top of page

Skógarströnd stendur aftur undir nafni

– Skógrækt er lóð á vogarskálarnar gegn geigvænlegri náttúruvá okkar tíma

Rísandi nýskógar á Vörðufelli.

Á norðanverðu Snæfellsnesi, milli Stykkishólms og Búðardals, heitir Skógarströnd allt frá Álftafirði inn að Gljúfurá. Nafn svæðisins vekur fyrirheit um ákveðið yfirbragð en reyndin er oftar nær eyðimörk en skógi. Gróðurfar er víðast rýrt og allvíða sjást merki um bæði gróður- og jarðvegseyðingu, jafnvel allt niður að sjávarmáli.

Ferðamenn sem fletta upp merkingu örnefnisins verða því oft forviða og leita skóganna. Reyndar eru allnokkrir náttúrulegir birkiskógar eftir á þessu svæði en þegar ekið er eftir þjóðveginum virðast þeir vart meira en lágvaxið kjarr, sem að vísu leynir á sér við nánari skoðun.

​Nafngift Skógarstrandar er þó ekki úr lausu lofti gripin því til að mynda er að finna í annálum frá um 1750 frásagnir um myrkviðinn á Straumi. Nú er ekki ein hrísla eftir þar. Á því sést hve hratt og algerlega skógar geta horfið, séu þeir ofnýttir og ekki gefið færi á sjálfsendurnýjun.

Gula svæðið á yfirlitskortinu er svæðið sem skógargirðingin friðar, um 12.000 ha.

Búskaparhættir á þessu svæði einkenndust löngum af fjölbreyttri nýtingu á því sem land, sjór og eyjar gáfu og þó lífsbaráttan gæti verið hörð höfðu menn allajafna nóg að bíta og brenna. Jarðirnar á svæðinu henta hins vegar ekki vel til stórbúhátta nútímans og á síðustu ártugum hafa margar þeirra skipt yfir í óhefðbundinn búskap svo sem skógrækt eða þjónustu við ferðamenn. Þessi þróun varð til þess að upp úr síðustu aldamótum voru engar jarðir með sauðfjárbúskap á allstóru samfelldu svæði á Skógarströnd en skógrækt og landgræðsla í staðinn stunduð af mörgum landeigendum. Þetta svæði nær allt frá Narfeyri við Álftafjörð inn að Heydalsvegamótum.

Landeigendur á þessu svæði stofnuðu Landgræðslu- og skógræktarfélag Skógarstrandar sem hafði meðal annarra markmiða að vernda og auka útbreiðslu náttúrulegra birkiskóga svæðisins auk þess að undirbúa skógrækt á lögbýlum. Framfarir gróðurs urðu þó litlar sem skýrðist að hluta af því að enn var töluverð sauðfjárbeit á svæðinu.

Bæjarstæðið á straum er rýrt á að líta.

Þeir landeigendur sem höfðu samninga við Landshlutaverkefni Vesturlandsskóga þurftu að verja sína nýskóga gegn lausagöngu sauðfjár. Hver og einn sá því fram á að þurfa að leggjast í kostnaðarsamar girðingarframkvæmdir en þegar landeigendur báru saman bækur sínar varð ljóst að þar eð margar jarðanna áttu sameiginleg landamæri yrði hagkvæmara að sameinast um eina stóra girðingu en að sérhver landeigandi girti sína jörð.

Í kjölfarið tók við langt samræmingarferli, því framkvæmdin var í eðli sínu flókin. Einhverjir landeigendur vildu síður taka þátt, aðrir vildu taka þátt en gátu það ekki af ýmsum sökum og enn aðrir tóku ekki þátt í kostnaði en skuldbundu sig þó til að halda ekki sauðfé og hesta í lausagöngu. Þá var ekki síður flókið að ákveða legu girðingarinnar því þar spiluðu inn í landfræðilegir þættir, veðurfar og staðsetning jarða þar sem sauðfjárrækt var fyrir hendi. Eftir nokkrar samningaumleitanir var loks stofnað girðingarfélag landeigenda fimm jarða um framkvæmdina en þrír landeigendur gáfu samþykki sitt án þess að taka beinan þátt. Girðingin nær þannig utan um átta samliggjandi jarðir.

Stofnkostnaður var hár (girðingin sjálf var rúmlega 30 km löng og stofnkostnaður nálægt einni milljón kr/km) og þótt girðingin hafi í staðið sig vel þá er árlegur viðhaldskostnaður allnokkur eða rúmlega 1.000.000 kr á ári. Landið sem er innan girðingar er um það bil 12.000 ha.

Þrátt fyrir ítarlegar tilraunir tókst ekki að koma á samstarfi við Dalabyggð um að lýsa yfir lausagöngubanni innan girðingarinnar sem hefði heimilað Vegagerðinni, skv.vegalögum, að taka þátt í kostnaði við framkvæmdina. Vesturlandsskógar styrktu hins vegar framkvæmdina í samræmi við ákvæði samnings við skógarbændur. Vegagerðin kom einnig til móts við Girðingarfélagið með ristarhliðum þar sem girðingin þverar þjóðvegi enda friðar girðingin töluvert af vegum þar sem ákeyrslur á búfé höfðu verið algengar.

Stórgirðing af þessu tagi truflar lítt för ferðamanna enda var þess gætt að hafa hlið þar sem þekktar reiðleiðir liggja auk stiga á öðrum stöðum. Hefur samstarf við hestamenn gengið vel.

Greinarhöfundur stendur uppréttur í Breiðabólstaðaskógi.

Nú stefnir í að Skógarströndin standi aftur undir nafni. Allur gróður innan girðingarsvæðisins er í mikilli framför, fjölgun blómjurta er áberandi sem og sjálfsútbreiðsla birkis, víðis og einis. Bændaskógarnir dafna líka allvel. Þótt vaxtarhraðinn sé kannski meiri í hlýrri sveitum þá er vöxturinn jafn og góður og lítið um áföll. Skógarbændur á svæðinu gæta þess að plöntun sé í samræmi við landslag, fjölbreytt með ávölum útlínum og skyggi ekki á útsýnisstaði.

Skógarbúskapur er í raun einskonar akuryrkja þó sannarlega líði lengri tími frá sáningu að uppskeru en þegar korntegundir eru ræktaðar. Mikilvægi kolefnisbindingar, bæði í trjágróðri og öðrum plöntum, er ótvírætt sem og aukin líffræðileg fjölbreytni sem fylgir gjarnan meiri gróðri. Innan girðingarinnar hefur ennfremur verið endurheimt nokkuð votlendi með því að fylla í skurði. Allt eru þetta smágerð lóð á vogarskálarnar gegn geigvænlegri náttúruvá okkar tíma.

Fyrir hönd Girðingafélags um jarðir á Skógarströnd:

Sigurkarl Stefánsson, Setbergi

bottom of page