top of page

Aðalfundur LSE 2019


Aðalfundargerð LSE 2018

PDF gögn

Ársreikningur 2018 Aðgangsorð: skogur

 

Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda 2019

Haldinn í Kjarnalundi við Akureyri

11. október 2019.

Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda

Dagskrá fundarins:

Föstudagur 11. október

Kl. 10:30 Býður fólk velkomið og gefur formanni orðið

Kl. 10:35 Setning fundar (formaður LSE)

Kl. 10:40 Kosning starfsmanna fundarins

Kl. 10:45 Skýrsla stjórnar

Kl. 11:05 Ársreikningar

Kl. 11:15 Umræða um skýrslu stjórnar

Kl. 12:00 Ávörp formanna aðildarfélaga LSE

Kl. 12:30 Hádegismatur

Kl. 13:00 Ávörp gesta

Kl. 14:00 Skógarauðlindasvið, pistill

Kl. 14:15 Mál lögð fyrir fundinn og vísað til nefnda

Kl. 15:00 Kaffihlé

Kl. 15:30 Nefndarstörf

Kl. 16:30 Afgreiðsla tillagna

Kl. 18:00 Kosningar

Kl. 19:00 Önnur mál

Kl. 19:30 Kvöldmatur

Kl. 20:00 Aukatími fyrir aðalfund

Kl. 22:00 Fundarlok

1

Býður fólk velkomið og gefur formanni orðið.

Formaður Félags skógarbænda á Norðurlandi, Sigurlína Jóhanna Jóhannesdóttir, bauð gesti velkomna. Bauð fólk velkomið á Norðurland og sagðist vonast til að fundurinn verði ánægjulegur. Sá siður hefur komist á að gestgjafar leysi fundargesti út með gjöfum og upplýsti Sigurlína að afhent yrðu tré í lok dags sem gjöf. Gaf hún síðan formanni LSE orðið.

2

Setning fundar og kosning starfsmanna fundarins.

Formaður LSE, Jóhann Gísli Jóhannsson, bauð gesti velkomna. Sagði frá því að fundurinn nú væri með nýju sniði, þ.e. að hann væri kláraður á einum degi en seinni daginn færi fram málþing um viðargæði og afurðir.

Starfsmenn fundarins voru skipaðir án athugasemda; Rögnvaldur Ólafsson fundarstjóri og Freyja Gunnarsdóttir fundarritari, henni til aðstoðar var skipuð Laufey Leifsdóttir.

Fundarstjóri tók við stjórn fundarins og fór yfir praktísk atriði og vatt sér síðan í dagskrá.

3

Skýrsla stjórnar.

Jóhann Gísli Jóhannsson formaður LSE bauð gesti og félagsmenn velkomna. Jóhann Gísli fór yfir starf samtakanna frá síðasta aðalfundi. Haldnir hafa verið sex stjórnarfundir frá síðasta aðalfundi og af þeim einn í fjarfundabúnaði.

Fór formaður yfir afgreiðslu á tillögum frá síðasta aðalfundi en afgreiðsla þeirra var á ýmsan veg. Sumum var beint til viðeigandi ráðuneyti og aðrar settar í vinnslu hjá nefndum á vegum LSE.

Fundað var með Sambandi íslenskra sveitarfélaga vegna tillögu um nýskógrækt og sveitarfélög. Málið er flókið en vilji fyrir hendi að greiða úr flækjustigum. Skógræktin kemur einnig að því að einfalda umsóknarferli vegna skógræktarsamninga og skipulags.

Leitað hefur verið undirtekta hjá Skógræktinni vegna tillögu um verkefnaflutning frá Skógræktinni til LSE, ekkert gert en verður áfram í umræðu og farvegi.

Ein tillagan fjallaði um að bændaskógrækt ætti að flytjast til landbúnaðarráðuneytis. Ekki talið tímabært þar sem peningarnir væru í umhverfisráðuneytinu og landbúnaðarráðuneyti væri hreinlega ekki í stakk búið til að sinna þessu verkefni eins og er.

Formaður telur að LSE eins og önnur búgreinafélög eigi að vera undir landbúnaðarráðuneyti.

Girðingatillaga kom fram á síðasta aðalfundi og enn er meiningarmunur á því hvernig viðhaldi og greiðslum skuli fyrirkomið og ekki allir sáttir um framkvæmdina. Eitt félag hefur beðið um lagalega skoðun á framkvæmdinni og er beðið þeirrar niðurstöðu.

Ekki hefur náðst að vinna að kostnaðarmati í skógrækt vegna anna hjá framkvæmdastjóra LSE sem er aðeins í 80% starfi. Þarf að vinna málið vel þegar tími gefst í það sem og vinnu að stefnu LSE þar sem hlutverk LSE og aðildarfélaga í framtíðinni er mótað.

Reglulega rætt um peninga í grisjun þegar fundað er með Skógræktinni en tregt er um peninga í slíkt frá stjórnvöldum þar sem aðaláherslan er á kolefnisbindingu.

Varaformaður og framkvæmdastjóri LSE sóttu formannafund Bændasamtaka Íslands (BÍ) og formaður LSE Ársfundu BÍ. Segir formaður ársfund ekki vera fund ákvarðana. Framkvæmdastjóri kynnti bændum asparskógrækt á formannafundi sem aðgerð í stað endurheimt votlendis.

Samráðsfundir hafa verið tveir á árinu þar sem fundur síðasta árs frestaðist vegna veðurs. Formenn aðildarfélaga sitja einnig þessa samráðsfundi. Taxtamál mikið rædd enda liggja þau þungt á félagsmönnum og taxtar þykja lágir. Skógræktin féllst ekki á að hækka taxta fyrir gróðursetningu eftir almennri launavísitölu. Áframhaldandi slagur er í því að ná fram hækkunum. Fyrir þessum aðalfundi liggur fyrir tillaga um að stofna launanefnd LSE og Skógræktarinnar. Nýjar girðingareglur voru samþykktar á samráðsfundi en svo kom í ljós eftir fund að samþykki fulltrúa LSE byggðist á misskilningi og er málinu ekki lokið.

Fundir/hagsmunagæsla. Fundað var með Sambandi íslenskra sveitarfélaga um framkvæmdaleyfi og kolefnisbókhald sveitarfélaga, með Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og rætt um kolefnismál við samtökin og möguleika á að sjávarútvegsfyrirtæki komu að fjármögnun í skógrækt. Voru viðmælendur jákvæðir ef stjórnvöld gæfu afslátt af kolefnisgjaldi á olíu en það stendur ekki til hjá umhverfisráðherra.

Framkvæmdastjóri fór á fundi til allra aðildarfélaga nema aðalfund félagsins á Vestfjörðum. Framkvæmdastjóri LSE sat fundi um skipulag Fagráðstefnu skógræktar og ýmsa fleiri fundi m.a. náðu formaður og framkvæmdastjóri fundi með umhverfisráðherra og tveimur aðstoðarmönnum hans á Fagráðstefnunni.

Styrkir. LSE fékk styrk frá Framleiðnisjóði sem er ætlaður til vöruhönnunar, staðlainnleiðingar og skýrsluskrifa. Þá fékkst styrkur frá umhverfisráðuneyti til viðarmagnsúttektar með dróna.

Viðburðir. LSE tók þátt landbúnaðarsýningu í Laugardalshöll í október 2018 og vakti básinn mikla lukku. Fyrirhuguð er landbúnaðarsýning 2021 og segir formaður að það þyrfti að fara að huga strax að þátttöku og undirbúningi. Björn Steinar Blumenstein fékk styrk frá LSE til vöruhönnunar á húsgagnalínu og tók þátt í Hönnunarmars. LSE styrkti búfjárnemendur um kr. 1000 hvern í þátttöku ferðar um Suðurland. Bók um tré var boðin skógarbændum á góðum kjörum og var dreift á vegum LSE. Skipulögð var ferð á vegum LSE til Danmerkur, ekki er um styrkta ferð að ræða. Þakkaði formaður þeim sem sáu um skipulagninguna sem þótti til fyrirmyndar en það voru þau Maríanna Jóhannsdóttir, Hraundís Guðmundsdóttir og Hlynur Sigurðsson sem stóðu að henni.

Umsagnir til Alþingis. LSE skilaði umsögnum um frumvarp um svæðisbundna flutningsjöfnun, ný skógræktarlög og Miðhálendisþjóðgarð.

Bókhald LSE. KPMG sá um bókhald fyrir LSE en er nú komið til BÍ og mun flytjast til Hótel Sögu eftir áramótin. Kostnaður við bókhaldið hjá KPMG var orðinn 10% af fjármagni sem er of dýrt fyrir lítil félagasamtök.

Við skógareigendur – blaðið. Útgáfa blaðsins fór undir Bændablaðið í því formi að vera sérliður í því blaði. Formaður hvetur ritnefndir til að vera virkar og hvetja fólk til skrifa.

