top of page

Stjórnarfundir FSA 2018

Fundargerð 1

Stjórn á fundi 09.01.2018. í fundarsal Skógræktarinnar og hefst fundur kl 20:05

Mætt eru: Maríanna, Borgþór, Jói og Halldór

 1. Farið yfir það sem er ógreitt af árgjöldum v/2016 og 2017

 2. Ábending frá Birni Ármanni um að breyta nafni og heimilisfangi félagsins í firmaskrá. Ritara falið að ganga frá málinu. Ath. að breyta einnig í þjóðskrá v/heimabanka.

 3. Rætt um fráfall Sherry Curl. Það má segja að skógarbændur séu slegnir, enda var Sherry mikill fagmaður og ekki síður öflugur skógræktarmaður sem vann ötullega að því að gera skógrækt að alvöru atvinnugrein. Ákveðið að senda blóm með samúðarkveðjum á útförina og gera síðar minningarskjöld eða annað varanlegt til að minnast hennar.

 4. Tekin fyrir tillaga Skógræktarinnar um girðingarmál. Ákveðið að senda hana út til bænda ásamt tillögu sem fór frá okkur fyrir aðalfund LSE í haust með skýringum. Gefinn verði frestur til að skila inn athugasemdum til 20. jan. Í framhaldinu verði almennur fundur um girðingarmál, líklega um mánaðarmótin.

 5. Maríanna ætlar á fund n.k. laugardag hjá stjórn Bsa þar sem formenn búgreinafélaganna sýna starfsemi.

 6. Í byrjun maí 1988 var stofnað félag Félags skógarbænda á Héraði , nú Félag skógarbænda á Austurlandi. Því verður félagið 30 ára á árinu og er elsta félag skógarbænda á Íslandi. Stjórn ætlar að hugsa málið og taka ákvörðun á næsta fundi hvernig tímamótanna verður minnst.

 7. Ákveðið að senda skýrslu Líneikar Önnu út til félagsmanna. Hafa samband við Maríönnu v/fundargerðabók og senda út fundargerð.

 8. Umræður urðu um hina ýmsu viðburði sem skógarbændur taka þátt í s.s. Barramarkaður, skógardagurinn mikli, Ormsteiti ofl.

Fundi slitið kl 23:10

 

Fundargerð 2​​

Stjórn á fundi 23.01.2018. Fundur hefst kl 16:10 í fundarsal Skógræktarinnar.

Mætt eru: Maríanna, Halldór, Jói, Borgþór, Lárus, Hlynur Gauti og Jói Gísli.

 1. Maríanna sagði frá því að stjórn LSE hafi hafnað umsókn um styrk út á vinnu sem Sókn lögmannsstofa og Austurbrú unnu fyrir félagið og sótt var um styrk út á. Fundarmenn ekki ánægðir með þessa niðurstöðu en um það þýðir ekki að tala.

Skógræktin og LSE eru að stofna sameiginlegan hóp sem mun hafa samband við alþingismenn til þess að ná meira fjármagni (helst fjórfjöldun) til skógræktar.

Girðingar

a) Nýjar girðingar – borga efni og vinnu strax, ekki greiða vinnu eftir framvindu plöntunar

b) Mismikið greitt eftir landgerð og sama um viðhald

c) Hvað með stórar girðingar sem girtar voru sameiginlega með öðrum

d) Hvað þegar girðingar eru óþarfar v/aldurs skógar, er kvöð um að bændur taki þær yfir.

Allt veltur þetta á því að ríkið standi við samninga um fjármagn til skógræktar.

Á stjórnarfundi LSE kom fram vilji Sighvats um að ríkið greiði allan kostnað við girðingar.

Ungt fólk fer ekki af stað með því að greiða með sér (girðingarkostnað).

Stjórn ætlar að vinna nýjar tillögur og boða síðan til alm. félagsfundar, miðvikudaginn 31. Jan kl. 20 í Barra, um girðingarmál og brunavarnir í skógi.

Logo, lög og fundargerðir til Hlyns Gauta.

Rætt um Skógardag og Barramarkað. Ræða betur á alm. fundi.

