Tuttugasti aðalfundur Landssamtaka skógareigenda var haldinn í yndislegu umhverfi á Reykjanesi við Ísafjarðardjúp dagana 13. og 14. október síðastliðinn.
Fundurinn var haldinn í samstarfi við Félaga skógarbænda á Vestfjörðum. Eftir að formaður setti fundinn var gengið til dagskrár. Formaður og framkvæmdastjóri fóru yfir skýrslu stjórnar og gjaldkeri kynnti reykninga samtakanna.
Síðan var komið að ávarpi gesta. Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri, Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson formaður Bændasamtaka Íslands og Björgvin Örn Eggertsson verkefnastjóri LBHÍ fluttu ávörp og góðar kveðjur til samtakanna. Síðan voru mál lögð fyrir fundinn og honum frestað til kvölds.
Málþing um umhirðu ungskóga
Málþing um umhirðu ungskóga hófst svo kl 16.30. Þrjú erindi voru flutt um umhirðu ungskóga. Arnlín Óladóttir ráðgjafi Skógrætkarinnar á Vestfjörðum flutti erindi um gæði ungskóga. Hún kom meðal annars inn á mikilvægi þess að vanda vel til verka við framkvæmdir og strax frá upphafi að sinna skóginum, fara inn með íbætur, þó ekki of snemma, bera á og sinna annari umhirðu. Björgvin Örn Eggertsson fjallaði um umhirðu ungskóga, tvítoppaklippingu, uppkvistun og fyrstu grisjun. Síðan kom Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri og lokaði umræðunni með erindi sem fjallaði um að læra af reynslunni. Björn Helgi Barkarson sérfræðingur frá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu flutti erindi með yfirskriftinni „Auðlindin skógrækt“. Margt áhugavert kom fram í þessum erindum og lífleg umræða skapaðist á eftir.
Fundi var síðan framhaldið eftir kvöldmat með nefndarstörfum. Mörg áhugaverð mál voru til umfjöllunar m.a. Tillaga um stuðning við aukna skógrækt sauðfjárbænda vegna fækkunar á sauðfé í landinu. Skógrækt er áhugaverður kostur til að treysta búsetu. Lagt var til að stjórn LSE vinni með Landssamtökum sauðfjárbænda, Bændasamtökum Íslands og Skógræktinni að útfærslu verkefnisins.
Tillaga um að greiða 5. árs nema í lögfræði við Háskólann á Akureyri fyrir að gera verkefni um eignarétt kolefnisbindingar í skógrækt. Verkefnið yrði síðan eign LSE og samþykkt um að fela stjórn LSE að ganga frá þátttöku samtakanna um samstarf aðila í fræðslu- og kynningarmálum. Tillögurnar má finna á heimasíðunni undir fundargerðir.
Kynning á fræðslu og erlendu samstarfi
Þegar nefndarstörfum lauk tók við áhugaverð umfjöllun um fræðslu og erlent samstarf. Björn B. Jónsson, Björgvin Örn Eggertsson, Sigríður Jóna Sigurfinnsdóttir og Sigríður Júlía Brynleyfsdóttir sögðu frá hvað er að gerast í fræðslumálum fyrir skógarbændur fræddu okkur um það erlenda samstarf sem er í gangi hjá stofnuninni. Einnig sagði Maríanna Jóhannsdóttir formaður Félags skógarbænda á Austurlandi frá upplifun sinn á fræðsluferð sem farin var til Svíþjóðar þar sem meðal annars var boðið upp á fræðsludag í skógi.
Á laugardeginum hélt aðalfundurinn áfram, tillögur samþykktar og stjórnarkjör. Einu breytingarnar sem urðu á stjórn að Agnes Þórunn Guðbergsdóttir gaf ekki kost á sér áfram og í hennar stað kom inn Sigrún Þorsteinsdóttir frá FsN og Sigurlína J. Jóhannesdóttir til vara. Einnig gaf Jóhann Björn Arngrímsson frá FsVestfj ekki kost á sér í varastjórn og í hans stað kom Naomi Bos. Stjórn LSE þakkar fráfarandi stjórnarfólki fyrir vel unnin störf og óskar þeim velfarnaðar í framtíðinni um leið og nýtt stjórnarfólk er boðið velkomið til stjórnarsetu.