top of page

Tillögur fyrir aðalfund LSE 2019


Tillögur fyrir aðalfund LSE í Kjarnalundi 2019

Þegar þetta er skrifað eru þrjár vikur (21 dagur) í aðalfund LSE. Til þessa hafa níu tillögur borist til stjórnar LSE. Þær koma bæði frá aðildarfélögum LSE ogeinstaklingum. Enn er hægt að skila inn tillögum. Vænlegast er að hafa samband við stjórnarmeðlim í viðeigandi landshluta til að koma á framfæri tillögu. Sjá stjórnarliða HÉR.

Hér eru þær tillögur sem þegar hefur verið skilað.

1.Árgjöld

,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn á Hellu 5. og 6. október 2018, leggur til að árgjöld til LSE fyrir 2019 óbreytt eða kr. 5000 á hverja jörð og kr. 1500 á hvern skráðan félaga. Eindagi félagsgjalda sé 1. nóvember.

2.Jólatré

„Aðalfundur Landssambands skógareigenda, haldinn í Kjarnalundi við Akureyri 11. október 2019, samþykkir að beina því til stjórnar félagsins að hefja nú þegar vinnu samkvæmt tillögum starfshóps um jólatrjáaræktun, sem skilað var til stjórnar í byrjun árs 2018.“

Greinargerð: Starfshópurinn leggur til að sett verði á fót 10 ára verkefni í jólatrjárækt með það að markmiði að fullnægja innlendri eftirspurn.

Mikil umræða er um þessar mundir um kolefnisfótspor innfluttra vara og núverandi ráðherra umhverfismála og ríkisstjórn hafa lagt mikla áherslu á minnkun á losun kolefnis og kolefnisbindingu. Gróflega hefur verið áætlað að árlegt kolefnisfótspor þeirra u.þ.b. 40 þúsund jólatrjáa sem flutt eru til landsins nemi um 162 tonnum af koltvísýringi. Til þess að mæta þessum útblæstri gætu Íslendingar sett sér það langtímamarkmið að hætta innflutningi jólatrjáa og rækta öll jólatré innanlands. Það væri á margvíslegan hátt jákvæð aðgerð, bæði fyrir umhverfið og þjóðarhag Íslendinga. Fyrst og fremst myndi nettó koltvísýringsútblástur vegna jólatrjáa hverfa enda væru ávallt miklu fleiri tré ræktuð en þau sem uppskorin eru sem jólatré. Tekjurnar af jólatrjáasölunni myndu efla fjárhag skógarbænda, skógræktarfélaga og annarra skógræktenda og auka möguleika þeirra á að eflast í skógrækt sinni. Neytendur fengju tré sem væru laus við varnarefni hvers konar og hefðu verið ræktuð með sáralitlum tilbúnum áburði auk þess sem hættan á innflutningi óæskilegra smádýra og hættulegra plöntusjúkdóma með jólatrjám væri úr sögunni.

3.Afgreiðsla framkvæmdaleyfa

„Aðalfundur Landssamtaka Skógareigenda haldinn, í Kjarnalundi Akureyri 11. – 12. október 2019 leggur áherslu á að stjórn Lse fylgi eftir tillögu frá aðalfundi 2018 þar sem skorað var á sveitarfélög að samræma afgreiðslu framkvæmdaleyfa vegna skógræktar. Málinu verði fylgt eftir í samstarfi við Samband sveitarfélaga.“

4. Grisjun og slóðagerð

Aðalfundur Landssamtaka Skógareigenda haldinn, í Kjarnalundi Akureyri 11. – 12. október beinir því til Skógræktarinnar að skógarbændum verði tryggt fjármagn til grisjunar og slóðagerða.

5.Gæðaúttekt

Aðalfundur LSE haldinn á Akureyri 11.október 2019 samþykkir að stjórn LSE semji við Skógræktina um að gæðaúttekt verði gerð á afkomu plantna eftir plöntun hjá landeigendum með skógræktarsamninga. Úttektin taki yfir nokkur ár til að meta lifun og orsakir rýrnunar.

Greinargerð:

Talað er um að rýrnun eða plöntudauði sé mjög mismunandi eftir svæðum, landgerð og tilhögun plöntunar. Finna verður út orsökina og komast að niðurstöðu um aðgerðir. Er orsökin þéttleiki, eða ástand plantna frá gróðrarstöð? Er orsökin landgerð, veðurfar eða hvernig er staðið er að plöntuninni? Hefur geymsla og umhirða plantna fyrir plöntun áhrif? Ef veðurfar er orsökin er þá plöntuvalið rétt? Ef landgerðin er orsökin er þá plöntuvalið rétt? Getur verið að ágangur sauðfjár sé orsökin þar sem girðingar halda ekki? O.s.frv.

Nauðsynlegt er að fá svör við þessum spurningum og jafnvel fleiri spurningum sem upp koma.