Fundi slitið kl 18:28

H.S. ritar fundargerð

Eftirfarandi lét stjórn frá sér fara um girðingarmál:

Í gegnum árin hefur girðingarkostnaður á skógræktarjörðum verið greiddur að fullu þegar landið er friðað, eftir undirritun skógræktarsamninga. Friðun er forsenda skógræktarinnar, en nú eru uppi hugmyndir um að girðingarvinnan verði ekki að fullu greidd fyrr en eftir jafnvel 10 ár. Það er umhugsunarvert af hverju svo algengt er að farið er fram á það við bændur að þeir láni sín vinnulaun bæði í skógrækt og öðrum greinum. Þeir sem eru að leggja slíkt til mættu gjarnan setja sig í þeirra spor. Ætli sé líklegt að samtök launafólks myndu skrifa undir þvílík tilboð frá vinnuveitendum. Reglur af þessu tagi vinna á móti því að ungt fólk komi inn í greinina og án kynslóðaskipta mun búgreinin eiga erfitt uppdráttar. Í öðru lagi er ekki hægt að reikna með styðstru mögulegu leið umhverfis skógræktarlandið, það verður að meta í hverju tilviki fyrir sig.

Það verða þó að vera ákvæði í skógræktarsamningunum um að ekki sé hægt að hefja framkvæmdir fyrr en fjármagn liggur fyrir og ef ekki verður plantað í landið innan þess tíma sem skógræktarsamningurinn hljóðar upp á geti skógræktin krafist endurgreiðslu á því fjármagni sem í girðinuna fór. Það er því lykilatriði að ríkið standi við þær áætlanir sem það gerir um fjárframlög til skógræktar en eins og við vitum hefur það ekki allt af staðist.

Hvað varðar hugmynd Skógræktarinnar um kvaðratrótar reglu um lengd girðinga þá er hún í sjálfu sér góð til að gera útreikninga á blaði en alls ekki í framkvæmd. Þetta gildir einkum ef viðkomandi land er erfitt girðingarland, en slíkt land er þar sem er mikill bratti, lítill jarðvegur, mikið um gil og árfarvegi, hreyfing á landinu (skriðuhætta), snjóþyngsli og snjóskriður, mikill áganur vatns í leysingum og jafnvel krapaflóð og mjög brattar brekkur og börð sem kalla á sigfestur, horn og auka aflstaura. Þetta er algjör andstaða við þau svæði þar sem land er slétt, með djúpum jarðvegi og jafnvel engum vatnsföllum. Með því að láta hugann reika um einstök svæði á landinu er ekki erfitt að sjá hvar er auðvelt að girða og hvar erfitt. Það er ekki sanngjarnt að allir fái sömu geiðslu fyrir girðingar, heldur að skipta girðingarkostnaði niður í einhverja flokka t.d. með því að bæta 30% 60% og 90% álagi á girðinguna eftir því hversu erfitt landið er. Hliðstæðar reglur þurfa að gilda um viðhald. Sum okkar hafa áratuga reynslu í því að girða og halda við girðingum og vitum að máltækið ,,vel skal vanda það sem lengi á að standa“ á vel við um þessi mannvirki.

Síðan þarf að finna lausn varðandi þær girðingar sem taka yfir stór svæði, jafnvel nokkrar jarðir en sú aðferð var algeng á svæði Héraðsskóga í árdaga þess verkefnis. Þar komu oft fleiri að s.s. sveitarfélög og Vegagerðin. Í sumum tilvikum liggja þessar girðingar yfir jarðir sem alls ekki eru í skógrækt og þeir bændur hafa því jafnvel engan hag af því að halda þeim við. Samninga sem til eru um þessar girðingar þarf að fara í gegn um og taka ákvaðanir í framhaldi af því.

Eftir einhver ár verða girðingarnar ekki nauðsynlegar til að verja ræktunina og þá þurfa að vera ákvæði í samningunum um hver ber ábyrgð á þeim og séu þær komnar úr notkun þarf aðhreinsa þær upp úr landinu.

Það eru því nokkur grundvallaratriði:

 • Skýr ákvæði verði í skógræktarsamningum um girðingar, bæði nýjar og úreltar og hvernig eftirliti verði háttað.

 • Ríkið standi við sínar skuldbindingar um fjárveitingar.

 • Tekið verði tillit til þess hve auðvelt er að girða og halda við girðingum á viðkomandi skógræktarsvæði.