Jólatré. Sagði formaður þau mál hálffrosin en enn sé verið að reyna. Ekki náðist að funda með ráðherra fyrir þennan aðalfund. Um er að ræða mál vegna tillögu frá síðasta aðalfundi.

Erlend mál. Framkvæmdastjóri LSE sat fund framkvæmdastjóra norrænna skógarbændafélaga (NFS) sem áheyrnarfulltrúi. Sagði formaður hann hafa komið af þeim fundi fullur af hugmyndum.

Skógarfang og Gæðafjalir. LSE er þátttakandi í tveimur verkefnum Skógarfangi með Skógræktinni og Gæðafjölum með BÍ. Í Skógarfangi er að koma að lokaskilum sem eru skrif skýrslu þar sem m.a. er verið að skrifa framtíðarstefna LSE þar inn.

Verkefnið, Gæðafjalir, er teymisvinna sem vinnur m.a. að staðlamálum íslensks timburs vottun fyrir íslenska skóga og miða vinnunni vel áfram.

Þá sagði formaður frá vinnu með BÍ varðandi kolefnismál en á fundi í ágúst var LSE beðið að skoða hvað þessir tveir aðilar gætu gert saman í þessum málum. Búið að búa til teiknimynd með hugmyndum/útskýringum sem verður sýnd þegar formaður hefur lokið máli sínu.

Fram undan er fundur með formönnum stærstu búgreinafélaganna og svo verður lögð fram sameiginleg tillaga/skýrsla á formannafundi 24. október nk.

Útgangspunktur að þjappa sér saman um vinnu við þetta mál sem og fleiri í stað þess að hvert félag/búgrein væri að eyða óhemju fjármunum hvert í sínu horni.

Bíómynd/teiknimynd sýnd um kolefnisbrúna sem er hugmynd LSE um kolefnisaðgerðir. Hlynur Sigurðsson og Gunnlaugur Guðjónsson unnu að hugmyndinni.

4

Ársreikningar.

Sigrún Hrönn Þorsteinsdóttir gerði grein fyrir endurskoðuðum reikningum samtakanna árið 2018.

Niðurstöður rekstrarreiknings;

Rekstrartekjur 19.946.553

Rekstrargjöld 19.140.425

Rekstrarhagnaður 840.009

Niðurstöður efnahagsreiknings;

Eignir 3.003.993

Eigið fé 2.519.950

Eigið fé og skuldir 3.003.993

Fundarstjóri vísaði reikningum samtakanna til fjárhagsnefndar til umfjöllunar.

Undirritaðir og endurskoðaðir reikningarnir fylgja fundargerð ásamt skýrslu stjórnar.

5

Umræða um skýrslu stjórnar og reikninga.

Björn Ármann Ólafsson hefur áhyggjur af að skógarbændur sé að verða gleymdur kynstofn innan ráðuneyta eftir að hlusta á skýrslu stjórnar. Landbúnaðurinn sé ofan í skúffu í sjávarútvegsráðuneytinu og erfitt við umhverfisráðuneytið að eiga. Þurfum við ekki að fara að gera eitthvað til að láta að hlusta á okkur? Umræðan sé orðin undarleg og á þá leið að skógrækt sé slæm og stuðli að hlýnun. Talað var um að setja meiri peninga í skógrækt á síðasta ári en þegar kom að fjárlagatillögum hjá Alþingi var skorið niður.

Farið sé að tala um íslenskar skógarplöntur sem hættulegar plöntur, stafafura sé ágeng og fari að taka yfir Ísland ásamt lúpínu. Viðraði einnig áhyggjur af girðingamálum en þar sé enn byggt á 800 ára gömlum reglum. Komin tími til að leysa málin. Segir að það sé ljóst að skógur leysi mál um kolefnisbindingu. Skýrsla stjórnar sé ágæt en sagði honum að skógarbændur væru ekki á góðum stað.

6

Ávörp formanna aðildarfélaga LSE.

Félag skógarbænda á Vesturlandi - Bergþóra Jónsdóttir

Stefna Félags skógarbænda á Vesturlandi (FSV) er að vera málsvari þeirra sem stunda skógrækt á svæðinu. Eftir þeirri stefnu hefur verið unnið í 22 ár og á þeim tíma hafa skógar vaxið upp.

Ekki hefur verið stefna að stofna afurðafélag en það er að koma að grisjun og þá koma afurðir. Hvað verður þá, afurðafélag verktaka, bænda eða hvað er spurningin. Félagið sjálft veit ekki áætlaða þörf grisjunar á svæðinu en það studdi mastersverkefni sem snéri að viðarmagnspá til 30 ára á Vesturlandi.

Nokkrir bændur hafa selt jólatré og fer vonandi fjölgandi. Skógarbændur eru vanir að bíða og bíða nú eftir 2020 en þá vona þeir að skógarplöntum fjölgi til skógarbænda.

Formaðurinn segir spennandi tíma framundan, meiri plöntun, meiri kolefnisbinding.

Önnur aðalstefna félagsins er að efla samheldni meðal skógarbænda og leggja áherslu á fræðslumál. Félagið hefur staðið að námskeiðahaldi, m.a. umhirðunámskeiði 2018, fengið fræðsluerindi á fundi og eru dugleg að heimsækja skógana hjá hvort öðru. Telja aðalfund LSE mikilvægan og styrkja félagsmenn til farar.

Aðalstefnan sé að hafa gaman saman.

Félag skógarbænda á Vestfjörðum – Naomi Bos

Naomi segir félag skógarbænda á Vestfjörðum vera lítið en fjölbreytt þar sem jarðir í skógrækt eru vítt og breytt um Vestfirði þannig að þegar skógarbændur koma saman til funda s.s. aðalfundar þá kynnast þeir skógrækt á nýjum stað þar sem flakkað er með fundina um firðina og alltaf er farið í skógargöngu.

Hún segir að sín persónulega skoðun á skógrækt sé að á síðustu áratugum hafi skógrækt á Íslandi breyst mikið. Skógrækt sé ekki lengur áhugamál heldur atvinnugrein og mikilvæg fjárfesting til framtíðar.

Nefndi hún einnig hið metnaðarfulla markmið stjórnvalda að Ísland yrði orðið kolefnishlutlaust 2040 og sagði það augljóst að í því markmiði væri skógrækt mikilvæg jafnvel ómissandi. Til að ná þessu markmiði þarf aukið fjármagn til skógræktar og það til allra þátta sem tilheyra skógrækt en of oft fá skógarbændur að heyra að það vanti peninga.

Mikilvægt sé að fræða fólk og nýta áhuga þess og sýna fram á hvað skógrækt er mikilvæg og geri gagn. Mikilvægast sé þó að fræða og kenna yngstu kynslóðunum um skógrækt og umhverfi og fá þau til að taka þátt.

Bendir skógarbændum á að taka börnin og barnabörnin með þegar verið er að gróðursetja eða ganga um skógin. Þau séu framtíðin og skógarbændur megi vera stoltir af vinnu sinni við skógrækt sem hluta af því að skapa komandi kynslóðum betri heim.

Félag skógarbænda á Norðurlandi – Sigurlína Jóhannesdóttir

Fór yfir það sem var að gerast í skógrækt og hjá Félagi skógarbænda á Norðurlandi en félagssvæðið er ansi víðfemt eða frá Bakkafirði í austri og að Hrútafirði í vestri. Félagið reyna að dreifa stjórnamönnum um svæðið en það takist ekki alltaf að ná fulltrúa úr öllum sýslum. Um tíma hafi t.d. vantað Húnvetning í stjórn.

Tilgangur félagsin ser að:

1. Sameina alla skógarbændur á Norðurlandi í eitt félag.

2. Að bæta aðstöðu til skógræktar sem atvinnugreinar.

3. Að beita sér fyrir aukinni skógrækt og verðmætasköpunar í greininni.

4. Að hafa samvinnu við fagaðila um leiðbeiningar á sviði skógræktar, standa fyrir fræðslufundum og leita eftir samvinnu við menntastofnanir um námskeiðahald og gerð fræðsluefnis.

5. Að leita markaða fyrir skógarafurðir.

Í félaginu eru 165 manns sem eru ræktendur á 118 jörðum.

Starf stjórnar frá síðasta fundi fór aðallega í að skipuleggja þennan fund, þ.e. aðalfund LSE. Félagið er með einn fulltrúa í Viðarnýtinganefnd sem á að kanna sölu á við til kísilmálmsmiðjunnar á Bakka. Sú nefnd hefur starfað í ein 2 ár en ýmsir byrjunarörðuleikar á Bakka hefur orðið til þess að nefndin hefur haldið að sér höndum í að hefja viðræður en það sé þarft verk að skoða grundvöllinn fyrir sölu á við þangað.

Félagið tekur þátt í skógardegi sem er haldinn um Jónsmessu og annað hvort ár er farið í heimsóknir til skógarbænda og býður þá félagið upp á veitingar.

