrjáa sem senda inn sýni fá svo niðurstöðurnar sendar ásamt ráðleggingum um hvernig ráðlegast sé að bæta næringarástand trjánna, þyki niðurstöðurnar gefa til kynna að þörf sé á slíku. Þetta er talið borga sig fyrir ræktendur, bæta árangurinn í jólatrjáaræktinni og auka afkomuöryggið. Kostnaðurinn við sýnatökuna og úrvinnslu sýnanna komi margfaldur til baka enda geri neytendur sífellt meiri kröfur um gæði jólatrjáa. Með því að fylgjast með heilsu trjánna á þennan hátt geti framleiðendur varist áföllum í tíma, jafnvel áður en hörguleinkennin verða sýnileg á trjánum og þar með fengið betri uppskeru og meiri tekjur af jólatrjáaræktinni. Nálasýnataka á Íslandi Hérlendis er lítil reynsla af sýnatöku sem þessari í jólatrjáarækt. Þó kemur fram í meistararitgerð Else Møller, Hraðræktun jólatrjáa á ökrum frá árinu 2013 að barrsýni hafi verið tekin á Hvanneyri, Krithóli og í Prestsbakkakoti haustið 2012. Sýnin voru tekin af efsta greinakransi, eitt sýni var tekið af hverri tegund í hverjum reit og í öllum blokkum. Sýnin voru flokkuð eftir tegundum og áburðarmeðferðum. Samtals voru níu sýni frá Hvanneyri og Krithóli. Frá Prestsbakkakoti voru sex sýni, þar sem rauðgreni var dautt og hafði misst barrið. Sýnin voru þurrkuð í 2 x 24 klst. við 85°C og mulin og síðan efnagreind fyrir köfnunarefni N% við þurrbrennslu (Dumas-aðferð, Elementar Vario Max CN) á rannsóknarstofunni á Keldnaholti. Steinefnin voru efnagreind með ICP-greiningu á rannsóknarstofunni á Hvanneyri fyrir: fosfór (P), kalí (K), magnesíni (Mg), kalk (Ca) og brennisteini (S) og fyrir snefilefnunum járni (Fe), kopar (Cu), sínki (Zn) og mangani (Mn).
Hraðræktun jólatrjáa á ökrum (MS-ritgerð) Dyrkesvejledning - nåleanalyser (fréttabréf Norske juletre) Jólatrjáavefur Skógræktarinnar