 • Bændur fái efni og vinnu greitt strax við verklok eins og aðrir þegnar samfélagsins.

 • Skógræktin annist allt eftirlit

 

Fundargerð 3​​

Fundargerð

Almennur félagsfundur haldinn í húsnæðai Barra Valgerðarstöðum þann 31.01.2018 Fundur hefst kl 20:05. 22 félagsmenn mættir.

Dagskrá:

1. Brunavarnir í skógi. Fulltrúi frá Brunavörnum kemur með innlegg á fundinn og svarar fyrirspurnum

2. Tillögur Skógræktarinnar að sameiginlegum reglum um girðingar og athugasemdir frá FsA.

3. Skógardagurinn mikli og Barramarkaðurinn – hver er vilji félagsmanna til að viðhalda þessum viðburðum?

4. Kynning á Skógardeginum í Svíþjóð – Maríanna Jóhannsdóttir segir frá ferð sem farin var sl.haust.

5. Úrvinnsla í smáum stíl – hvað geta bændur gert?

6. Önnur mál

1

Haraldur Geir Eðvaldssonfrá Brunavörnum á Héraði ræðir um brunavarnir í skógi (gróðri) og fer yfir skráðar heimildir um gróðurelda allt frá 15. öld. Síðan fór hann yfir þann búnað sem Brunavarnir eiga og þann búnað og mannafla sem tiltækur er hjá bændum s.s. dráttarvélar og haugsugur. Þá eru ótaldir félagar í Björgunarsveitunum. Athuga þarf slóða og skipulag skóga ásamt vatnstökustöðum. Að lokum sýndi hann nokkrar myndir. Líflegar umræður urðu í lokin. Æskilegt er að Brunavarnir fái aðgang að kortum yfir skógræktarsvæði m/merktum slóðum og vatntökustöðum.

2

Halldór fór yfir tillögur stjórnar um girðingarmál. Tillaga frá Þorsteini Péturssyni að tilgangur er að efla byggð og treysta atvinnulíf í dreifbýli. Sbr. 1.gr laga um landshlutaverkefni í skógrækt.

3

Skógardagurinn mikli og Barramarkaður. Skógardagurinn verður 23. Júní. Fundarmenn sammála um að halda Skógardeginum gangandi, hann er glæsileg almenningsskemmtun. Ath frekar með hvað verður með Barramarkað og hvort breyta eigi honum í fagdag fyrir skógarbændur. Gunnar Jónsson ræddi um þreytu í Ormsteitiog hvort sé hægt að tengja skógardaginn við Ormsteiti.

4

Maríanna kynnti ferð skógarbænda til Svíþjóðar sem farin verður 26. mars n.k. á vegum Jötunn véla. Skógarbændur og fagaðilar ræða um nýtingu skóganna en eru enn að finna sig í verkaskiptingu, einkum stjórnun og skógræktarskipulag.

5

Úrvinnsla skógarafurða. Jói Gísli upplýsir að LSE styrki úrvinnsluverkefni um allt að 2 milljónir, sé viðkomandi skógræktarfélag aðili að verkefninu. LSE fær mörg erindi út af jólatrjáaræktun en vantar fjármagn til að sinna þeim erindum.

6

Önnur mál

 1. Spurt út í kolefnismál

 2. Hvað viljum við gera í jólatrjárækt

 3. Maríanna sagði frá afmæli félagsins sem verður í vor

 4. Maríanna sagði einnig frá hugmynudm um hvernig félagið vill minnast Sherry Curl sem lést 30. des s.l.

 5. Bjarki ætkar að halda formlegan opnunardag á Skógarafurðum ehf og vill fá FSA .

Fundi slitið kl 23:20

H.S. ritar fundargerð

 

Fundargerð 4​​

Fundur 6. febrúar 2018 að Lagarfelli 10 kl. 15:30.

Maríanna, Borgþór, Jói Halldór og Jói Gísli

Rætt um vinnu við viðarmagngreiningu sem Skógræktin ráðgerir að framkvæma. LSE hefur í því skyni sótt um styrk til Framleiðnisjóðs upp á kr. 22,5 millj. auk þess að LSE ætlar að leggja til 8,3 millj. í verkefnið. Hér er þvi verið að ræða um tæpl. 31 millj. alls. Búið er að vinna einhverskonar viðarmagnsúttektir á hinum ýmsu landssvæðum en örugglega þarf að era betur. Í viðarmagnsúttekt Lárusar í skýrslunni Afurðamiðstöð viðarafurða kemur fram hans álit á bls. 9 að rétt sé að fara í nákvæmari úttekt en þar er e.t.v. átt við annars konar verklag.