Hafa átt gott samstarf við Norðurlandsskóga og nú Skógræktina og telja það mikilvægt.

Félagsmenn eru afar ósáttir með breytingar á greiðslum á viðhaldi girðinga þar sem ákvæði um fastar viðhaldsgreiðslur væri inni í samningum skógarbænda og væri félagið að láta að skoða réttarstöðu félagsmanna gagnvart þessari breytingu.

Sigurlína sagði að fjöldi samninga við bændur væru nú 184, stærð samningssvæða í hekturum talið vera 10.800 og búið að gróðursetja í 6.400. Sagði hún 27 jarðir hafa sótt um samning í ár og auk þess séu 10 jarðir á biðlista frá 2017 og 2018.

Félag skógarbænda á Austurlandi – Maríanna Jóhannsdóttir

Stefna að gæta hagsmuna skógarbænda, finnst nauðsynlegt að standa að viðburðum til að styrkja böndin. Á árinu var m.a. farið í heimsókn í Skógræktina þar sem kynnt var viðarvinnsla, hittingur á Eiðum borðað og notið fræðslu. Farið í heimsókn í skógrækt á Hjartarstöðum. Rabbfundur með skógarbónda úr eigin röðum sem kynnti sína skógrækt, hvað hefði gengið vel og af hverju mætti læra.

Á dagskrá að heimsækja Skógarafurðir á Víðivöllum í Fljótsdal.

Fljótsdalsáætlun 50 ára á næsta ári en hún er oft nefnd upphaf bændaskógræktar á Íslandi og verður þess minnst með skemmtilegum hætti. Félagið kemur að Skógardeginum mikla og Jólakettinum en báðir viðburðir eru afar vel sóttir.

Girðingamál hafa mikið verið rædd, FSA ánægt með niðurstöðuna sem er komin í girðingamálum.

Félagsstarfið hefur aðeins breyst eftir að landshlutaverkefnin sameinuðust Skógræktinni. Aðkoma skógarbænda að eigin málum minni.

Þarf að slípa stjórnkerfið betur eftir sameiningu landshlutabundnu verkefnanna og Skógræktar ríkisins. Gott samstarfs við starfsfólk Skógræktarinnar. Besta leiðin er samvinna og samráð á öllum stigum.

Hagsmunagæsla er stórt hlutverk félagsins. Félagið hélt fund með Skógræktinni þar sem bændur voru ekki að fá greitt fyrir vinnu sína á sl. ári. Sá vandi er úr sögunni.

Taxtamál hafa verið félagsmönnum hugleikin þar sem taxtar hafa ekki haldið í við vísitölu. Þá brenna nýtingarmál á Austanfólki eins og t.d. nýtingaráætlun gerð með svipuðu sniði og á hinum Norðurlöndunum.

Skoðun FSA að skógarbændur eigi frekar heima undir atvinnu-og nýsköpunarráðuneytinu en umhverfisráðuneytinu. Þannig telja þau bændaskógrækt festa sig betur í sessi sem alvöru atvinnugrein. Skilningur og samstaða bænda þvert á búgreinar mætti vera meiri.

Félag skógareigenda á Suðurlandi – María E. Ingvadóttir

Góður siður á að byrja á að tala um veðrið enda hagi skógarbændur gjörðum sínum nokkuð í takt við hvernig vindar blása og regnið streymir.

Vill skýrari reglur frá Skógræktinni um hver framlögin eru og hvenær þau eru greidd. Fyrir hvað sé greitt og hvaða reglum þurfi að fylgja til að fá framkvæmdir samþykktar og greiddar. Einnig að endurskoða ætti taxtana árlega og forsendurnar sem þeir byggja á.

Sagði samráðsfundi skógarbænda og Skógræktarinnar, sem eru haldnir tvisvar á ári, góða en það sé hins vegar spurning hvort þörf væri á að skipa kannski minni vinnuhóp til að fara yfir verklagsreglur og koma með tillögur um það sem betur mætti fara í ljósi reynslunnar.

Fór yfir að endurgreiðsla VSK kæmi ekki fyrr en hálfu ári eftir að til kostnaðar væri stofnað miðað við uppgjör við bændur nú. Benti María á að ef að stofnun vinnuhópsins yrði væri það einnig verðugt verkefni að skoða að uppgjörstímabil virðisaukaskatts skógarbænda yrðu fleiri.

Sagði María ræðutímann ekki leyfa það að fara út í kolefnisbúskap skóga og skógarbænda en nú sé ekki lengur verið að græða snautt eða uppblásið land heldur sé verið að rækta upp nytjaskóga og skógræktin sé að verða atvinnugrein.

Félagið hefur unnið mikið að brunavörnum m.a. staðið að útgáfu bæklings en þann bækling má finna á rafrænu formi á www.grodureldar.is. Komið er að því að huga að tryggingum á skógi og skógræktarsvæðum. Leggur til að stjórn LSE fari í að skoða þessi mál og hvernig best væri að haga þessum málum hér á landi. Félagið á Suðurlandi hafi kannað þessi tryggingamál aðeins hjá tryggingafélögum en það væri ekki augljóst mál hvernig staðið yrði af því. Benti á tryggingafélag í Noregi – Skogbrand til að sjá hvernig tryggingamálum er háttað þar.

Sagði kraftmeiri skógar hafa gengið vel í þeim hóp sem hún var í, hópurinn væri enn að hittast. Félagið á Suðurlandi hefði áhuga á að setja í gang svipað leshópa og þá helst í samvinnu við skógræktarfélag á hverjum stað. Með kraftmeiri skógum væri búið að sá til fræjum sem kannski spíruðu. Skógarbændur hefðu gaman af því að hittast, ræða málin, læra og miða þekkingu.

Skilaði kveðju frá öðrum stjórnarmönnum sem væru á faraldsfæti erlendis en kæmu vonandi til baka með fulla vasa af sótthreinsuðum fræjum.

7

Ávörp gesta.

Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri ávarpaði samkomuna. Sagðist fyrir ári síðan hafa sagt að bjartir tímar væru framundan í íslenskri skógrækt framunda en þá var ríkisstjórnin nýbúin að kynna metnaðarfulla áætlun í loftslagsmálum. Á því ári sem er liðið hefur eitt og annað gerst og framtíðarbirtan dofnað lítið eitt. Mikil gerjun sé í gangi sérstaklega á vettvangi valkvæðrar kolefnisbindingar.

Ýmsar spurningar hafa vaknað, reynt að svara með athugun og aðgerðum.

Er til nóg land fyrir skógrækt? Já, land er ekki takmarkandi þáttur. Um 18.000 hektarar sem ekki er búið að gróðursetja í eru samningsbundnir í skógrækt á lögbýlum. Ef gróðursett væri í 12.000 hektara af þessu þá væru það um 30 milljónir plantna. Fyrir utan þetta eru svo verkefni eins og Hekluskógar, Þorláksskógar, Hólasandur og fleiri.

Er nægur mannafli til að gróðursetja? Já, en sums staðar fer ekki saman svæði og mannafli.

Með aukinni gróðursetningu er þörf á verktökum og vænlegast væri að innlendir aðilar gerðust verktakar í gróðursetningu en erlendir verktakar hafi einnig sýnt áhuga.

Er nægileg aðstaða í gróðrarstöðvum til að framleiða allar plönturnar? – já, hingað til en ekki þegar framleiðslan fer mikið yfir 5 milljónir plantna. Sólskógar eru að stækka og einkaaðilar að auka við sig. Skógræktarstjóri segist hafa minni áhyggjur af þessum þætti en fyrir ári síðan en það sé þó mikilvægt að áætlanir um fjármögnun standist nokkurn veginn.

Er til nóg af fræ og græðlingaefni? Já, en ekki af öllum tegundum við þurfum að vinna markvisst að því að bæta okkur. Rússalerkifræ eru af skornum skammti og ekki hægt að auka við þá framleiðslu en lerkiblendingurinn Hrymur kemur í staðinn og verið er að auka fræframleiðslu á honum. Verið er að vinna að því að auka græðlingaframleiðslu á Alaskaösp. Einnig hefur verið lögð áhersla á að afla stafafurufræs á hverju hausti en enginn varaforði sé til. Tilraunir með kynbætta stafafuru, í Svíþjóð, lofa góðu. Til eru fræbirgðir af sitkagreni til margra ára og þar er einnig hægt að auka framleiðsluna. Þar þarf þó að gera betur í landvali, velja brekkur en ekki flatlendi. Einnig eru til góðar birgðir af birkifræi.

Hvað með framtíðina? Skaðvaldar breiðast út um landið í skógunum en þar eru afleiðingar hlýnunar er að koma í ljós og eiga eftir að koma meira í ljós.

Full þörf á að efla rannsóknir á því hvar eigi að planta miðað við þessa þróun m.a. jafnvel að setja hæðarmörk á sumar tegundir og fara að nota suðlægari kvæmi eftir því sem hlýnar.

