top of page

Jólatrén í stofurnar


Snjórinn kemur sem og fer

sólin brátt í hlé.

Nú er kominn Nóvember

ná skal senn í tré.

Við skógarbændur sem allir landsmenn vilja stemma stigum við innflutningi á jólatrjám. Þau geta borið óæskilega kvilla með sér fyrir íslenska náttúru. Verum ekki að ögra náttúrunni á hlýnandi tímum. Auk þess er kolefnissporið minna og stuðlað er að vinnu fyrir íslenska skóg- og jólatrjáaræktendur.

Eftirspurn eftir íslenskum trjám, sérstaklega furutrjám, er mikil, svo mikil að hjá stærstu söluaðilunum seljast þessi tré, okkar tré, yfirleitt fyrst. Við þurfum að passa að við getum haft nægt framboð öllum stundum.

Furur

Furur eru ákaflega fallegar, halda barrinu vel og ilma dásamlega. Leggjum því upp með að velja fallegar furur.

Vitið þið hvað er falleg fura? Það veit kannski enginn, enda er erfitt að þrasa yfir skoðunum fólks fegurð. Almennt, þegar fura er valin sem jólatré, er gott að hafa nokkrar reglur á bakvið eyrað.

1) Hafa bil milli kransa sem þéttasta.

2) Helst sem grænast, dökkgrænt er meiriháttar, mikið af gulum nálum er slakt tré, gæti verið betra næstu jól.

3) Einstofna tré, ekki tvístofn!!!

4) Horfið í kringum ykkur, ef þið væruð að grisja, mynuð þið taka það?

5) Ekki hafa sveigju við rótarhálsinn, það er vont í fótinn í stofunni.

6) Formið má ekki vera eins og eldflaug, t.d. er ekki gott að hafa of langan árssprota. Andstæða við eldflaug er söluvænlegri.

7) Hæðin á trénu fer svolítið eftir smekk, en venjulega leitar fólk eftir tré sem er 1,5-2 metrar. Stærri og minni tré seljast samt líka.

8) Ef tré er ekki sagað niðri við rót, skal saga stofninn af niðri við rót. Verum ekki að hafa lifandi stubba í skógnum okkar.

Stundum þarf að ganga langa lengi um skóginn til að leita og þá er oft betra að ekki sé of mikill snjór í botninn. Þá er gott að fara þegar snjólétt er og velja tré og merkja með lituðum borða (ekki úr plasti samt, no no) svo auðveldara sé að ganga að þeim þegar komið er að fellingu.

Aðrar tegundir

Grenitegundir og þinur eru oftast formfastari en furan og því er valið að vissu leiti auðveldara hvað formið varðar. Litur, fjölstöfn, sveigður rótarendi og hæð skipta þó miklu máli.

Til upphitunar þá er hér er stutt myndaband.

bottom of page