Í framhaldi af þessu kynnti Borgþór „lýtartækni“ þar sem flygildi (flugvél, dróni) flýgur yfir landið, varpar niður ljósgeilsum sem endurvarpast upp og taka nákvæma mynd af skóginum. Dróni, lýtartækni, jarðstöð, myndavél, hugbúnaður og kennsla gæti kostað 15-19 millj. en hægt er að velja á milli evrópsks og amerísks hugbúnaðar. Sennilega er evrópukerfið heppilegra því það leggur meiri áherslu á hvern einstakling (tré). Með þessu móti fæst heildarmynd af öllum skóginum sem er mjög nákvæm. Það er allt annað en það sem fæst út með einstaka mæliflötum eins og gera á með viðarmagnsúttektinni sem nú á að fara að vinna. Fundarmenn eru sammála um að skoða beri þennan möguleika nánar og hvort hugsanlega megi fá hingað erlenda kunnáttumenn til að gera tilraunir með búnaðinn á Íslandi.

Borgþór ætlar að kanna kostnað betur.

Hér vék Halldór af fundi.

Rætt var um hvort mögulega megi fá Blómabæjarhúsið til afnota fyrir skógarbændur. Upp komu hugmyndir um jólatrjásölu, markað þar sem leigð verða út sölupláss, námskeiðahald og síðast en ekki síst upphaf að vinnslu skógarafurða þar sem bændur geti komið með sínar afurðir og greitt leigu fyrir. Upphafið er líklega sög og þykktarhefill.

Fleira ekki tekið fyrir, fundi slitið kl 17:30

Fundarritarar Halldór og Jóhann F.

 

Fundargerð 5​​

Fundargerð.

Fundur í stjórn FsA haldinn í Lagarfelli 10 sunnnudaginn 4. Mars 2018.

Mætt: Borgþór, Jóhann F, Maríanna, Halldór. Fundurinn hefst kl. 16:30

1. Taxtar: Tekið fyrir erindi frá Skógræktinni um hækkun taxta samkv. hækkunum á framfærslu- og neysluverðsvísitölum. FsA leggur til að hækkun verði reiknuð samkvæmt hækkun launavísitölu þar sem fyrst og fremst er um vinnu að ræða. FsA lagði þetta einnig til fyrir árið 2017 og þá var hækkunin einungis 50% af launavísitölu en helmingi þeirrar hækkunarinnar frestað.

Hvað varðar hugmyndir um styrk til skjólbeltagerðar er verið að leggja til að vélastyrkur vegna skjólbeltagerðar lækki f.f. ári um kr. 94.000 á km pr. einfalda röð. Að telja bóndanum innskatt til tekna er er grundvallarmisskilningur hjá höfundi tillögunnar. Til skýringa er innskattur samkv. skilgreiningu Fjármála og Efnahagsráðuneytisins ,,sá skattur sem að skattskyldur aðili greiðir öðrum skattskyldum aðilum eða Tollstjóra við kaup eða innflutning á vörum eða þjónustu (aðföngum) til nota í skattskyldum rekstri sínum, enda byggist innskattskrafa aðilans á fullnægjandi gögnum. Rekstraraðilar hafa heimild til að draga innskatt frá útskatti, en til innskatts má telja virðisaukaskatt af svo til öllum aðföngum rekstraraðila sem varða skattskylda sölu þeirra“. Stjórn FsA leggur til að reiknaðir verði upp kostnaðarliðir við skjólbeltagerð og þá mun koma í ljós að jarðvinnsla, áburðargjöf, plastlagning, ferging, gróðursetning og girðingar eru þeir liðir sem mest telja í kostnaði.

FsA getur ekki með nokkru móti samþykkt að gengið sé á launalið bænda eins og tillaga Skógræktarinnar gerir ráð fyrir og finnst kominn tími til að litið sé á okkur eins og aðra þegna samfélagsins hvað lífsafkomu varðar.