6.Nýtingaráætlun í bændaskógrækt

Aðalfundur LSE haldinn á Akureyri 11. október 2019 samþykkir að stjórn LSE gangi eftir því við Skógræktina að gerðar verði nýtingaráætlanir fyrir skógræktarjarðir bænda.

Greinargerð:

Víða er komið að því að nýta tré úr bændaskógum og þá er ótvíræður kostur að hafa heildstæða nýtingaráætlun þar sem fram kemur hvenær komið er að nýtingu einstakra svæða í skógræktinni, verðgildi efnisins sem þar vex upp og fleira hagnýtt fyrir skógareigendur. Við gerð nýtingaráætlunar mætti t.d. hafa nýtingaráætlanir á borð við þær sem gerðar eru hjá norrskog í Svíþjóð.

7.Styrkjakerfi fyrir skógarviðburði

Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn á Akureyri 11. október 2019, leggur til að stjórn LSE kanni kosti og galla þess að koma á fót styrkjakerfi fyrir þá skógarbændur sem vilja halda skógarviðburði í skógum sínum. Ef um raunhæfan möguleika er að ræða er skorað á stjórn LSE að vinna að stofnsetningu slíks sjóðs.

Greinargerð:

Ímynd skógræktar er almennt talin góð. Viðburðir í skógum eru einnig vinsælir allan ársins hring. Margir skógarbændur um land allt hafa verið ötulir við að halda uppi heiðri skógarins með heimboðum í skóg sinn. Gjarnan er um lítinn viðburð að ræða, t.d. meðal annarra skógarbænda af svæðinu. Stundum eru viðburðirnir stærri og er þá fleirum boðið en einungis skógarbændum. Það eykur hróður skógræktar ef skógarandinn er efldur, bæði meðal bænda sem og almennings. Því er lagt til að skoðaður verður möguleiki á að koma fjárhagslega til móts við þá sem slíka viðburði vilja halda. Til dæmis með sjóði sem yrði á forsjá stjórnar LSE.

8.Taxtar skógarbænda

Aðalfundur LSE haldinn í Kjarnalundi 11.-12. október leggur þunga áherslu á að taxtar skógarbænda verði teknir til endurskoðunar og LSE og Skógræktin skipi sérstaka launanefnd í þeim tilgangi.

Greinargerð:

Eftir sameiningu Skógræktar ríkisins og landshlutabundnu verkefnanna er komin upp nokkuð önnur staða en áður var með sameiginlegum taxta fyrir alla bændur. Jafnframt hafa forsendur breyst eftir að farið var að planta færri plöntum á flatareiningu. Þá má líka benda á að landgerð s.s. gróðurfar, halli, jarðvegsrof o.fl. hefur áhrif á afköst. Almennur fundur í Félagi skógarbænda á Austurlandi 11.09.'19 telur því nauðsynlegt að endurreikna þann grunn sem taxtarnir byggja á. Þannig þarf að finna út sanngjarnan taxta sem tekur mið af eðli vinnunnar sem er árstíðabundin útivinna unnin skamman tíma á árinu, oft fjarri heimili og án aðstöðu til hvíldar og kaffitíma. Þá er um að ræða ákvæðisvinnu sem erfitt er að bera saman við tímavinnu sem unnin er á ársgrundvelli. Þar sem nánast eingöngu er um vinnulaun að ræða er eðlilegt að taxtar taki í farmhaldinu breytingum samkvæmt launavísitölu. Hvað varðar greiðslur fyrir jarðvinnslu er nú greitt einingaverð og það sama má gilda um slóðagerð ef búnir eru til flokkar misvandaðra slóða sem taka mið af aðstæðum á hverjum stað. Væntanlega detta út greiðslur fyrir plöntuflutninga með nýjum pakkningum og öðru dreifingarfyrirkomulagi.

9.Beingreiðslur til skógarbænda

,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn á Akureyri 11. október 2019, skorar á þau ráðuneyti sem snúa beint að loftslagsmálum að koma á fót greiðslukerfi sem umbunar landeigendum sem binda kolefni.“

Greinargerð: Loftslagsgæðum jarðar fer hrakandi. Skógar eru viðurkennd aðferð við að binda kolefni og auka súrefni. Hávær krafa almennings er um að þjóðir heims geri hvað þær geta til að stemma sigum svokallaðari hamfarahlýnun. Skógarbændur leggja land sitt undir skóg sem er öllum til heilla. Skógarbændur hafa forskot á annan landbúnað og atvinnugreinar í landinu. Því eldri og stærri sem skógurinn er, því meira gagn gerir hann í loftslagsmálum. Það á ekki síður við um rétt meðhöndlaðan skóg til timburframleiðslu. Hvetja þarf til skógræktar í landinu. Landsbyggðin nýtur góðs af skógi, sem og loftslagið.

bottom of page