top of page

Tækifærið til bindingar með skógrækt er núna

Grein sem brit var í Morgunblaðinu, svar við grein Haraldar Benediktssonar „Tækifærið er núna“

Haraldur Benediktsson ritar grein í Morgunblaðið mánudaginn 28. ágúst síðastliðinn með yfirskriftinni „Tækifærið er núna“. Greinin er um margt ágæt en í henni skorar Haraldur á bændur að senda stjórnvöldum tilboð um að gera kolefnisbúskap að nýrri búgrein. Hann talar um að þekking á losun og bindingu sé yfirborðskennd og að staðlar sem stuðst hefur verið við hafi ekki verið sannreyndir. Til upplýsingar vinna Landbúnaðarháskóli Íslands (LbhÍ) og Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins (RML) nú að því að afla betri upplýsinga um umfang losunar gróðurhúsalofttegunda ásamt því að leita leiða til að draga úr losun og auka bindingu.

Á síðasta Búnaðarþingi lögðu Landssamtök skógareigenda (LSE) fram tillögu um kolefnisjöfnun búskapar með það að markmiði að draga úr áhrifum kolefnislosunar frá landbúnaði. Skemmst er frá því að segja að tillagan var samþykkt samhljóða og fól Búnaðarþing stjórn Bændasamtaka Íslands (BÍ) að vinna að því að kolefnislosun við landbúnað yrði metin og gerð áætlun um hvað þyrfti til að kolefnisjafna búskapinn. Í afgreiðslu tillögunnar kom fram að skógrækt væri viðurkennd mótvægisaðgerð gegn gróðurhúsaáhrifum og BÍ var falið að vinna með Landssamtökum skógareigenda að áætlun um kolefnisjöfnun með skógrækt á jörðum bænda.

2016 var gengið frá samkomulagi á milli umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins og Bændasamtaka Íslands um gerð vegvísis um minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði. Skipuð var verkefnastjórn og eiga LSE fulltrúa í þeirri stjórn. Unnið er að því með LbhÍ að greina losun gróðurhúsalofttegunda frá íslenskum landbúnaði og hefur LbhÍ skilað skýrslu sem lögð var fyrir fyrrverandi umhverfisráðherra. Einnig var gert samkomulag við RML um að meta losunarþætti á 5 tilraunabúum og taka þar saman lykiltölur um losun og bindingu gróðurhúsalofttegunda. Þá er horft á aðföng, bústofn, framleiðslu og landnotkun.

Niðurstaða þessarar vinnu verður vonandi sú að gerð verði áætlun fyrir búin um hvernig draga megi úr losun og útbúin reiknivél þar sem bændur geti sett inn losunartölur sínar og fengið upplýsingar um hve mikið þurfi að gróðursetja af skógi til að kolefnisjafna búreksturinn. Forsenda þess er, eins og bent er á í greininni, að bóndinn hafi góðar upplýsingar um bú sitt.

Haraldur bendir einnig á ýmsar leiðir til að draga úr losun, sem er mjög gott. Ég sakna þess þó að hvergi skuli vera minnst á skógrækt í þessari grein. Sannað er að skógrækt er stórtæk aðferð til bindingar kolefnis. Við þurfum öll að fara að axla ábyrgð á umgengni okkar um landið. Við eigum aðeins eina jörð og mikilvægt er að allir sýni ábyrgð í loftlagsmálum.

Skógrækt er viðurkennd mótvægisaðgerð gegn uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti. Margir bændur eiga land sem ekki nýtist við búskapinn, en gæti hentað vel til skógræktar. Með því að vinna áætlun um skógrækt á landi sínu eða í samvinnu við aðra landeigendur og framfylgja henni skapast möguleiki á sjálfbærni í búskapnum og ímynd bændastéttarinnar verður jákvæðari.

Ríkið hefur gert bindandi samninga við skógarbændur um ræktun skóga á um 50 þúsund hekturum lands. Einungis hefur verið gróðursett í 22 þúsund hektara enda var fjármagn til skógræktar skorið niður um 40% eftir hrunið og ekki hefur tekist að fá aukningu í þau verkefni sem ríkið hefur nú þegar gert samninga um við skógarbændur. Með núverandi gangi í gróðursetningu verðum við 40 ár að fylla í þau samningssvæði sem þinglýst eru nú þegar, en ef við fjórfölduðum gróðursetningu tæki það okkur aðeins 10 ár.

Mikill er vandi sauðfjárbænda um þessar mundir og horft er til þess að finna leiðir til að draga úr áföllum þeirra. Nýtum tækifærið sem sannarlega er núna og stóraukum skógrækt á bújörðum. Með því sláum við margar flugur í einu höggi, treystum byggð, sköpum atvinnutækifæri, stuðlum að sjálfbærum búskap og stóraukum bindingu á kolefni sem nýtist vel upp í skuldbindingar okkar í loftlagsmálum.

Hrönn Guðmundsdóttir

framkvæmdastjóri Landssamtaka skógareigenda.

bottom of page