top of page

Stjórnarfundir FSN- 2019


Stjórnarfundur PDF

Fundur 1

Stjórnarfundur Félags skógarbænda á Norðurlandi. Stjórnarfundur í Félagi skógarbænda á Norðurlandi haldinn í Gömlu gróðrarstöðinni á Akureyri 15. febrúar 2019 kl.14:00

Mætt voru: Sigurlína J. Jóhannesdóttir, Sigrún Hrönn Þorsteinsdóttir, Baldvin Haraldsson og Birgir Steingrímsson og Helga Bergsdóttir ritari Einnig sat Valgerður Jónsdóttir fundinn.

Dagskrá: 1. Undirbúningur fyrir aðalfund Félags skólagbænda á Norðurlandi. 2. Fara yfir stöðuna hvað varða aðalfund LSE 3. Önnur mál.

1. Ákveðið var að halda aðalfundinn á Blönduósi að þessu sinni, í Eyvindarstofu þann 21. mars n.k. Fyrir fundaraðstöðuna greiðum við um 10.000 kr auk þess er kostnaður við kaffi og meðlæti um 1.500 kr. á mann. Helga verður fundarritari og Lína tekur að sér að finna fundarstjóra, rætt um að hafa samband við Jón Gíslason á Hofi í Vatnsdal. Helga setur upp auglýsingu, sem birt verður í Sjónhorninu sem borið er í hús í Skagafirði og Húnavatnssýslum báðum auk þess sem við sendum tilkynningu um fundinn í tölvupósti til þeirra sem við höfum netföng hjá. Helga hefur setið tvö kjörtímabil sem ritari og gengur úr stjórn á aðalfundinum, rætt um að finna mann í staðinn. Framkvæmdastjóri LSE stefnir að því að mæta á fundinn. Leggjum fram tillögu um að hafa árgjaldið óbreytt.

2. Aðalfundur LSE verður haldinn í Kjarnalundi í Kjarnaskógi helgina 11.-13. október 2019. Rætt hefur verið um hvort mögulegt sé að hefja fundinn fyrir hádegi á föstudegi og bjóða þá upp á að fundarmenn geti keypt sér hádegisverð að öðrum kosti að hefja fund strax eftir hádegi. Rætt um skipulag varðandi fundinn, sem sett var niður á minnisblað.

3. Engin önnur mál.

Fundi slitið um kl. 16:00 Helga S Bergsdóttir, ritari

Stjórnarfundur PDF

Fundur 2​​

Stjórnarfundur Félags skógarbænda á Norðurlandi. Stjórnarfundur í Félagi skógarbænda á Norðurlandi haldinn í Gömlu gróðrarstöðinni á á Akureyri kl. 13:00, 20. ágúst 2019

Fundinn sátu Sigurlína J. Jóhannesdóttir, Sigrún Hrönn Þorsteinsdóttir, Baldvin Haraldsson, Birgir Steingrímsson og Laufey Leifsdóttir.

Dagskrá:

1. Skipulag fyrir fund Landssambands skógareigenda 11.-12. október.

2. Tillögur fyrir aðalfund Landssambands skógareigenda.

3. Önnur mál

1. Rætt var um skipulag aðalfundar Landssambands skógareigenda og hlutverk stjórnarliða í FSN. Dagskráin er áætluð eftirfarandi:

Fundurinn er haldinn í Hótel Kjarnalundi og hefst föstudaginn 11. október. Þann dag er fundur frá 13-20:30. Laugardaginn 12. október er málþing frá kl. 10 til 15. Eftir það er gert ráð fyrir gönguferð sem FSN skipuleggur. Þar er ætlunin að fara fyrst í Sólskóga og drekka kaffi, og fá kynningu á starfsemi Sólskóga. Stjórnarliðar skiptu með sér verkum í undirbúningi kaffiveitinga (kleinur, smákökur, flatbrauð og soðið brauð og ketilkaffi (Bergsveinn tekur það að sér)), auk þess sem gengið var frá því á staðnum að Katrín hjá Sólskógum gæti tekið á móti fundargestum. Eftir það verði gengið um Kjarnaskóg undir leiðsögn Ingólfs Jóhannssonar hjá Skógræktarfélagi Eyfirðinga, Ingólfur er sömuleiðis tilbúinn í verkið. Að því loknu verði farið aftur í Kjarnalund. Fordrykkur verður þar í boði Sólskóga (afgr. á fundi) og síðan hátíðarkvöldverður.

