top of page

Jónsmessuganga Félags skógareigenda á Suðurlandi


Það er löng hefð fyrir að skógareigendur á Suðurlandi geri sér dagamun á Jónsmessunni. Þá er valinn félagi heimsóttur, ræktunin skoðuð, og síðan sest niður eftir létta göngu, málin rædd og snætt saman. Segja má að Jónsmessugangan sé í raun árshátíð skógarbænda á Suðurlandi.

Fyrsta Jónsmessugangan var farin árið 1994, þegar skógræktin á Snæfoksstöðum hjá Skógræktarfélagi Árnesinga var heimsótt. Gangan í ár var sú tuttugasta og fjórða, því aðeins hafa fallið úr tvær göngur á öllu þessu tímabili.

Núna heimsóttum við skógarbóndann Sigurð K. Haraldsson að Heylæk I í Fljótshlíð. Þau hjónin, Sigurður og kona hans, Vilborg Pétursdóttir, sem nú er látin, keyptu Heylækinn árið 1992. Sigurður sagði okkur í gamni eða alvöru að það sem hann hafði fallið fyrir hefði verið gamla fjósið, þar hefði hann séð forláta vetrargeymslu fyrir ferðabíla, en á þessu árum ráku þau hjónin bílaleigu. Hvað sem því líður þá heyrir rekstur bílaleigunnar fortíðinni til og gamla fjósið hýsir nú fornbíla og ýmsa gamla muni.

Strax næsta vor hófust þau handa við skógrækt. Fyrstu gróðursetningarnar voru eins og hjá okkur flestum belti af alaskavíði og ösp til að mynda skjól, því jörðin Heylækur er allbrött og ekki skjólgóð frá náttúrunnar hendi. Sigurður sagði okkur ýmsar skemmtisögur af framkvæmdunum. Stundum gerði hann kostakaup eða samninga um ýmsa verkþætti en alltaf stóðu báðir aðilar sáttir upp frá samningaborðinu.

Ræktunarsvæðinu á Heylæk má skipta í tvennt; annars vegar er fyrsta ræktunin í túninu fyrir neðan íbúðarhúsið og hins vegar ræktunin „uppi i hæðum“. Núorðið framleiðir Sigurður mest af sínum plöntum sjálfur. Hann hefur mjög gaman af að koma plöntum upp af fræi og er óhræddur við að gera tilraunir, enda meðlimur í fræklúbbi, og eitt og annað skrítið sáum við á skógargöngunni sem hann leiddi ásamt Elínu Snorradóttur. Þar sem loftraki var nægur á Jónsmessukvöld fór hópurinn, á þriðja tug félaga í FsS, í létta göngu um neðra svæðið.

Þar dáðumst við að fallegum, djúpum giljum, með margvíslegum trjágróðri en mesta athygli vöktu þinir og hlynir. Drjúgstór þyrping af fjallaþin sýndi glöggt áhrif þess að gróðursetja í kuldapolli, þar sem efstu trén voru a.m.k. 2 m hærri en þau sem stóðu neðst. Margar hlyntegundir hafa verið gróðursettar á Heylæk meðal annars ótrúlega flottur amerískur hlynur með neðra borð laufanna djúprautt á lit. Furðulegast var þó stökkbreytta blágrenið.

Það er tvílitt, neðri hlutinn fallega blágrænn en sá efri ljósgulur. Undir haust nær þó græni liturinn yfirhöndinni. Það sem meira er, hann á tvö blágrenitré með þessum einkennum.

Gangan um skógarsvæðið var öllum auðveld því vel hefur verið hugað að göngustígum og akbrautum um svæðið.

Að göngu lokinni var sest að inni í gamla fjósinu, snætt saman, spjallað og tekið lagið.

Maður er manns gaman og okkur skógareigendum er ómetanlegt að heimsækja aðra með sama áhugamál, sem eru að glíma við sambærileg verkefni. Því er Jónsmessugangan mikils virði fyrir félagsandann.

Sigríður Hjartar

bottom of page