top of page

Fundir FsS- 2018

Helga Sigurrós Bergsdóttir

Félagsfundur Félags skógareigenda á Suðurlandi

haldinn í Gunnarsholti, laugardaginn 7. apríl 2018 kl. 10:30

María E. Ingvadóttir formaður setti fundinn og bauð fundargesti og framsögumenn velkomna. Í upphafi skýrði hún frá því að nýi bæklingurinn um brunavarnir væri alveg á næstu grösum og myndi birtast á netinu. Fyrirhugað væri að halda námskeið um efni hans á haustdögum á vegum LbhÍ. Skógarbændur, og landeigendur almennt, væru kvattir til að kynna sér brunavarnir vandlega.

Árni Bragason, landgræðslustjóri flutti mjög gott erindi um loftlagsmál sem mætti að flestu leyti segja að séu mál málanna. Hann benti á að mikið vantaði upp á að stjórnvöld stæðu við fögru orðin um viðbrögð við hlýnun jarðar, bæði síðasta og núverandi ríkisstjórn.

Samkvæmt samningum á að vera búið að kolefnisjafna Ísland árið 2040, það eru aðeins 22 ár þangað til. Það þarf alvöru fjárveitingar til að svo megi verða.

Öll spálíkön um loftslagsbreytingar á 21. öldinni reikna með mikilli hækkun hitastigs á jörðinni, 1,6-6,4°C, einkum á pólsvæðunum. Þótt gert sé ráð fyrir tiltölulega minni hitahækkun á hafsvæðinu suður af Íslandi mun það hafa veruleg áhrif á okkur eins og alla jarðarbúa. Hækkað hitastig mun valda bráðnun jökla og hækkun sjávarstöðu en jafnframt landrisi. Áhrifin munu koma fram á fiskstofnum, breytingum á gróðurfari, fuglalífi, skordýralífi, mannlífi.

Veðurfarsbreytingar verða meiri og sneggri. Máli sínu til sönnunar nefndi Árni flóðin miklu í Hamarsfirði s.l. haust og hretið á Norðurlandi 13.september 2012, þegar fjöldi fjár grófst í fönn.

Skógareldarnir miklu í Californíu sl.l. haust og rigningarnar miklu í kjölfarið, sem ollu gífurlegum aurskriðum og flóðin miklu í Bangladesh eru dæmi um hnattrænar öfgar og það eru öfgarnar sem drepa, meðaltalið drepur engan. Viðbúið er að veðurfarsbreytingar komandi áratuga margfaldi straum flóttafólks í leit að lífvænlegri aðstöðu og þar getur Ísland orðið fýsilegur búsetukostur.

Losun gróðurhúsalofts á Íslandi stafar að langmestu leyti eða 72% frá framræstu eða uppblásnu landi, 12% frá iðnaði / efnanotkun, 4% af landbúnaði, 4% af fólksbílum, sjávarútvegur er með 3% og annað 4%.

Íslendingar eiga heimsmet í sótspori og losun gróðurhúsalofttegunda. Við þurfum að rækta meira, binda meira koldíoxíð í gróðri.

Framræsla á votlendi er enn í gangi en ekkert er tilkynnt um það. Samkvæmt lögum á að tilkynna til umhverfisstofnun eigi að ræsa fram meira en 2 hektara, en það hefur enginn gert. Hvað gerist við framræslu má glöggt sjá í Norðurmýrinni í Reykjavík, þar sem jarðvegur umhverfis húsin hefur sigið um 65 cm eftir því sem landið hefur þorrnað og örverurnar brotið niður jarðveginn eftir því sem súrefni komst að.

Á Íslandi þarf að græða upp um 1,2 milljónir hektara af því landi sem er minna en 500 m.y.s. Mjög brýnt er að græða upp 500.000 ha. Árlega er unnið á um 18.000 ha svæðum en með sama áframhaldi tæki það um 100 ár að komast fyrir horn.

Við þurfum að nýta betur það sem við höfum. Árlega fer jafnmikið af lífrænu efni frá höfuðborgarsvæðinu út í Faxaflóa og nemur öllum áburðarinnflutningi landsmanna. Það er komin tækni til að vinna áburðarefni úr fráveituvatni.

Endurheimt votlendis er gífurlega mikilvæg og fljótvirk til að draga úr koldíoxíðlosun. Skógrækt er mikilvægt bindingartæki, þótt hægar miði fyrstu árin en með endurheimt votlendis. Sömuleiðis er landgræðsla og beitarstýring mjög mikilvæg. Með beit á rýru landi dregur smám saman úr vexti rótarkerfis þeirra plantna sem þar vaxa og svæðið verður örfoka. Með því að stýra beit á valin svæði, t.d. skógarsvæði í góðri rækt með góðum botngróðri, minnkar álagið á því landi sem er í verstu ásigkomulagi. Við þurfum að auka ræktun, þar með landgræðslu, við getum ræktað mun meira af korni og olíuplöntum en við gerum. Við þurfum að auka ræktun skóga, allt sem unnið er úr olíu er unnt að vinna úr viði.

