Söguganga og árshátíð skógarbænda
Eftir að aðalfundi lauk tók Félag skógarbænda á Vestfjörðum við stjórnartaumnum. Boðið var upp á sögugöngu um Reykjanesið og sögumaður var Halldór Halldórsson fyrrverandi bæjarstjóri á Ísafirði. Hann sagði m.a frá skólahaldinu í Reykjanesi, byggingu sundlaugarinnar,
bæði þeirri sem er í notkun og gömlu lauginni, saltframleiðslunni, fyrr og nú og mörgu fleyra áhugaverðu, auk þess sem hann sagði ýmsar skemmtilegar sögur um sveitungana og mannlífið á staðnum.
Sögugangan endaði svo í litlum trjálundi þar sem Félag skógarbænda á Vestfjörðum bauð fundargestum upp á þjóðlegar veitingar, rúgbrauð með reyktum Silungi, flatkökur með hangikjöti, kleinur og harðfisk. Þessu var svo skolað niður með eðal bjór og ketilkaffi.
Þegar í hús var komið fengu fundargestir sér sundsprett í lauginni, nutu veðursins og hins dásamlega umhverfis á staðnum.
Árshátíð skógarbænda hófst svo klukkan sjö með fordrykk í boði Skógræktarinnar í tilefni af tuttugu ára afmælis LSE og Gunnar Sverrisson skógarbændi í Hrosshaga í Biskupstungum fór yfir 20 ára sögu LSE í máli og myndum. Síðan tók við hátíðarkvöldverður sem við gerðum góð skil. Skógræktin færði Landssamtökum skógareigenda Hrimi að gjöf til að gróðursetja í þá fjóra fræðsluskóga sem eru á vegum LSE um land allt. Skógræktinni eru færðar kærar þakkir fyrir þessa höfðinglegu gjöf.
Ásvaldur Magnússon skógarbóndi í Tröð í Önundafirði var heiðraður með gullmerki LSE fyrir vel unnin störf í þágu skógareigenda, en hann sat í stjórn LSE frá árinu 2000 - 2011 og var formaður Félags skógarbænda á Vestfjörðum frá stofnun félagsins allt til ársins 2010. LSE þakkar Ásvaldi fyrir það sem hann hefur langt til skógræktarmála. Einnig nýtti formaður LSE tækifærið og færði fráfarandi framkvæmdastjóra Hrönn Guðmundsdóttur frábæra gjöf sem smíðuð var af meistaranum Hlyni Halldórssyni frá Miðhúsum. Gjöfin er þakklætisvottur um samstarfið frá árinu 2013 – 2017 en framkvæmdastjóri lætur af störfum um næstu áramót.
Eftir þessi formlegheit tók við söngur og dans fram á nótt með dyggri stjórn veislustjórans Árna Brynjólfssonar kúabónda á Vöðlum í Önundafirði.
Öll umgjörð um aðalfundinn og árshátíðina var til fyrirmyndar, mikill og góður matur sem Hótel Reykjanes bauð upp á og allir fóru glaðir og saddir til síns heima. Við þökkum Félagi skógarbænda fyrir frábæra skemmtun.