top of page

www.grodureldar.is


Starfshópur um brunavarnir í gróðri hélt blaðamannafund fimmtudaginn 24. maí kl. 14 í húsakynnum Skógræktarfélags Reykjavíkur að Elliðavatni. Þar var formlega kynntur nýr bæklingur um brunavarnir í gróðri ásamt veggspjöldum og nýrri vefsíðu, grodureldar.is.

Gróðurbrunar á Íslandi hafa hingað til einskorðast að mestu við sinubruna, en með aukinni skógrækt um land allt og vaxandi útbreiðslu íslenska birkisins er hættan á skógarbrunum og kjarreldum nýr veruleiki sem takast þarf á við.

Stórir skógarbrunar, eins og fréttist af frá útlöndum, verða ekki á Íslandi enda engin skilyrði fyrir slíkt hérlendis. Þó hefur hætta á gróðureldum margfaldast á undanförnum áratugum í takt við hlýnandi veðurfar og aukna áherslu á landvernd og skógrækt. Kröfur um auknar varnir og viðbúnað hafa ekki haldist í hendur við þessar breytingar. Víða getur skapast mikil hætta vegna gróðurelda og við því þarf að bregðast. Mörg þessara svæða eru vinsæl útivistar- og sumarhúsasvæði og þar eru mikil verðmæti fólgin í bæði skógi og mannvirkjum. Skráningar á gróðureldum undanfarinna ára sýna að langflestir gróðureldar kvikna af mannavöldum og flestir af völdum íkveikju. Helstu orsakirnar eru íkveikja, atvinnustarfsemi og frístundaiðkun fólks en einnig kemur fyrir að kvikni í gróðri vegna eldinga.

Til að bregðast við þessari vá var settur saman stýrihópur um mótun vinnureglna um brunavarnir í skógi og öðrum gróðri. Síðustu misseri hefur hópurinn greint vandann og leitað leiða til úrbóta. Samin hefur verið greinagerð með niðurstöðum og tillögum stýrihópsins um forvarnir og rétt viðbrögð við gróðureldum. Auk stýrihópsins unnu sjálfstæðir vinnuhópar að mótun afmarkaðra þátta brunavarna í gróðri.

Afrakstur þessarar vinnu birtist í fyrr greindum bæklingi. Í honum er að finna leiðbeiningar sem gagnast m.a. eigendum skóga og sumarhúsa. Einnig hefur verið útbúið veggspjald með helstu aðalatriðum um þessi efni sem gott er að festa upp á góðum stað til að vekja athygli á réttum vörnum og viðbúnaði við gróðureldum.

Á fimmtudaginn var jafnframt opnuð formlega ný vefsíða á slóðinni www.grodureldar.is. Á síðunni verður efni bæklingsins birt á aðgengilegan hátt ásamt veggspjaldinu. Auk þess verður þar ítarefni sem nota má til að gera áætlanir um brunavarnir í gróðri, hvort sem er fyrir skóg eða önnur gróðursvæði svo sem sumarhúsalönd.

Í stýrihópnum sátu fulltrúar frá Skógræktinni, Skógræktarfélagi Íslands (fulltrúi skógræktarfélaganna), Landssamtökum skógareigenda, Mannvirkjastofnun, Félagi slökkviliðsstjóra/Brunavörnum Árnessýslu, Landssambandi sumarhúsaeigenda og Verkfræðistofunni Verkís (viðauki 10). Fulltrúi Skógræktarinnar leiddi stýrihópinn. Hönnun bæklings og veggspjalds var í höndum Forstofunnar, en Verkís sá um ritun greinargerðar á grundvelli framlagðra upplýsinga.

Björn B. Jónsson skrifaði texta.

Ólafur Oddsson tók meðfylgjandi myndir.

Björn Traustason setti upp kort.

Bækling má nálgast HÉR!

bottom of page