2. Blómabæjarhúsið: Maríanna er búin að tala við Björn bæjarstjóra hvort mögulegt sé að FsA fái afnot af húsinu fyrir okkar starfsemi. Bæjarstjóri taldi það fara saman við áherslur sveitarfélagsins og vildi fá formlegt erindi varðandi málið. Mögulega er hægt að fá styrk frá LSe út á slíka starfsemi. Rætt um að leita til Austurbrúar um að gera viðskiptamódel fyrir hugmyndina. Maríönnu falið að skýra Bæjarstjóra frá hugmyndum okkar en málið verður lagt fyrir næsta aðalfund FsA.

3. Austurbrú: Maríönnu og Jóa falið að hitta fulltrúa Austurbrúar og ræða um framhald á samstarfssamningi .

4. Skógardagurinn: Viðræður eru milli undirbúningshóps fyrir Skógardag og Skógræktarinnar um kostnað við daginn og jafnframt eru viðræður við Fljótsdalshérað þar sem Ormsteiti blandast inn í. Þessar viðræður eru á viðkvæmu stigi en niðurstað mun liggja fyrir innan viku.

5. Reikningar: Farið yfir reikninga félagsins sem voru án athugasemda af hálfu stjórnarmanna en samþ. að láta breyta texta sem skoðunarmenn rita undir.

6. Afmælishátíð: Hugmynd um að halda upp á 30 ára afmæli FsA föstudaginn 20 apríl n.k. Ath. hvort Edda á Miðhúsum er fánleg í að halda utan um málið með stuðningi stjórnarmanna.

7. Önnur mál: a) Aðalfundur FsA verður 12. mars n.k. í húsnæði Barra Valgerðarstöðum og þar mun Lárus kynna niðurstöður úr trjámælingum frá síðasta hausti.

b) Stefnt að almennum fræðslufundi í félaginu 4. apríl þar sem fjallað verður um hugtakið ,,gæðaskógur“.

c) Stjórn ákvað að hittast fljótlega og taka saman þá núningspunkta sem eru milli Skógræktarinnar og skógarbænda. Í framhaldinu verði leitað eftir fundi með Skógræktarstjóra til að fara yfir málin.

Fleira ekki tekið fyrir, fundi slitið kl 19:30

Halldór Sigurðsson fr.

 

Fundargerð 6

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar haldinn 6. júní í fundarsal Skógræktarinnar og hefst kl 20:15.

Mætt: Maríanna, Jónína, Borgþór, Jóhann, Lárus og Halldór.

Dagskrá:

 1. Stjórn skiptir með sér verkefnum. Maríanna formaður, Jóhann gjaldkeri, Halldór ritari.

 2. Rætt um taxta, einkum skjólbelti þar sem orðalag um vsk er óljóst og villandi og hinsvegar um girðingar. Nú liggur fyrir að girðingartaxtar verða óbreyttir frá fyrra ári en stefnt er að því að samræma þá á komandi hausti. Lárus sagði frá viðhaldskostnaði við girðingar og hugmyndir um að leggja af einstaka girðingar.

 3. Lárus sagði frá stöðu í plöntun á svæðinu en búið er að planta ríflega 120.000 plöntum en eftir eru um 350.000. Það er ekki slæm staða tímalega séð en hinsvegar er jörð orðin nokkuð þurr.

 4. Borgþór sagði frá undirbúningi skógardagsins. Líklega verður ekki samkeppni um listaverk eins og á síðasta ári, við erum fallin á tíma.

 5. Ákveðið að leita til Agnesar Hallgrímsdóttur um að sitja í ritnefnd „við skógareigendur“ sem verður í framtíðinni kálfur með Bændablaðinu. Else Møller til vara.

 6. Halldóri falið að hafa samband við Þröst v/minningarskjaldar um Sherry Curl.

 7. Uppgjör vegna 30 ára afmælis félagsins 19. apríl.

 8. Rætt um kolefnismál. Rétt að koma á framfæri kolefnisbindingu skógræktar. Fundarmenn sammála um að það þurfi að koma umræðu um kolefnislosun/bindingu á annað plan en nú er t.a.m. er sú umræða sem verið hefur í fjölmiðlum undanfarið um að moka ofan í skurði villandi.