Allnokkrar umræður urðu um erindi Árna, svo sem um metangaslosun / koldioxíðlosun, hnattræna hlýnun á ýmsum tímaskeiðum, nú hnattræna mengun, samþykktir ríkisstjórna / undirskrift alþjóðlegra skuldbindandi samninga, geyma land / nýta land / einföldun að það að moka ofan í skurði sé töfralausnin, hvað um eignaréttinn / bændur þurfi að nýta það land sem þeir eigi aðgengi að / samfélagsleg ábyrgð.

Spurt var um sölu losunaheimilda, en markaðurinn er óvirkur. Eins var spurt um samstarf landgræðslu og skógræktar; hversu marga hektara hafi landgræðslan af svæði sem tilbúið væri fyrir skógrækt. Svarið var að það mat væri í vinnslu og líka þyrfti að meta nýtingarvægi tegunda – korn – graslendi – skógur.

Anton Kári Halldórsson, bygginga- og skipulagsfulltrúi Rangárþings eystra, kom einnig víða við í sínu máli. Hann hefur langa reynslu á sínu starfssviði, þar sem hann varð byggingafulltrúi Rangárþings eystra árið 2012, en áður hafði hann gegnt sama embætti í Skaftárhreppi.

Anton Kári brýndi fyrir fundarmönnumn að það þyrfti að sækja um leyfi til sveitarfélagsins ef hefja ætti skógrækt á svæði sem er stærra en 3 hektarar. Eigi fyrirhugað skógræktarsvæði að vera stærra en 200 hektarar er það tilkynningarskylt til skipulagsstofnunar. Frá árinu 2012 hefur aðeins ein fyrirspurn komið til sveitarfélagsins.

Góð reynsla er af skógrækt í sveitarfélaginu, en þar eru um 1600 ha undir skógrækt, sem eru um 3,3% á landsvísu.

Í aðalskipulagi sveitarfélagsins er lögð áhersla á meginmarkmið í landnotkun. Þar er svæðinu skipt upp í þrjú - fjögur höfuðsvæði, þar sem svæði eitt og tvö eru landbúnaðarsvæði, en svæði 3 mögulegt skógræktarsvæði, en þessi svæðaskipting gerir landbúnaði mjög hátt undir höfði.

Sveitarfélagið hefur ákveðið kerfi um skipulagsferil – deiliskipulag.

Segja má að viðhorf til skógræktar hafi breyst talsvert á undanförnum árum, þar sem augu manna fyrir breytilegri landnotkun hafi opnast, svæði sem ekki eru í landbúnaðarnotkun megi nota undir skógrækt tímabundið, en ef þörf krefur sé unnt að ryðja skóg og nota svæðið t.d. til kornræktar.

Anton Kári kvað þjóðlendumálum fremur stutt á veg komið. Þjóðlendur sveitarfélagsins eru í mörgum smábútum. Almennt taldi hann málefnum þjóðgarða / verndarsvæða betur komið í höndum viðkomandi sveitarfélaga en ríkisins, þar sem staðþekking sveitarfélagsmanna væri oftast meiri.

Rangárþing eystra er bærilega tækjavætt hvað brunavarnir varðar, en á það reyndi einmitt degi fyrr en fundardag, þegar kom útkall vegna sinubruna. Slökkviliðið hefur yfir að ráða tveimur slökkvibifreiðum, tveimur tankbílum og dælubílum, en sé um stórbruna að ræða er góð samvinna við nágrannasveitarfélögin lykilatriði.

Brunavarnir í skógi verður aðalmál á fyrirhuguðum aðalfundi slökkviliða, sem haldinn verður á næstunni.

Heimasíðan grodurbruni.is er í smíðum.

Skráning fornleifa kom til umræðu. Anton Kári sagði kvaðir vera á sveitarfélaginu um skráningu fornleifa á svæðum sem eitthvað á að framkvæma á af þess hálfu.

Í umræðunni kom fram að skráning fornminja væri mikilvæg og geti t.d. aukið verðmæti svæða, en mikilvægt væri að það tefði ekki fyrirhugaðar framkvæmdir á svæðum meira en góðu hófi gegndi. Sama má segja um skráningu örnefna á jörðum.

Eins kom fram að ekki hefðu verið gerðar skógræktaráætlanir fyrir austur-svæði sýslunnar nýlega, meira fyrir svæðið nær Þjórsá. Skógræktarsvæði stærra en 25 ha væri skipulagt, uppdrættir með slóðum, vegum o.þ.h. væru sendir viðkomandi sveitarfélögum.

Fundurinn var mjög vel sóttur, honum var slitið kl. 12:30, umræður voru líflegar og víða komið við.

Fundarritari Sigríður Hjartar

bottom of page