Undanfarin ár og áratugi höfum við skógarbændur verið að rækta upp á jörðum okkar skóga með mismunandi hlutverk í huga. Öll væntum við þess að skógurinn gefi af sér afurðir og ef til vill einhvern auð, rétt eins og hann hefur hingað til oft fært okku bros á vör og stundum tár á hvarm. En hvað eru afurðir og auður, hvenær birtist hann og kemur hann sjálfkrafa til okkar? Tilvera trjáa er aldeilis búin að festa rætur og sanna sig hér á hjara veraldar. Við vitum að trén okkar vaxa og rannsóknir og reynsla af skógrækt í gegnum árin er að skila sér í meiri þekkingu, betra skipulagi og síðast en ekki sýst jákvæðri ímynd skóga.
Þegar við skógarbændur lögðum upp með skógrækt til að byrja með var timbur, landbætur og yndisskógrækt það sem vakti fyrir okkur. Það er göfugt og á alltaf við. Nú eru aftur á móti tímamót. Hnattræn hlýnun er farin að gera vart við sig. Þjóðir heims finna fyrir breyttu loftslagi. Ísland er þar á meðal og nýlega gáfu stjórnvöld út stefnu í loftslags- og umhverfismálum. Aukin skógrækt vó þungt í þeirri stefnu... en áherslur hafa breyst. Áður var helst lagt upp úr að gera skógarauðlind sem myndi Íslendinga sjálfbæra um timbur og aðrar nytjar. Nú, með nýrri stefnu, vega loftslagsmálin mest og er höfuðáherslan lögð á bindingu kolefnis. Hverju breytir þetta fyrir okkur skógarbændur?
Það má gera ráð fyrir hörku umræðum á Aðalfundi LSE eftir þrjár vikur. Skógrækt á Íslandi er á tímamótum og það varðar okkur öll. Mig langar að hvetja skógarbændur af öllu landinu að fjölmenna og sameinast á Hellu þann fimmta október næst komandi. Þetta er vettvangur til að hafa áhrif, bæta við sig þekkingu á ýmsum skógræktarmálum en auðvitað má ekki gleyma því sem sameinar okkur hvað helst, vettvangur samveru, glaums og gleði.
Ef félagsmenn vilji koma áleiðis tillögum fyrir fundinn mega þeir endilega gera það. Hefðbundin boðleið er í gegnum stjórn á viðkomandi landshluta eða til framkvæmdastjóra LSE. Því fyrr sem tillögur berast því betur verða þær ígrundaðar. Lagt er upp með að tillögur berist í síðasta lagi 24.september.
Skógarkveðjur
Hlynur Gauti Sigurðsson, framkvæmdastjóri LSE
hlynur@skogarbondi.is