Hlutverk Skógræktar og ekki síst skógræktarstjóra er að taka þátt í samfélagsumræðunni og halda þar fram sjónarmiðum sem stuðla að aukinni útbreiðslu skóga. Stundum kemur það þannig fram að hagsmunir rekist á en það verður bara svo að vera.

Heimsbyggðin er að átta sig á alvarleika loftslagsröskunar og stjórnvöld sums staðar farin að bregðast við. Byrjað er á valkvæðum aðgerðum eins og að planta trjám. Þessar aðgerðir verða hertar, t.d. með sköttum og síðan munu koma boð og bönn. Steinsteypa losar mikið kolefni og spáir skógræktarstjóri því að þegar líða tekur á öldina verði settar hömlur á notkun steypu og þá getur timburauðlind komið sér vel.Stórauka þurfi strax skógrækt til timburframleiðslu með sitkagreni, alaskaösp, stafafuru og lerki.

Þurfum a.m.k. að tífalda flatarmál gjöfulla ræktaðra skóga, áður en verður hægt að tala um sjálfbæra timburframleiðslu. Timburframleiðsla fer mjög vel saman við bindingu kolefnis og framundan séu auknir möguleikar á að fá skógrækt fjármagnaða á þeim forsendum. Það þurfi skógrækt að nýta sér.

Einar Ófeigur Björnsson varaformaður Bændasamtaka Íslands (BÍ) ávarpaði samkomuna og byrjaði á því að kynna sig sem sauðfjárbónda sem og skógarbónda. Skilaði kveðju frá stjórn og starfsmönnum BÍ til fundarins og fór svo aðeins yfir starfsemi BÍ.

Mikið í gangi hjá BÍ sem byggir helst á því að samtökin hafa misst tekjur vegna þess að búnaðargjald hefur verið fellt niður þ.e. það er valfrjálst hvort bændur greiða búnaðargjald og séu þar með félagar í samtökunum. Vegna þessa hafa samtökin neyðst til að draga úr starfsemi og fara í hagræðingaaðgerðir sem eru að koma til framkvæmda þessa mánuðina.

BÍ kemur fram fyrir hönd bænda gagnvarst stjórnvöldum og gerir samninga fyrir bændur. Samtökin vinni að hagsmunum allra bænda og séu málsvari stéttarinnar. Félagsmenn njóta ráðgjafar um réttindi og um málefni sem snerta bændur.

Slagkraftur fjöldans skiptir öllu máli og hvetur Einar Ófeigur bændur til að vera aðila að BÍ.

Stærstu verkefni þess árs hafa verið endurskoðun Búvörusamninga. Eftir er að ganga frá rammasamningi sem snertir alla bændur í landinu en þar er m.a. fjallað um skógarafurðir og samið um árlegt framlag til skógarbænda til að stuðla að vöruþróun úr skógarafurðum.

Svokallað hrákjötsmál tók mikinn tíma en það endaði með því að nú verður heimilt að flytja inn ófrosið kjöt.

Loftslagsmál mikið í umræðunni og bændur þurfa að taka meiri þátt í þeirri umræðu. Bændur séu undir stöðugum árásum vegna loftslagsmála og ein leið til að verjast árásum er að vera með skógrækt með hefðbundnum búskap. Hefðbundinn búskapur og skógrækt geti fallið mjög vel saman þar sem landrými er nægjanlegt og nefnir að erfitt sé að finna betri beitiland fyrir sauðfé en skógarbotn þar sem skógur er komin í þá hæð að kindur nái ekki í trjátoppa.

Sagði Einar Ófeigur að eflaust losaði landbúnaður mikið af CO2 en ýmislegt væri ekki fullrannsakað í þeim efnum og nefndi m.a. að komið hefði í ljós að stærð framræsts votlendis á Íslandi væri verulega ofmetin. Fleira veldur losun, t.d. flugferðir. Bændur eru alltaf til í umræðu um það sem betur mætti fara hjá þeim sjálfum sem og öðrum.

Eðlilegt að bændur, skógarbændur og allir aðrir bændur, taki þátt og bjóði fram sitt land, og fái eðlilegt endurgjald fyrir.

Einar Ófeigur sagðist trúa því að skógrækt á Íslandi eigi bjarta framtíð sem verið landi og þjóð til heilla.

Óskaði fundinum velfarnaðar í störfum sínum.

8

Skógarauðlindasvið, pistill

Sigríður Júlía Brynleifsdóttir sviðsstjóri á skógarauðlindasviði Skógræktarinnar fór yfir verkefnin í skógarþjónustunni 2019 en það er sú þjónusta sem snýr að skógarbændum.

Þar starfa ráðgjafarnir sem eru andlit stofnunarinnar gagnvart bændum og eru þeir 15 talsins og staðsettir vítt og breytt um landið.

Dreifing plantna hefur verið inni í plöntuverði en síðast var hafður annar hátt á þar sem sérstaklega var samið við dreifingaraðila. Sagði Sigríður flutninginn hafa gengið vel bæði vor og haust og þar mætti þakka frábæru samstarfi framleiðenda og flutningsaðila.

Gróðursetningar fóru snemma af stað, líka vegna þess að flutningar gengu vel og það voraði vel. Allt í allt voru gróðursettar um 2 milljónir plantna sem er aukning frá síðasta ári.

Aðrar framkvæmdir eins og umhirðu og vegslóðar hafa ekki verið miklar en þó eitthvað, nokkur verk í gangi í umhirðu og 10-15 km lagðir af slóðum.

Það gekk vel að fá inn rauntímaskráningar og framkvæmdaskýrslur frá bændum. Mjög gott því í framhaldinu fara ráðgjafar í gæðaúttektir sem byggja á skráningunum, skoða hvernig gróðursetningar eru, þéttleika, áburðargjöf og fleira.

Gæðaúttektir hafa verið gerðar með samræmdum hætti síðan 2014/2015 og árlega er farið í um 700 mælifleti. Þéttleiki plantna er að meðaltali 2800 pl/ha (stefnt að 2500) og lifun við úttekt 97%.

Verið að vinna að árangursmati en það byrjaði hjá Norðurlandsskógum 2007. Teknir út punktar og farið í þá eftir 5 ár. Eftir sameiningu var haldið áfram með þetta um allt land. Fyrirkomulaginu var breytt 2018 vegna tímaskorts og sett af stað 5 ára árangursmatsverkefni þar sem er verið að einbeita sér að sitkagreni.

Mikil vinna farið í það að fara yfir girðingar/girðingaúttektir. Eru til í það að ræða aðferðirnar en það hefur verið ágreiningur um viðhaldsgreiðslur girðinga og fleira. Fullur vilji á að finna lausn. Ráðgjafar ætla að hittast á vinnufundi í janúar og fara að undirbúa leiðbeiningar og skýrari reglur og vinnulag við viðhaldsgreiðslur og annað. Alltaf meiri og meiri peningur sem fer í þetta. Betra sé að taka umræðuna en rífast bara við eldhúsborðið.

Uppgjör til skógarbænda hafa gengið mjög vel. Frá sameiningu hefur farið svolítill tími á að sníða af hnökra en nú gengur þetta mjög vel og byggir meðal annars á góðri rauntímaskráningu bænda.

Brjálað að gera í umsóknum en 98 jarðir eru í umsóknarferli. Tók Sigríður fram að þessar tölur væru 2ja daga gamlar og gætu þar með verið orðnar gamlar. Í kjölfarið kemur svo kortlagning og ræktunaráætlanir.

Vegna þessa mikla áhuga þarf að finna aðrar leiðir til að fjármagna skógaræktina til þess að geta sinna þessu öllu. Fyrirtæki komi inn í fjármögnunina en þá þarf vottun að vera til staðar.

Samráð og umræðufundir, Samráðsfundir LSE og formanna skógarbændafélaganna voru tveir á þessu ári og er fyrirhugaður fundur í nóvember/desember. Þessir fundir gefa mikið og ráðgjafar hafa verið duglegir við að mæta á aðalfundi félaganna.

Opnir fundir voru haldnir í öllum landshlutum þar sem skógræktarstjóri var aðallega að kynna aðgerðaráætlunina. Áformað er að halda álíka opna fundi á næsta ári.

Verkefni framundan hjá ráðgjöfunum er að klára síðustu útiverkin áður en snjórinn kemur, þá tekur við skráning framkvæmda og vinna ræktunaráætlanir. Ráðgjafarnir funduðu í gær þar sem verið var að skipta með sér verkum í að fara yfir fræðsluefni sem hefur verið gefið út. Þá þarf að taka tíma í að skipuleggja næsta ár og þegar tími gefst til reyna þau að skrifa greinar.