 9. Landbúnaðarsýning 12. okt. Hugmynd um að taka saman þróun skógræktar frá upphafi Héraðsskógarverkefnissins til dagsins í dag. Þar komi fram umfang plöntunar, vöxtur, millibilsjöfnun, grisjun viðarvinnslu, fjölda starfa, tekjur ofl. Reyna að setja þetta upp í lifandi formi.

 10. Rætt um vinnuferli um veglegt listaverk úr skógarafurðum á áningarstað ekki fjarri Egilsstöðum. Taka upp þráðinn í haust.

 11. Jói fer yfir ferð með Njáli Trausta 11. maí sem farin var á dögunum

Fundi slitið kl 22:30

 

Fundargerð 7

Fundur í stjórn Fsa 28.08.2018, hefst kl. 17:15

Mætt: Maríanna, Jónína, Jói Þórhalls, Lárus, Jói Gísli, Borgþór og Halldór.

 1. Rætt um aðalfund Lse sem haldinn verður á Hellu (Stracta hótel) föstudag og laugardag 6.-7. október. Mögulega má sameina í bíl með norðlendingum. Farið yfir efni sem mögulega fer fyrir fundinn en ekkert ákveðið. Þar var rætt um girðingarmál, kolefnisbindingu, taxtamál og yfirferð og samntekt á kostnaði við skógrækt á Íslandi. Jafnframt farið yfir tillögur frá fyrri aðalfundum fundum Lse og samráðsfundum sem eru haldnir með starfsfólki Skógræktarinnar, formönnum skógarbændafélaganna o.fl.

 2. Baldur Hallgrímsson Haga Vopnafirði hefur selt jörðina og sefir sig úr félaginu.

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 19:18

Halldór Sigurðsson fr.

 

Fundargerð 8

Fundur í stjórn Félags skógarbænda á Austurlandi haldinní fundarsal Skógræktarinnar á Egilsstöðum miðvikudaginn 7. nóv og hefst kl 18:15 Mætt eru Maríanna, Jóhann, Borgþór og Halldór. Jónína boðaði forföll.

1) Jóhann fer yfir fjármálin: Til eru 1.200.000 inni á bók og útistandandi eru 500.000 hjá Skógræktinni v./ Skógardagsins mikla. Fyrir liggur að innheimta árgjald í félagið v./ áranna 2016 og 2018. Stjórn sammála um að innheimta ekki vegna ársins 2016. Ástæðan er að árgjald áranna 2015 og 2017 voru innheimt samtímis á síðast ári og þykir stjórn ekki verjandi að gera það aftur auk þess sem félagið er tiltölulega vel statt fjárhagslega um þessar mundir.

Hér mætir Jóhann Gísli á fundinn.

2) Félagsstarfið í vetur:

a) Borgþór stingur upp á ferð til Beggu á Hallormsstað til að kynna okkur viðarvinnslu.

B) Leita eftir því að fá Ólaf Oddsson til að halda tálgunarnámskeið og athuga möguleika á því að fá Menntaskólann á Egilsstöðum til samstarfs.

C) Bjóða félagsmönnum til kvöldverðar ásamt einhverskonar fræðslu í Barnaskólanum á Eiðum 1. des n.k.

3) Kynnt frumvarp til laga um skóga og skógrækt sem nú liggur fyrir Alþingi. Í frumvarpsdrögunum er bændaskógrækt verulega sniðgengin. Jói Gísli kynnti málið og sagði frá því að leitað hafi verið til Hilmars Gunnlaugssonar lögfræðings um að koma saman umsögn um frumvarpið fyrir Lse. Stjórnarmönnum send fruvarpsdrögin til kynningar og athugasemda.

4) Verulegur misbrestur er á að skógarbændur hafi fengið greitt fyrir vinnu á árinu 2018. Jafnvel eru dæmi um að vinna frá í maí og júní sé enn ógreidd. Jóhann Gísli ætlar að taka málið upp innan stjórnar og leita skýringa hjá Umhverfisráðuneytinu.

5) Jólakötturinn verður haldinn að Valgerðarstöðum 15. Des. N.k. milli kl. 10 og 16. Búið er að auglýsa söluborð nú þegar.

Fleira ekki tekið fyrir , fundi slitið kl 20:05

Halldór Sigurðsson fr.

 

bottom of page