top of page

Afhjúpun minnisvarða Sherry Curl


Sherry horfir yfir uppvaxandi skóg sem baðar sig í Austfjarðaþokunni á Óseyri í Stöðvarfirði. (Mynd: Hlynur Gauti Sigurðsson, 29.júní 2009)

Minningarskjöldur um fallinn félaga, Sherry Curl, var afhjúpaður á miðvikudaginn var, 11. júlí.

Skógarbændur á Austurlandi sameinuðust á Höfða á Völlum, heimili Sherryar og Þrastar Eysteinssonar, og afhjúpuðu minningarskjöld. Hellt var upp á ketilkaffi og grillstandurinn, sem Félag skógarbænda á Asutrlandi fékk að gjöf frá LSE í 30 ára afmælis félagsins, var vígður. Eftir athöfnina fór Þröstur, eftirlifandi eiginmaður hennar, með gesti í göngu um trjáræktina á Höfða.

Síðast liðið haust hafði Sherry boðið Félagi skógarbænda á Austurlandi í heimsókn á Höfða og skoða skógræktina hjá þeim hjónum. Síðan höfðu forlögin breytt þeirri áætlun og þess í stað var boðað til göngu um skógræktina á Höfða til að minnast Sherryar.

Fyrir um tuttugu árum hóf Sherry störf hjá Skógrækt ríkisins á Egilsstöðum við kortagerð. Samhliða störfum sínum þar hóf hún fjarnám í skógfræði við háskólann í Montana. Hún varð fyrst allra til að ljúka meistaragráðu í þeirri grein við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri árið 2008. Meistaraverkefnið fjallaði um nýtingu skóga til útivistar og lýðheilsu og var að mestu unnið í Hallormsstaðarskógi. Sherry Curl var frumkvöðull í þessum efnum. Hún var ráðin til Héraðs- og Austurlandsskóga sem skógræktarráðunautur að náminu loknu.

Undanfarin 10 ár hafði Sherry veitt bændum á Austurlandi ráðgjöf og aðstoð við skógrækt á jörðum sínum. Hún lagði mikla alúð við þau störf sem voru mjög krefjandi og umfangsmikil. Skógarjarðirnar eru um 170 og dreifðar um allt Austurland eða norður frá Langanesi og suður í Álftafjörð. Sherry var mjög annt um bændurna og skógana þeirra og notaði gjarnan orðalagið "bændurnir mínir". Hún lagði sig í líma við að ráðleggja bændum samkvæmt sinni bestu vitund og hvað væri skógunum fyrir bestu.

Minningarskjöldurinn. Skjöldurinn er úr leki úr Víðivallaskógi sem var fyrsti bændaskógurinn á Fljótsdalshéraði. Lerki var fyrir valinu þar sem að líftími þess er langur en ekki eilífur. Halldór Sigurðsson á Hjartarstöðum annaðist uppsettningu og útfærslu á skyldinum ásamt Pétri Erni Hjaltasyni og Kristjáni Krossdal.

Jóhann F. Þórhallsson, fyrrum samstarfsmaður hjá Héraðsskógum, flytur ávarp. (Mynd: Þröstur Eysteinsson)

Skógarbændur og félagar Sherryar til margra ára voru viðstaddir. (Mynd: ÞE)

Þröstur Eysteinsson, eftirlifandi eiginmaður Sherryar, segir gestum frá skóginum á Höfða. (Mynd: Jóhann F. Þórhallsson)

Sherry Curl naut þess mjög að starfa í skógum skógarbænda á Fljótsdalshéraði. (Mynd: HGS, 27.júní 2011)

bottom of page