Ráðgjafarnir eru duglegir að halda fundi með tækninni – þið eruð frábær, jákvæð og gaman að vinna með ykkur voru skilaboð sem Sigga Júlla kom með frá fundi ráðgjafa sem var haldinn í gær. Minna kjaftæði, meiri skóg voru lokaorðin.

Fundarstjóri bauð upp á fyrirspurnir úr sal þar sem tímastjórnun hafði gengið vel.

Þorsteinn Pétursson spurning til Skógræktarinnar. Sagði ýmsar blikur á lofti varðandi loftlagsmál. Hvar sér Skógræktin sér fyrir sér að skógarbændur hafi tekjur í skógrækt. Ekki mega þeir fá kolefnisbindinguna og ekki með nægilega góðan byggingarvið og ekki fer viðurinn í pappír. Finnst vera pínu blekking í gangi.

Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri svaraði:. Varðandi tekjumöguleikar í skógrækt og skógrækt til kolefnisbindingar. Eitt af því sem Skógræktin hefur verið að vinna með er vottunarkefi og hvað það þýðir. Þar eru einhverjir möguleikar á að gera samninga við einkaaðila, ekki ríkið, um að rækta skóg til kolefnisbindingar og fá þar tekjur. Má ekki rugla saman við ríkisskógarækt, ekki sama svæði. Heldur að þessi möguleiki eigi eftir að koma sterkar inn. Hvort skógarbændur græði á þessu veit Þröstur ekki þar sem þarna kæmi ríkið ekki að, bændur væru á einkamarkaði og framboð og eftirspurn réði, hinn frjálsi markaður. Þar ákveður ríkisstofnun ekki hvað er hagstætt fyrir alla .

Segir að þá myndi kannski vera brugðið frá meðalbindingatölum.

Varðandi gæði timburs þá segir Þröstur það ekki rétt að íslenskt timbur hafi fallið á brotaprófi en meira verði fjallað um það á málþinginu en það sé einhver munur á tegundum. Þröstur segir bændur ekki vera með ónýt tré, gæðin eru mismunandi eftir tegundum, landssvæði, jarðgerð. Svona sé þetta alls staðar í heiminum. Gæði eru mismunandi en Skógræktin sé meðvituð um það að nota eins góðan efnivið og mögulegt er. Fínn danskur beykiskógur er ekki með eitt einasta beinvaxið tré. Auðlindin er eins og hún er og við erum meðvituð um að nota eins góðan efnivið og við getum. Kynbætt sænsk stafafura er góður kostur. Lerki er ekki allt beint.

Ekkert bendir til þess að 2500 pl/ha og 3000 pl/ha gefi mismunandi gæði á timbri.

Meðalþéttleiki er núna 2800 en við miðum við 2500, var áður miðað við 3000 en meðalþéttleikinn var meiri. Alltaf tilhneiging til að planta þéttar.

Styrkur krónunnar skiptir hellings máli varðandi sölu til aðila eins og Elkem og PCC, það þarf að þróa fleiri markaði, ekki bara timbur, sagviður og kurl.

Bendir á að á morgun muni margt koma fram varðandi afurðir og úrvinnslu, auðlindin séu ekki alveg tilbúin jafnvel. Óþarfi að vera með svartsýni á þessu stigi.

Lárus Heiðarson skógræktarráðgjafi greip aðeins inn í varðandi þéttleika í gróðursetningu það verður líka að taka með ef þéttleiki er aukinn þá eykst líka kostnaður þannig að þegar bætt er við 1000 pl/ha er ekkert víst að það skili betri árangri.

Lúðvíg Lúðvígsson spyr hvort eitthvað að frétta af svartelri og möguleikum á því að taka inn tré sem þrífst nokkurn veginn í blautum jarðvegi?

Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri svaraði að ekki sé búið að leggja út tilraunir með svartelri en búið væri að leggja inn pöntun á kvæmi frá Noregi til að prófa. Einnig væri áhugi á að prófa ryðelri sem á að duga í raklendi. Um spennandi lauftré væri að ræða.

Edda Björnsdóttir er með ábendingu til Skógræktarinnar um öflun fræs. Að skógarbændur fái ekki drasl, það þurfi að vanda vel til verka. Vill að það verði skoðað með fleiri lauftré. Greinilegt að þau vaxa ekki síður en barrtré. Beinir því til Skógræktarinnar að það verði skoðað betur

Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri svaraði

Eik, askur og hlynur (garðahlynur) geta vaxið hér en verða alltaf fyrir kali og eiginlega aldrei beinvaxin. Ekki víst að þeirra tími sé kominn í skógrækt, mögulega frekar reynitegundir.

9

Mál lögð fyrir fundinn og vísað til nefnda.

Nefndir sem starfa á fundinum eru:

Allsherjarnefnd – Formaður; Birgir Steingrímsson

Fjárhagsnefnd - Formaður; Naomi Bos

Fagnefnd – Formaður: Hrönn Guðmundsdóttir

Kjörbréfanefnd – Formaður: Guðmundur Sigurðsson

Tillögum vísað til viðeigandi nefnda

1. Árgjöld

,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn í Kjarnalundi við Akureyri 11. október 2019, leggur til að árgjöld til LSE fyrir 2020 verði óbreytt eða kr. 5000 á hverja jörð og kr. 1500 á hvern skráðan félaga. Eindagi félagsgjalda sé 1. nóvember.”

Fjárhagsnefnd

2. Laun stjórnar

„Aðalfundur Landssambands skógareigenda, haldinn í Kjarnalundi við Akureyri 11. Október 2019, leggur til að laun stjórnar verði XX krónur og að laun formanns verði tvöföld launalmenns stjórnarmanns. Síðan verði greiddir dagpeningar fyrir fundarsetu og nefndarstörf. “

Fjárhagsnefnd

3. Fjárhagsáætlun

Fjárhagsáætlun er á sér blaði með fundargerð

Fjárhagsnefnd

4. Jólatré

„Aðalfundur Landssambands skógareigenda, haldinn í Kjarnalundi við Akureyri 11. október 2019, samþykkir að beina því til stjórnar félagsins að hefja nú þegar vinnu samkvæmt tillögum starfshóps um jólatrjáaræktun, sem skilað var til stjórnar í byrjun árs 2018.“

Fagnefnd

Greinargerð:

Starfshópurinn leggur til að sett verði á fót 10 ára verkefni í jólatrjárækt með það að markmiði að fullnægja innlendri eftirspurn.

Mikil umræða er um þessar mundir um kolefnisfótspor innfluttra vara og núverandi ráðherra umhverfismála og ríkisstjórn hafa lagt mikla áherslu á minnkun á losun kolefnis og kolefnisbindingu. Gróflega hefur verið áætlað að árlegt kolefnisfótspor þeirra u.þ.b. 40 þúsund jólatrjáa sem flutt eru til landsins nemi um 162 tonnum af koltvísýringi. Til þess að mæta þessum útblæstri gætu Íslendingar sett sér það langtímamarkmið að hætta innflutningi jólatrjáa og rækta öll jólatré innanlands. Það væri á margvíslegan hátt jákvæð aðgerð, bæði fyrir umhverfið og þjóðarhag Íslendinga. Fyrst og fremst myndi nettó koltvísýringsútblástur vegna jólatrjáa hverfa enda væru ávallt miklu fleiri tré ræktuð en þau sem uppskorin eru sem jólatré. Tekjurnar af jólatrjáasölunni myndu efla fjárhag skógarbænda, skógræktarfélaga og annarra skógræktenda og auka möguleika þeirra á að eflast í skógrækt sinni. Neytendur fengju tré sem væru laus við varnarefni hvers konar og hefðu verið ræktuð með sáralitlum tilbúnum áburði auk þess sem hættan á innflutningi óæskilegra smádýra og hættulegra plöntusjúkdóma með jólatrjám væri úr sögunni.

5. Afgreiðsla framkvæmdaleyfa

„Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn í Kjarnalundi við Akureyri 11. október 2019, leggur áherslu á að stjórn LSE fylgi eftir tillögu frá aðalfundi 2018 þar sem skorað var á sveitarfélög að samræma afgreiðslu framkvæmdaleyfa vegna skógræktar. Málinu verði fylgt eftir í samstarfi við Samband sveitarfélaga.“

Allsherjarnefnd

6. Grisjun og slóðagerð

,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn í Kjarnalundi við Akureyri 11. október 2019, beinir því til Skógræktarinnar að skógarbændum verði tryggt fjármagn til grisjunar og slóðagerða.”

Fagnefnd

7. Gæðaúttekt

,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn í Kjarnalundi við Akureyri 11. október 2019, samþykkir að stjórn LSE semji við Skógræktina um að gæðaúttekt verði gerð á afkomu plantna eftir plöntun hjá landeigendum með skógræktarsamninga. Úttektin taki yfir nokkur ár til að meta lifun og orsakir rýrnunar.”