Tilboði frá Kjarnalundi í mat var tekið. Á föstudagskvöld verður plokkfiskur, í hádegi á laugardag mexíkósk kjúklingasúpa og hátíðarkvöldverður á laugardagskvöld. Þar verður í forrétt rjómalöguð villisveppasúpa með brauði og smjöri, í aðalrétt kolakryddað úrbeinað lambalæri með ofnsteiktu grænmeti, hvítlaukskrydduðum kartöflum og rauðvínssósu og frönsk súkkulaðikaka í eftirrétt.

Rætt um að ekki mætti gleyma að bjóða boðsgestum í hátíðarkvöldverð, eins og Katrínu og Gísla hjá Sólskógum, Ingólfi, veislustjóra og fundarritara.

FSN tekur að sér að útvega skemmtiatriði og var sönghópurinn Hymnodia beðinn um að syngja nokkur lög. Að auki þarf að útvega veislustjóra en það er í athugun.

FsN mun gefa öllum fundargestum gjöf, en það er pottaplanta af hrym.

Fundarstjóri verður Rögnvaldur og Anna Guðmundsdóttir til vara; aðstoðarfundarritari verður Helga Bergsdóttir.

2. Tillögur á LSE-fund

a) Rætt um að geyma umræðu um viðhaldsgreiðslur girðinga þar til á fundi að ári þegar komið verður lögfræðiálit frá lögfræðingi Bændasamtakanna. Hagsmunir landshlutasamtaka skógarbænda stangast þar á. Það var samþykkt.

b) Jólatrjáarækt.

Aðalfundur Landssambands skógareigenda, haldinn í Kjarnalundi við Akureyri 11. október 2019, samþykkir að beina því til stjórnar félagsins að hefja nú þegar vinnu samkvæmt tillögum starfshóps um jólatrjáaræktun, sem skilað var til stjórnar í byrjun árs 2018.

Greinargerð: Starfshópurinn leggur til að sett verði á fót 10 ára verkefni í jólatrjárækt með það að markmiði að fullnægja innlendri eftirspurn.

Mikil umræða er um þessar mundir um kolefnisfótspor innfluttra vara og núverandi ráðherra umhverfismála og ríkisstjórn hafa lagt mikla áherslu á minnkun á losun kolefnis og kolefnisbindingu. Gróflega hefur verið áætlað að árlegt kolefnisfótspor þeirra u.þ.b. 40 þúsund jólatrjáa sem flutt eru til landsins nemi um 162 tonnum af koltvísýringi. Til þess að mæta þessum útblæstri gætu Íslendingar sett sér það langtímamarkmið að hætta innflutningi jólatrjáa og rækta öll jólatré innanlands. Það væri á margvíslegan hátt jákvæð aðgerð, bæði fyrir umhverfið og þjóðarhag Íslendinga. Fyrst og fremst myndi nettó koltvísýringsútblástur vegna jólatrjáa hverfa enda væru ávallt miklu fleiri tré ræktuð en þau sem uppskorin eru sem jólatré. Tekjurnar af jólatrjáasölunni myndu efla fjárhag skógarbænda, skógræktarfélaga og annarra skógræktenda og auka möguleika þeirra á að eflast í skógrækt sinni. Neytendur fengju tré sem væru laus við varnarefni hvers konar og hefðu verið ræktuð með sáralitlum tilbúnum áburði auk þess sem hættan á innflutningi óæskilegra smádýra og hættulegra plöntusjúkdóma með jólatrjám væri úr sögunni.

Minnisblað frá starfshópi verði lagt fram með tillögu.

3. Önnur mál

Félagatal sent til Birgis til að undirbúa árgjaldsinnheimtu.Formaður minntur á ræðu fyrir setningu.

Fundi slitið kl. 15:00.

Laufey Leifsdóttir, ritari

bottom of page