Fagnefnd

Greinargerð:

Talað er um að rýrnun eða plöntudauði sé mjög mismunandi eftir svæðum, landgerð og tilhögun plöntunar. Finna verður út orsökina og komast að niðurstöðu um aðgerðir. Er orsökin þéttleiki, eða ástand plantna frá gróðrarstöð? Er orsökin landgerð, veðurfar eða hvernig er staðið er að plöntuninni? Hefur geymsla og umhirða plantna fyrir plöntun áhrif? Ef veðurfar er orsökin er þá plöntuvalið rétt? Ef landgerðin er orsökin er þá plöntuvalið rétt? Getur verið að ágangur sauðfjár sé orsökin þar sem girðingar halda ekki? O.s.frv.

Nauðsynlegt er að fá svör við þessum spurningum og jafnvel fleiri spurningum sem upp koma.

8. Nýtingaráætlun í bændaskógrækt

,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn í Kjarnalundi við Akureyri 11. október 2019, samþykkir að stjórn LSE gangi eftir því við Skógræktina að gerðar verði nýtingaráætlanir fyrir skógræktarjarðir bænda.”

Fagnefnd

Greinargerð:

Víða er komið að því að nýta tré úr bændaskógum og þá er ótvíræður kostur að hafa heildstæða nýtingaráætlun þar sem fram kemur hvenær komið er að nýtingu einstakra svæða í skógræktinni, verðgildi efnisins sem þar vex upp og fleira hagnýtt fyrir skógareigendur. Við gerð nýtingaráætlunar mætti t.d. hafa nýtingaráætlanir á borð við þær sem gerðar eru hjá norrskog í Svíþjóð.

9. Styrkjakerfi fyrir skógarviðburði

,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn í Kjarnalundi við Akureyri 11. október 2019, leggur til að stjórn LSE kanni kosti og galla þess að koma á fót styrkjakerfi fyrir þá skógarbændur sem vilja halda skógarviðburði í skógum sínum. Ef um raunhæfan möguleika er að ræða er skorað á stjórn LSE að vinna að stofnsetningu slíks sjóðs.”

Allsherjarnefnd

Greinargerð:

Ímynd skógræktar er almennt talin góð. Viðburðir í skógum eru einnig vinsælir allan ársins hring. Margir skógarbændur um land allt hafa verið ötulir við að halda uppi heiðri skógarins með heimboðum í skóg sinn. Gjarnan er um lítinn viðburð að ræða, t.d. meðal annarra skógarbænda af svæðinu. Stundum eru viðburðirnir stærri og er þá fleirum boðið en einungis skógarbændum. Það eykur hróður skógræktar ef skógarandinn er efldur, bæði meðal bænda sem og almennings. Því er lagt til að skoðaður verður möguleiki á að koma fjárhagslega til móts við þá sem slíka viðburði vilja halda. Til dæmis með sjóði sem yrði á forsjá stjórnar LSE.

10. Taxtar skógarbænda

,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn í Kjarnalundi við Akureyri 11. október 2019, leggur þunga áherslu á að taxtar skógarbænda verði teknir til endurskoðunar og LSE og Skógræktin skipi sérstaka launanefnd í þeim tilgangi.”

Allsherjarnefnd

Greinargerð:

Eftir sameiningu Skógræktar ríkisins og landshlutabundnu verkefnanna er komin upp nokkuð önnur staða en áður var með sameiginlegum taxta fyrir alla bændur. Jafnframt hafa forsendur breyst eftir að farið var að planta færri plöntum á flatareiningu. Þá má líka benda á að landgerð s.s. gróðurfar, halli, jarðvegsrof o.fl. hefur áhrif á afköst. Almennur fundur í Félagi skógarbænda á Austurlandi 11.09.'19 telur því nauðsynlegt að endurreikna þann grunn sem taxtarnir byggja á. Þannig þarf að finna út sanngjarnan taxta sem tekur mið af eðli vinnunnar sem er árstíðabundin útivinna unnin skamman tíma á árinu, oft fjarri heimili og án aðstöðu til hvíldar og kaffitíma. Þá er um að ræða ákvæðisvinnu sem erfitt er að bera saman við tímavinnu sem unnin er á ársgrundvelli. Þar sem nánast eingöngu er um vinnulaun að ræða er eðlilegt að taxtar taki í farmhaldinu breytingum samkvæmt launavísitölu. Hvað varðar greiðslur fyrir jarðvinnslu er nú greitt einingaverð og það sama má gilda um slóðagerð ef búnir eru til flokkar misvandaðra slóða sem taka mið af aðstæðum á hverjum stað. Væntanlega detta út greiðslur fyrir plöntuflutninga með nýjum pakkningum og öðru dreifingarfyrirkomulagi.

11. Beingreiðslur til skógarbænda

,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn í Kjarnalundi við Akureyri 11. október 2019, skorar á þau ráðuneyti sem snúa beint að loftslagsmálum að koma á fót greiðslukerfi sem umbunar landeigendum sem binda kolefni.“

Allsherjarnefnd

Greinargerð: Loftslagsgæðum jarðar fer hrakandi. Skógar eru viðurkennd aðferð við að binda kolefni og auka súrefni. Hávær krafa almennings er um að þjóðir heims geri hvað þær geta til að stemma sigum svokallaðri hamfarahlýnun. Skógarbændur leggja land sitt undir skóg sem er öllum til heilla. Skógarbændur hafa forskot á annan landbúnað og atvinnugreinar í landinu. Því eldri og stærri sem skógurinn er, því meira gagn gerir hann í loftslagsmálum. Það á ekki síður við um rétt meðhöndlaðan skóg til timburframleiðslu. Hvetja þarf til skógræktar í landinu. Landsbyggðin nýtur góðs af skógi, sem og loftslagið.

10

Nefndarstörf

Nefndir unnu þær tillögur sem til þeirra var vísað.

11

Afgreiðsla tillagna.

Kjörbréfanefnd, Guðmundur Sigurðsson og Hraundís Guðmundsdóttir, fóru yfir þá sem teljast með gild kjörbréf. Guðmundur las upp kjörgenga fulltrúa og bað þau um að gefa merki.

Tillögur frá allsherjarnefnd:

5. Afgreiðsla framkvæmdaleyfa

„Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn í Kjarnalundi við Akureyri 11. október 2019, leggur áherslu á að stjórn LSE fylgi eftir tillögu frá aðalfundi 2018 þar sem skorað var á sveitarfélög að samræma afgreiðslu framkvæmdaleyfa vegna skógræktar. Málinu verði fylgt eftir í samstarfi við Samband sveitarfélaga.“

Samþykkt samhljóða

9. Styrkjakerfi fyrir skógarviðburði

,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn í Kjarnalundi við Akureyri 11. október 2019, leggur til að stjórn LSE kanni kosti og galla þess að koma á fót styrkjakerfi fyrir þá skógarbændur sem vilja halda skógarviðburði í skógum sínum. Ef um raunhæfan möguleika er að ræða er skorað á stjórn LSE að vinna að stofnsetningu slíks sjóðs.”

Greinargerð:

Ímynd skógræktar er almennt talin góð. Viðburðir í skógum eru einnig vinsælir allan ársins hring. Margir skógarbændur um land allt hafa verið ötulir við að halda uppi heiðri skógarins með heimboðum í skóg sinn. Gjarnan er um lítinn viðburð að ræða, t.d. meðal annarra skógarbænda af svæðinu. Stundum eru viðburðirnir stærri og er þá fleirum boðið en einungis skógarbændum. Það eykur hróður skógræktar ef skógarandinn er efldur, bæði meðal bænda sem og almennings. Því er lagt til að skoðaður verður möguleiki á að koma fjárhagslega til móts við þá sem slíka viðburði vilja halda. Til dæmis með sjóði sem yrði á forsjá stjórnar LSE.

Allsherjarnefnd leggur til að það verði frekar á höndum skógarbænda og þeirra heimafélaga að leita styrkja frá fyrirtækjum. Erfitt að sjá fyrir sér að LSE eigi til fjármagn, og alla jafna er auðvelt að afla styrkja í formi veitinga og þess háttar.

Fram kom tillaga um að vísa tillögunni frá.

Samþykkt samhljóða að vísa tillögunni frá.

Björn Bj. Jónsson sagðist hafa séð það fyrir að tillögunni yrði vísað frá. Sagðist vilja nota tækifærið og kynna að það er í farvatninu að setja af stað nám í viðburðastjórnun í skógum og einnig sé verið er að undirbúa Grænni skóga III – þar sem viðburðastjórnun er einnig kennd.

10. Taxtar skógarbænda

,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn í Kjarnalundi við Akureyri 11. október 2019, leggur þunga áherslu á að taxtar skógarbænda verði teknir til endurskoðunar og LSE og Skógræktin skipi sérstaka nefnd í þeim tilgangi sem skilar tillögum fyrir næsta aðalfund LSE.”

Greinargerð;

Nefndin hafi m.a. í huga að skoða hvort möguleiki væri að koma á fót greiðslukerfi sem umbunar landeigendum sem binda kolefni og ef til vill verði á laggirnar beingreiðslur á borð við þær sem tíðkast í öðrum búgreinum.

Nokkur umræða varð um tillöguna og að endingu var henni vísað aftur til nefndarinnar til endurskoðunar. Nefndin hafði sett tvær tillögur saman þ.e. tillögu 10 og tillögu 11.

Björn Ármann Ólafsson veltir fyrir sér að í tillögunni sé talað um beingreiðslur vegna kolefnis en tillagan nefni bara launataxta. Vill meina að ef menn vilja tengja beingreiðslur og kolefni að það þurfi að koma í texta tillögunnar eða láta tillögu 11 standa.

Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri vill taka fram að taxtar eru teknir til endurskoðaðir á hverju ári. Á síðasta ári var sérstök endurskoðun á gróðursetningatöxtum og flutningstöxtum.

Einar Ófeigur Björnsson tók til máls og sagðist hafa áhuga á því sem fjallað væri um í tillögunum tveimur, sérstaklega hlutanum um beingreiðslur. Atriði sem ætti að skoða væri að koma beingreiðslum inn í rammasamning Bændasamtaka Íslands (BÍ) við ríkið þ.e. beingreiðslur pr. hektara í skógarækt. Sagði hann að rammasamningur yrðir endurskoðaður fyrir áramót þannig að það þyrfti þá að hafa hraðar hendur.

Þorsteinn Pétursson segir rétt það sem hafi komið fram að taxtar séu endurskoðaðir á hverju ári. Segir hækkun á milli ára aldrei hafa náð vísitölu þannig að laun skógarbænda hafi verið lækkandi. Segir tillöguna vera komna fram í þeim tilgangi að laun skógarbænda yrðu í samræmi við launaþróun í landinu.

Maríanna Jóhannsdóttir vill að það sé tekið tillit til aðstæðna í gróðursetningu varðandi taxta og á þá við bratta og fleira.

Bjarki Jónsson segir tillöguna líka beinast að því að fara í nokkra endurskoðun á kerfinu. Fara víðtækt yfir málin.

Jóhann Gísli Jóhannsson veltir fyrir sér hvernig beingreiðslur og sala á kolefnisbindingu til einkaaðila fari sama. Kastar fram þeirri spurningu hvort skógarbændur séu tilbúnir að binda landið í beingreiðslum?

Eddu Björnsdóttur finnst þetta stórt mál og ekki nægilega úthugsað. Leggur til tillögunni verði vísað til stjórnar.

Helga Þorsteinssyni finnst þetta eiga að vera tvær tillögur. Leggur til að vísa tillögunni aftur til nefndar.

Samþykkt að vísa tillögunni aftur til nefndar.

10. Taxtar skógarbænda

,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn í Kjarnalundi við Akureyri 11. október 2019, leggur til að LSE og Skógræktin skipi sérstaka nefnd í þeim tilgangi að skoða greiðslufyrirkomulag til skógarbænda og skili tillögum fyrir næsta aðalfund LSE. ”

Greinargerð:

Eftir sameiningu Skógræktar ríkisins og landshlutabundnu verkefnanna er komin upp nokkuð önnur staða en áður var með sameiginlegum taxta fyrir alla bændur. Jafnframt hafa forsendur breyst eftir að farið var að planta færri plöntum á flatareiningu. Þá má líka benda á að landgerð s.s. gróðurfar, halli, jarðvegsrof o.fl. hefur áhrif á afköst. Almennur fundur í Félagi skógarbænda á Austurlandi 11.09.'19 telur því nauðsynlegt að endurreikna þann grunn sem taxtarnir byggja á. Þannig þarf að finna út sanngjarnan taxta sem tekur mið af eðli vinnunnar sem er árstíðabundin útivinna unnin skamman tíma á árinu, oft fjarri heimili og án aðstöðu til hvíldar og kaffitíma. Þá er um að ræða ákvæðisvinnu sem erfitt er að bera saman við tímavinnu sem unnin er á ársgrundvelli. Þar sem nánast eingöngu er um vinnulaun að ræða er eðlilegt að taxtar taki í farmhaldinu breytingum samkvæmt launavísitölu. Hvað varðar greiðslur fyrir jarðvinnslu er nú greitt einingaverð og það sama má gilda um slóðagerð ef búnir eru til flokkar misvandaðra slóða sem taka mið af aðstæðum á hverjum stað. Væntanlega detta út greiðslur fyrir plöntuflutninga með nýjum pakkningum og öðru dreifingarfyrirkomulagi.

Samþykkt samhljóða

11. Beingreiðslur til skógarbænda

,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn í Kjarnalundi við Akureyri 11. október 2019, skorar á þau ráðuneyti sem snúa beint að loftslagsmálum að koma á fót greiðslukerfi sem umbunar landeigendum sem binda kolefni.“

Greinargerð:

Loftslagsgæðum jarðar fer hrakandi. Skógar eru viðurkennd aðferð við að binda kolefni og auka súrefni. Hávær krafa almennings er um að þjóðir heims geri hvað þær geta til að stemma stigum við svokallaðri hamfarahlýnun. Skógarbændur leggja land sitt undir skóg sem er öllum til heilla. Skógarbændur hafa forskot á annan landbúnað og atvinnugreinar í landinu. Því eldri og stærri sem skógurinn er, því meira gagn gerir hann í loftslagsmálum. Það á ekki síður við um rétt meðhöndlaðan skóg til timburframleiðslu. Hvetja þarf til skógræktar í landinu. Landsbyggðin nýtur góðs af skógi, sem og loftslagið.

Samþykkt samhljóða

Tillögur frá Fagnefnd:

4. Jólatré

„Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn í Kjarnalundi við Akureyri 11. október 2019, samþykkir að beina því til stjórnar félagsins að hefja nú þegar vinnu samkvæmt tillögum starfshóps um jólatrjáaræktun, sem skilað var til stjórnar í byrjun árs 2018.“

Greinargerð:

Starfshópurinn leggur til að sett verði á fót 10 ára verkefni í jólatrjárækt með það að markmiði að fullnægja innlendri eftirspurn.

Mikil umræða er um þessar mundir um kolefnisfótspor innfluttra vara og núverandi ráðherra umhverfismála og ríkisstjórn hafa lagt mikla áherslu á minnkun á losun kolefnis og kolefnisbindingu. Gróflega hefur verið áætlað að árlegt kolefnisfótspor þeirra u.þ.b. 40 þúsund jólatrjáa sem flutt eru til landsins nemi um 162 tonnum af koltvísýringi. Til þess að mæta þessum útblæstri gætu Íslendingar sett sér það langtímamarkmið að hætta innflutningi jólatrjáa og rækta öll jólatré innanlands. Það væri á margvíslegan hátt jákvæð aðgerð, bæði fyrir umhverfið og þjóðarhag Íslendinga. Fyrst og fremst myndi nettó koltvísýringsútblástur vegna jólatrjáa hverfa enda væru ávallt miklu fleiri tré ræktuð en þau sem uppskorin eru sem jólatré. Tekjurnar af jólatrjáasölunni myndu efla fjárhag skógarbænda, skógræktarfélaga og annarra skógræktenda og auka möguleika þeirra á að eflast í skógrækt sinni. Neytendur fengju tré sem væru laus við varnarefni hvers konar og hefðu verið ræktuð með sáralitlum tilbúnum áburði auk þess sem hættan á innflutningi óæskilegra smádýra og hættulegra plöntusjúkdóma með jólatrjám væri úr sögunni.

Samþykkt samhljóða

6. Grisjun og slóðagerð

,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn í Kjarnalundi við Akureyri 11. október 2019, beinir því til Skógræktarinnar að skógarbændum verði tryggt fjármagn til grisjunar og slóðagerða.”

Samþykkt samhljóða

7. Gæðaúttekt og árangursmat.

,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn í Kjarnalundi við Akureyri 11. október 2019, samþykkir að stjórn LSE semji við Skógræktina um að gæðaúttekt og árangursmat verði gert á afkomu plantna eftir plöntun hjá landeigendum með skógræktarsamninga. Úttektin taki yfir nokkur ár til að meta lifun og orsakir rýrnunar.”

Greinargerð:

Talað er um að rýrnun eða plöntudauði sé mjög mismunandi eftir svæðum, landgerð og tilhögun plöntunar. Finna verður út orsökina og komast að niðurstöðu um aðgerðir. Er orsökin þéttleiki, eða ástand plantna frá gróðrarstöð? Er orsökin landgerð, veðurfar eða hvernig er staðið er að plöntuninni? Hefur geymsla og umhirða plantna fyrir plöntun áhrif? Ef veðurfar er orsökin er þá plöntuvalið rétt? Ef landgerðin er orsökin er þá plöntuvalið rétt? Getur verið að ágangur sauðfjár sé orsökin þar sem girðingar halda ekki? O.s.frv.

Nauðsynlegt er að fá svör við þessum spurningum og jafnvel fleiri spurningum sem upp koma.

Samþykkt samhljóða

8. Nýtingaráætlun í bændaskógrækt

,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn í Kjarnalundi við Akureyri 11. október 2019, samþykkir að stjórn LSE gangi eftir því við Skógræktina að gerðar verði nýtingaráætlanir fyrir skógræktarjarðir bænda, eftir því sem aldri og þroska skóganna vindur fram.”

Greinargerð:

Víða er komið að því að nýta tré úr bændaskógum og þá er ótvíræður kostur að hafa heildstæða nýtingaráætlun þar sem fram kemur hvenær komið er að nýtingu einstakra svæða í skógræktinni, verðgildi efnisins sem þar vex upp og fleira hagnýtt fyrir skógareigendur. Við gerð nýtingaráætlunar mætti t.d. hafa nýtingaráætlanir á borð við þær sem gerðar eru hjá Norrskog í Svíþjóð.

Samþykkt samhljóða

Tillögur frá Fjárhagsnefnd:

Endurskoðaðir og undirritaðir reikningar síðasta árs afgreiddir.

Samþykktir samhljóða

1. Árgjöld

,,Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn í Kjarnalundi við Akureyri 11. október 2019, leggur til að árgjöld til LSE fyrir 2020 verði óbreytt eða kr. 5000 á hverja jörð og kr. 1500 á hvern skráðan félaga. Eindagi félagsgjalda sé 1. nóvember.”

Samþykkt samhljóða

2. Laun stjórnar

„Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn í Kjarnalundi við Akureyri 11. október 2019, leggur til að laun stjórnar taki mið af launum framkvæmdastjóra LSE. Þannig verði árslaun formanns 50% af 100% mánaðarlaunum framkvæmdastjóra LSE og að laun almenns stjórnarmanns verði 35% af launum formanns og laun gjaldkera 40% af launum formanns. Miða skal við laun 1.janúar ár hvert. Síðan verði greiddir dagpeningar fyrir fundarsetu og nefndarstörf.“

Tillögu vísað til nefndar til að vinna betur – fundarstjóri segir stjórn LSE ekki geta samið um laun framkvæmdastjóra þegar sömu stjórnarmenn hafi hagsmuna að gæta varðandi þau laun.

2. Laun stjórnar

„Aðalfundur Landssamtaka skógareigenda, haldinn í Kjarnalundi við Akureyri 11. október 2019, leggur til að laun stjórnar taki mið af kjarasamningum FÍN og BHM; launaflokki FÍN25. Þannig verði árslaun formanns 50% af 100% mánaðarlaunum sem 1. október 2019 nema 684.056 og að laun almenns stjórnarmanns verði 35% af launum formanns og laun gjaldkera 40% af launum formanns. Árslaun formanns verða þá 342.028, laun gjaldkera 136.811 og laun almenns stjórnarmanns 119.710. Miða skal við laun 1. janúar ár hvert. Síðan verði greiddir dagpeningar fyrir fundarsetu og nefndarstörf. “

Brynjar spyr hvort þetta sé breyting frá því sem er í dag.

Þetta hækkar laun formanns en lítil breyting hjá öðrum stjórnamönnum segir Naomi.

Samþykkt samhljóða

3. Fjárhagsáætlun

Lögð fram óbreytt og er á sérblaði með aðalfundargerð.

Samþykkt samhljóða

Bergþóra Jónsdóttir spyr um breytingu í stjórnarlaunum.

Jóhann Gísli Jóhannsson útskýrði að það hefðu verið sameinaðir liðir þannig að áætlun síðasta árs passar ekki við núverandi áætlun.

12

Kosningar.

Fundarstjóri fór yfir helstu reglur varðandi kosningar. Það verður kosið um formann og aðalmenn skriflega en ekki um varamenn nema fleiri framboð komi.

Formannskjör:

Fundarstjóri lýsti eftir framboði til formanns en Jóhann Gísli Jóhannsson gefur kost á sér til áframhaldandi setu. Ekkert mótframboð kom og gengið var til skriflegrar kosningar.

Jóhann Gísli Jóhannsson var kosinn formaður með 41 atkvæði

Björn Jónsson hlaut 2 atkvæði

Auð og ógild atkvæði voru 4

Fjórir menn í stjórn:

Stjórnarmaður frá Vesturlandi, Hraundís Guðmundsdóttir gefur ekki kost á sér til áframhaldandi setu. Uppástunga kom fram um Guðmund Rúnar Vífilsson

Guðmundur Rúnar Vífilsson var kosinn aðalmaður frá Vesturlandi með 44 atkvæði

Bergþór Jónsdóttir hlaut 1 atkvæði

Auð og ógild atkvæði voru 5

Stjórnarmaður frá Vestfjörðum: Naomi Bos gefur kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu.

Naomi Bos var kosin aðalmaður fyrir Vestfirði með 50 atkvæðum

Autt atkvæði var 1

Stjórnarmaður frá Norðurlandi. Sigrún Hrönn Þorsteinsdóttir gefur kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu.

Sigrún Hrönn var kosin aðalmaður fyrir Norðurland með 49 atkvæðum.

Birgir Steingrímsson hlaut 1 atkvæði.

Stjórnarmaður frá Suðurlandi. Sigríður Hjartar gefur ekki kost sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Uppástunga kom fram um Björn Bj. Jónsson.

Björn Bj. Jónsson var kosinn aðalmaður fyrir Suðurland með 35 atvkæðum.

Agnes Geirdal hlaut 10 atkvæði

Hrönn Guðmundsdóttir hlaut 2 atkvæði

Auð og ógild atkvæði voru 5

Aðalmenn í stjórn LSE eftir kosningu eru: Guðmundur Rúnar Vífilsson, Sigrún Hrönn Þorsteinsdóttir, Naomi Bos og Björn Bj. Jónsson og formaður Jóhann Gísli Jóhannsson.

Fimm varamenn í stjórn

Í varastjórn voru Björn Ármann Ólafsson, Bergþóra Jónsdóttir, Sigurlína Jóhannesdóttir, Sighvatur Jón Þórarinsson og Októ Einarsson.

Bergþóra Jónsdóttir gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setur. Stungið var upp á Hraundísi Guðmundsdóttur fyrir Vesturland. Samþykkt samhljóða. Sighvatur Jón Þórarinsson gaf kost á sér áfram fyrir Vestfirði. Samþykkt samhljóða. Sigurlína Jóhannesdóttir gaf kost á sér áfram fyrir Norðurland. Samþykkt samhljóða. Björn Ármann Ólafsson gaf kost á sér áfram fyrir Austurland. Samþykkt samhljóða. Októ Einarsson gaf kost á sér áfram fyrir Suðurland. Samþykkt samhljóða.

Varamenn eftir kosningu eru: Björn Ármann Ólafsson, Hraundís Guðmundsdóttir, Sigurlína Jóhannesdóttir, Sighvatur Jón Þórarinsson og Októ Einarsson

Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga.

Núverandi skoðunarmenn Jóhanna H. Sigurðardóttir og Arnar Hjaltason gefa kost á sér áfram. Engin mótframboð. Lýst rétt kjörin.

Kosning tveggja varaskoðunarmanna reikninga.

Varaskoðunarmenn tilnefndir Guðmundur Sigurðsson og Sigurður Jónsson. Gefa kost á sér áfram. Engin mótframboð. Lýst rétt kjörnir.

13

Önnur mál.

Þorsteinn Pétursson talaði um að þegar verið er að vinna í skógi þar sem plantað hefur verið í þéttleikanum 5000, og svo grisjað niður í 1500 þurfi að uppkvista því ljótar greinar eru á þeim trjám sem eftir standa.

Bergþóra Jónsdóttir formaður Félags skógarbænda á Vesturlandi kom í pontu og sagði næsta aðalfund fara fram á Vesturlandi, bauð fólk velkomið til fundar dagana 2. og 3. október 2020 á Hótel Hamri í Borgarnesi.

Fundarstjóri þakkaði fyrir sig og gaf formanni orðið.

14

Fundarlok.

Formaður, Jóhann Gísli Jóhannsson, steig í pontu og þakkaði fyrir þann stuðning sem hann fékk í formannskjöri. Þakkaði Norðlendingum góðan viðurgjörning og skipulagningu á fundinum. Þakkaði þeim stjórnarmönnum sem eru að hætta (Sigríður Hjartar og Hraundís Guðmundsdóttir) og bauð nýja velkomna (Björn Bj. Jónsson og Guðmundur Rúnar Vífilsson).

Að svo sögðu sleit formaður fundi og óskaði fundarmönnum góðrar ferðar og góðrar heimkomu.

Fundaritarar

Freyja Gunnarsdóttir

Laufey Leifsdóttir

 

Myndir af fundi og auglýsingar í aðdraganda fundar

Málþing, frétt

bottom of page